Eitt virtasta dagblað heims, Financial Times (FT), birti fyrir skömmu mjög áhugaverða grein sem tengist Brexit - þeirri ákvörðun hluta bresku þjóðarinnar að yfirgefa Evrópusambandið. Í henni FT kemur fram að þegar Bretland fer úr ESB í lok mars árið 2019, þá falla úr gildi á einni nóttu 165 alþjóðasamþykktir sem Bretland á aðild að við önnur ríki utan ESB, svokölluð „þriðju ríki“. Sömu nótt falla úr gildi um 750 samningar á milli Bretlands, ESB og annarra aðila, hjá hinum ýmsu alþjóðasamtökum. Um 300 þessara samninga snúast eingöngu um viðskipti. En þetta eru líka sem samningar sem snúa að fiskveiðum, landbúnaði, kjarnorkumálum og fleiru. Lög ESB snerta nánast öll svið bresks samfélags, rétt eins og hjá öðrum aðildarríkjum (sem og EES-löndum).
Viðmælandi, sem rætt er við í greininni lýsir þessum miklu breytingum eins og „verið sé að byrja upp á nýtt,“ og þar á hann við að þetta sé nánast eins og að endurræsa Bretland. Byrja frá núlli.
Það er nokkuð ljóst að þeir sem töluðu sem hæst um Brexit voru ekki mikið að tala um þetta, enda hefði það sennilega fengið einhverja til þess að hugsa málið betur. Enda var málið keyrt áfram á tilfinningum, almennri Evrópuandúð og ekki minnst, lygum og bjöguðum staðreyndum. Undirritaður hefur sjálfur hitt og rætt við Breta sem áttuðu sig ekki á lygunum fyrr en eftir atkvæðagreiðsluna.
Norðmenn sjá tækifæri í Brexit
Það sem er einnig áhugavert í þessari grein er að þar er rætt við sendiherra Noregs hjá ESB, Oda Helen Sletnes, en hún segir: „Við viljum að sjálfsögðu fá sem bestu samninga fyrir fiskafurðir okkar.“ Noregur er með hátt í 40 samninga við Bretland samkvæmt greininni og segist sendiherrann vilja losna við ýmislegt sem hún telur vera til vansa úr þessum samningum varðandi, tolla, kvóta og þess háttar. Samkvæmt grein FT er Noregur eitt þeirra ríkja sem líta á Brexit sem tækifæri, rétt eins og utanríkisráðherra okkar, Guðlaugur Þór Þórðarson (Sjálfstæðisflokki). Norskir virðast vera nokkuð ákveðnir og allir sem eitthvað fylgjast með fiskveiðum vita að Norðmenn eru skrambi góðir á því sviði. Og þeim er örugglega mikið í mun að vinna sér nýja markaði fyrir norskar sjávarafurðir og betri aðgang.
Guðlaugur Þór vill Breta í EFTA
Utanríkisráðherra Íslands er mjög hrifin af þeirri hugmynd að Bretar gangi úr ESB, enda er hann á móti ESB. Hann er líka mjög mikið á móti eftirliti og þess háttar og hefur iðulega talað á mjög neikvæðum nótum um það sem hann kallar „eftirlitsiðnaðinn“ (les; t.d. að fylgja lögum og reglum). Hann vill líka ólmur fá Breta í EFTA (Fríverslunarsamtök Evrópu). En EFTA eru mjög lítil samtök á alþjóðavísu og í dag eru auk Íslands löndin Noregur, Sviss og Liechtenstein aðilar að EFTA. EFTA er því dæmigert smáríkjabandalag, en hefur þó tekist að gera ýmislegt markvert á sínu sviði.
Á vefsíðu Utanríkisráðuneytisins um Brexit stendur þetta: „Bretland er, líkt og öll aðildarríki ESB, aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Þegar úrsögn Bretlands úr ESB verður að veruleika munu samskipti Íslands og Bretlands ekki lengur byggja á EES-samningnum eða öðrum samningnum Íslands við ESB. Þetta skapar Íslandi og Bretlandi tækifæri til að móta samskipti sín á nýjum grundvelli en þýðir um leið að ekki verður lengur byggt á þeim gagnkvæmu réttindum sem ríkisborgarar og fyrirtæki frá Íslandi eða Bretlandi njóta á grundvelli EES-samningsins...Bresk stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau hyggist verða málsvarar fríverslunar og einfaldra viðskiptahátta eftir útgöngu landsins úr ESB. Þetta markmið samræmist vel íslenskum hagsmunum og vekur væntingar um að semja megi um enn betri markaðsaðgang fyrir íslenskan útflutning við Bretland, einkum fyrir sjávarafurðir. Eigi að síður þarf að hafa í huga að hagsmunir Íslands í viðskiptum á Bretlandsmarkaði eru afar víðtækir.“
Hvað á eða mun Brexit að kosta Íslendinga?
Þetta er áhugavert orðalag að mörgu leyti og hér vakna spurningar, t.d. hvort Utanríkisráðuneytið fagni því að samskipti Íslands eftir Brexit muni ekki byggja lengur á EES-samningnum (sem allir viðurkenna að hafi verið Íslandi til mikils gagns)? Það má alveg skilja þessi orð þannig. Og hvernig á að vinna að þessum „nýju“ samskiptum? Hvað á að eyða miklum peningum í að semja við Breta? Hvað gerist hér þegar Bretland fer úr ESB? Hvernig á t.d. að tryggja hagsmuni útflytjenda, ferðamanna og eða skólafólks? Hverjar verða kröfur Íslands gagnvart Bretum? Fullur og óheftur markaðsaðgangur fyrir allar fiskafurðir frá Íslandi? Muna Bretar ganga að því? Ó,nei. Við megum ekki gleyma því að við unnum Breta í svokölluðu Þorskastríði á síðustu öld og það er geymt en ekki gleymt hjá Bretum. Og ef við fáum allt, hvað eiga Bretar þá að fá? Verður utanríkisráðherra nógu harður? Það eru jú skoðanabræður hans sem þrýstu mest á Brexit.
Og verður lítið sem ekkert eftirlit með verslun og viðskiptum við Breta eftir útgöngu þeirra? Verður þetta allt bara svona „létt og þægilegt – engar reglur eða vesen?“ Verða þetta bara lauflétt samskipti á milli „frjálsra manna“, þar sem „vond stjórnvöld“ koma hvergi nærri? Er það draumasena utanríkisráðherra?
Verða Bretar nýjir kyndilberar fríverslunar og táknmynd andstöðunnar við þá „kúgun“ sem ESB hefur leitt yfir þjóðir Evrópu og þeirra sem sambandið hefur samskipti við? Í því samhengi er áhugavert að benda á að flestar þær þjóðir sem losnuðu undan oki kommúnismans voru fljótar að sækja um aðild að ESB, allt frá Eystrasalti, til Króatíu.
Svö við þessu spurningum koma sennilega ekki í ljós fyrr en Bretland verðu farið úr ESB, eftir tæp tvö ár. En það verður að segjast eins og er að þessi aðgerð, Brexit, er í raun eins og að leika sér með fjöregg þjóðarinnar og er óvenju fífldjörf aðgerð. Enda sennilega vanhugsuð frá upphafi. Áhrifa Brexit er þó þegar byrjað að gæta og í frétt á RÚV frá í byrjun júlí er sagt frá ákvörðun Breta um að segja upp fiskveiðisamningi sem gilt hefur í yfir hálfa öld og veitir nokkrum grannþjóðum Breta leyfi til veiða í breskri lögsögu. Þessi samningur var reyndar gerður áður en Bretar gengu í ESB 1973. Nú vilja Bretar hafa lögsöguna fyrir sjálfa sig. Um var að ræða veiðar á 10.000 tonnum af fiski, af um 700.000 tonna heildarafla! Bretar fengu einnig að veiða í lögsögu hinna landanna á móti, en með þessari aðgerð segjast þeir vera að „ná yfirráðum yfir eigin miðum.“ Vegna 10.000 tonna?
Gott að losna við Breta úr ESB?
En verður þá ekki bara gott fyrir ESB að vera lausir við Breta? Þeir voru hvort eð er aldrei sáttir, voru alltaf í hálfgerðri fýlu innan ESB. Svona rétt eins og einstaklingur sem er félagi í einhverjum klúbbi, en getur aldrei sætt sig við þær reglur sem spila á eftir. Og er alltaf sóló, alltaf í fýlu á fundum og vill aldrei vera almennilega með. Er þá ekki bara betra að fara? Fyrst maður getur ekki breytt klúbbnum og haft hann eins og maður vill, því Bretar voru pínu þannig innan ESB. Er um að ræða leifar af stórveldiskomplexum Breta? Getur það verið?
Bretar eru jú fyrrum heimsveldi og réðu á sínum tíma stórum hluta heimsbyggðarinnar, enda var sagt að sólin settist aldrei í breska heimsveldinu – svo stórt var það. Síðan kom seinna stríð og upp úr öskunni úr því reis efnahagsveldið Þýskaland, sem er í dag stærra heldur en það breska og álitið „prímusmótorinn“ í evrópskum efnahagsmálum. Við þá staðreynd líkar ekki áhrifamönnum í Bretlandi, sérstaklega innan breska Íhaldsflokksins. Það er undirliggjandi andúð gagnvart Þjóðverjum í Bretlandi hjá ákveðnum fjölmiðlum og stutt í öfundina. Jafnvel gagnvart Frökkum líka. En Brexit er fúlt fyrir breskan almenning, því ESB hefur veitt breskum almenningi hluti í gegnum löggjöf sína sem Whitehall hefði ekki einu sinni dottið í hug. Allskyns réttindi, fríðindi og annað slíkt. Og nú á að taka þetta af þeim. Það er svona þegar vitleysingar fá of mikil völd og áhrif, þá „gerist skítur“ (shit happens).
Gaman að fá Skota í ESB
Já, en það er þá kannski bara best að Bretar fari úr ESB og reyni að spjara sig sjálfir, sem ,frjálsir menn.“ Rétt eins og þeir Bretar sem stofnuðu Bandaríkin á sínum tíma og börðust gegn skattpíningu og oki breska kóngsins. En Skotar mega gjarnan koma í stað Breta innan ESB og margt sem bendir til þess að svo verði. Íbúar Skotlands kusu að vera áfram í ESB (62% með ESB, 38% vildu fara). Nú fá þeir vonandi tækifæri til þess að losa sig endanlega við okið frá Whitehall í London, sem þeir hafa lengi verið óhressir með. Það væri mjög áhugavert að fá Skotland inn í ESB, enda þjóð sem hugsar um velferð almennings og hafa Skotar mjög heilbrigða sýn á venjulegt fólk og líf þess. Annað en í hinu stéttskipta Bretlandi.
„Chill“ og tebolli?
Það samningaferli sem nú er hafið milli breskra stjórnvalda og ESB felur í sér að rifnir eru upp allir þeir samningar sem sambandið og Bretland hafa gert með sér á þeim 43 árum sem Bretar hafa verið í ESB (og forverum þess). Þetta eru hundruð þúsundir síðna af lagatexta. Það sjónarmið hefur heyrst að verkefnið sér nær óyfirstíganlegt og að stjórnkerfið í Bretlandi hafi hvorki mannafla né getu til þess að vinna verkefnið. Talið er að ef vel eigi að gera þetta, þurfi um 700 samningamenn hjá Bretum, eða um tvöfalt fleiri en eru núna.
En hverjir eiga að semja við Breta fyrir Ísland og hvað á það að kosta? Þarf ekki að gera fjárhagsáætlun fyrir það? Fær Jón Gunnarsson kannski að leggja sérstakt Brexit-gjald á okkur? Eða verður þetta allt saman frjálst, óheft og bara mikið „chill“? Yfir tebolla?
Höfundur er MA í stjórnmálafræði og situr í stjórn Evrópusamtakanna.