Í sumar vorum við sonur minn að vandræðast bíllaus uppi í Árbæ eftir sundnámskeið svo ég hringdi á leigubíl. Leigubílstjórinn var skrafhreifinn karl á aldur við pabba minn og bíllinn rétt svo skriðinn af stað þegar hann lækkaði í útvarpsfréttunum með þessum orðum: Hvað er alltaf hreint verið að tala íslensku krónuna niður!
Á hún ekki að vera svo sterk núna? tautaði ég kurteis.
Hún er þrautseig, íslenska krónan okkar, skal ég segja ykkur, sagði leigubílstjórinn, svo ábúðarfullur að sonur minn flýtti sér að kinka kolli.
Þeir hérna heima áttuðu sig ekki á því, þarna um árið, þegar það átti að innlima okkur í Evrópusambandið, bætti þá leigubílstjórinn við.
Ég á mjög margar evrur í sparibauknum mínum í Þýskalandi! tilkynnti sonur minn. En ég er að flytja til Íslands og þá get ég ekkert keypt fyrir þær.
Safnaðu bara íslensku krónunni okkar, sagði leigubílstjórinn, þú verður alveg jafn ánægður með hana.
Ókei, sagði sonur minn.
Fávís móðir
Það var nú meiri helvítis vitleysan í þeim, hélt leigubílstjórinn áfram. Ég skal segja ykkur það, þetta er alveg það sama og hann reyndi um árið, hann þarna sem er best að nefna ekki á nafn.
Hitler! hrópaði þá sonur minn alsæll, búinn að vera með seinni heimsstyrjöldina og múrinn á heilanum síðan hann sá hina sundursprengdu, gullbrydduðu Gedächtniskirche í fyrsta sinn og veit fátt eins krassandi og heyra talað um hann-sem-er-best-að-nefna-ekki-á-nafn – enda sjaldnast um Lord Voldamort í Harry Potter-bókunum að ræða.
Já, hann Hitler, gall í leigubílstjóranum. Hann ætlaði að gera nákvæmlega það sama, innlima okkur öll í eitt stórt ríki.
Veistu hvaða ár Hitler fæddist? kallaði sonur minn, ör af æsingi.
Nei, muldraði leigubílstjórinn. Hvenær hann Hitler er fæddur!
Hann fæddist árið 1889, sagði sonur minn.
Já, þetta veistu, stráksi, sagði þá leigubílstjórinn. Ekki vissi ég það.
Þú getur gúgglað allt um Hitler, sagði sonur minn og iðaði áfram af ákafa yfir umræðuefninu meðan hann gerði upp við sig hvaða fróðleiksmola hann ætti næst að velja úr konfektkassa Hitlers-upplýsinganna sem hann hefur viðað að sér síðustu tvö árin. Veistu hvort hann tók eitur eða skaut sig? spurði hann loks.
Hver? hváði leigubílstjórinn. Hann Hitler ræfilstuskan?
Hvað er ræfils ... hvað sagðirðu aftur? spurði sonur minn með auðheyrilegum þýskum áherslum.
Ræfilstuska, svaraði ég fyrir leigubílstjórann. Það er einhver sem ... sem er bara eins og tuska.
Sonur minn: Hitler var ekki eins og tuska, mamma!
Leigubílstjórinn: Nei, það má með sanni segja. Það var hann ekki, karlræfillinn.
Sonur minn: En leigubílstjóri, veistu hvernig Hitler dó?
Ég veit bara að ekkert er víst í þeim málum, sagði leigubílstjórinn. Svona karl eins og hann Hitler gat auðveldlega sloppið til Argentínu, þeir gerðu það þessir karlar.
Sonur minn: Er Hitler í Argentínu!?
Ég: Nei.
Sonur minn: Þú veist ekkert um Hitler, mamma. Maðurinn segir að hann sé í Argentínu!
Rökstuddur vaðall
Sonur minn mændi á karlinn þar sem hann sat við stýrið með uppbrettar ermar og gerði sér far um að vera sem karlmannlegastur í fasi. Það var eins og hann hefði hitt Ævar vísindamann, Pál Óskar, jólasveininn og Villa Naglbít í einum og sama manninum, augun gljáðu af aðdáun á karlinum.
Að vissu leyti var hressandi að hitta þennan karl, einu sinni var ég alltaf að hnjóta um svona karla og hafði gaman af hvernig þeir rökstuddu vaðalinn sem vall upp úr þeim, enda leynast oft óvænt gullkorn í vaðlinum. En eitt er að hafa gaman af svona köllum, annað að þeir geri sig líklega til að heilaþvo einkason manns.
Í augnablikinu var þó um fátt annað að velja en viðurkenna vanmátt sinn og ég starði dreymin út um gluggann það sem eftir lifði bíltúrsins meðan erfinginn horfði á leigubílstjórann eins og ég hefði horft á David Bowie hefði ég einhvern tímann hitt hann. Það var líka eitthvað notalegt við að sitja þarna inni í algildum sannleikshýsli bílstjórans, bíllinn rammaði inn lífskoðanir hans sem voru í sjálfu sér ágætis tilbreyting frá alvörugefnum pistlahöfundum þýskra stórblaða.
Nei Nei Nei!
Næsta dag vorum við mæðginin aftur að vandræðast við Árbæjarlaugina og ég hringdi annan daginn í röð á leigubíl. Og hver birtist þá eins og riddari á hvítum hesti nema hann vinur okkar – eða réttara sagt vinur sonar míns sem hækkaði samstundis um nokkra sentimetra af gleði.
Við vorum rétt lögð af stað þegar sonur minn segir rogginn: Sjáðu, leigubílstjóri, maðurinn í næsta bíl er að tala í símann og keyra. Það má ekki!
Nei, það má ekki því ... jarmaði ég í viðurkenningartón en leigubílstjórinn var fljótur að grípa orðið: Það er alveg sjálfsagt að tala í farsíma á ferð, skal ég segja þér, stráksi.
Sonur minn þurfti aðeins að melta þessa alhæfingu. Hann leit spyrjandi á mig sem horfði ennþá vanmáttugri á hann en deginum áður og sagði síðan: Ég sá mynd um strák sem talaði í síma í bíl og keyrði á vegg.
Það er svo mikil vitleysa í bíómyndunum, sagði þá leigubílstjórinn, þessum ábúðarfulla rómi sem fékk son minn til að horfa á hann eins og guð.
Var þetta kannski auglýsing? spurði ég til að miðla málum.
Nei, mamma, þú veist ekkert! Þetta var myndin um fjölskylduna sem var alltaf í vandræðum, manstu! Þegar strákurinn var með bílakennaranum ...
Já, þessir ökukennarar eru nú allavega, botnaði leigubílstjórinn. Ég tala alltaf í símann þegar ég keyri og það myndi ekki þýða neitt fyrir neinn ökukennara að segja mér annað.
Hvað myndir þú þá gera? spurði sonur minn.
Ég myndi bara segja NEI! sagði leigubílstjórinn.
NEI! æfði sonur minn sig í að segja og rétti stoltur úr sér.
NEI! mótmælti ég í aumri tilraun til að mótmæla þeim báðum sem héldu líkast til að ég gæti ekki hamið mig af aðdáun á staðfestu leigubílstjórans.
Trump í turninum
Þessi kynni okkar af leigubílstjóranum voru ágætis áminning. Áminning um að sama hversu vel ég vil gera við son minn, vernda hann og uppfræða eftir eigin nefi, þá er heimurinn fullur af allskonar fólki sem segir allskonar hluti og sumt segir eitthvað af viti meðan annað miðlar fölskum fréttum og sumir gera jafnvel hvort tveggja, ég veit það ekki, eina sem ég veit er að ég hef enga stjórn á þessu, allra síst framtíð sonar míns. Ég get aðeins reynt að fá hann til að tileinka sér gagnrýna en um leið frjálslynda hugsun. Reynt. Svo er bara að sjá hvað gerist.
Að lesa um heiminn í dag minnir um margt á fantasíubækur, nema hvað eilíflega góður allsherjarendir er utan seilingar. Mér varð hugsað til þess í sumar þegar sonur minn sagði mér að sér hefði þótt merkilegast að sjá turninn hans Trumps þegar við fórum til New York. Ég hugga mig við að honum fannst líka merkilegast að ganga yfir Brooklynbrúna og skil að honum finnist þessi drungalegi turn ævintýri líkastur. Ævintýri um baráttu góðs og ills og allt það. Og hvernig á maður líka að útskýra fyrir barni muninn á ævintýri og veruleika þegar fáránleikinn er alls ráðandi?