Síðustu vikur hafa verið þéttsetnar hneykslismálum sem hafa rifið aftur upp hið blæðandi sár sem íslenskt samfélag hefur burðast með síðastliðinn tæpa áratug. Öll eiga þau það sameiginlegt að hluti landsmanna hefur upplifað sig sem þolendur leyndarhyggju, sérhagsmunagæslu eða óheiðarleika. Annar hluti landsmanna upplifir síðan sömu aðstæður sem pólitískar ofsóknir gagnvart þeim sem hann telur raunverulegu fórnarlömbin, þá stjórnmálamenn sem eru til umfjöllunar. Og að gerendurnir séu óbilgjarnir fjölmiðlar eða pólitískir óvildarmenn.
Halla Tómasdóttir gerir þessa stöðu – þetta blæðandi sár – að umtalsefni í viðtali í Mannlífi, nýju fríblaði sem Kjarninn stendur að í samstarfi við Birting. Þar segir hún að Ísland glími við forystukrísu, að við höfum svipt hulunni af miklum óheiðarleika á undanförnum árum og glatað því trausti sem nauðsynlegt er til þess að gildur samfélagssáttmáli sé til staðar. Orðrétt segir hún: „„En það sem okkur hefur ekki tekist að gera er að sýna fram á að heiðarlegt samfélag hafi tekið við af því óheiðarlega samfélagi sem við horfðumst svo grimmilega í augu við þegar allt hrundi. Það verkefni er flókið. En það er enginn að veita því verkefni forystu í samfélaginu.“
Halla hefur mikið til síns máls.
Margþættar ástæður fyrir skorti á trausti
Viðfangsefnið, að endurheimta traust til að ná sátt í samfélaginu, er bæði menningarlegt og stofnanatengt. Það er menningarlegt vegna þess að til forystu í samfélaginu okkar hefur valist fólk sem margt hvert getur vart farið út úr húsi nema að lenda í hagsmunaárekstri eða hneykslismálum. Og oftar en ekki skortir því auðmýkt til að geta tekist á við þær aðstæður með hætti sem eykur traust fremur en að draga úr því.
Almenningur stendur stanslaust frammi fyrir vendingum sem eru þess eðlis að hann þarf að velta því fyrir sér hvort að leiðtogar okkar séu heiðarlegt fólk eða ekki. Og réttur leiðtogana til að njóta vafans án þess að hann hafi áhrif á kröfu þeirra til áhrifa virðist ætið vera settur ofar en réttur fólksins til að losna við þennan efa.
Þetta er stofnanalegt viðfangsefni vegna þess að aðgengi fjölmiðla og almennings að upplýsingum er enn takmarkað og háð gerræðislegu mati stjórnmála- og embættismanna. Upplýsingalög eru til að mynda hér með þeim hætti að heimilt er að synja um aðgengi að gögnum teljist þau vinnugögn. Í lögunum segir að vinnugögn teljist „þau gögn sem stjórnvöld eða lögaðilar[...]hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls.“ Það má því segja að flokka megi nær öll gögn sem vinnugögn vilji sá sem ber ábyrgð á ákvörðuninni ekki afhenda þau.
Það hafa líka komið upp dæmi þar sem stjórnvöld hafa einfaldlega valið að upplýsa ekki fjölmiðla um efni sem þeir hafa spurt um án þess að vísa í neitt sérstakt. Eitt slíkt dæmi átti sé stað í mars 2015 þegar Kjarninn sendi fyrirspurn á upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar og óskaði eftir upplýsingum um hvort ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, eða fjölskyldur þeirra, ættu eignir erlendis utan hafta. Upplýsingafulltrúinn vísaði fyrirspurninni til skrifstofustjóra sem neitaði að svara fyrirspurninni. Hann sagði það ekki í verkahring forsætisráðuneytisins að gera það og að lög krefðust þess ekki. Fyrirspurnin var þrátt fyrir þetta ítrekuð í nokkur skipti en án árangurs.
Ári síðar opinberuðu Panama-skjölin að þrír ráðherrar tengdust aflandsfélögum. Og að einn þeirra væri kröfuhafi í bú fallina banka.
Það eru ekki bara stjórnmálamenn sem eru tregir til að upplýsa og skýla sér á bakvið vítt ákvæði í lögum til að neita fjölmiðlum um sjálfsagðar upplýsingar sem varða almenning.
Í lögum um Seðlabanka Íslands er sérstakt ákvæði um þagnarskyldu bankans „um allt það sem varðar hagi viðskiptamanna bankans og málefni bankans sjálfs“. Nú hefur Seðlabanki Íslands verið miðpunktur þeirrar endurskipulagningar sem átt hefur sér stað hérlendis á árunum eftir hrun. Eignarhaldsfélag í hans eigu, Eignarsafn Seðlabanka Íslands, hefur tekið yfir og selt eignir fyrir hundruð milljarða króna. Gjaldeyriseftirlit bankans hefur tekið ákvarðanir um hverjir fá undanþágur frá mjög ströngum fjármagnshöftum sem hér voru við lýði árum saman og hverjir ekki og dæmi hafa komið upp þar sem ekki virðist hafa verið farið eftir almennum reglum hvað það varðar. Og bankinn bauð upp á sérstaklega leið, Fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands, sem 794 efnaðir íslenskir einstaklingar eða lögaðilar nýttu sér til að ferja fé hingað til lands framhjá höftum. Þessi hópur fékk 17 milljarða króna í virðisauka á það fé sem hann kom með inn í landið eftir leiðinni.
Með vísan í ofangreint þagnarskylduákvæði hefur Seðlabanki Íslands neitað Kjarnanum, og fleiri fjölmiðlum, um mikið magn sjálfsagðra upplýsinga sem almenningur á að eiga fullan rétt á að fá. Og vegna þessarar innbyggðu leyndarhyggju lagast ekki traustkrísan sem við erum að eiga við.
Vanalega er viðgerðin nefnilega nærtækari
Hverju hefur þetta skilað okkur? Jú, að 22 prósent landsmanna treysta Alþingi. Að 22,5 prósent landsmanna styðja ríkisstjórnina. Að einungis 33 prósent treysta Seðlabankanum. Að 19 prósent treysta Fjármálaeftirlitinu og 14 prósent bankakerfinu.
Til að endurheimta traust á þessum stofnunum þurfa stjórnmálamennirnir okkar, og aðrir leiðtogar í samfélaginu, að sýna það í verki að þeir ætli að breyta um forgangsröðun. Það þýðir ekki að kenna látunum á samfélagsmiðlum eða karpi úr ræðustól Alþingis um. Það þýðir ekki alltaf að horfa út á við en sleppa því að horfa inn á við. Vanalega er viðgerðin nefnilega nærtækari.
Og það er hægt að endurheimta traust ansi hratt. Við sáum það til að mynda þegar forseti sem setið hafði í 20 ár, og mjög margir töldu að væri ekki með hagsmuni almennings að leiðarljósi, hætti síðasta sumar. Sá hafði verið verulega umdeildur og ánægja með störf hans mælst á bilinu 45-64 prósent. Nýr forseti kom úr allt annarri átt, ekki hefur verið efast um hvaða erinda hann gangi og ekki er talið líklegt að hann rati í nokkra sýnilega hagsmunaárekstra í starfi sínu. Niðurstaðan er sú að 85 prósent landsmanna eru ánægðir með nýja forsetann, en einungis 2,8 prósent óánægðir.
Pólitísk hugmyndafræði mun ekki leysa traustkrísuna sem við glímum við. Svörin liggja ekki í vinstri eða hægri. Þau liggja í því að leiðtogar, hvar sem þeir staðsetja sig á hinu pólitíska litrofi, séu réttsýnt fólk sem hinn almenni borgari getur samsamað sér við.
Við þurfum leiðtoga sem almenningur þarf ekki alltaf að vera að velta fyrir sér hvort séu heiðarlegir eða ekki. Hvort þeir hafi misnotað aðstöðu sína eða ekki. Sem ráðast á fjölmiðla fyrir að upplýsa í stað þess að sýna auðmýkt og læra af eigin mistökum.
Þá fyrst getum við undirritað nýjan samfélagssáttmála.