Þegar Sameinuðu þjóðirnar leituðu að samstarfsaðilum í herferð sem nefnd er „Saman” (Together) til stuðnings flóttamönnum og farandfólki, má segja að það hafi legið í augum uppi að sækja á mið tónlistarinnar. Færa má rök fyrir því að íslensk tónlist eigi flóttamönnum og innflytjendum stóra skuld að gjalda, sem og afkomendum þeirra, allt frá Róbert Abraham Ottóssyni til Vladimir Askhenazy og Emilíönu Torrini til John Grant.
Forsvarsmenn Iceland Airwaves tóku strax vel í þetta og bentu á að á meðal helstu flytjenda á hátíðinni sem nú stendur yfir, væri fjöldinn allur af listamönnum sem fylltu þennan flokk.
En hvers vegna eigum við útlendingum svo mikið að þakka að hér ríkir blómlegt tónlistarlíf hvort heldur sem er í sígildri eða alþýðutónlist, að ekki sé minnst á kóra og tónlistarskóla?
Heimildir eru til fyrir því að fyrsti biskupinn á Hólum hafi sótt hingað frá meginlandinu Rikini nokkurn sem hafi verið “glöggur í tónlist”.
Lítið er þó vitað um tónlist á Íslandi fram að siðaskiptum en upp úr því er messusöngsbókin sem oftast er nefnd Grallarinn tekin saman. Þótt kirkjan hafi litið niður á söng og dansa utan helgihaldsins var alþýðutónlist til, og eigum við Bjarna Þorsteinssyni í lok 19. aldar, að þakka þekkingu okkar á henni og Þursaflokknum að hafa miðlað henni á plötum sínum.
En erlendum ferðamönnum sem skrifuðu ferðabækur um Ísland á átjándu og nítjándu, varð flestum tíðrætt um hversu vondir söngmenn Íslendingar voru, bæði falskir og ósamstíga. Vakning verður í lok 19.aldar og strax eftir fyrra stríð reyna Íslendingar að fá hingað erlent tónlistarfólk, en það er fyrst og fremst í aðdraganda síðari heimsstyrjaldarinnar sem flóttamenn undan ofsóknum nasista fjölmenna hingað.
„Þeir tónlistarmenn sem komu til Íslands í aðdraganda heimsstyrjaldarinnar síðari -- til dæmis Róbert Abraham, Victor Urbancic og Heinz Edelstein, svo nokkrir séu nefndir -- voru hámenntaðir heimsborgarar sem ekki voru lengur velkomnir í heimalandi sínu,” bendir Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarfræðngur, á.
Óðinn Melsted, sagnfræðingur gaf í fyrra út bókina Með nótur í farteskinu, um erlenda tónlistarmenn á Íslandi 1930-1960. Þar er fjallað um erlenda áhrifavalda í íslenskri tónlist svo sem Þjóðverjana Róbert Abraham Ottósson, Heinz Edelstein, Rut Stefaníu Hermanns, Albert Klahn, og Annie Leifs; Austurríkismennina Carl Billich, Annie Chaloupek, Franz Mixa, Paul Pamplicher og Victor Urbancic, og Týrolbúann Sigurð Demetz. Þá voru fjölmargir Danir hér mislengi við hljóðfæraleik og kennslu svo sem Poul Bernburg.
Vladimir Ashkenzy kom svo hingað frá Sovétríkjunum og blés lífi í Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem alltaf hefur sótt styrk og krafta til útlendra hljóðfæraleikara – að ekki sé minnst á hlut hans í stofnun Listahátíðar í Reykjavík.
„Störf erlendu tónlistarmannanna urðu til þess að hraða uppbyggingu íslensks tónlistarlífs,” segir Óðinn Melsted í bók sinni. „Þannig tóku Íslendingar margra alda stökk í tónlistarsögunni – samanborið við önnur lönd – með því að flytja inn erlend áhrif með hjálp erlends mannafla.”
Árni Heimir Ingólfsson tekur í sama streng:
„Þetta varð ein mesta gæfa tónlistarlífs á Íslandi frá upphafi vega. Þekking og hæfileikar þessara snjöllu tónlistarmanna báru hér ávöxt og eiga ríkulegan þátt í þeirri blómlegu tónlist sem hér er nú iðkuð, sama hvort er í tónlistarskólum, leikhústónlist eða Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þessir menn fleyttu Íslandi fram um áratugi í tónlistinni og skuld okkar við þá verður í raun aldrei fullgreidd.”
Fjölmargir útlendingar hafa á sama hátt auðgað íslenska popptónlist, og er bandaríski tónlistarmaðurinn John Grant, þekktastur í dag, en hann hefur búið hér á landi í nokkur ár.
Á meðal tónlistarmanna á Iceland Airwaves sem auðgað hafa listalíf annara landa er ættlandsins eru Micahel Kiwanyuka, sonur flóttamanna frá ofríki Idi Amin í Úganda. Lido Pimienta, rekur ættir sínar til Indíána og Afríkubúa í Kólumbíu en starfar í Kanada og Káryyn, er af sýrlensk-armensku bergi brotin og býr í Bandaríkjunum, að ógleymdri okkar hálfítölsku Emilíönu Torrini.
Saman, herferð Sameinuðu þjóðanna til stuðnings flóttamönnum og farandfólki hófst á leiðtogafundi samtakanna haustið 2016. Fræðast má nánar um hana hér. Höfundur starfar sem upplýsingafulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum í Brussel,