Að undanförnu hafa komið upp mál sem sýna glögglega að hið opinbera hefur farið útaf sporinu. Í það minnsta þrjú mál má telja til sem hafa komið upp með skömmu millibili.
Í fyrsta lagi er það mál sem snýr að Borgun, sem er að mestu í eigu í ríkisins, en Íslandsbanki - sem er ríkisbanki að öllu leyti - er stærsti eigandi þess (63 prósent).
Sú undarlega staða kom upp á dögunum að Fjármálaeftirlitið komst að þeirri niðurstöðu eftir rannsókn að Borgun hefði brotið lög með því að greiða starfsfólki sínu of háa bónusa. Var gerð sátt við FME um málið, en lögbrotið var viðurkennt. Hið opinbera var þarna bæði í hlutverka lögbrjótsins og eftirlitsins.
Í öðru lagi má nefna klúður ríkisins, og dótturfélagsins Lindarhvols, við söluna á fyritækinu Lyfju. Samkeppniseftirlitið, sem líkt og FME er undirstofnun ríkisins, stöðvaði söluna með því að heimila ekki kaup Haga á Lyfju.
Salan er því komin á byrjunarreit, en vafalítið hleypur kostnaðurinn á tugum milljóna nú þegar.
Í ákvörðunarorðum Samkeppniseftirlitsins er fjallað ítarlega um stöðuna á þeim markaði þar sem Lyfja starfar, og eftir þann lestur verður ekki sagt að það komi á óvart að kaupin hafi ekki verið heimiluð. Spurningin sem vaknar er hvers vegna Lindarhvoll og stjórnvöld yfir höfuð, spurðu sig ekki af því hvort þetta gæti gengið.
Ýmislegt er reyndar á huldu varðandi Lindarhvol, eins og t.d. ársreikningurinn fyrir 2016 og hvers vegna þetta dótturfélag ríkisins seldi persónulegar kröfur á Kevin Stanford, líkt og Markaðurinn greindi frá á dögunum.
Þarnar vantar svör og mikilvægt að upplýsingar verði settar upp á yfirborðið sem geta skýrt stöðu mála hjá þessu félagi, sem heldur á eignarhlutum upp á marga milljarða króna fyrir hönd almennings.
Gagnsæi er mikið tískuorð hjá ráðamönnum, en það er alveg innantómt ef það er ekki farið eftir meininigu þess.
Í þriðja lagi má svo nefna skandalinn í Helguvík, vegna fyirirtækisins United Silicon. Það hefur nú óskað eftir greiðslustöðvun, og tugmilljarða tap gæti lent á almenningi í gegnum lífeyrissjóði og síðan fjármálakerfið.
Að auki má nefna að stjórnvöld veittu félaginu ívilnanir og Landsvirkjun samdi um orkuviðskipti. Þeir viðskiptahagsmunir hlaupa á milljörðum.
Stjórnvöld verða að taka meira frumkvæði í málinu til að upplýsa um hvernig þetta verkefni, sem var sagt vera með trausta fjármögnun og reiðubúið til að gera langtímasamninga um orkuviðskipti, gat komist í þennan farveg.
Öll eiga þessi mál sameiginlegt að hið opinbera er alls staðar við borðið. Ábyrgðin er hjá því, þegar svona kemur upp, og það er vonandi að stjórnvöld séu reiðubúin að læra af þessu. Þar er lykilatriði að draga öll tjöld frá. Afnema leynd og halda almenningi upplýstum.
Uppfært 29. ágúst, 15:16: Samkvæmt svörum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu þá kom krafan á Kevin Stanford aldrei til umsýslu hjá Lindarhvoli, og var því aldrei hluti af eignasafni félagsins.