Íslenskt þjóðfélag er lagskipt og það er gjá milli elítu og almennings. Sterk tengsl eru á milli elítu viðskipta- og atvinnulífsins annars vegar og félags- og hagsmunasamtaka, til dæmis stjórnmálaflokka, hins vegar. Auk þess tengjast valdamiklir aðilar í fjölmiðlum og stjórnsýslu elítuhópum úr mörgum atvinnugreinum. Flestir sem tilheyra þessari elítu búa í Garðabæ og Seltjarnarnesi. Þar búa 150 prósent fleiri einstaklingar í viðskipta- og atvinnulífselítunni en vænta hefði mátt út frá íbúafjölda. Og gamlir karlar sem búa í þessum sveitarfélögum, og eru virkir í t.d. stjórnmálastarfi, eru langlíklegastir til að vera hluti af elítunni.
Þetta er niðurstaða stórmerkilegrar nýbirtrar greinar Magnúsar Þórs Torfasonar, lektors í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, Þorgerðar Einarsdóttur, prófessors við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, Guðbjargar Lindu Rafnsdóttur, prófessors við félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands, og Margrétar Sigrúnar Sigurðardóttur, lektors við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, í tímaritinu Stjórnmál og Stjórnsýsla, sem fjallar um elítur á Íslandi og innbyrðis tengsl þeirra.
Afætur í næstu íbúð
Garðabær og á Seltjarnarnes eru sveitarfélög þar sem ríkt fólk býr. Og í báðum sveitarfélögum hefur Sjálfstæðisflokkurinn alltaf haft hreinan meirihluta í sveitarstjórn. Þau eru einu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu þar sem ekki er rukkað hámarksútsvar. Það geta þessi sveitarfélög gert vegna þess að þau taka ekki þátt í að veita sömu þjónustu og hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Besta dæmið um þetta eru fjöldi félagslegra íbúða. Í Reykjavík eru þær 1.901 eða 16 á hverja þúsund íbúa. Í Garðabæ eru þær 26 og á Seltjarnarnesi eru þær tíu. Í báðum þessum sveitarfélögum eru félagslegar íbúðir tvær á hverja þúsund íbúa. Til viðbótar fer átta sinnum meira af tekjum Reykjavíkurborgar í félagslega fjárhagsaðstoð en hjá Seltjarnarnesi. Reykjavík greiðir að meðaltali um 24 þúsund krónur í fjárhagsaðstoð á hvern íbúa, á meðan Seltjarnarnes greiðir að meðaltali þrjú þúsund krónur og Garðabær fjögur þúsund.
Í viðtali við Kjarnann í október 2013 sagði Jón Gnarr, sem þá var borgarstjóri í Reykjavík, að Seltjarnarnes væri fyrir Reykjavík „eins og þú eigir íbúð og ríki frændi þinn eigi íbúð við hliðiná þér þar sem er innangengt í þína. Hann hefur engar skyldur gagnvart þinni íbúð en getur gengið inn í hana á skítugum skónum og étið úr ísskápnum þegar hann vill vegna þess að hann keypti íbúðina með þessum réttindum. Að sama skapi keyptir þú íbúðina þína með þessum vankanti. Þetta setur þig og frænda þinn í sérkennilega stöðu. Það er ekkert útigangsfólk á Seltjarnarnesi. Þar er mjög lítill félagslegur vandi, lág glæpatíðni og mikil nálægð við náttúru. Þetta eru lífsgæði sem allir eiga að fá að njóta, ekki bara þeir sem hafa efni á að kaupa sér þau. Það er líka ekkert leikhús á Seltjarnarnesi. Það er engin Sinfóníuhljómsveit Seltjarnarness. Það er hins vegar til staðar í Reykjavík og er, ásamt alls konar annarri þjónustu, niðurgreitt af borginni. Það er því mjög ósanngjarnt að ríkt fólk nýti sér þjónustuna án þess að borga fyrir hana.“
Lítil elíta á þorra auðs
Hverjar eru afleiðingar þess að samfélag elítuvæðist? Að lagskipting eykst? Jú, hinar ráðandi stéttir sem stýra samfélagskerfinu og hafa sniðið það að sínum eigin hagsmunum, hagnast ævintýralega. Og misskipting gæða eykst.
Það er ekki tilfinning að misskipting sé að aukast hratt, það er töluleg staðreynd. Frá árslokum 2010 og fram til loka árs 2015 jukust hreinar eignir landsmanna um 1.384 milljarða króna. Þær tæplega tvöfölduðust. Ríkasta tíund landsmanna tók mestan hluta þessara eigna til sín, eða 527,4 milljarða króna. Á árinu 2015 einu saman óx auður þessa hóps um 185 milljarða króna. Alls fór 43 prósent af allri nýrri hreinni eign til hans á árinu 2015. Ríkasta tíundin á alls 64 prósent af allri hreinni eign þjóðarinnar.
Þessi auður er reyndar vanmetinn. Í þessum tölum eru eignir í verðbréfum færðar á nafnvirði, ekki markaðsvirði. Ríkasta tíund þjóðarinnar á 86 prósent allra verðbréfa í eigu einstaklinga. Inn í þetta vantar allar erlendar eignir sem þessi hópur á, og hefur ekki verið talin fram hérlendis, en þúsundir ríka Íslendinga stofnuðu aflandsreikninga á fyrirhrunsárunum. Á slíkum eru, að mati sérfræðinga, tugir milljarða króna. Eignir þessa litla hóps eru því miklu meiri en þær sem uppgefnar eru hér. Við vitum bara ekki hversu miklu meiri.
Þótt ekki séu til fullkomnar hagtölur um ríkidæmi ríkasta prósents landsmanna er hægt að draga þá ályktun að sá hópur, um tvö þúsund framteljendur, sé sá sem eigi langmest hérlendis. Í tölum frá ríkisskattstjóra er til að mynda hægt að sjá að 44 prósent af öllum fjármagnstekjum ársins 2015 lentu hjá þessum hópi. Næstum helmingur af öllum tekjum sem urðu til vegna ávöxtunar fjármagns runnu til eins prósents landsmanna.
Samandregið þá liggur fyrir svart á hvítu að það er staðreynd að lítill hópur eignafólks hagnast á samfélagsgerð okkar langt umfram það sem þorri þjóðarinnar gerir.
Fyrir hvern er þetta samfélag?
Íslendingar eru plataðir til að halda að þetta sé kerfi sem gagnist öllum. Að brauðmolar elítunnar sem hrynji af nægtaborði hennar séu nægjanlegir til að almenningur líti í hina áttina og samþykki að hafa samfélagið áfram eins og hentar þessari fámennu valdaklíku.
Það er ítrekað hamrað á að hér sé svo ægilega mikill tekjujöfnuður. Það er nú gert með því að vísa í nýja skýrslu OECD. En það er vegna þess að tekjur (svona utan þess þegar krónan tekur skammvinnt risastyrkingarstökk á nokkurra ára fresti) eru mest megnis frekar lágar í öllu samhengi. Og eiginlega er launamunur allt of lítill. Menntun er t.d. alls ekki nægjanlega metin til launa á Íslandi.
Þrátt fyrir að hér ríki ægileg efnahagsleg velsæld finnur venjulegt fólk ekkert mikið fyrir henni. Innviðir okkar eru að molna og fyrirhuguð fjárfesting í þeim er í órafjarlægð frá því að vera nægjanleg. Það vantar sex til sjö hundruð milljarða króna í innviðafjárfestingu hið minnsta næsta áratuginn til að laga þá stöðu. Fjárfesting í samgöngum er hættulega lítil, menntakerfið er gríðarlega fjársvelt og heilbrigðiskerfið er ekki í aðstöðu til að takast á við þær áskoranir sem fylgja sífellt eldri þjóð og milljónum ferðamanna. Allt þetta bitnar á lífsgæðum venjulegs fólks, sem eru þorri landsmanna.
Á sama tíma er neyðarástand á húsnæðismarkaði. Ungt fólk á mun minna af eignum en áður. Það hefur dregist aftur úr í ráðstöfunartekjum. Störfin sem verða til hérlendis eru fyrst og síðast láglaunastörf í ferðaþjónustu eða byggingaiðnaði, ekki þau hugvitsstörf sem þeir þúsundir sem útskrifast úr háskólum landsins á hverju ári sækjast eftir. Í stað þess að vera aðlaðandi fyrir tæknifyrirtæki flytjum við inn þúsundir smiða og rútubílstjóra. Sem vinna fyrir fjármagnseigendur í efsta lagi samfélagsins, svo þeir geti orðið enn ríkari.
Þetta er val
Þetta er kerfi sem mun bara halda áfram að auka á lagskiptingu milli elítu og almennings. Þrýstingurinn verður áfram sem áður á að fjársvelta stoðkerfi samfélagsins og selja þau svo til fjármagnseigenda. Þannig verður hægt að lækka skatta. Við það fjölgar kannski krónunum í vasa launamanna um nokkrar en lífsgæði þeirra rýrna verulega og nýju krónurnar eru langt frá því nægjanlega margar til að gera þeim kleift að kaupa þau gæði aftur á markaði.
Venjulegir Íslendingar þurfa bara að taka ákvörðun. Vera sjálfselskir. Og ákveða hvernig samfélag þeir telja að gagnist þeim best. Hvernig samfélag færir þeim mest gæði.
Viljum við gegnsætt, opið, framsækið, alþjóðlegt, lýðræðislegt og réttlátt samfélag þar sem áherslan er lögð á jöfn tækifæri og sterka innviði? Þar sem við – og sérstaklega ríka fólkið – greiðum meira í samneysluna fyrir afnot af gæðum samfélagsins? Eða viljum við samfélag sem gagnast fyrst og síðast gömlum körlum í Garðabæ á kostnað allra hinna?
Okkar er valið.