Síðustu vikurnar hef ég tekið viðtöl við blaðamenn og lögfræðinga af því að ég er að skrifa litla bók um tjáningarfrelsið og íslenska fjölmiðla. Á þessum örfáu vikum hefur fyrrverandi forsætisráðherra Íslands, Sigmundur Davíð, hótað m.a. Kjarnanum lögsóknum eftir kosningar, en það var nýskeð daginn sem ég tók viðtal við Þórð Snæ Júlíusson, og daginn sem ég mætti á Stundina til að taka viðtal við Jón Trausta Reynisson þurftum við að hætta spjallinu í miðjum klíðum því hann þurfti að taka á móti lögmönnum vegna lögbannsins sem er krafist á umfjöllun í Stundinni um viðskipti núverandi forsætisráðherra Íslands við banka sem féll í hruninu með miklum afleiðingum fyrir íslenskan almenning.
Að Sigmundur Davíð skuli hóta lögsóknum eftir kosningar lítur út fyrir að vera tilraun til að hafa áhrif á umræðu fyrir kosningar en það var áður en krafan um lögbannið setti allt á hvolf – svo hann hefði getað sparað sér ómakið.
Stöðugar hótanir um málsóknir
Þessir tveir smáu en knáu fjölmiðlar, Kjarninn og Stundin, mega búa við stöðugar hótanir um málsóknir. Jón Trausti hefur þurft að standa af sér á annan tug meiðyrðamála, bæði sem blaðamaður og ritstjóri, og unnið öll nema það fyrsta – sem hann trúir í dag að hefði unnist hefði það farið áfram til mannréttindadómstóls Evrópu. Og Þórður Snær segir mér að ritstjórnin á Kjarnanum búi svo vel að eiga að velviljað fólk, lögfræðinga sem eru reiðubúnir að vinna frítt fyrir fjölmiðilinn í málum sem þessum en slík málsókn gæti að öðrum kosti gert út af við miðilinn.
Hér er hlutfall meiðyrðamála sem rata fyrir dómstóla miklu hærra en í nágrannaríkjum okkar, skilst mér svo á Örnu Schram, nefndarmanni í fjölmiðlanefnd og Heiðdísi Lilju Magnúsdóttur, lögfræðingi fjölmiðlanefndar, sem sátu fyrir svörum á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis um lögbannsmál Stundarinnar og Reykjavík Media sem ég sat í þrjár áhugaverðar klukkustundir.
Vilhjálmur að grínast?
Í sjálfu sér var áhugavert að sitja þarna með fulltrúum allra stjórnmálaflokkanna og heyra þá ræða hugmyndir um tjáningarfrelsi, innspíreraða af innleggi lögfræðinga, blaðamanna, lagaprófessors og fulltrúa samtakanna Gagnsæi, að ógleymdu embættisfólki og sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, Þórólfi Halldórssyni.
Flest virtist fólk annað hvort skeptískt eða gagnrýnið á gjörninginn, þó að Brynjar Níelsson hafi borið á borð ákveðnar efasemdir um efasemdir annarra, svo ég taki mér skáldlegt leyfi, enda hæpið að nokkur stefni mér fyrir ónákvæmt orðalag á þverpólitískum fundi um tjáningarfrelsið. Og Vilhjálmur Bjarnason gekk reyndar á dyr, ofboðið að lögmaðurinn Sigríður Rut Júlíusdóttir skyldi gangast við þeim skilningi sínum að tjáningarþörf og tjáningarfriðhelgi blaðamanna væri meiri heldur en annarra í þessu landi.
Ég hélt reyndar fyrst að Vilhjálmur væri að grínast, ekki frá því að hann hefði snöggglott til mín sem sat beint fyrir aftan hann þegar hann tók myndarlegan snúning á leiðinni út og einhver tautaði að Vilhjálmur væri of seinn á fund.
Gríðarleg ábyrgð fjölmiðla
Spurningar flestra þingmannanna báru vottu um að eitthvað, ef ekki allt, hefði að einhverju leyti mátt fara betur í téðu vinnuferli sýslumannsins. Einhverjir spurðu varfærinna spurninga um framkvæmdina meðan aðrir fóru ekki dult með álit sitt að framkvæmdin væri gróf aðför að lýðræðinu.
Inn á milli örlaði á skorti á innsýn í gangverk fjölmiðla og þá þurftu þeir sem sátu fyrir svörum m.a. að útskýra ábyrgð og faglegt vinnuferli ritstjórna við úrvinnslu gagna, að fjölmiðill bæri ábyrgð á framsetningu og hvort farið væri yfir umdeilanleg mörk.
Sigríður Rut útskýrði fyrir þingmönnum að það væri t.d. munur á því hvort gögn birtust beint á Wikileaks eða hvort ritstjórnir vinni úr gögnunum eins og í tilviki Panamaskjalanna – en það ættum við að styrkja.
Hún útskýrði líka að íslenskir fjölmiðlar sættu gríðarlegri ábyrgð og væru undir mjög ströngum skyldum, nú þegar laga- og starfsumhverfi fjölmiðla væri með þeim hætti að það ríkti enginn skilningur á hversu mikil sú ábyrgð væri. Því bæri okkur frekar að hlú að fjölmiðlum en sækja að þeim.
Við þessi orð hennar varð mér hugsað til þess að bæði Þórður Snær og Jón Trausti höfðu sérstaklega talað um að sjálfstæðir fjölmiðlar á Íslandi, sem gengu ekki erinda sérhagsmunaafla með djúpa vasa, nytu hvorki styrkja né ívilnana í formi skattaafsláttar. Róðurinn er harður á báðum stöðum, keyrður áfram af hugsjón og velvilja fólks sem vill styðja við óháða fjölmiðlun á Íslandi.
Hjálmar Jónsson, formaður blaðamannafélags Íslands, sagði nauðsynlegt að treysta mati og fagmennsku ritstjórna, að sú blaðamennskuvinna sem fari fram sé hnökralaus og eigi erindi við almenning – það væru viðmið mannréttindadómstólsins.
Samúð með sýslumanni
Oftar en einu sinni var vitnað í yfirlýsingu fjölmiðlafrelsisfulltrúa Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, þar sem lögbann á umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media hafði verið gagnrýnt. En sýslumaðurinn kvaðst ekki hafa séð yfirlýsinguna. „Ég veit ekkert hvað stendur í þessu skjali,“ sagði hann. Nokkuð sem ýmsum þingmönnum þótti ámælisvert.
Reyndar var oftar en einu sinni haft á orði að sýslumanni væri vorkunn að þurfa að taka afstöðu í öðru eins máli (sýslumaðurinn var þá farinn). Lagaprófessorinn Eiríkur og Brynjar gátu sammælst um að hann væri ekki öfundsverður en Eiríkur benti á að mannréttindadómstóllinn myndi þó ekki hafa mikla samúð með sýslumanninum, utan frá sé væri fulltrúi ríkisvalds að banna fjölmiðli að vera með tiltekna umfjöllun. Inngrip ríksins – og þó að það kæmist á endanum til dómstóla væri það búið að eiga sér stað.
Eins varð þingmönnunum tíðrætt um að fulltrúar sýslumannsembættisins hefðu getað kynnt gerðarþola réttarstöðu sína betur. Blaðamönnum á Stundinni gáfust tíu mínútur til að yfirfara kröfuna og fengu að ráðfærast símleiðis við lögmann sinn en lögð var áhersla á takmarkaðan tíma; síðan fékk Jón Trausti tíu mínútur til að semja mótbárur, skrifa upp andmæli.
En Jón Trausti hafði einmitt sagt mér að við mótbárur sínar hefði fulltrúinn svarað að það væri almennt gert ráð fyrir því að fólk þekkti lög og reglur í lýðræðissamfélagi.
Þá kom líka til tals að þegar sýslumaður birtist fyrirvaralaust á ritstjórnarskrifstofu væri verið að ógna vernd fjölmiðilsins og draga úr trausti heimildarmanna, því að heimildamenn vilji koma efni til fjölmiðla og það geti haft áhrif á aðgengi að heimildum.
Tímasetning fréttar
Um ótal margt og sumt hvað ítrekað var rætt og tekist á um á þessum fundi sem átti upphaflega að vera klukkustund en varð þrjár því fundarstjóri Jón Steindór virti tjáningarfrelsið í hvívetna.
Ákveðin atriði bar þó hæst og voru rædd aftur og aftur. Að lögbannið væri of víðtækt og hvort mögulegt hefði verið að takmarka það og hvort mögulegt væri að flýta ferlinu þar sem það væri hættulega stór breyta í lýðræðislegri umfjöllun í aðdraganda kosninga. Upplýsingar daginn fyrir kosningar væru ekki það sama og upplýsingar daginn eftir kosningar. Að lýðræðislegt gildi fjölmiðla væri aldrei meira en fyrir kosningar. Og að tímasetning gæti verið aðalatriðið í fréttaflutningi.
Eins var mikið rætt hvort æskilegra væri að þeir sem taki ákvarðanir sem þessar hafi reynslu af því að vinna með tjáningarfrelsismál, hvort það hefði ekki verið heppilegra að fyrirframgefið vald til tálmunnar ætti frekar að vera í höndum dómara en sýslumanns.
Hjálmar var mjög gagnrýninn á aðgerðina og sagði: „Ég held að það sem skipti mestu máli í þessu sé að horfa ekki á persónur og leikendur heldur um hvað þetta mál snýst í raun og veru. Þarna er um að ræða aðför gegn lýðræðinu og ekki hægt að gera of lítið úr því.“
Og um það snýst málið, finnst mér.
Það er of langt mál að segja fá öllu sem kom upp á þessum fundi og hann vakti vissulega upp margar flóknar spurningar, svo áleitnar að vonandi horfa sem flestir á hann.
En eftir að hafa setið hans virðist birtingamynd þessa máls vera ósköp einföld, hvað sem líður löngum umræðum um flókin lögfræðileg tækniatriði. Það er verið að banna umfjöllun um forsætisráðherra nokkrum dögum fyrir kosningar – umfjöllun sem tengist eitraðri blöndu viðskipta og stjórnmála í hruninu – og þvingunaraðgerð á ritstjórnarfrelsi notuð til að setja hagsmuni almennings til hliðar. Aðgerð sem gæti verið fordæmisgefandi og ógnað lýðræðislegum grunnstoð: starfsfrelsi fjölmiðla.
Skortur á skilningi
Maður spyr sig: Getur verið að Íslendingar kunni ekki nægilega vel með fjölmiðla að fara? Að okkur skorti skilning á mikilvægi þeirra, hvernig þeir eru súrefnisgjafar lýðræðisins.
Hvernig hefði umfjöllun eftir-hruns-áranna verið ef ekki fyrir Kjarnann og Stundina? Maður spyr sig.
Jú, þú getur átt á hættu að fjölmiðill gagnrýni þig eða fjalli um þig í óþægilegu ljósi. En áður en þú stefnir honum er ágætt að hafa í huga hvernig væri að lifa án sprækra fjölmiðla. Þeir sem lögsækja smáan en knáan fjölmiðil af minni ástæðu en raunverulegu mannorðsmorði eiga ekki skilið að búa í lýðræðisríki. Því þá skortir skilninginn á gangverki þess.