Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að veruleg fólksfækkun hefur átt sér stað á Vestfjörðum undanfarna áratugi. Einkennandi við þessa fólksfækkun hefur verið að Ísafjörður, sem er stóri þéttbýlisstaðurinn á svæðinu hefur oft á tíðum líka liðið fyrir nákvæmlega sömu fólksfækkun/flutninga sem er ekki í samræmi við aðra stóra þéttbýlisstaði í öðrum landsfjórðungum. Vegna m.a. þessa hafa Byggðastofnun, bæjar- og sveitastjórnir auk margra rannsóknarstofnana skilað af sér skýrslum og greinargerðum um hvernig sé hægt að snúa þessari þróun við og hvaða tækjum skuli beitt (sjá heimildir 1, 2, 3, 4, 5, 6, 7).
Nú síðast skilaði nefnd á vegum sveitarfélaga á Vestfjörðum af sér skýrslu þar sem tekið var saman hvað hægt væri að gera til að stöðva þá fólksfækkun sem orðið hefur og helst auka mannfjölda á svæðinu (8). Sú nefnd kom eingöngu með sömu gömlu lausnirnar og í öllum hinum skýrslunum frá samskonar nefndum. Jafnframt skilaði svo Byggðastofnun skýrslu um byggðarleg áhrif fiskeldis (9).
Nú er það svo að allar skýrslur um þessi mál hafa eingöngu birt gögn (niðurlút línurit) um hversu marga hefur fækkað í hverju sveitarfélagi eða byggðakjarna á hverju ári og látið eins og þarna sé sífellt hoggið skarð í.
Samkvæmt tölum Hagstofunnar fluttu 466 manns burt frá Ísafirði á árinu 2016 en 458 til Ísafjarðar (árið 2016 var alls ekki versta árið). Sömu sögu er að segja af Bolungarvík, Árneshreppi á Ströndum, Bíldudal og Tálknafirði (sjá súlurit á mynd 1 a,b, c, d og e). 15-25% íbúa flytja burt frá stöðunum á hverju einasta ári (aðrir staðir voru ekki kannaðir hér). Þannig hefur þetta verið síðustu áratugi á þessum stöðum og það versta er að það koma oftast færri til staðarins heldur en fara. Ekki það að svona sé þetta ekki á öðrum stöðum á landinu. Þannig er t.d. um 15-20% fólks í flutningum til og frá Reykjavík síðustu ár. En þetta verður miklu meira áberandi og erfiðara í þessum litlu byggðarlögum heldur en í stærri bæjum.
Mynd 1. Sýnir aðflutta og brottflutta nokkurra staða á Vestfjörðum. X-ás sýnir fjölda einstaklinga sem flutt hafa, aðfluttir (bláir, + tala), brottfluttir (gulir, - tala).
Af þeim sem flytja á brott frá Vestfjörðum fer um helmingur til höfuðborgarsvæðisins, fjórðungur fer úr landi og fjórðungur dreifist á hina landsfjórðungana. Um fimmtíu færri flytja til Vestfjarða frá höfuðborgarsvæðinu árlega en flytjast þangað frá Vestfjörðum.
Á suðurfjörðunum (Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur) hefur verið talað um að ástandið hafi batnað síðustu ár með tilkomu nýs atvinnurekstrar. Þannig var Bíldudalur t.d. ekki lengur talin brothætt byggð samkvæmt einhverri furðulegri skilgreiningu því það fluttu fleiri einstaklingar þangað en á burt þaðan nokkur ár í röð, þrátt fyrir að á sjötta tug einstaklinga hafi flutt þaðan árin á eftir (og svipað á staðinn). Eftir að kalkþörungavinnslan og laxeldið fór af stað hefur orðið fjölgun en það eru líka enn fleiri fjölskyldur sem flutt hafa á brott (sbr. Mynd 1d, berið saman brottflutta 2014 og 2015). Fólk heldur áfram að flytja burt ár eftir ár og aðrir, aðeins færri/fleiri koma í staðinn. Á öðrum stað á suðurfjörðum, Tálknafjarðarhreppi hefur hins vegar fækkað um 70 manns á sama tíma (2011-2016), svo ástandið er litlu betra en það var. Hversu margir af þeim sem fluttu frá Tálknafjarðarhreppi fluttu til Bíldudals? Hefur einhver skoðað það?
Menn mér miklu fróðari hafa skrifað langar skýrslur um ástæður brottflutnings fólks frá Vestfjörðum, gert spurningalista og reynt að setja puttana á hvað veldur þessari fækkun. Samfélögin hafa liðið fyrir kvótakerfið, fólki hefur fækkað stöðugt þar síðan kerfið var tekið upp. Af einhverjum ástæðum fóru líka mörg fiskvinnslufyrirtæki Vestfjarða á hausinn eftir ofurskuldlagningu á árunum 1982-1994. Eftir snjóflóðin á Flateyri og Súðavík, sem mörkuðu djúp spor í samfélagið, varð síðan nánast frjálst fall í íbúafjölda og féll íbúafjöldinn svipað það ár og samtals næstu 5 ár þar á eftir.
Jafnframt þessu er hluti fólks sem vill flytja burt en er í átthagafjötrum, getur ekki selt húsnæði sitt á sómasamlegu verði og „neyðist“ því til að vera áfram a.m.k. þar til næsta vonarstjarna um fólksfjölgun ber við himin.
Er atvinnuleysið að valda þessum fólksflutningum og viðvarandi fólksfækkun?
Svarið er nei, atvinnuleysi á Vestfjörðum hefur nánast alla tíð verið í algjöru lágmarki þrátt fyrir að nokkur fyrirtæki hafi leikið þann leik ár eftir ár að henda starfsfólki á atvinnuleysisbætur þá mánuði sem ekkert hráefni er að hafa. Sú aðgerð hækkar ársmeðaltalstölur um atvinnuleysi en þó er það lægra en í flestum öðrum byggðarlögum. Það er hins vegar bæði niðurlægjandi og niðurdrepandi fyrir starfsfólk að komið sé fram við það á þennan hátt og má færa fyrir því rök að fólk sætti sig ekki við þannig framkomu til lengdar. Væri því fróðlegt að fá upplýsingar um það hversu margir starfsmenn hafa farið í gegn hjá þessum fyrirtækjum síðustu ár. Getur verið að þetta séu í einhverjum tilfellum sömu fyrirtækin/einstaklingarnir ár eftir ár og sem núna ætla að fara maka krókinn á laxeldi með sömu framkomu við starfsfólk milli sláturtímabila?
Það getur hins vegar verið að fjölbreytni atvinnutækifæra, atvinnuöryggi og hverjir fái bestu störfin hafi sitt að segja um val fólks við búsetu.
Skjótvirkir rándýrir megrunarkúrar
Lausnir Íslendinga við vanda byggðaþróunar má líkja við það að vera í sífellu að kaupa sér nýja og nýja skjótvirka megrunarkúra þrátt fyrir að flestir viti að til að léttast þarftu bæði að breyta mataræði og fara að stunda hreyfingu samhliða. Lífstílsbreyting sem getur tekið mörg ár. Og þannig er það með refaræktina, minkaræktina, rækjuvinnslurnar, risarækjueldið, kvótann sem öllu átti að bjarga, eða ekki kvóta því að hann er skemmandi fyrir byggðarlögin, byggðakvóta, kvótann til baka!, fiskeldið, kísilver, olíuhreinsistöð o.s.frv.
Að hætti Íslendinga er vaðið í hvern rándýra megrunarkúrinn á fætur öðrum og nánast allt hefur farið á hausinn og í hvert skipti sem byrjað er á einhverju nýju þá er talað um að þetta fari nú ekki svona núna, það séu svo miklir möguleikar til vaxtar og peningarnir muni drjúpa af hverju strái í sveitum og byggðum landsins.
Þrátt fyrir þetta hafa ekki nema örfáir einstaklingar orðið vellauðugir af svona ævintýrum og áfram heldur fólki að fækka.Þrátt fyrir þetta hafa ekki nema örfáir einstaklingar orðið vellauðugir af svona ævintýrum og áfram heldur fólki að fækka. Af einhverjum ástæðum þorir almenningur í þessum byggðarlögum ekki að viðra andstæðar skoðanir því þeim gæti hreinlega verið úthýst eins og dæmin sanna. Á austfjörðum máttu menn t.d. búa við andlegt ofbeldi við innkaup í matvöruverslunum þar sem hótanir og illmælgi mættu andstæðingum álvers og Kárahnjúkavirkjunar.
Að auki hafa hlutir eins og bættar samgöngur, göng í gegnum fjöll, malbikaðir vegir, betri nettengingar oft orðið til þess að fólk hefur í enn meira mæli flutt til annarra, stærri byggðarlaga. Þetta er orðið eins og öfugmælavísa. Það er hins vegar alveg ljóst að hluti af lausn á vanda Vestfirðinga er að þar séu ásættanlegar samgöngur (hvað sem það nú þýðir?), hraðvirkar nettengingar og nægilegt rafmagn. Það má hins vegar deila um hvaðan það rafmagn á að koma og hvernig eigi að koma því alla leiðina vestur. En það er efni í aðra grein.
Augnsjúkdómar Íslendinga
Stundum er eins og einstaklingar verði alveg blindaðir af von fyrir byggðarlögin sem þeir búa í. Þetta verður að einhvers konar smitfaraldri þegar nýir megrunarkúrar taka völdin í huga þeirra og hluta hvers samfélags. Sumir þessara einstaklinga (í mörgum tilfellum karlmenn komnir af léttasta skeiði) hika ekki við að slá fram alls konar fullyrðingum og ósannindum án þess að hafa haft fyrir því að kynna sér hlutina. Sérfræðingar að sunnan/norðan/austan/vestan eru eins og eitur í beinum þessara einstaklinga ef þeir hafa andstæðar skoðanir. Virðist engu skipta þótt allt hafi farið á hausinn aftur og aftur í hverju byggðarlaginu á fætur öðru, áfram skal haldið með bundið fyrir bæði.
„Ísland er maðksmogið og mergsogið af hyglingum“ (haft eftir Braga Kristjónssyni í viðtali í Kiljunni eftir minni höfundar)
Vandi byggðarlaganna á Vestfjörðum er ekkert einsdæmi. Ástæður fyrir brottflutningi fólks eru örugglega jafn mismunandi og fólk er margt en þegar margar ástæður koma saman hver ofan á aðra þá fara einstaklingarnir/fjölskyldurnar burt, hver á sínum eigin forsendum. Það er engin smá ákvörðun að rífa fjölskylduna upp með rótum og flytja annað.
Þegar skoðaðir eru þættir sem hafa áhrif á búferlaflutninga eru oftast nefnd dæmi eins og skortur á þjónustustigi, menningu, afþreyingu, félagsstarfi, skortur á skólaumhverfi, heilsugæslu, aðgangur að netþjónustu, vegasamgöngur og skortur á rafmagni, húsnæðisverð o.s.frv. Enginn þorir að minnast á enn eina ástæðuna sem skiptir örugglega ekki litlu máli og það er klíkusamfélagið og smákóngabisnessinn í öllum samfélögum. Þetta smákónga- og klíkusamfélag sem við höfum búið við síðustu áratugi er ekkert skárra á höfuðborgarsvæðinu. Þar er það bara betur falið vegna mannfjöldans og því hafa litlir frumkvöðlar aðeins meiri tækifæri til að komast áfram og selja hugmyndir sínar. Þetta er hins vegar miklu meira áberandi í litlum byggðakjörnum úti á landi, þar sem rétt tengdir aðilar, í réttum flokki, með rétt fjölskyldutengsl komast í álnir án þess að hafa neitt sérstakt til þess unnið.
Andverðleikafólkið fær sitt, hvað sem tautar og raular. Í starf (sem er ekki pólitískt en þarfnast ákveðinnar menntunar) hjá bænum er ráðinn einstaklingur sem er meðlimur í réttum stjórnmálaflokk og er hann tekinn fram yfir annan með miklu meiri reynslu og menntun, þrátt fyrir að sá fyrrnefndi hafi ekki einu sinni lokið námi. Fjölbýlishús í einum bænum er selt af bæjarfélaginu til „vildarvinar“ og síðan leigir bæjarfélagið fjölbýlishúsið aftur af viðkomandi til áratuga og það þrátt fyrir að aðrir í bænum hafi haft áhuga á að kaupa viðkomandi eign til uppbyggingaratvinnurekstrar. Stóru atvinnurekendurnir komast upp með allt gagnvart starfsfólki sínu og samfélaginu. Þeir sem eru að kvarta geta búist við að fá ekki vinnu síðar meir. Stór atvinnurekandi auglýsir eftir fólki í fiskvinnslu en neitar að ráða Íslendinga, vill bara skammtímaráða útlendinga. Litlir atvinnurekendur sem reyna að koma undir sig fótunum fá lítinn stuðning ef þeir eru ekki með rétt tengsl og réttar skoðanir sem henta valdasamfélaginu. Bæjarstjórar koma sjaldan fram í fjölmiðlum og berjast fyrir litla atvinnurekandann. Þöggun innan samfélagsins er á tíðum gríðarsterk. Sömu aðilarnir og sömu fjölskyldurnar eru jafnvel ráðandi bæði í atvinnurekstri og innan stjórnkerfis bæjarfélaganna í margar kynslóðir og börn og barnabörn þeirra sem ekki hafa enn komið sér burt, koma sér smám saman í bæjar og sveitarstjórnir (og síðar inn á Alþingi) og halda áfram sama leiknum með sömu ömurlegu megrunarkúrunum.
Gæti verið að þessi fólksfækkun á hverju ári sé að einhverju leyti tilkominn vegna þess hvernig þessu er háttað og hluti fólks átti sig á því að hvorki það, hvað þá heldur börnin þess, muni nokkru sinni komast áfram í þessu samfélagi?
Gaman væri að heyra raddir þeirra þúsunda íbúa Vestfjarða sem flutt hafa burt. Ef að taka á til, verður að byrja innan frá, ekki á enn einni „töfralausninni“. Ég veit nefnilega að margir hafa hvergi átt betri tíma en þegar þeir bjuggu á Vestfjörðum og hugsa dreymandi til baka með bros á vör. En aðstæður á staðnum hreinlega báru það ofurliði, allt of margt var að, svo þrátt fyrir marga yndislega vini, frjálsræði og þægilegt, barnvænt umhverfi urðu viðkomandi að flytja burt.
Höfundur er líffræðingur, vísinda- og uppfinningamaður.
ATH. Allar þær tölur sem hér eru settar fram eru fengnar hjá Hagstofu íslands, Þjóðskrá og Vinnumálastofnun auk upplýsinga úr mörgum rannsóknarskýrslum og vísindagreinum sem vísað er í með heimildaskrá aftan við greinina.
Heimildir:
- Rúnar Jón Hermannsson 2014 Byggðaþróun á Vestfjörðum. Lokaverkefni til BA-gráðu
- Þóroddur Bjarnason 2012, fyrirlestur um „Samgöngur og byggðaþróun á Vestfjörðum“
- Byggðastofnun 2014 Vestfirðir, Stöðugreining. Ritstj. Árni Ragnarsson
- Fjórðungsamband Vestfirðinga 2007, Mannfjöldaþróun á Vestfjörðum. Fyrirlestur
- Byggðastofnun 2017 Byggðaþróun á Íslandi. Ritstj. Árni Ragnarsson
- Gunnar Páll Eydal ofl. 2016 Stefnumörkun sveitarfélaga á Vestfjörðum.
- Bjarki Jóhannesson 2001, Þáttur menntunar í byggðaþróun
- Ágúst Bjarni Garðarsson ofl. 2016 Aðgerðaráætlun fyrir Vestfirði
- Sigurður Árnason, Byggðastofnun 2017 Byggðaleg áhrif fiskeldis