Í grein sem Ólafur Margeirsson birti á Kjarnanum 17. nóvember sl. segir hann að lánsfé „stórjókst“ á 8. áratug síðustu aldar, enda hafi þá verið hér „ofgnótt lánsfjár“, sem sýni að fullyrðing undirritaðs í grein sem birtist á Kjarnanum 31. október um að lánsfé hafi minnkað stórlega á þessum tíma sé kolröng.
Það er rétt hjá Ólafi að nafnvirði útlána innlánsstofnana jókst mikið á þessum árum, enda verðbólgan mikil, einkum eftir 1973. Þetta með „ofgnótt lánsfjár“ á þessum árum er hins vegar ekki alveg í samræmi við löngu biðraðirnar eftir viðtölum við bankastjóra eða þá staðreynd að raunvirði útlánanna minnkaði og virði þeirra sem hlutfall af landsframleiðslu sömu leiðis eins og sést á meðfylgjandi mynd.
Ég var auðvitað að ræða þá miklu lækkun útlánanna eftir 1973 sem myndin sýnir.
Þegar horft er á hagtölur á tímum mikillar verðbólgu er mikilvægt að gera sér grein fyrir áhrifum verðbólgunnar. Þróun stærðanna á föstu verðlagi segir mun meira um efnahagsframvinduna en þróun nafnverðsins sem segir oft ekkert annað en að það var mikil verðbólga. Tökum sem dæmi þróun launa í fjármálakreppunni. Ég held að laun hafi lækkað um 11,0% á árunum 2008 og 2009. Ætli Ólafur finni það ekki út að þetta sé líka alrangt því samkvæmt launavísitölu Hagstofunnar hækkuðu nafnlaun um 12,4% á þessum árum. Ég held að 11,0% lækkun raunlaunanna, sem fæst með því að staðvirða launavísitöluna með vísitölu neysluverðs, segi mun meira um þróun launa á þessum tíma en hækkun nafnlaunanna.
Peningaglýja
Keynes taldi að fólk væri oft haldið því sem hann kallaði peningaglýju (e. money illusion) sem merkir að fólk áttar sig ekki á að nafnbreytingar stærða, t.d. launa, eru ekki það sama og raunbreytingar. Hann taldi að ef nafnlaun hækka um 3% sé fólk ánægðara þótt verðlag hækki líka um 3% en ef launin eru óbreytt og verðlag líka. Hann taldi að fólki væri sérstaklega illa við lækkun nafnlauna jafnvel þótt einhverjir hagfræðingar reyndu, kannski með réttu, að telja því trú um að raunlaunin myndu standa í stað vegna lækkunar verðlags.