Ég kýs að kalla þig vin þótt kynni okkar séu eingöngu rafræn. Aðrir kalla þig eltihrelli og segja mér að eyða þér af facebook en ég hef þessa einkennilegu þörf fyrir að útskýra hvað mér mislíkar í stað þess að eyða því. Þess vegna geri ég jafnt og þétt athugasemdir við skrif þín á vegg minn sem þú svarar alltaf á sama hátt:
– En ég hef ekki sagt neitt ljótt um þig!
Það er í rauninni alveg rétt. Hástemmd lýsingarorð í efsta stigi um útlit mitt væru hrós í öðru samhengi. Tíu athugasemdir á dag um bros mitt draga hins vegar tennurnar úr því sem ég vildi sagt hafa. Mér finnst þú rýra boðskap minn með skrifum þínum.
Þú veist að fólk leggur misjafna merkingu í allt sem sagt er og skrifað. Úr orðum þínum les ég ekki þá stundarhrifningu karls á ókunnri konu sem þú vilt sjálfsagt tjá mér heldur endurvekja þau óþægilegar minningar um önnur orð sem voru heldur ekkert ljót í sjálfum sér en virkuðu samt ekki á tíu ára stelpu sem hvetjandi lofsyrði heldur sem hamlandi ofbeldi. Mér mislíka orð þín af því að í þeim skynja ég árþúsunda gamla sögu um óviðurkvæmileg orð.
Byltingin sem nú er að brjótast út snýst ekki síst um að kryfja ofbeldið í orðræðunni. Orð eru til alls fyrst, líka ofbeldis. Gullhamrar, slegnir í góðri trú, geta kýlt viðtakandann kaldan ef hann upplifir í þeim langa sögu orðanna sem valdatækis.
Þú velur ekki hvernig aðrir upplifa orð þín.
Þingkonan og kossinn
Ég sá að þér líkaði við upptökuna sem fór nýlega um netheima og sýndi karlkyns frambjóðanda spyrja frambjóðanda af kvenkyni hvort hann mætti kyssa hana. Ég veit ekki hvað það var sem þér líkaði en við vitum bæði að ekkert er óeðlilegt við að gagnkvæm, líkamleg hrifning kvikni á milli pólitískra samherja eða andstæðinga. Við vitum líka að í kastljósi fjölmiðlanna var ósennilegt að konan yrði kysst gegn vilja sínum. Samt flokkast það undir kynferðislega áreitni að einn frambjóðandi smækki annan með því að draga athyglina að kynveru hans eða hennar í óviðeigandi aðstæðum. Reyndar fannst mér í þessu tilviki karlframbjóðandinn einkum lítillækka sjálfan sig með því að beina athyglinni að eigin kynveru og ætlast til að öðrum þætti það fyndið. Þolinmæði flestra fyrir slíku gríni er þrotið.
Tímarnir breytast blessunarlega og samskipti mannanna með.
Sjálf fylgdist ég þó með atriðinu af áfergju enda hafði ég stuttu áður staðið í sambærilegum sporum og karlframbjóðandinn þótt á öðru sviði væri. Í valdahlutverki sem kennari gerði ég mig seka um að lítillækka fatlaðan nemanda með vorkunnsemi minni. Ég sagði í sjálfu sér ekkert ljótt en í greinargóðu bréfi lét nemandinn mig vita að síst af öllu vantaði hann samúð. Honum fannst meðaumkun mín niðrandi á sama hátt og mér finnst aðdáun þín. Það þýðir þó engan veginn að sá sem lifir við fötlun geti aldrei þegið vorkunn né heldur að ég frábiðji mér aðdáun undir öllum kringumstæðum.
Byltingin sem nú er að byrja snýst meðal annars um að við hjálpum hvert öðru að velja orðin eftir aðstæðum. Með því að svara alltaf ummælum þínum reyni ég að útskýra fyrir þér þær breytingar sem ég upplifi að séu að verða á orðræðu okkar og samskiptum. Ég vil ekki að þú missir af lestinni.
Afsökun og ef-sökun
Reyndar fannst mér áðurnefndur nemandi oftúlka orð mín. Samt vandaði ég mig þegar ég baðst afsökunar. Ég vildi síður lenda í því að biðjast ef-sökunar eins og það kallast nú að biðjast afsökunar með fyrirvara. Auðvitað skipti það engu máli í samhenginu hvernig orð mín voru meint heldur einungis hvernig þau hittu fyrir manneskju sem myndað hefur ævilangt óþol fyrir vorkunnsemi ókunnugra.
Atvikinu fylgdi gagnleg umræða og sumir í hópnum fengu í fyrsta sinn tækifæri til að setja sig tilfinningalega í fótspor fólks með fötlun. Samt leyfði ég mér að taka fram að ég sæi ekki eftir ummælum mínum né vildi ég draga þau til baka. Þetta ákvað ég að mér skyldi finnast af virðingu fyrir málfrelsinu. Þótt við séum nú um stundir farin að greina orðræðu hvert annars á annan hátt en áður – nú skoðum við hversu viðeigandi ummæli eru í stað þess að benda á málblóm og þágufallssýki eins og forðum – finnst mér að hver og einn verði að fá að taka til máls einmitt þar sem hann er staddur á þroskabraut umræðunnar. Við lærum af viðbrögðum annarra við orðum okkar. Ég óttast að umræðan staðni ef fólk veigrar sér við að tjá sig og að þá tökum við ekki af fullum þunga út mikilvægan þroskakipp sem nú er kominn af stað. Ég aðhyllist þá uppeldisfræði að við lærum mest af reynslunni.
Forboðin herbergi
Ég geri ráð fyrir að þú hafir í bernsku lesið sömu ævintýri og ég. Þau gátu verið grimm. Manstu sögurnar um forboðnu herbergin? Karlssonum og dætrum var boðið að lifa ljúfu lífi í höllum með því skilyrði einu að þau opnuðu ekki ákveðnar dyr. Hvað gerðist? Jú, hið forboðna fór smám saman að eitra allt líf þeirra.
Slík minni er að finna í ótal sögum sem mótast hafa í þjóðarsálum um aldir. Þau segja okkur að fólki sé óeðlilegt að lifa með leyndarmálum enda hafi leyndarmál tilhneigingu til að opinberast. Margt í sagnaarfinum vísar líklega til þess kynferðisofbeldis sem viðgengst hefur í aldanna rás, þeirrar þagnar sem um það hefur ríkt og þöggunarinnar sem umlykur það. Þöggun hefur verið kölluð síðara níðingsverkið vegna þess að hún magnar þá vanlíðan sem fylgir fyrra níðingsverkinu, sjálfum verknaðinum.
Ómálga barn veit hvenær á því er brotið. Fullorðnir hafa líka flestir í sér innbyggð leiðarljós til að rata rétta leið í líkamlegum samskiptum. Ómálga börn bregðast oft við misnotkun með því að seinka máltöku. Það er eins og þau skynji að ætlast sé til að þau þegi. Árþúsundalangur skortur á heilbrigðri og heiðarlegri umræðu um kynlíf og kynferðisofbeldi, sem og brengluð valdahlutföll í samfélagi okkar, verða til þess að fólk villist af leið.
Fyrir daga Druslugöngunnar
Ég veit ekki hversu vel þú hefur fylgst með umræðu síðustu áratuga um kynferðisofbeldi. Lastu kannski viðtalið sem ég tók fyrir næstum þrjátíu árum við konu sem hafði verið nauðgað? Það vakti töluverða athygli enda þá ekki birtar á hverjum degi langar greinar um nauðganir og afleiðingar þeirra. Það höfðu margir samband við blaðið og höfðu áhyggjur af geðheilsu nafnlausa fórnarlambsins. Fólk lýsti þó sjaldnast áhyggjum sínum af afleiðingum ofbeldisins heldur hafði það áhyggjur af þeirri stórfurðulegu ákvörðun konunnar að bera sorg sína á torg. Vissi hún ekki að Íslendingar bera harm sinn best í hljóði?
Sem blaðamaður studdi ég að sjálfsögðu vilja konunnar til að leysa frá skjóðunni. Ég var líka á þeim tíma farin að fikra mig fram til þeirrar algengu skoðunar nútímans að í tjáningunni felist frelsi. En þegar ég hugsa til baka staldra ég við önnur viðbrögð sem viðtalið vakti. Konan nefndi nefnilega nokkuð sem margir áttu erfitt með að sætta sig við, það að þrátt fyrir reynslu sína langaði hana enn til að vera sæt og sexí. Ég man að róttækasta fólk tjáði afdráttarlaust þá skoðun að kona sem hefði látið nauðga sér hefði fyrirgert rétti sínum til að vera glyðruleg – hafi hún þá nokkurn tíma haft hann. Mig minnir að mér hafi fundist það líka. Þetta var fyrir daga druslunnar.
Allt sem við vitum nú um ofbeldi
Í dag sæki ég fyrirmyndir, þekkingu og kjark til ungs fólks. Dásamlegar druslur af öllum kynjum kenna okkur svo margt, mér og þér. Þegar ég skrifaði viðtalið í kringum 1990 hélt ég að aðeins örfáum konum hefði verið nauðgað á Íslandi. Ég hélt að nauðgun fælist í því að karlmaður réðist á ókunna konu á almannafæri í því skyni að svala þeim holdlegu fýsnum sem hún vekti honum með klæðaburði sínum og fasi. Ég hef örugglega vitað betur innst inni en valdi að halda mig sem lengst frá þekkingunni sem falin var í forboðna herberginu.
Nú vitum við bæði, þú og ég, að kynferðisofbeldi er og hefur alltaf verið algengt á Íslandi eins og annars staðar í heiminum. Við vitum að það gerist frekar í einkarými meðal fólks sem þekkist heldur en meðal ókunnugra í almannarýminu. Við vitum að hugmynd um misnotkun kviknar óháð klæðaburði viðfangsins af því að misnotkun tengist þörfinni fyrir að flíka völdum fremur en kynhvötinni. Við vitum að þolendur og gerendur eru af öllum kynjum en þolendur eru gjarnan þeir sem minnsta viðspyrnu geta veitt og segja síst frá. Við vitum að atferlið er eins og annað mannlegt atferli á einshvers konar rófi, frá tiltölulega saklausum orðaskiptum til skipulagðra fjöldanauðgana í hernaðartilgangi.
Við vitum að eitt stórra úrlausnarefna mannkyns er að sigrast á ofbeldi og að frelsi undan því oki getur leitt til lausnar margvíslegs vanda annars. Umræða um ofbeldi er að galopnast um þessar mundir enda eru orð til alls fyrst – bæði til að skapa vandann og til að leysa hann. Þess vegna hvetjum við nú hvert annað til að nota orðin og hafa hátt.
Kæri vinur
Ég er fegin að ég skrifaði í stað þess að eyða þér. Við það hætti ég að taka eftir athugasemdum þínum eða kannski hættirðu að senda þær. Ég endurskoðaði þá ákvörðun að skipta út opnumyndinni af mér í bronskjólnum í sextugsafmælinu og ætla að halda áfram að brosa við fólki á facebook. Druslurnar hafa kennt mér að við getum verið sætar og trúverðugar í senn. Við megum vera sexí en samt ósnertanlegar öllum nema þeim sem við kjósum sjálfar. Við megum ljóma bara af því að okkur langar til þess. Ég færi aldrei að ráðum ímyndarfræðings sem segði mér að hemja hárið og klæðast jakkafataígildi í felulitum. Slík ráðgjöf er úrelt. Viðhorf druslunnar eru komin til að vera. Við erum komnar til að sjást.
Nú bíður okkar allra, kvenna og karla, það risastóra verkefni að opna forboðna herbergið og henda lyklunum. Í sameiningu þurfum við að velta við hverjum steini í orðræðu okkar og athöfnum. Ertu ekki til í það?