Ég áttaði mig á því um daginn að börnin mín munu alast upp án þess að hafa sjoppu í hverfinu. Þau vita reyndar varla hvað fyrirbærið sjoppa er og munu líklegast bara lesa um það í sögubökum, sennilega í sama kafla og rifjað verður upp að einu sinni fóru íslenskir unglingar á fyllerí 14 ára gamlir og fólk reykti að staðaldri inni á heimilum og í flugvélum.
Þessi sjoppulausa æska er alveg örugglega heillaspor upp á heilsufar að gera en ég get þó ekki að því gert að fyllast ákveðnum söknuði í garð tímans þegar sjoppan var og hét – þunga lyktin, sem tók á móti manni og var einhvers konar sambland af steikarpönnubrasi og nammi, gólfið var með slitnum linoleum-dúk á, skruðningarnir í ísvélinni, standarnir úr plexígleri sem stóðu víðs vegar um sjoppuna með hvítum A4-blöðum með helstu tilboðum, skrifað í bogadregnum WordArt-texta, Mortal Kombat tölvuleikur og spilakassar stóðu úti í horni, nammi í 15-20 plastboxum beið undir glerborðinu, selt í grænum nammipokum og svo var veggur með vídeóspólum þar sem vinsælustu myndunum var raðað efst.
Einhvern veginn svona man ég eftir sjoppunni. Ekki einhverri einni ákveðinni sjoppu, heldur er þetta samsuða úr flórunni sem var í boði á sínum tíma. Og hún var umtalsverð. Bara í Vesturbænum mátti á sínum tíma (samkvæmt óvísindalegri upprifjun miðað við ca. 1995) telja hvorki fleiri né færri en níu sjoppur á svæðinu frá Eiðistorgi í vestur, að Dunhaga í austur og Ásvallagötu í norður. Í þessari upptalningu erum við bara að tala um sjoppur, ekki bensínstöðvar eða litlar matvöruverslanir.
Það er svo kaldhæðni örlaganna að á sama tíma og við viljum fá aukið líf inn í hverfin eru einungis örfá ár frá því sjoppurnar dóu flestar drottni sínum. Hvað sem segja má um þær þá voru þær ákveðið lífsform inni í hverfunum.
Last man standing
Í dag er til dæmis bara ein af þessum níu sjoppum enn starfandi í Vesturbænum, Hagavagninn. Hann er reyndar tímabundið lokaður vegna eigendaskipta. Við hljótum öll að biðja fyrir því að sú áreiðanleikakönnun gangi eftir og að síðasti móhíkaninn í hverfinu fái að lifa áfram. Þetta last man standing móment Hagavagnsins má reyndar eflaust þakka afar taktískri staðsetningu, þar sem hann er mitt á milli Sundlaugar Vesturbæjar og Kaffi Vest. Fullkomið stopp til að finna mótvægi í lífinu, innbyrða smá þotueldsneyti eftir sundferðina; unnar kjötvörur þaktar sósu úr plastbrúsa, umvafðar hvítu brauði og gos til að skola herlegheitunum niður með, svona rétt áður en maður sest inn á Kaffi Vest, setur gamla plötu í spilarann og ræðir við starfsfólkið um uppruna kaffisins í bollanum og þjáningar fólksins sem ræktar það.
Sjoppukallar og unglingsstúlkur með tyggjó
Sjoppurnar voru menningarfyrirbæri á sinn hátt. Þarna unnu aðallega tvenns konar manngerðir, annars vegar sjoppukallinn, sem er deyjandi tegund af mönnum. Þeir höfðu sitt lag á hlutunum, þöglir og yfirleitt með útvarpið í gangi, með litla þolinmæði fyrir krökkum sem þó voru lykilviðskiptavinir og allir litu þeir út fyrir að hafa séð eitt og annað í lífinu. Og hins vegar unnu þarna unglingsstelpur með tyggjó.
RisaHraun lækkaði alltaf verðið
Það áttu allir erindi í sjoppuna. Skólakrakkar komu á morgnana með klink sem rétt dugði fyrir smá nammi eða samloku með skinku og osti, hitaða í örbylgjuofni og súperdós. Saltpillan var einhvers konar gullfótur íslenska efnahagskerfisins á þessum tíma, en hún kostaði eina krónu nánast alla mína æsku. Í hádeginu komu svangir iðnaðarmenn og völdu sér eitt af þeim fjölmörgu tilboðum sem voru í gangi. Til að einfalda viðskiptin studdust sjoppur mikið við fyrir fram ákveðin tilboð, sem viðskiptavinum var gjarnan beint inn í. Þannig gat kúnninn oft sparað nokkur hundruð krónur á að fá kannski RisaHraun með máltíðinni frekar en að sleppa því, þvert á lögmál hagfræðinnar. Eftir kvöldmat fór að verða rennerí af úthverfapöbbum sem keyptu ostapopp og stjörnusnakk með paprikubragði, leigðu spólu og jafnvel vídeótæki líka, sem var afhent í stórri svartri skjalatösku. Þessar töskur voru þungar og miklar og hefðu sómt sér vel í hvaða fíkniefnaviðskiptum sem er.
Þrjú jarðarber gátu breytt heiminum
Spilakassarnir höfðu aðdráttarafl. Þá erum við ekki að tala um Gullnámu kassana, heldur kassa sem Rauði krossinn rak og tók bara við klinki. Það voru þrír gluggar á kassanum og það þurfti að ná þremur ávöxtum eins til að fá vinning. Til dæmis gátu þrjú jarðarber gefið ágætlega. Þannig fóru margir langt á nánast engu eigin fé, mættu kannski til leiks með tíkall og voru komnir upp í 500 kall eftir nokkrar mínútur. Það jafngilti fimmtíufaldri ávöxtun eigin fjár á innan við þremur mínútum og snarbreyttri félagslegri stöðu. Á þessum tímum gat 500 kall dugað fyrir vídeóspólu, slatta af ís, 2 lítra af gosi og nammi fyrir afganginn. Kaupmátturinn var nánast óendanlegur.
Þetta unga fólk gat auðvitað ekki áttað sig á því þá hvaða áhrif svona stundir höfðu á verðmætaskyn þeirra en 10-15 árum síðar var þetta sama fólk allt búið að skrifa undir sín fyrstu fasteigna- og bílakaup, sem voru fjármögnuð með nánast engu eigin fé. Jarðarberin voru víða.
Þung högg
Sjoppur voru ferðaþjónustufyrirtæki níunda og tíunda áratugarins, flugu nálægt sólinni þegar gullöldin stóð sem hæst en síðan var á brattann að sækja. Vod-ið, Netflix og aukin kunnátta landsmanna í ólöglegu niðurhali (gerði Smáís-skandallinn okkur endanlega samviskulaus gagnvart höfundarréttarhöfum?) drápu smám saman vídeóleigubransann.
Náðarhöggið var hins vegar veitt þegar nammibarirnir fóru að skjóta upp kollinum í matvörubúðum. Óhindrað aðgengi að öllu því nammi sem hugurinn girntist og rúsínan í þeim pylsuenda var auðvitað sú að allt í einu var enginn til að dæma þig lengur, þú bara valdir nammið sjálfur án þess að þurfa að ganga í gegnum þá síu að þurfa að lýsa því fyrir ókunnugum þriðja aðila hvað ætti að fara ofan í nammipokann þinn. Engar augngotur frá unglingsstúlkunni sem var að afgreiða þegar maður bað um smá auka kúlusúkk eða „voðalegan tíma tekur þetta“ stuna frá sjoppukallinum ef magnið var orðið mikið. Lýðheilsa þjóðarinnar var fyrir þungu höggi þegar þessi félagslegi tálmi var fjarlægður. Og viðskiptamódel sjoppunnar var hrunið.
Gleymdur tími
Frá og með aldamótunum hafa sjoppurnar horfið ein af annarri og oftar en ekki orðið að íbúðum með skringilega stórum gluggum á framhliðinni. Þetta brotthvarf hefur hins vegar ekki vakið með okkur sama söknuðinn og myndast yfirleitt gagnvart öðrum hnignandi fyrirbærum í samfélaginu.
Það er nánast eins og við viljum helst gleyma þeim tímum þegar við eyddum heilu og hálfu kvöldunum með vitin full af steikingarlykt og munninn fullan af Hubba Bubba tyggjói, kaupandi bland í poka og leigjandi spólur úti í sjoppu. Kannski er þetta veruleiki sem passar ekki vel inn í meðvitað narratív nútímans. Sjoppan var ekki woke, straumlínulöguð eða skilgreind. Þar voru ekki teknar upp sérstakar áherslur í tilteknum málum, hamborgararnir voru ekki beint frá bónda og ísinn var glútenþrútinn. Ef einhver vara kom frá þróunarlandi var eigandanum sennilega alveg sama.
Þessi snöggi viðsnúningur er kannski í ágætu samræmi við okkar rokgjarna og síbreytilega eðli. Þannig erum við bara. Eina stundina er ekki til fjármálamarkaður á Íslandi. Nokkrum árum síðar skipa íslensk fyrirtæki þrjú af efstu tíu sætunum yfir stærstu gjaldþrot fjármálasögunnar. Eina stundina getur íslenska landsliðið í fótbolta ekki neitt. Þá næstu erum við orðin föst stærð í öllum lokakeppnum veraldar. Eina stundina erum við sjoppufólk en þá næstu erum við lífstílsfólk sem viljum helst ekkert kannast við fortíð okkar í sjoppunum. Þetta er hugsanlega ástæðan fyrir því að Ísland nær sífellt að troða sér í heimsfréttirnar fyrir einhver ótrúleg afrek sem enginn skilur neitt í. Það vantar í okkur þessa leiðinlegu, skandínavísku stöðugleikabremsu á tilveruna sem gerir það að verkum að stefnur og áherslur breytast bara hægt og yfir langan tíma. Ekki hjá okkur. Við hikum ekki við að fella haminn á punktinum og verða að einhverju allt öðru.
Hvar voru lýðræðislega kjörnir hagsmunapotarar landsins?
Eftir á að hyggja þykir mér sérkennilegast í hnignunarsögu sjoppunnar að enginn hafi fundið það hjá sér að koma þessari deyjandi starfsemi til varnar. Hvar voru lýðræðislega kjörnir fulltrúar landsins þegar þetta dauðafæri datt inn? Af hverju steig enginn fram og barðist fyrir því að sjoppur legðust ekki af? Af hverju stofnuðu sjoppukallar ekki hagsmunafélag og lögðust í kröfugerðarpólitík? Það hefði t.d. verið hægt að fara í samstarf með höfundarréttarhöfum gegn ólöglegu niðurhali og fara í hvatningarátak til fólks um að fara aftur út í sjoppu að leigja vídeóspólu. Svo hefði verið hægt að fara í baráttu gegn nammibörum. „Sjoppunammi – þú veist hverjir hafa handfjatlað það“, hefði getað verið slagorð til höfuðs nammibara-útkáfaða namminu.
Í öllu falli hefði maður viljað sjá að minnsta kosti einn gamlan góðan þingmann taka þetta upp á sína arma. Þó ekki væri nema bara til þess að ná inn atkvæðum sjoppukallanna og tryggja sér í leiðinni sess í sögunni. En ekkert slíkt gerðist og því fór sem fór.
Hin eilífa hringrás
Við erum að vísu ekki komin þangað ennþá – gefum því kannski 10-15 ár í viðbót – en þegar allra síðasta sjoppan í Reykjavík leggur upp laupana og í staðinn kemur enn ein nútímaleg matvöruverslunin, með öll gólf slípuð niður að landsnámsösku, sjónsteypu á öllum veggjum og vintage húsgögn sem sýna karakter, rekin af hjónum sem gáfust upp á álaginu í fjármálageiranum og leggja aðaláherslu á ferska hrávöru, þá gerist það.
Í samræmi við lögmálið um hina eilífu hringrás og okkar rokgjarna, síbreytilega eðli mun saknaðarbylgjan loksins rísa, minningin af fjárhagslega rússíbananum í spilakössunum og steikarbrælunni á grillinu fer allt í einu að ljóma í hugum fólks og fyrsta nútímasjoppan opnar aftur.
Höfundur er lögmaður og annar umsjónarmanna hlaðvarpsins Hismisins.