Ríkisstjórn er sprungin. Ástæðan er sú að dómsmálaráðherra sagði forsætisráðherra í júlí að faðir hans hefði skrifað meðmæli fyrir dæmdan barnaníðing sem óskaði eftir uppreist æru. Engin lög eða reglur eru til sem segja að dómsmálaráðherra beri að upplýsa forsætisráðherra um slík mál umfram aðra. Á sama tíma stóð sami dómsmálaráðherra í vegi fyrir því að fjölmiðlar, almenningur, þolendur brotamanna sem höfðu fengið uppreist æru og aðrir þingmenn fengu þessar upplýsingar. Það er eftiráskýring að segja að beðið hafi verið úrskurðar Úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Sú nefnd er enda ekki afgreiðslustofnun sem tekur ákvörðun um hvort rétt sé að afhenda gögn eða ekki. Hún er kærunefnd þar sem ákvörðun stjórnvalds um að synja eða heimila aðgang að upplýsingum er úrskurðuð réttmæt eða ekki.
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar um að afhenda ætti fjölmiðlum gögnin var því niðurstaða um að ákvörðun Sigríður Andersen um að afhenda þau ekki væri andstæð lögbundinni skyldu ráðuneytis hennar. Í ljósi þess að í gögnunum voru upplýsingar sem augljóslega myndu reynast formanni flokks hennar og forsætisráðherra þjóðarinnar erfiðar þá er erfitt að sjá að þetta ferli sé nokkuð annað en yfirhylming þar sem hagsmunir stjórnmálaflokks voru teknir fram yfir rétt almennings til upplýsinga.
Sú skýring Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra að hann hefði ekki mátt greina frá aðkomu föður síns að uppreist æru dæmds barnaníðings stenst enga skoðun og á sér enga lagastoð. Augljóst er að Bjarni hefur rætt málið við föður sinn og ef honum var umhugað um persónuvernd hans þá gat hann einfaldlega fengið leyfi hjá föður sínum til að upplýsa almenning og þingheim um þessa stöðu. Það kaus Bjarni að gera ekki. Það var ekki þvinguð staða, heldur val.
Ekki frávik, heldur regla
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem upp vaknar grunur um að Bjarni Benediktsson hafi tekið þátt í að hylma yfir upplýsingum sem gæti komið honum illa. Slíkur grunur kom til að mynda upp þegar Bjarni var fjármálaráðherra og það dróst í um ár að kaupa gögn um aflandsfélög í eigu Íslendinga skráð í gegnum Mossack Fonseca í Panama. Ástæða þess að grunurinn vaknaði var að í apríl í fyrra var opinberað að félag í eigu Bjarna var í gögnunum.
Í byrjun þessa árs vaknaði aftur grunur um að Bjarni hefði tekið meðvitaða ákvörðun um að halda upplýsingum sem gætu reynst honum pólitískt erfiðar frá almenningi. Um var að ræða tvær skýrslur, aðra um aflandseignir Íslendinga og hina um það hvernig Leiðréttingin skiptist á milli eignarhópa. Báðar skýrslurnar voru tilbúnar fyrir kosningarnar í október 2016, en ekki birtar fyrr en í janúar 2017. Í annarri skýrslunni kom fram hversu miklu fé íslenskir eigendur aflandsfélaga höfðu komið undan skatti. Í hinni kom fram hversu mikið af skattfé hafi verið fært úr ríkissjóði til ríkra Íslendinga með Leiðréttingunni.
Ógjörningur er að segja hvaða áhrif það hefði haft að skila þessum skýrslum fyrir síðustu kosningar. En fyrir liggur að ákvörðunin um að halda þeim frá almenningi mánuðum saman var val þess stjórnmálamanns sem bar ábyrgð á birtingu þeirra.
Það eru því mun fleiri en eitt dæmi sem liggja fyrir um að forsætisráðherra þjóðarinnar hafi beitt sér fyrir því að leyna almenning upplýsingum sem koma honum pólitískt illa. Þetta eru ekki frávik, heldur reglubundin og endurtekin hegðun.
Kynslóðaskipti
Ísland er að breytast mjög hratt. Samfélagið er eins og fjölskylda þar sem foreldrarnir eru íhaldssamir og vanafastir. Þeir vilja að börnin þeirra alist upp með sömu gildi og markmið og þau að leiðarljósi. Þau gildi eru að alltaf eigi að horfa inn á við og verja heimilið. En börnin fyrirlíta gildismat foreldra sinna og finnst það í hæsta máta óeðlilegt. Þau upplifa sig sem hluta af stærra mengi. Hluta af samfélagi. Þau vilja lifa lífi sínu með allt öðrum hætti, vilja allt öðruvísi samfélag og leggja áherslu á allt aðra hluti þegar þau leggja mælistiku á hversu gott lífið sé. Samtrygging, hylming, sérhagsmunagæsla og algjör skortur á samkennd eru til að mynda allt atriði sem börnin hafna. Þetta sést á því að nánast jafn margir kjósendur styðja flokka sem hafa verið stofnaðir á síðustu fimm árum og styðja gömlu valdaflokkanna tvo, sem hafa stýrt og mótað Ísland nánast sleitulaust frá lýðveldisstofnun.
Viðbrögðin við þeirri stöðu sem kom upp í lok viku, og sprengdi ríkisstjórn, voru viðbúin. Það er regla númer eitt hjá kerfisvarnarflokkunum að viðurkenna aldrei mistök. Þegar einhver verður reiður við þá á að bregðast við með því að verða reiður yfir reiðinni. Helst af heilagri vandlætingu. Að kenna viðbrögðunum um aðstæðurnar sem skapast frekar en að líta í eigin barm og viðurkenna mistökin sem hafa svo augljóslega verið gerð.
Lykilorð sem notuð eru í þeirri viðspyrnu eru pólitískar ofsóknir, galdrabrennur, ístöðuleysi og múgæsingur. Það er því mikilvægt að anda með nefinu í gegnum þennan storm og láta ekki þaulæfða viðbragðsvélina, sem kann betur en allir aðrir að kasta drullu og þvæla umræðu með því að hengja sig í aukaatriði, byrgja sér sýn á stöðuna sem upp er komin. Þar sem hagsmunir þeirra fáu til að leynast eru teknir fram yfir hagsmuni allra hinna til að vita.
Ákvarðanir hafa afleiðingar
Það eru blæðandi samfélagssár á Íslandi. Þau eru tilkomin vegna þess að kerfin okkar hafa verið til fyrir hina fáu og í sumum tilfellum unnið beinlínis gegn öllum hinum. Þess vegna erum við svona reið þrátt fyrir að vera svona rík. Það þarf auðmýkt og skýran vilja til breytinga til að græða þessi sár. Ekki valdhroka.
Skilaboð Bjarna Benediktssonar á blaðamannafundi á föstudag sýndu ekki snefil af auðmýkt. Þau voru einfaldlega að það vanti fleiri eins og okkur en færri eins og ykkur. Brynjar Níelsson, sem hefur sjálfur staðið fast í vegi fyrir aðgengi almennings að uplýsingum sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hefur síðan hamrað þá stefnu inn með því að kalla aðra stjórnmálamenn sem telja leyndarhyggju óboðlega „fullkomin flón“. Fjölmiðlafólk með áratuga reynslu sem skrifa skynsamar skoðanagreinar um atburðarásina eru „blaðabörn“ sem hefðu betur lesið Reykjavíkurbréf Davíðs Oddssonar áður en þau fóru að hugsa sjálfstætt. Og stjórnmálaflokkar sem standa fast á prinsippum sínum eru að setja „heimsmet í vitleysu“. Gamlir Sjálfstæðismenn sem taki undir gagnrýnina eru komnir í hóp með „upphlaupslýð“. Þessi mantra er sífellt endurtekin af stórum hópi annarra úr Valhallarvélinni samhliða því að gagnrýnendur eru ásakaðir um gífuryrði og offors. Heygafflastemmningu. Staðan er öllum öðrum að kenna en þeim sem hún er bersýnilega að kenna. Hópurinn sem bjó til kerfið er brjálaður út í hópinn sem er brjálaður út í kerfið fyrir að vera brjálaður.
Líta þarf fram hjá þessu að öllu leyti og einbeita sér að aðalatriðum málsins. Þau eru að valdamenn tóku ákvörðun um að leyna almenning upplýsingum. Þær ákvarðanir hafa takmarkað getu kjósenda til taka upplýstar ákvarðanir fyrir kosningar. Þær hafa valdið þolendum hræðilegra afbrota, og aðstandendum þeirra, algjörlega óþörfum viðbótar sársauka. Og þær hafa aukið á óeiningu í samfélaginu.
Spilling er samkvæmt orðabók hugtak sem þýðir misnotkun á valdi eða stöðu þar sem einstakir aðilar eða hópur þeirra nýtir sér aðstöðu sína á óeðlilegan hátt til að hafa áhrif á stöðu mála. Það ferli sem við höfum upplifað á síðustu dögum er því tær spilling.
Ákvarðanirnar sem voru teknar voru valkvæðar. Og þær höfðu afleiðingar.
Þess vegna erum við að fara að kjósa í annað sinn á rúmu ári.