Elíta opinberra starfsmanna hefur að undanförnu fengið miklar hækkanir á launum, eftir ákvörðun kjararáðs þar um, og voru þær síðustu - upp á nokkur hundruð þúsund á mánuði í sumum tilvikum - kunngjörðar á dögunum. Í tilfelli sumra stjórnenda hjá ríkinu þá voru laun hækkuð mikið afturvirkt, og fá stjórnendurnir því eingreiðslu úr ríkissjóði upp á nokkrar milljónir króna.
Launahækkunin, í einni ákvörðun, nemur allt að 20 prósentum. Stundum meira.
Gagnrýni á þessar ákvarðanir hefur verið sýnileg og á fullan rétt á sér.
Það er ekki þannig að kjararáði hafi borið lagaleg skylda til þess að hækka launin eins og það hefur ákveðið að undanförnu.
Kjararáð hefur með ákvörðunum sínum að undanförnu sýnt einkennilegt háttalag við ákvarðanir. Svo virðist sem það túlki 8. grein um ráðið með þeim hætti, að það þurfi að samræma öll laun strax, þar sem mögulega megi túlka ábyrgðina svipaða eða eins milli þeirra embætta sem ráðið þarf að ákvarða launin í.
Í 8. greininni segir: „Við úrlausn mála skal kjararáð gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum þeim sem það ákveður og að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar.“
Þessi grein gerir kjararáði, að taka tillit til þeirra áhrifa sem ákvarðanir ráðsins geta haft á gang efnahagsmála á hverjum tíma. Tímasetningarnar á hækkunum, og svo einnig hvernig þær koma fram, eru mikilvægt atriði þessu samhengi.
Engin þörf er á því að hækka laun strax eða afturvirkt um tugi prósenta, þar sem slíkt er ekki í samræmi við þróun launa hjá fólkinu á gólfinu. Þarna þarf ráðið að passa sig, og hefur réttilega verið bent á það, að með þessu móti sé verið að hafa neikvæð áhrif á kjaraviðræður almennt á vinnumarkaði. Gagnrýnin hefur komið frá verkalýðshreyfingunni, atvinnurekendum, stéttarfélögum hins opinbera og sveitarfélögum, svo eitthvað sé nefnt.
Magnar upp hagsveiflur
Þetta verklag leiðir til svokallaðs höfrungahlaups í launaþróun, sem getur í versta falli magnað upp hagsveiflur, með tilheyrandi skaða fyrir efnahagslífið og hagstjórnina. Þá eru laun hækkuð mikið í einu, með tilheyrandi snöggum kostnaðarbreytingum í rekstri.
Jafnvel þó hagtölurnar hafi sjaldan eða aldrei litið betur út - ekki síst vegna þess hvernig unnið hefur verið úr neyðarlögunum og fjármagnshöftum í kjölfar hrunsins - þá er engu að síður hættulegt að stunda höfrungahlaupið í launaþróun. Ísland er örríki með aðeins 200 þúsund manna vinnumarkað og nýjar tölur Hagstofu Íslands sýna glögglega að þessi misserin er innflutningur á láglaunastörfum í ferðaþjónustu og byggingariðnaði í miklum blóma, á meðan útflutningur eða stöðnun er í ýmsum öðrum geirum þekkingariðnaðar, til dæmis í hliðargreinum sjávarútvegs þar sem störfum hefur fækkað um 600 á einu ári.
Sé horft til launaþróunar á fyrsta ársfjórðungi í fyrra og sama tíma á þessu ári, þá hafa laun hækkað um sex prósent á almenna markaðnum og 8,4 prósent hjá hinu opinbera, að því er fram kemur í hagsjá Landsbankans í dag.
Launakjör opinberra starfsmanna eru nú meðal þeirra bestu sem þekkjast í veröldinni og er styrkur krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum þar helsta breytan sem horfa þarf til. Eins og oft áður, þá eru sveiflur krónunnar til þess fallnar að breyta birtingarmynd hagkerfisins gagnvart umheiminum.
Ef þetta háttalag við ákvörðun launa, sem kjararáð hefur viðhaft að undanförnu, ætti að vera leiðarstefið í komandi kjaraviðræðum þá gæti það leitt til erfiðleika og gert hagstjórnina erfiðari.
Ríkið verður að bera ábyrgð
Árið 2015, þegar miklar deilur einkenndu kjaraviðræður á vinnumarkaði, þá sagði Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, að ríkið myndi ekki taka ábyrgð á „höfrungahlaupi“ launahækkana.
Nú þegar hann er orðinn forsætisráðherra verður hann að viðurkenna, að ríkið getur ekki annað en tekið ábyrgð á höfrungahlaupinu, því það sjálft er það sem viðheldur þeirri aðferðafræði í kjaraviðræðum. Á meðan svo er, þá er eðlilegt að aðrar stéttir á markaði - fólkið á gólfinu þar á meðal - horfi til elítu ríksins og spyrji: Hvers vegna fáum við þetta ekki líka?