Sá makalausi atburður átti sér stað í dag að Morgunblaðið birti afrit af símtali milli Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, og Davíðs Oddssonar, fyrrverandi seðlabankastjóra, frá 6. október 2008. Í símtalinu ræddu þeir um að veita Kaupþingi, stærsta banka landsins, nánast allan aðgengilegan gjaldeyrisforða þjóðarinnar, 500 milljónir evra, til að gefa bankanum tækifæri til að reyna að bjarga sér fyrir horn. Með sömu ákvörðun var ákveðið að hinir tveir stóru bankarnir, Landsbankinn og Glitnir, yrðu látnir falla þennan sama dag. Þeir myndu ekki fá fyrirgreiðslu.
Það er merkilegt að af símtalinu að dæma er algjörlega ljóst að ekki var búist við því að Kaupþing myndi geta greitt lánið til baka. Þar kemur skýrt fram að Davíð veit ekki hvort að árás standi yfir á alþjóðlega innlánsreikninga Kaupþings, sem kölluðust Edge, en vill samt lána Kaupþingi alla þessa peninga. Og símtalið er líka frístandandi sönnun þess hversu mikið fúsk íslensk stjórnsýsla er. Þarna eru tveir gamlir samherjar úr pólitík að tala saman um einn þýðingarmesta atburð í nútíma hagsögu sem hafði í för með sér afdrifaríkar afleiðingar fyrir íslenskan almenning. Í þetta lán fóru til að mynda peningar sem settir höfðu verið til hliðar til að borga fyrir hátæknisjúkrahús og Sundabraut, en ákveðið var að veita til Kaupþings gegn lélegu veði. Fúskið felst bæði í því hversu illa undirbyggð ákvörðunartakan augljóslega var og í því hvernig þessir tveir ráðamenn tala saman. Af orðbragði þeirra og faglegheitum.
Lánveitingin kostaði íslenska skattgreiðendur á endanum 35 milljarða króna.
Tilgangurinn annar en að upplýsa
Það er ýmislegt annað sem er athugavert við birtingu símtalsins en bara innihald þess. Kjarninn hefur kallað eftir því að þetta símtal verði birt árum saman og stefndi Seðlabanka Íslands fyrir dómstóla í lok október til að reyna að fá ákvörðun hans um að fella það undir þagnarskylduákvæði laga um Seðlabanka Íslands hnekkt.
Í öðru lagi virðist blasa við að Davíð hefur, þegar hann var rekinn úr embætti seðlabankastjóra, haft á brott með sér úr Seðlabankanum gögn sem bankinn sjálfur hefur sagt að séu trúnaðargögn sem þagnarskylda ríki um. Í kjölfarið hlýtur að verða sett af stað rannsókn á því hvort að hann hafi tekið með sér fleiri trúnaðargögn sem t.d. hafi verið notuð til að undirbyggja umfjallanir í dagblaðinu sem Davíð stýrir.
Það er einhver að ljúga
Svo þarf að gera athugasemd við framsetningu Morgunblaðsins á málinu. Í forsíðufrétt er því haldið fram að hvorki Davíð né Geir hafi vitað að símtalið var tekið upp. Því sama er haldið fram í Reykjavíkurbréfi, sem Davíð augljóslega skrifar.
Þetta stangast á við frásögn Sturlu Pálssonar, framkvæmdastjóra markaðsviðskipta og fjarstýringar hjá Seðlabanka Íslands, í vitnaskýrslu sem hann gaf hjá sérstökum saksóknara árið 2012, og fjallað var um í fjölmiðlum fyrir um ári. Þar kom fram að símtal milli Davíðs og Geirs, þar sem rætt var um lánveitinguna, hafi átt sér stað klukkan 11.57 mánudaginn 6. október.
Þar sagði einnig að það hafi farið fram í gegnum síma Sturlu, sem var viðstaddur símtalið. Við skýrslutökuna sagði Sturla að Davíð hafi vitað að sími Sturlu væri hljóðritaður og því frekar tekið símtalið úr síma samstarfsmanns síns en úr sínum eigin. Enginn annar var viðstaddur símtalið.
Svo þurfa lesendur að ákveða hvorum þeir trúa betur. Sturlu Pálssyni, sem hefur enga ástæðu til að ljúga til um hvort Davíð hafi vitað af upptöku símtalsins, eða Davíð, sem hefur hagsmuni af því.
Hinn skýri munur á fjölmiðlum
Það er gott að símtalið sé komið fram. En gjörsamlega ótrúlegt hvernig það gerist. Og mjög lýsandi fyrir það hvers konar valdatól, ekki fjölmiðill, Morgunblaðið er orðið í höndum þeirra sem þar halda um stjórnartaumana. Og hafa gert í tæpan áratug. Þetta er hópur sem með annarri hendinni hefur verið á fullu allan þann tíma að reyna að endurskrifa söguna þannig að hún fari mýkri höndum um menn eins og Davíð, og með hinni hafa þeir – með góðum árangri — haft mikil áhrif á þróun samfélagsmála þar sem rauði þráðurinn er alltaf að verja sérhagsmuni eigenda blaðsins og ganga erinda Sjálfstæðisflokksins. Fyrir þetta hefur hópur milljarðamæringa greitt vel á annan milljarð króna, enda starfsemin ekki gert neitt annað en að tapa stanslaust peningum.
Í þessu máli sést líka skýrt munurinn sem er á milli fjölmiðla á Íslandi. Kjarninn lagði út í fjárhagslegan kostnað – sem er verulegur fyrir hann – til að reyna að fá aðgengi að upplýsingum sem miðillinn taldi að ættu brýnt erindi við almenning. Morgunblaðið sat á sömu upplýsingum árum saman.