Í nýrri þjóðhagsspá Hagstofu Íslands er gert ráð fyrir því að áframhald verði á kröftugu hagvaxtarskeiði næstu fimm árin. Á þessu ári er gert ráð fyrir um 5 prósent hagvexti og síðan um 2,5 til 3 prósent á ári næstu fimm ár.
Gangi spáin eftir verður áframhald á þeirri þróun sem verið hefur, þar sem ferðaþjónustan knýr áfram mikinn hagvöxt og veldur ruðningsáhrifum á ýmsa aðra geira.
Mikið uppbyggingarátak er framundan á húsnæðismarkaði, og spá greinendur, nú síðast hjá Íslandsbanka, því að eignaverð muni halda áfram að hækka mikið í alþjóðlegum samanburði, eða um 20 prósent á þessu ári, 12 prósent á því næsta og 5 prósent árið þar á eftir.
Á flesta mælikvarða er staða efnahagsmála á Íslandi góð, verðbólga er lág, skuldir ríkisins hafa lækkað - ekki síst eftir stutt en árangursmikið skeið Benedikts Jóhannessonar í stóli fjármálaráðherra - og atvinnuleysi er lítið sem ekkert, eða 2,7 til 3 prósent.
Hvar leynast því hætturnar?
Einkum tvö atriði finnst mér þörf á því að nefna.
I. Fyrir utan hið augljósa, sem er að spennan verði of mikil í hagkerfinu og að það endi með snöggri niðursveiflu, þá þarf að huga betur að einu atriði, að mínu mati.
Það er að tryggja gott upplýsingaflæði úr flugiðnaðinum vegna kerfisáhættunnar sem myndast hefur með auknum umsvifum Keflavíkurflugvallar og flugfélaganna, einkum Icelandair og WOW Air sé horft til íslenskra félaga sérstaklega.
Á þriggja mánaða fresti, jafnvel örar, ætti að skylda flugfélögin og Keflavíkurflugvöll til að birta nákvæmar upplýsingar um rekstur og fleira, til að allir geta glöggvað sig á stöðunni sem næst rauntíma. Um 99 prósent af gjaldeyristekjum ferðaþjónustunnar koma í gegnum flugvöllinn, og full þörf á því að fylgjast vel með.
Bara til að setja hlutina í samhengi, þá getur gjaldþrot eða fall flugfélags, jafngilt því að þurrka upp gjaldeyristekjur vegna þorskstofnsins. Bara 1, 2 og 3. Og það sem verra er, þá er það þannig með flugiðnaðinn að það er engin þolinmæði fyrir rekstrarvanda þar sem alþjóðleg hefð er fyrir því að stöðva strax rekstur flugfélaga sem ekki geta staðið við skuldbindingar sínar.
Farþegar verða þá strandaglópar, eins og nýlegt dæmi um fall Monarch flugfélagsins í Bretlandi sýnir. Þá þurfti breska ríkið að koma til bjargar og koma farþegum á leiðarenda, tugum þúsunda vítt og breitt um heiminn. Þessu getur fylgt orðsporsáhætta fyrir lítið land eins og Ísland. Það má ekki vanmeta þessa þætti.
Gagnsæi er gott aðhald og vegna þess hversu mikið álag er á flugfélögunum og Keflavíkurflugvelli þá er þetta sjálfsögð krafa. Það hefur verið verið ánægjulegt að fylgjast með WOW Air og Icelandair vaxa og dafna, og sinna þessum fjölda ferðamanna sem koma til landsins, en til framtíðar litið ætti ekki að vanmeta neinar áhættur. Flugiðnaður er þekktur af miklum sveiflum og áhættum.
II. Þekkingariðnaðurinn á Íslandi glímir nú við erfiðleika, að mörgu leyti, ekki síst vegna sterks raungengis krónunnar. Þetta eru kunnuglegir erfiðleikar. Kostnaður hefur rokið upp í krónum, meðal annars vegna launahækkana, en á sama tíma fást færri krónur fyrir erlendar tekjur og því verður framlegðin minni. Sjávarútvegurinn er að sjálfsögðu þarna undir líka og öll hliðaráhrif sömuleiðis.
Nýleg dæmi af samdrætti og breytingum - þar sem styrkingarfasi krónunnar skiptir máli - má telja til. Össur ákvað nýlega að færa 50 störf frá Íslandi til Mexíkó. CCP sagði upp 30 manns á Íslandi og tugum erlendis, og hægt og hljótt eru mörg fyrirtæki að leita leiða til að halda samkeppnishæfni við erfiðar aðstæður.
Í stuttu máli þá er þekkingariðnaður í landinu - þar sem verðmæt störf sem byggja á alþjóðlegri þekkingu eru undir - í varnarbaráttu.
Við skulum ekki gleyma okkur í veislunni í þetta skiptið, þó staðan sé góð. Ýmislegt má bæta og það þarf að fylgjast vel með því hvernig okkar mögnuðustu alþjóðlegu fyrirtæki munu takast á við þetta sterka raungengi, ef það er komið til að vera, eins og flestar spár núna gera ráð fyrir. Það má líka efast um þær spár í ljósi hagsögunnar.