Í gær sendu 306 konur sem hafa tekið þátt í íslenskum stjórnmálum frá sér áskorun vegna þess kynbundna ofbeldis sem á sér stað í starfsumhverfi þeirra. Þar kröfðust þær þess að karlar taki ábyrgð og að stjórnmálaflokkar landsins taki á málinu af festu. Á meðal þeirra sem skrifa sig fyrir áskoruninni eru margar þeirra kvenna sem hafa verið mest áberandi í íslenskum stjórnmálum undanfarna áratugi og með henni fylgdu tíu sögur um hvernig þær hafi orðið fyrir áreitni eða ofbeldi í starfi sínu.
Með því að stofna umræðuhóp, safna sögum kvenna í stjórnmálum og senda frá sér sameiginlega áskorun gegn ömurlegu ástandi sem sannarlega hefur verið, og er enn, til staðar risu þessar konur upp yfir skotgrafir flokkapólitíkur og stóðu saman í því að reyna að bæta samfélagið. Að koma því til skila að réttur þeirra til að vera þær sjálfar án þess að eiga von á því að verða áreittar eða beittar ofbeldi, niðurlægðar eða smækkaðar, er miklu sterkari en réttur geranda til að áreita þær eða beita þær ofbeldi án afleiðinga.
Það var átakanlegt að hlusta á Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur og Heiðu Björg Hilmisdóttur í Kastljósi gærkvöldsins að lýsa því sem konur í stjórnmálum verða fyrir. Sérstaklega sögu Jóhönnu Maríu um eftirköst þess að hafa skrifað grein um skaðsemi plasts sem notað sé í hjálpartækjum ástarlífsins gætu skaða fólk. „Einn maður sagði að eftir að hann las greinina mína nægði að hugsa um mig og það sem ég skrifaði til þess að fullnægja sér,“ sagði Jóhanna í þættinum. Áslaug Arna sagði frá því að hún verði ítrekað fyrir kynferðislegum athugasemdum um að hún hlyti að hafa sofið hjá þeim sem völdin hafa til að hafa komist í framvarðarsveit stærsta stjórnmálaflokks landsins jafn ung og hún er.
Þarna töluðu þær tvær konur sem yngstar hafa sest á þing á undanförnum árum.
Vandamálið opinberar sig
Þættinum var varla lokið þegar Ragnar Önundarson, fyrrverandi valdamaður í íslenskum samfélagi, sem stýrt hefur banka, stórfyrirtæki og boðið sig fram til trúnaðarstarfa í stjórnmálum, birti mynd af Áslaugu Örnu á samfélagsmiðlum. Myndin var tekin af Facebook-síðu hennar. Meðfylgjandi voru skilaboð sem gáfu sterkt til kynna að mynd sem þessi væri ekki við hæfi fyrir fólk sem væri í stjórnmálum. Svo var það sett í samhengi við það að sama kona hafi verið í sjónvarpinu að ræða um kynferðislega áreitni gagnvart konum í stjórnmálum.
Það er erfitt að álykta annað en að Ragnar væri að gefa í skyn að Áslaug væri að bjóða kynferðislegri áreitni heim með því að birta mynd af sér á samfélagsmiðlum sem honum fannst af einhverjum ástæðum of kynferðislega hlaðin. Ragnar gat síðan ekki með nokkru móti útskýrt hvað það var við myndina sem honum þótti svo óboðlegt, en ráðlagði Áslaugu að leita sér aðstoðar hjá almannatengli.
Viðhorfið er nákvæmlega það sem konurnar sem hafa tekið þátt í stjórnmálunum voru að gagnrýna með sameiginlegu áskorun sinni. Að karlar gætu komið fram við þær eins og þeir kysu með kynferðislega hlöðnum aðdróttunum eða sleggjudómum um útlit þeirra og atferli án ábyrgðar. Að þeir gæti valið að smætta þær og niðurlægja vegna þess að þær falla ekki inn í það mót sem viðkomandi valdakarl sér sem það eina fyrir fólk í stjórnmálum. Að þeir gætu jafnvel beitt þær kynferðislegu ofbeldi eða þrýstingi vegna þess að þær byðu upp á það með því að vera eins og þær eru.
Með skrifum sínum holdgervist vandamálið sem konurnar voru að opinbera í Ragnari. Ástæðuna fyrir því að þær þrifast verr í karllægu umhverfi stjórnmála.
Tjáningarfrelsi heimilar gagnrýni
Viðbrögðin voru nánast ofsafengin, og nánast á eina leið. Ummæli Ragnars voru fordæmd og það réttilega. Örfáir skoðanabræður hans tóku hins vegar undir sjónarmiðin og vörðu þau. Einn sagði í ummælum á Facebook: „Hvenær hafið þið séð karlmann aðra en homma setja upp sambærilegt andlit. Sérðu fyrir þér að Bjarni Ben. forsætisráðherra safna hári og setja efni í hárið sambærilega og þessi kona gerir, efast um það. Sem þingmaður á hún að hafa viðilegan blæ yfir sér[innsláttarvillur eru ummælanda].“
Viðbragð Ragnars var líka klassískt: að gagnrýnin á hann væri pólitískt rétthugsun, krafa um sjálfsritskoðun og árás á tjáningarfrelsið sjálft.
En það var enginn að banna honum, eða öðrum körlum sem deila með honum skoðunum, að hafa þær. Þeim er fullfrjálst að láta þær í ljós. En þeir verða þá líka að þola skoðanir annarra á sínum. Tjáningarfrelsi þýðir nefnilega ekki að menn með skoðanir eigi að fá að hafa þær í friði fyrir gagnrýni, ella sé brotið á rétti þeirra. Það er mikill misskilningur. Og hann sér flest skynsamt fólk.
Það er góð regla í lífinu að þegar allir í kringum þig eru orðnir fífl sé tímabært að líta í eigin barm og að minnsta kosti kanna hvort það geti ekki verið að þú sért sjálfur fíflið.
Litlir karlar
Það ríkir ekki jafnrétti á Íslandi. Við skulum hafa það alveg á hreinu. Konur eru tæplega helmingur landsmanna. Þeir sem hafa stýrt landinu hafa nánast alltaf verið karlar. Aldrei hafa verið fleiri konur í ríkisstjórn en karlar og nánast aldrei hefur hlutfallið verið jafnt. Í síðustu kosningum fór hlutfall kvenna á þingi úr 47,6 prósent í 38 prósent. Seðlabankanum er stýrt af körlum. Konur eru fjórðungur stjórnarmanna í íslenskum fyrirtækjum, rúmlega fimmtungur framkvæmdastjóra og 24 prósent stjórnarformanna. Alls eru 39 prósent forstöðumanna stofnanna hjá ríkinu konur og þær fá rúmlega 20 prósent lægri laun en karlar, að jafnaði. Samt eru fleiri konur með háskólapróf en karlar.
Í árlegri úttekt á stöðu kvenna í æðstu stöðum þeirra sem stýra peningum á Íslandi hefur komið í ljós, ár eftir ár, að 90 prósent þeirra sem eru í slíkum stöðum eru karlar.
Þessi staða er ekki tilkomin vegna þess að karlar séu hæfileikaríkari en konur. Það eru þeir sannarlega ekki. Konum er hins vegar kerfisbundið haldið niðri af körlum. Það er gert í gegnum stofnanir á borð við suma stjórnmálaflokka, sem neita að gangast við ábyrgð á því að konur fái ekki brautargengi hjá þeim. Það er gert með karllægu lífeyrissjóðakerfi og karllægri fyrirtækjamenningu. Það er gert með því að litlir karlar stýra samfélaginu og að þeir raði öðrum litlum körlum í kringum sig.
Konum er líka haldið niðri af körlum með valdbeitingu. Með því að skilyrða brautargengi þeirra við að þær hagi sér með ákveðnum hætti, líti út á ákveðinn hátt, láta ákveðið yfir sig ganga og passa í mót sem þeim finnst viðeigandi fyrir fólk með völd. Með öðrum orðum þá þurfa þær að vera meira eins og karlar en minna eins og konur.
En konur eru ekki vandamálið. Karlar eru það.