Athyglisverðir hlutir eru nú að gerast í íslensku efnahagslífi. Alþjóðleg stórfyrirtæki eru farin að bjóða þjónustu í vaxandi mæli á Íslandi og ekki sér fyrir endann á þeirri innreið. Opnun á verslun H&M og Costco - alþjóðlegum risum í smásölu - eru til marks um breytta tíma.
Markaðsvirði H&M er nú 327 milljarðar sænskra króna og hjá Costco er verðmiðinn 68 milljarðar Bandaríkjadala. Upphæðin nemur ríflega 12 þúsund milljörðum króna, sem er tæplega tólf sinnum meira en allur íslenski hlutabréfamarkaðurinn.
Styrkir stöðuna
Stærðirnar eru ekki aðalatriðið, en þær segja samt ákveðna sögu. Kannski sú sem eru augljósust er þessi: Innlend fyrirtæki munu aldrei geta keypt við þessi fyrirtæki þegar kemur að hagkvæmum verkferlum, innkaupum og öðru slíku, þar sem stærðarhagkvæmni er mikilvæg forsenda í því að bjóða góðar vörur og þjónustu.
Í gegnum tíðina hefur alþjóðlegum vörumerkjum, eins og Zöru, verið vel tekið á Íslandi, og móttökurnar sem Costco hefur fengið - með næstum 100 þúsund aðildarkortum einstaklinga og fyrirtækja - benda til þess að það séu breyttir tímar í íslensku efnahagslífi. Áhrifin eru djúpstæð.
Ramakvein
Nú þegar sjást ýmis ramakvein úr íslensku efnahagslífi, vegna þessarar alþjóðlegu innreiðar. Nefna má einnig ýmsar hugbúnaðarlausnir, eins og Netflix og Spotify, sem dæmi um hvernig alþjóðleg samkeppni getur rasakað einangruðum mörkuðum eins og þeim íslenska.
Þeir sem hafa verið í sterkustu stöðunni á íslenska markaðnum kvarta og kveina yfir þessari samkeppni, en almennt er fagnað. Almenningur fær þarna betri þjónustu, betri verð í mörgum tilvikum, og fjölbreyttari möguleika. Allir stuðningsmenn markaðsbúskaps í efnahagslífinu, þar sem hann á að ráða för, ættu vitaskuld að fagna þessari alþjóðlegu innreið.
Ferðaþjónustan komið Íslandi á kortið
Þó það sé leiðinlegt, að framleiðendur klósettpappírs á Íslandi finni fyrir þessum áhrifum og þurfi að segja upp starfsfólki, þá er það hliðarverkun sem er ásættanleg fyrir heildina. (Ætli það séu einhverjir staðir í veröldinni, sem eru óhagstæðri en Ísland til að frumframleiða klósettpappír, eins og staða mála er núna? Ekki viss um það. Framleiðslukostnaður hefur rokið upp samliða vaxandi samkeppni).
Uppgangur ferðaþjónustunnar virðist vera lykilatriðið í þessari þróun, og hefur sett Ísland ofar í röðina hjá alþjóðlegum fyrirtækjum. Þau eru frekar tilbúin að hefja starfsemi á Íslandi núna en áður, og breyttir tímar virðast handan við hornið.
Vonandi taka stjórnvöld stöðu með þessari innreið, frekar en að taka í útrétta hönd hagsmunaaðila innanlands. Framundan eru miklar og róttækar breytingar á ýmsum mörkuðum, eins og í bankageiranum og á markaði með tryggingar. Þetta hefur ítrekað komið fram að undanförnu, í ýmsum greiningum sérfræðinga hér á landi og erlendis.
Vonandi mun Ísland njóta góðs af þessu þegar fram í sækir, þó ekki sé það augljóst ennþá. Íslenska ríkið fer með eignarhald á um 80 prósent af fjármálakerfinu og verður því alltaf stefnumarkandi þegar kemur að framþróun fjármálakerfinsins, eins og mál standa nú. Í þessu felast bæði tækifæri og hættur, því skattgreiðendur eiga yfir 500 milljarða í eigin fé í þessu „gamla“ kerfi sem stendur á tímamótum.
Mikilvæg þróun
Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar tók ekki við með fylgisbyr í seglum, og vitað var fyrir fram að hún myndi verða í vandræðum við að ná upp almannahylli. Hún stóð það tæpt í upphafi. En þegar að kemur að þessari hagfelldu þróun í efnahagslífinu - þessari alþjóðlegu innreið - þá verða stjórnvöld að átta sig á því hversu söguleg og mikilvæg þessi þróun er. Hún er að breyta Íslandi til hins betra. Í besta falli getur hún leitt til þess að valdaþræðir slitni, kerfislæg spilling minnki og fagmennska fái aukið vægi. Innlendir smákóngar eru það mikil peð í alþjóðlegu valdatafli viðskipta að þeir gætu lent fljótt í útrýmingarhættu.