Nú liggur fyrir að skipan dómara við nýjan Landsrétt mun rata fyrir dómstóla. Ástráður Haraldsson, einn þeirra sem dómnefnd vildi skipa sem dómara á hið nýja millidómstig, hefur stefnt íslenska ríkinu vegna skipunarinnar. Þegar hefur verið óskað eftir því að málið fái flýtimeðferð og í stefnunni er gerð krafa um miskabótakröfu upp á eina og hálfa milljón króna, að bótaskylda verði viðurkennd og að ákvörðun Alþingis um skipun dómara verði gerð ógild.
Tillaga Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra um skipan dómara við Landsrétt – sem gekk út á að fjórir umsækjendur sem dómnefnd hafði ekki talið hæfasta yrðu skipaðir í stað fjögurra sem dómnefndin taldi á meðal þeirra 15 hæfustu – er gríðarlega umdeild. Hún var samþykkt með atkvæðum stjórnarliða einvörðungu og kröfu stjórnarandstöðu um að fresta ákvörðuninni svo hægt yrði að vinna rökstuðning ráðherra betur var hafnað.
Niðurstaðan er sú að Landsréttur, gríðarlega mikilvægt nýtt dómstig, hefur starfsemi sína með laskaðan trúverðugleika vegna þess að dómsmálaráðherra gat ekki rökstutt umdeilt inngrip sitt almennilega. Trúverðugleiki Alþingis hefur líka laskast verulega, og var þó lítill fyrir. Þegar rökstuðningur fyrir jafn mikilvægri ákvörðun er ekki betri en þetta þá liggur fyrir að það er að minnsta kosti rökstuddur grunur um að það sé önnur ástæða fyrir breyttri röðun en sú sem ráðherrann gefur upp.
Afleiðing af fúski fortíðar
Árið 2010 var lögum um skipan dómara breytt þannig að fimm manna dómnefnd var sett á laggirnar og vægi ákvörðunar nefndarinnar aukið þannig að ráðherra yrði bundinn við niðurstöðu hennar. Þessar breytingar voru gerðar til að auka tiltrú á dómstóla og þrískiptingu valds á Íslandi m.a. í kjölfar þess að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins höfðu orðið uppvísir að því að skipa nána ættingja fyrrverandi formanns flokksins tvívegis í dómarastöður án þess að þeir teldust hæfastir á árunum fyrir hrun.
Ráðherrann getur hins vegar vikið frá niðurstöðunni og lagt nýja tillögu fyrir Alþingi til samþykktar, samkvæmt lögunum. Sigríður rökstuddi breytingarnar sem hún gerði á listanum fyrst og fremst með því að hún teldi að dómarareynsla ætti að vega þyngra. Þau rök ganga ekki upp ef þau eru mátuð við mat dómnefndarinnar á dómarareynslu. Breytt vægi hennar, miðað við mat dómnefndar, hefði alltaf skilað öðrum tilnefningum en þeim sem Sigríður lagði til að yrðu skipaðir. Sigríður lagði ekki fram nýtt mat til að rökstyðja breytingarnar sem hún lagði til.
Það varð meðal annars til þess að Jóhannes Karl Sveinsson hæstaréttarlögmaður sagði í umsögn sinni um skipun dómaranna að hann hefði verið í áfalli þegar hann las rökstuðning dómsmálaráðherra. Hann uppfylli engar lágmarkskröfur stjórnsýslu um rökstuðning og standist auk þess „enga efnislega skoðun“.
Aðrar skýringar
Undanfarna daga hafa stjórnarliðar, sérstaklega liðsmenn Viðreisnar, keppst við að útskýra aðkomu sína að málinu með alls konar öðrum hætti en ráðherra gerði í rökstuðningi sínum. Pawel Bartoszek sagðist telja að Alþingi ætti ekki að hafa það vald sem lögin hafi falið þeim í þessu máli. Þess vegna myndi hann samþykkja hvern þann lista sem lagður yrði fyrir framan hann. Jóna Sólveig Elínardóttir, varaformaður Viðreisnar, bar fyrir sig jafnréttissjónarmið í ræðu sinni á Alþingi og Jón Steindór Valdimarsson, fulltrúi Viðreisnar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, framkvæmdi eigin mat á tillögum dómsmálaráðherra og reiknaði sig þannig niður á að tillögur hennar rímuðu við upphaflegan rökstuðning ráðherrans um dómarareynslu. Hann staðfesti hins vegar í sjónvarpsþætti Kjarnans í vikunni að þeir útreikningar væru hans, og ekki byggðir á neinum gögnum sem Sigríður hefði lagt fyrir nefndina.
Málið var farið að minna á það þegar Donald Trump ákvað að reka James Comey úr starfi forstjóra FBI. Fyrir lá formlegur rökstuðningur um að það hefði verið gert á grundvelli minnisblaða dómsmálaráðherra Bandaríkjanna og næstráðanda hans og framgöngu Comey gagnvart Hillary Clinton. Þ.e. þangað til að Trump sjálfur mætti í sjónvarpsviðtal daginn eftir og sagði að ástæðan hafi verið rannsókn FBI á inngripum Rússa í forsetakosningarnar þar í landi í fyrra. Líkindin með málunum tveimur eru fólgin í því að almenningur veit ekki hverju hann á að trúa, skriflegum rökstuðningi eða orðum stjórnmálamanna.
Sögðust ekki samþykkja listann óbreyttan
Á þriðjudag urðu svo enn frekari vendingar. Þá sagði Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, frá því á opnum fundi flokksins að upprunalegur listi dómnefndar hafi ekki farið í gegn út af jafnréttissjónarmiðum. „Það vorum við sem rákum hana til baka vegna þess að við hefðum ekki hleypt fyrri listanum í gegn,“ sagði Hanna Katrín á fundinum. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar og fjármála- og efnahagsráðherra, staðfesti þetta við RÚV á miðvikudag. Þar sagðist hann hafa gert athugasemd við lista dómnefndar þar sem hann uppfyllti ekki jafnréttisskilyrði. „Við sögðum einfaldlega að listi sem að uppfyllti ekki jafnréttissjónarmið, að við gætum ekki samþykkt hann“, sagði Benedikt.
Sigríður Á. Andersen hefur raunar staðfest þetta líka. Hún sagði í grein í Morgunblaðinu um síðustu helgi að ljóst hafi verið að niðurstaða dómnefndar um skipan dómara við Landsrétt myndi ekki hljóta brautargengi á Alþingi. Rökstuðningur hennar hefði engu breytt þar um.
Það skal tekið fram að það er vitaskuld gott að jafnréttissjónarmið séu höfð að leiðarljósi í stjórnsýslu. En þau geta ekki ýtt lögum og reglum til hliðar, sama hversu réttlætanleg þau eru. Ef vilji er til að breyta lögum þá eru þingmenn í kjörstöðu til að leggja slíkt til. Þeir geta hins vegar ekki bara farið gegn lögunum vegna þess að þeim finnst þau vera asnaleg.
Það er algjörlega skýrt að lög um jafna stöðu karla og kvenna gera ráð fyrir því að forgangur til starfs á grundvelli kynferðis gildir einungis þegar einstaklingar eru metnir jafnhæfir. Dómnefnd komst að þeirri niðurstöðu að 15 af umsækjendunum 33 væru hæfari en hinir. Þá strax setti Viðreisn fram skilyrði um að kynjahlutföll yrðu jöfnuð, án þess að fyrir lægi einu sinni nýtt mat ráðherra um að fleiri umsækjendur væru hæfastir (hún komst að þeirri niðurstöðu síðar að 24 af 33 væru hæfir).
Þar með liggur fyrir að Viðreisn, einn stjórnarflokkanna, hafi sett það sem skilyrði að lista dómnefndar yrði breytt út frá jafnréttissjónarmiðum. Og þar með liggur fyrir að breytt röðun umsækjenda, sem varð til þess að fjórir þeirra sem dómnefnd taldi hæfasta voru teknir af honum og aðrir fjórir settir inn, var pólitísk ákvörðun, en ekki ákvörðun tekin innan marka þess ferlis sem lög heimila. Því er að minnsta kosti rökstuddur efi um að stjórnsýsluathöfnin við skipun dómaranna sé ólögmæt. Það mun svo ráðast fyrir dómstólum hvort svo sé.