Ágæta samkoma.
Sem hollnema Listaháskólans hefur mér verið falið að flytja ykkur hvatningu í upphafi vetrar, og gefa hollráð. Það er mér mikill heiður að fá að ávarpa nemendur Listaháskólans á fyrsta degi skólaársins, sem fyrir marga er jafnframt fyrsti dagur skólagöngunnar.
Það eru liðin níu ár síðan ég útskrifaðist úr skólanum eftir þriggja ára nám. Þó er ekki þar með sagt að ég hafi hætt að læra eftir að náminu hér lauk; það er ótalmargt sem ég hef lært síðan. Því má segja að listnám mitt hafi varað í alls tólf ár.
Þar sem þið eruð mörg og vafalaust ólík, veit ég svo sem ekki hvernig ég get ráðið ykkur heilt. Ólíkir listamenn hafa ólíkar þarfir, og það er ekki endilega víst að það sem hefur gagnast mér að vita gagnist ykkur líka. Það getur jafnvel spillt fyrir.
Þess vegna hef ég tekið saman lista yfir eitt hundrað hluti sem ég hef lært og flyt ykkur hann hér og nú. Þið getið vonandi tileinkað ykkur eitthvað, kannski á eitthvað á listanum erindi við ykkur en ég bið ykkur um að gleyma öllu hinu.
100 atriði sem ég hef lært á tólf ára listnámi
(Listinn er ekki tæmandi).
- Stundum er allt í lagi að setja sér óraunhæf markmið.
- Á einhverjum tímapunkti þarf maður að hætta við óraunhæf markmið og setja sér raunhæf markmið í staðinn.
- Það getur verið gott að geyma brottfararspjöld þegar maður ferðast til útlanda vegna vinnu. Stundum þarf maður að skila inn brottfararspjöldum til að fá borgað. (Ekki alltaf samt).
- Græjurnar skipta ekki öllu máli, en það er engu að síður hægt að hafa gaman af flottum græjum.
- nnra með hverjum manni er svartagall, mýrlendi, ókannað svæði sem listamenn geta dundað sér við að kortleggja.
- Þó að hugmynd sé góð á styrkumsókn þarf ekki að vera að hún sé góð í raun og veru.
- nbsp;Það er ekki alltaf gaman að búa til list, stundum er miklu skemmtilegra að vera búinn að skapa list.
- List er alvöru vinna sem fólk fær borgað fyrir, listamenn eru ekki bara að leika sér.
- Enginn listamaður sem ég þekki er letingi.
- Það getur verið að ég þekki einhverja lata listamenn en þeir eru ekki latir af því að þau eru listamenn.
- Sumir segja að það sé betra að gera list þegar maður er fullur, en það á ekki við um mig.
- Þegar það gengur illa verður maður halda áfram og gera betur.
- Þegar maður er að vinna með öðrum kemur vel út að vera skýr og heiðarlegur.
- Þegar maður er að vinna með öðrum kemur vel út að vera skipulagður.
- Það fer í taugarnar á fólki þegar það upplifir að tíma þess sé sóað.-
- Að pirra fólk er ekki það versta sem getur gerst.
- Fólk er yfirleitt betur mótiverað ef það skilur hvað það er að gera.
- Þegar maður gerir performans með öðrum er gott að hafa handrit.
- Þegar allir byrja að rífast um hvað á að gera er gott að geta vísað í handritið.
- Maður þarf ekkert alltaf að vinna með öðrum.
- Maður þarf ekkert alltaf að vinna einn.
- Óreiða getur verið skemmtileg í sköpun, en slæm tímastjórnun skilar engu.
- Þegar maður er að biðja fólk um að gera eitthvað ókeypis eða fyrir lítinn pening er sniðugt að bjóða upp á eitthvað að borða.
- Þegar maður er að gera kvikmyndað verkefni er nauðsynlegt að hafa mat á tökustað.
- Þegar maður er að bjóða fólki upp á eitthvað að borða er ekki sniðugt að kaupa það ódýrasta í Bónus. Mörgum finnst Bónus samlokubrauð og Bónus majónessallat ógeðslegt.
- Þegar maður býður fólki upp á mat er sniðugt að spyrja hvort einhver hafi sérþarfir, sé grænmætisæta, vegan o.s.frv. Það má heldur ekki gleyma hvað kjötætur geta verið matsárar.
- Það er ekki hægt að gera öllum til geðs.
- Þegar maður á lítinn pening til að borga einhverjum til að vinna með sér er best að fronta það strax, það er hægt að kalla það „táknræna greiðslu“, eða eitthvað í þeim dúr.
- Þegar maður borgar fólki pening er auðveldara að biðja það um að gera eitthvað fyrir sig.
- Ef maður er stjórnandi í verkefni er sniðugt að gefa fólki pásur með reglulegu millibili, manni hættir til að gleyma sér af því að það er svo gaman að stjórna.
- Ef maður er stjórnandi þarf maður að vera óragur að segja hvenær pásan er búin, fólk býst við því af stjórnandanum.
- Það hefur alltaf komið vel út fyrir mig þegar einhver annar sér um fjárhagshlið verkefna.
- Það hefur komið mjög vel út fyrir mig að láta bókara gera skattaskýrsluna mína.
- Ef maður frestar því of lengi að rukka hættir því til að gleymast
- Það er sniðugt að taka nótu þegar maður kaupir eitthvað sem maður notar í vinnunni, til dæmis tölvu, myndavél, myndlistarvörur eða bara hvað sem er.
- Það er líka sniðugt að taka nótu ef maður kaupir eitthvað eins og föt, heimilistæki, eða fer út að borða eða á kaffihús. Það er aldrei að vita hvað er hægt að reikna sem kostnað.
- Það er sniðugt að safna nótum á einn stað, setja þær í skúffu eða skókassa eða eitthvað.
- Stundum er skýrara að senda ímeil í staðinn fyrir að halda fund.
- Stundum er skýrara að senda ímeil í staðinn fyrir að gera listaverk.
- List sem er gerð sérstaklega til að vera pólitísk list er oftast frekar fyrirsjáanleg og væmin. Maður verður að passa sig á því.
- Að lesa bækur er bæði inspírerandi og róandi.
- Maður þarf ekki að vera búinn að lesa einhverja bók til að byrja að skapa.
- Að horfa á sjónvarpið getur líka verið inspírerandi og róandi.
- Að fara í bíó er alveg örugglega inspírerandi og róandi.
- Facebook er tímasóun, Twitter líka.
- Instagram er aðeins skárra.
- Podcast er mjög sniðugt.
- Þegar maður notar margar leturgerðir í kynningarefni er hætt við að fólki finnist það ekki líta fagmannlega út.
- Fagmennska er ofmetin, en nauðsynleg upp að vissu marki.
- Gott handverk og list á alls ekki alltaf samleið.
- Maður ætti líka að láta prófarkalesa allt sem maður sendir frá sér.
- Ef það er allt of mikill texti nennir enginn að lesa hann.
- Ef textinn er í allt of litlu letri nennir enginn að lesa hann.
- Það er alltaf hægt að stytta texta og það er oftast til mikilla bóta.
- Það þýðir ekkert að óska sér að eitthvað sé gott, maður verður bara að vinna í því þangað til það er orðið gott.
- Stundum langar mann svo mikið að eitthvað gangi upp að maður neitar í augu við að horfast í augu við að það gangi ekki upp.
- Það er ágætt að vinna á auglýsingastofu í smá tíma til að fá peninga, en maður má alls ekki gera það of lengi.
- Ef maður vinnur of lengi við textagerð á auglýsingastofu fer maður að hugsa í orðagríni.
- Listamenn geta gert auglýsingar en auglýsingar eru ekki list.
- Listaverk sem byggja á orðagríni eru oftast léleg.
- Mínar skoðanir eru alls ekki algildur mælikvarði á alla hluti.
- Það er í alvöru hægt að vinna of mikið.
- Það er hægt að undirbúa sig of mikið.
- Það er samt miklu algengara að fólk undirbúi sig of lítið.
- List er mikilvæg.
- Líf er mikilvægara en list.
- Maður á að heimsækja ömmu sína og afa meðan þau eru enn þá lifandi, nema manni sé illa við þau.
- Í öllum fjölskylduboðum er alltaf einhverjir sem skilja ekki hvað maður er að gera og geta ekki skilið það. Það þýðir ekkert að pirra sig á því, það er ekkert við því að gera.
- Ef þú færð engin tækifæri í listinni er það mjög sennilega þér sjálfum eða sjálfri að kenna. Það getur verið að það sé einhverjum öðrum að kenna, en hvað veit ég um það.
- Ég ætti ekki að vera að predika yfir öðrum.
- Ég get bara talað út frá sjálfum mér.
- Þó að einhver sé að tala meðan aðrir þegja þýðir það ekki að hann viti hvað hann er að tala um.
- Það getur vel verið að það komi vel út fyrir einhvern að vera alltaf fullur.
- Það getur vel verið að það komi vel út að hafa margar leturgerðir á plaggati. Kannski verður maður bara að treysta hönnuðinum fyrir því
- Stundum er gott að endurtaka sig og koma aftur að hlutum sem maður er búinn að presentera.
- Endurtekning getur verið stíll, en endurtekning getur líka verið stöðnun.
- Þegar maður er að lesa upp, les maður eiginlega alltaf allt of hratt. Manni hættir til að halda að öllum þyki það sem maður er að segja hræðilega leiðinlegt.
- Það er engin leið að vita hvað annað fólk er að hugsa.
- Stundum eru áhorfendur með fýlusvip þó að þeim þyki gaman.
- Ég þarf alltaf að vera með skriffæri á mér svo ég geti punktað hjá mér hugmyndir.
- „Góðar„ hugmyndir geta verið versti óvinur þinn.
- Góð vinna er það sem maður er í rauninni að leitast eftir.
- Það er gott að vera með góða reffa til að útskýra hvað maður er að hugsa.
- Það er ekki gott að vera alltaf að sýna fólki reffa í staðinn fyrir að vinna.
- Oftast er einfalt betra en flókið.
- Það er svo mismunandi hvað maður vill; stundum vill maður vera í flæði og stundum vill maður meiri áskorun, gera eitthvað erfitt.
- Stundum heldur maður að maður þurfi að gera eitthvað sem er í raun óþarfi.
- Það geta ótrúlegustu hlutir gerst undir lok ferlis, það er eins og það hægist á tímanum þegar pressan eykst.
- Það er ekki þar með sagt að maður eigi að fresta öllu þangað til í lokin.
- Frestun er alvöru vandamál. Það er ekki til nein töfralausn á því.
- Þegar maður þarf að taka of margar ákvarðanir í einu er hætt við að maður geti ekki gefið hverri ákvörðun þann gaum sem þarf og taki þess vegna verri ákvarðanir.
- Það er ekki hægt að vita allt, oftast verður maður bara að taka ákvörðun út frá „gut-feeling“ eins og það kallast á ensku.
- Það er gaman að taka ákvarðanir þegar maður kemst upp á lagið með það.
- Maður þarf alls ekki að útskýra allt; það er gott að skilja eftir smá rými fyrir fólk að túlka, leyfa hlutum að anda.
- Það er gott að hita upp, sérstaklega ef maður er stressaður.
- Það er allt í lagi að vera smá stressaður, þá veit maður að manni er ekki alveg sama.
- Að koma skakkt að hlutunum er yfirleitt áhugaverðara en að koma beint að þeim.
- Allir deyja og allir gleymast, líka dáðir listamenn.
- Maður verður að passa sig að drekka ekki of mikið kaffi, kvíði er svo hindrandi og leiðinlegur.
- Allt of oft hef ég gleymt að dokjúmentera, taka ljósmyndir og videó. Það má ekki klikka á því.
Til hamingju með Listaháskólann og gangi ykkur vel í vetur.