Í dag barst Kjarnanum bréf frá Ólafi Eiríkssyni, lögmanni hjá LOGOS lögmannsstofu, fyrir hönd Glitnis HoldCo, eignarhaldsfélags utan um eftirstandandi eignir Glitnis banka. Í bréfinu er því haldið fram að óheimilt sé að birta gögn eða upplýsingar úr gögnum sem Kjarninn byggði á í fréttaskýringu sem birt var í gær, með fyrirsögninni „Að vera eða vera ekki innherji“. Ólafur segir í bréfinu að umbjóðandi hans telji birtingu fréttaskýringarinnar vera ólögmæta og brjóta í bága við þagnarskylduákvæði laga um fjármálafyrirtæki.
Í fréttaskýringu Kjarnans kemur fram að hún sé unnin upp úr skýrslu KPMG, skýrslu Ernst & Young, skýrslum frá Kroll og samantekt frá LEX. Allt eru þetta aðilar sem unnu fyrir skilanefnd Glitnis við að rannsaka fjármagnsflutninga og viðskipti innan hans í kringum bankahrunið.
Í bréfi lögmannsins er bent á að fyrir liggi lögbann, sem sett var á umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media upp úr gögnum frá Glitni í síðasta mánuði, við birtingu gagna og upplýsinga er byggja á gögnum sem bundin eru trúnaði.
Í ljósi ofangreinds fer LOGOS, fyrir hönd Glitnis HoldCo, fram á við Kjarnann að hann veiti „ Í fyrsta lagi upplýsingar um hvort frekari birting úr umræddum gögnum sé fyrirhuguð. Hér átt við allar fréttir sem byggja á upplýsingum og/eða gögnum frá Glitni eða úr kerfum þess.[...]Í öðru lagi er þess farið á leit við Kjarnann að ef frekari birting úr framangreindum gögnum er fyrirhuguð að umbjóðanda okkar, Glitni, verði tilkynnt fyrir fram með tveggja sólarhringa fyrirvara að slík birting standi til.“
Í niðurlagi bréfsins segir að Glitnir HoldCo áskilji sér rétt til að grípa til allra lögmæta aðgerða vegna birtingar Kjarnans á umræddum trúnaðarupplýsingum.
Almenningur á að fá að vita
Í umræddri fréttaskýringu, sem byggir sannarlega á gögnum innan úr Glitni sem kyrfilega eru merkt trúnaðarmál, er m.a. greint frá því í fyrsta skipti að hópur stjórnenda og starfsmanna Glitnis, sem hafði vitneskju um það að stjórnarformaður hans var að fara á fund Seðlabankans 25. september 2008 til að óska eftir fyrirgreiðslu þar sem Glitnir átti ekki fyrir gjalddaga láns sem var fram undan, hefðu selt eignir sínar í peningamarkaðssjóðnum Sjóði 9 daganna 24-26. september 2008.
Þar er líka greint frá því að félög tengd Baugsfjölskyldunni, sem var ráðandi eigandi í Glitni, hefði innleyst samtals 766 milljónir króna úr sjóðnum 25-26. september. Í gögnunum kemur fram að Jón Ásgeir Jóhannesson, höfuð þeirrar fjölskyldu, hafi verið beinn þátttakandi í öllu ferlinu í kringum ofangreindan fund með Seðlabankanum.
Á þessu tímabili lá ekkert fyrir um að Glitnir væri að falla. Bankastjóri bankans kom þvert á móti tvívegis fram í fjölmiðlum, daganna 21. og 22. september 2008 og sagði að bankinn væri traustur. Á sama tíma var hann reyndar að láta millifæra hundruð milljónir króna, sem hann hafði tekið út úr Glitni, inn á bankareikning í Bretlandi.
Þeir aðilar sem framkvæmdu ofangreinda fjármagnsflutninga, og björguðu þar með eigin fjármunum frá því að rýrna, Og þeir bjuggu yfir upplýsingum sem almenningur hafði sannarlega ekki á þessum tíma.
Líkt og flestir vita var síðan tilkynnt um þjóðnýtingu Glitnis 29. september, neyðarlög sett þann 6. október og Glitnir var síðan tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu 7. október 2008.
Fjarstæðukenndar kröfur sem verður að fordæma
Þessar upplýsingar, sem nú eru opinberar í fyrsta sinn vegna þess að fjölmiðlar hafa komist yfir trúnaðargögn frá Glitni, eiga sannarlega erindi við almenning. Þær eru mikilvægar til að sýna á þann aðstöðumun sem var til staðar þegar bankahrunið reið yfir. Hvernig sumir gátu, stöðu sinnar vegna, gert ráðstafanir sem aðrir höfðu engar forsendur til að gera.
Það er skoðun Kjarnans, eftir að hafa ráðfært sig við lögmenn, að þagnarskylduákvæði laga um fjármálafyrirtæki eigi ekki við um fjölmiðla. Blaðamenn geti því ekki brotið bankaleynd.
Þess utan er mikilvægara að almenningur fái að vita um atburði sem skipta hann máli en að leynd yfir athæfum manna sem bjuggu yfir innherjaupplýsingum sé virt.
Þær kröfur sem settar eru fram í bréfi lögmanna Glitnis til Kjarnans, um að fjölmiðill upplýsi einkahlutafélag utan um eignir gjaldþrota banka fyrirfram um hvaða fréttir hann ætli mögulega að segja, eru algjörlega fjarstæðukenndar. Og Kjarninn mun að sjálfsögðu ekki verða við þeim undir neinum kringumstæðum. Upplýsingar um hvort, og þá hvaða, viðbótarfréttir eða fréttaskýringar verði skrifaðar upp úr þeim gögnum tengdum Glitni sem Kjarninn hefur undir höndum eru, og verða áfram, einungis á vitorði ritstjórnar Kjarnans. Þetta eru ritskoðunartilburðir sem eiga ekkert erindi í lýðræðissamfélagi. Glitnir er með þessu að reyna að taka sér ritstjórnvald yfir frjálsum og óháðum fjölmiðli. Þessum tilburðum ber að hafna og fordæma harðlega.
Niðurlag bréfsins, þar sem frekari aðgerðum er hótað ef ekki verði orðið við kröfum Glitnis, er enn eitt dæmið um þöggunartilburði í tengslum við þetta mál. Nú þegar hefur félaginu tekist að fá lögbann á aðra fjölmiðla sem fjallað hafa um gögnin og komið í veg fyrir að þeir gætu gert það í aðdraganda kosninga. Slíkar hótanir hafa engin áhrif á Kjarnann. Trúnaður hans er við lesendur, ekki gjaldþrota banka, fyrrverandi starfsmenn hans, eigendur eða viðskiptamenn.
Það sem er að eiga sér stað hér er gríðarlega alvarlegt mál, algjörlega óháð því hvert andlag fréttanna sem fluttar hafa verið er. Hér á sér stað aðför að lýðræðislegri umræðu.
Kjarninn mun, nú sem fyrr, standa fast í lappirnar gagnvart þeirri aðför.
Hægt er að styrkja Kjarnann hér.