Senn líður að verslunarmannahelgi þar sem hefð er fyrir því að landinn safnist saman á hinum ýmsu útihátíðum sér til skemmtunar.
Undanfarin ár hefur verið deilt um upplýsingagjöf varðandi ofbeldisbrot sem verða þessa helgi og hefur einkum verið rætt hvort rétt sé að upplýsa um kynferðisbrot á sama hátt og aðra glæpi sem eiga sér stað.
Tregða til að fjalla um kynferðisbrot sem eru framin um verslunarmannahelgi á sama hátt og önnur afbrot framin þá helgi hefur meðal annars verið réttlætt með því að vísa í líðan þolenda og þeim möguleika að rannsóknarhagsmunum sé stefnt í hættu. Svo sannarlega getur umræða um kynferðisofbeldi vakið óþægilegar minningar og tilfinningar hjá þolendum slíkra brota og má segja að viðbrögð þolenda séu eins mismunandi og þeir eru margir. Það er stór munur á ítarlegum lýsingum á kynferðisbrotum og almennri upplýsingagjöf um tíðni ákveðinna brota. Auðvitað ber að varast upplýsingar sem geta á einhvern hátt skaðað þolanda, t.d. upplýsingar sem gætu orðið til þess að þolandi þekkist gegn vilja sínum. En þrátt fyrir leit hefur undirrituð enn ekki fundið rannsóknargreinar sem benda til þess að tölulegar upplýsingar um kynferðisbrot í fjölmiðlum séu á einhvern hátt skaðlegar fyrir þolendur slíkra brota.
Hins vegar gæti verið varasamt að fjalla um kynferðisbrot á annan hátt enn önnur afbrot. Hvaða skilaboð erum við þá að gefa? Að kynferðisbrot séu skammarleg og ekki megi tala um þau? Þolandinn veit hvað kom fyrir, viljum við segja þolenda að það sem kom fyrir hann hafi minna fréttavægi en innbrot? Sé á einhvern hátt minna mikilvægt? Það er nú þegar erfitt fyrir þolendur að stíga fram, hvað þá að leggja fram kæru enda eru skilaboðin að „þessi“ mál séu svo íþyngjandi fyrir alla málsaðila. Að meðhöndla kynferðisbrot á annan hátt en önnur brot, ýtir undir þessar hugmyndir. Það ætti að vera jafn eðlilegt og sjálfsagt að kæra kynferðisbrot eins og að kæra líkamsárás. Réttarvörslukerfið og samfélagið ætti að endurspegla það.
Ef sagan hefur kennt okkur eitthvað þá er það að þöggun er besti vinur afbrotamannsins. Við þurfum ekki að fara langt aftur í tímann til að gera okkur grein fyrir mikilvægi opinberrar umræðu um kynferðisbrot. Undanfarið hafa kynferðisbrot lögmanns nokkurs verið í fréttum og hver þolandinn af fætur öðrum steig fram í kjölfar umfjöllunar. Þetta er ekkert einsdæmi. Umfjöllun Kastljós um brot Karls Vignis Þorsteinssonar vakti mikla athygli og fjöldi þolenda sem aldrei hafði leitað sér hjálpar steig fram. Einnig má benda á umfjöllun undanfarinna ára um fólk sem byrlar öðrum lyf á skemmtistöðum. Mikil vakning hefur orðið á þessu ofbeldi og fólk meðvitaðra, grípur frekar inn í og passar upp á hvort annað. Því er ekki hægt að útiloka að slík umfjöllun gæti haft forvarnargildi.
Til að nefna enn fleiri dæmi um mikilvægi umfjöllunar má benda á brautryðjenda starf Stígamóta, Neyðarmóttöku LSH og Barnahúss sem hefur hrint af stað vitundarvakningu um kynferðisbrot í samfélagi okkar. Þessi vitundarvakning hefur orðið til þess að mun auðveldara er fyrir þolendur að stíga fram og auðveldað aðgengi að viðeigandi stuðningi.
Fyrir almenna umfjöllun um kynferðisbrot í fjölmiðlum eru allar líkur á því að slík brot hafi átt sér stað um verslunarmannahelgar líkt og aðrar helgar þó að ekki hafi verið talað um það. Ég velti fyrir mér hvort sú þögn sem ríkti um kynferðisbrot á útihátíðum hafi verið þolendum til hagsbóta eða ekki? Hvernig slík þögn verndaði þolendur? Hver eru rökin fyrir því að fjalla öðruvísi um kynferðisbrot sem eru framin um verslunarmannahelgi en kynferðisbrot sem eru framin aðra daga ársins?
Allir geta verið sammála um að fjalla skal um kynferðisbrot af nærgætni og fagmennsku. En við skulum ekki óttast það að tala um þau, við verðum að horfast í augu við að kynferðisbrot eiga sér stað og við eigum að tala um þau.
Höfundir er sálfræðingur hjá Domus Mentis – Geðheilsustöð.