Í gær var sett lögbann á frekari umfjöllun Stundarinnar og Reykjavik Media sem byggir á upplýsingum innan úr Glitni banka. Í beiðninni segir að það sé „erfitt að mæla það tjón á ímynd og orðspori gerðarbeiðanda sem af háttsemi gerðarþola hlýst. Af þeim sökum leiðir ólögmæt háttsemi gerðarþola til skerðingar á réttindum gerðarbeiðanda þannig að ekki verði úr bætt síðar.“ Glitnir, banki sem féll á Íslandi fyrir níu árum síðan með gríðarlegum samfélagslegum áhrifum, telur að umfjöllun Stundarinnar um bankaviðskipti stjórnmálamanns sem nú gegnir mestu valdastöðu lýðveldisins, geti skaðað ímynd og orðspor sitt. Það er firring að halda að Glitnir, fyrrverandi sparibaukur fjárglæframanna sem olli fjölmörgum venjulegum Íslendingum ómældum skaða með framferði sínu, geti skaðað ímynd sína meira en hann gerði með eigin athæfi á meðan að bankinn var starfandi. Og orðspor bankans er fyrir löngu ónýtt.
Þá er tekið fram í beiðninni að birting þeirra upplýsinga sem Stundin hefur unnið fréttir úr geti rýrt orðspor einstaklinga úr hópi fyrrverandi viðskiptavina Glitnis, valdið þeim „verulegum óþægindum, vanlíðan og andlegum þjáningum.“
Samandregið eru þeir lögvörðu hagsmunir sem Glitnir telur sig eiga fyrir því að fara fram á lögbann þeir að félagið, sem í dag er eignarhaldsfélag utan um eftirstandandi eignir gjaldþrota banka, telur frekari fréttir geta valdið sér orðsporsáhættu, geti skaðað ímynd sína og bakað sér skaðabótakröfu.
Þöggunartól
Lögbannskrafan sem lögð var fram í gær er þöggunartól. Allir löglærðir menn sem ég hef rætt við segja engar líkur á að hún haldi fyrir dómstólum. En lögbannið, verði það virt, mun tefja frekari umfjöllun þeirra miðla sem það nær til fram yfir komandi kosningar. Niðurstaða í málinu fyrir dómstólum mun ekki koma fyrr en eftir að þeim verður lokið.
Rök Glitnis eru stórhættuleg. Samkvæmt þeim er verið að gefa sér að sér að fjallað verði um einhverja sem upplýsingar eru um í gögnunum sem geti orðið fyrir einhverskonar skaða vegna þeirrar umfjöllunar.
Stundin hefur hins vegar ekki birt fréttir byggðar á gögnunum um neinn annan en forsætisráðherra þjóðarinnar og ættingja hans. Þær átta fréttir sem miðillinn hefur birt eru allar þess eðlis. Um hvað eru þær fréttir? Þær eru um það að Bjarni Benediktsson hafi selt allar eignir sínar í Sjóði 9 dagana fyrir bankahrun og að þær eignir hafi verið 50 milljóna króna virði. Í desember í fyrra hafði Bjarni verið spurður í sjónvarpsþætti á Stöð 2 út í eign sína í Sjóði 9 og hvort hann hefði selt. Þá svaraði hann því til að hann hefði ekki átt neitt sem skipti máli í sjóðnum.
Í umfjöllun Stundarinnar hefur einnig verið fjallað um tveggja milljarða króna kúlulán sem eignarhaldsfélag Bjarna og náinna fjölskyldumeðlima hans fengu til að kaupa allt hlutafé í N1, stærsta eldsneytissala landsins, 50 milljón króna kúlulánaskuld hans sem var færð yfir á skuldsett eignarhaldsfélag Bjarna sem var síðan slitið og um að vitnisburður Bjarna í Vafningsmálinu svokallaða stangist á við þau gögn sem Stundin, Reykjavik Media og The Guardian hafi undir höndum.
Þá hefur Stundin einnig greint frá því að gögnin sem miðillinn hafi undir höndum sýni að Bjarni hafi verið virkur þátttakandi í viðskiptum aflandsfélagsins Falson. Í þeim gögnum kemur líka skýrt fram að félagið var skráð á Seychelles-eyjum. Bjarni sagði í fyrravor að hann hefði ekki vitað að félagið var skráð á þeim stað. Áður hafði hann sagt í viðtali við Kastljós að hann hefði hvorki átt eignir né átt viðskipti í skattaskjólum.
Stundin hefur því fjallað um samspil stjórnmála og viðskipta. Hún hefur upplýst almenning um þá fyrirgreiðslu sem núverandi forsætisráðherra fékk í bankakerfinu fyrir hrun, sem fólst meðal annars í háum lánveitingum til að kaupa fyrirtæki og skuldskeytingu sem sannarlega ekki öllum býðst. Stundin hefur fjallað um, út frá gögnum, að ýmislegt sem forsætisráðherrann hefur sagt opinberlega stangist á við það sem fram kemur í gögnunum.
Með því hefur Stundin sinnt sjálfsögðu og nauðsynlegu aðhaldshlutverki sínu. Bjarni er ábyrgur fyrir því sem hann segir á opinberum vettvangi og verður að sjálfsögðu að þola umfjöllun um það ef gögn sýna að fyrri staðhæfingar hans gangi ekki upp.
Öll umfjöllun Stundarinnar er því fullkomlega eðlileg og á fullt erindi við almenning. Enda hefur andlag fréttanna, Bjarni sjálfur, ekki farið fram á lögbann eða sagst ætla að stefna miðlunum fyrir ranga framsetningu. Lögbannskrafan, eins hjákátlega og það hljómar, skaðar hann ugglaust meira en frekari fréttaflutningur hefði gert.
Ritskoðun
Málsvörn Glitnis í málinu er fölsk. Lögbannskrafan er allt of víðtæk og hún felur í sér ritskoðun. Það er ekki verið að leggja bann við neinni sértækri umfjöllun, heldur verið að hindra að eitthvað órætt verði skrifað sem hefur enn ekki verið birt. Ákvörðun sýslumanns að fallast á beiðnina felur í sér geðþóttaákvörðun um að ekkert í þeim gögnum sem Stundin hefur skrifað fréttir upp úr eigi erindi við almenning. Líkt og Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður Stundarinnar, sagði við RÚV í gær þá er það ekki ákvörðun sem tilheyrir sýslumanni. Ákvörðun um hvað eigi erindi við almenning og hvað ekki er tekin inni á ritstjórnarskrifstofum fjölmiðla. Þeir sem eru ósáttir við umfjöllun þeirra, og telja á sér brotið, geta síðan stefnt fjölmiðlum fyrir að valda sér miska telji þeir umfjöllunina ranga eða ólöglega.
Þetta mál kemur í kjölfar þess að fyrrverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þjóðarinnar hótaði því að stefna þremur fjölmiðlum eftir kosningar vegna umfjöllunar um Wintris-málið. Kjarninn var augljóslega einn þeirra miðla. Sigmundur Davíð hefur aldrei gert efnislega athugasemd við í fréttaflutningi Kjarnans um Wintris-málið, enda getur hann það ekki þar sem hann byggir á staðreyndum. Umfjöllun um Wintris-málið var auk þess gríðarlega mikilvæg fyrir lýðræðislega umræðu í landinu. Og hún var auðvitað sönn að öllu leyti, sem er það sem skiptir mestu máli. Í henni var upplýst að forsætisráðherra þjóðarinnar var kröfuhafi í bú föllnu bankanna á sama tíma og stjórnvöld voru að leysa úr málefnum þeirra. Þar var einnig upplýst um tilurð aflandsfélags í eigu forsætisráðherrahjónanna, og sem síðar var einungis í eigu eiginkonu hans. Og afleiðingin af þessu var meðal annars sú að breyta þurfti skattskilum þeirra hjóna þar sem þau voru ekki í samræmi við lög og reglur.
En alvarlegast af öllu er að í framferði Sigmundar Davíðs fellst mjög alvarleg og illa dulbúin hótun til til þriggja fjölmiðla frá manni sem er í framboði og sækist eftir völdum í samfélaginu um að ef þeir hætti ekki að fjalla um Wintris-málið þá muni það hafa þessar afleiðingar. Þetta er fordæmalaus aðför að lýðræðislegri umræðu, tilraun til ritskoðunar og árás á tjáningarfrelsið.
Fyrir hvern á að þegja?
Bæði ofangreind mál, lögbannið og hótun Sigmundar Davíðs, koma í kjölfar tímabils þar sem fordæmalaust magn af málum tengdum íslenskum stjórnmálamönnum hafa verið opinberuð af fjölmiðlum, þrýstingur stjórnmálamanna á fjölmiðla um að hætta slíkum opinberunum hefur aldrei verið meiri og stjórnvöld hafa valið að sitja hjá á meðan að sérhagsmunaöfl hafa getað borgað milljarða króna til að hafa áhrif á umræðuna í gegnum fjölmiðla sem þau ákveða að beita fyrir sig, með alvarlegum rekstrarlegum áhrifum fyrir alla þá sem reyna að reka fjölmiðla með eðlilegum hætti.
Það er stanslaust verið að reyna að fá okkur til að þegja. Þeir sem lögðu fram lögbannskröfuna á Stundina eru að reyna það. Sigmundur Davíð reyndi það. Allir stjórnmálamennirnir sem hafa tjáð sig um fjölmiðla með óeðlilegum hætti á undanförnum árum reyndu það. Kerfið, sem umber yfirtöku sérhagsmunaafla á stærstu fjölmiðlasamsteypum landsins, reynir það.
En fyrir hverja hvern eigum við að þegja? Er það hagur almennings að fjölmiðlar hlýði þessum aðförum?
Svarið er einfalt. Það er nei. Og trúnaður frjálsra fjölmiðla er við almenning. Tilgangur þeirra er að upplýsa og setja í samhengi. Þeir gegna lykilhlutverki í lýðræðislegri umræðu. Án þeirra er bara spuni og valdboð.
Hægt er að gerast stuðningsmaður Kjarnans hér.