Róhingjar á flótta – Kjarni vandans

Melkorka Mjöll Kristinsdóttir skrifar um bága stöðu Róhingja, minnihlutahóps í Mjanmar, sem eru í raun ríkisfangslausir í eigin landi. Eftir nýliðna atburði standa þeir enn verr að vígi.

Auglýsing

Það er ekki að ástæðulausu að Róhingjar hafa lengi verið nefndir mest ofsótti minnihlutahópur heims. Í þessari grein verður leitast við að varpa ljósi á kjarna vandans og þær lausnir sem ríki, samtök fullvalda ríkja og frjáls félagasamtök þurfa að sameinast um og fylgja eftir á komandi misserum.

Lengi hefur mikil spenna einkennt samskipti Róhingja sem eru minnihlutahópur í Mjanmar og búddista sem eru meirihluti landsmanna. Hundruð þúsunda Róhingja hafa flúið til nágrannaríkja Mjanmar (áður Búrma) áratugum saman. Steininn tók úr árið 1982, þegar ný löggjöf var samþykkt þar sem Róhingjar eru ekki viðurkenndir sem þjóðarbrot í landinu. Þessi lög gerðu Róhingja í raun ríkisfangslausa. Í ágúst síðastliðnum náði vandi þeirra svo nýjum hæðum eftir að sveit herskárra Róhingja réðist gegn tugum varðstöðva í Mjanmar og drápu tólf meðlimi öryggissveita. Herinn brást við án þess að gera greinarmun á uppreisnarmönnum og almennum borgurum. Þorp Róhingja voru sum hver brennd til grunna og hundruðir Róhingja drepnir. Um 600.000 Róhingjar flúðu í kjölfarið til nágrannaríkisins Bangladess sem er eitt fátækasta ríki heims. Þar búa þeir nú við slæman kost í flóttamannabúðum.

Umfang vandans

Aleksandar Knezevic, einn af sendifulltrúum Rauða krossins á Íslandi í Bangladess sagði nýverið að ástandið í flóttamannabúðunum sé það versta sem hann hafi séð, en hann á að baki langan feril fyrir Rauða krossinn. Zeid Ra-ad al-Hussein, yfirmaður Mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna hefur kallað ástandið „kennslubókardæmi um þjóðernishreinsun.“ Filippo Grandi, flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, sem heimsótti flóttamannabúðirnar síðustu helgi (25.-26. nóv.), sagði neyðina vera mikla og að þangað til stjórnvöld í Mjanmar finni pólitíska lausn verði að tryggja aukna neyðaraðstoð inn á svæðið. Í samræmi við orð flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna má skipta vandanum í tvennt: Annars vegar vantar hjálparsamtök meiri fjármuni til að hafa burði til að sinna tímabundinni neyðaraðstoð fyrir svangt og veikt fólk í flóttamannabúðunum og byggja aftur upp þorp Róhingja. Hins vegar þarf pólitíska langtíma lausn í Mjanmar. Nánar tiltekið þurfa Róhingjar að öðlast ríkisborgararéttindi í landinu.

Auglýsing


Hvað merkir það að vera ríkisfangslaus?

Í Samningi um réttarstöðu ríkisfangslausra manna kemur fram að ríkisfangslaust fólk sé ekki ríkisborgarar í neinu ríki. Ríkisfangsleysi eða það að vera „í raun“ ríkisfangslaus (effectively stateless) er nú  skilgreint sem sú staða að hafa engin lagaleg réttindi né skyldur. Fræðimenn í þjóðarétti hafa sumir talið réttinn til ríkisfangs vera undirstöðuréttindi, vegna þess að sá réttur sé í raun réttur til að hafa réttindi. Áætlað er að um tíu milljónir manna séu ríkisfangslausir í dag með skelfilegum afleiðingum fyrir afkomu þeirra, réttindi og reisn. Til dæmis skortir ríkisfangslaust fólk almennt lagalega auðkenningu sem gerir fólki erfitt um vik að ferðast á milli landa, ganga í löglegan hjúskap, stofna fyrirtæki og fá vinnu. Þá fylgir ríkisfangsleysi venjulega ófullnægjandi aðgangur að heilsugæslu og skólum.

Ein af afleiðingum ríkisfangsleysis Róhingja í áranna rás hefur einmitt verið að þeir hafa búið við mikla fátækt og félagslegt óöryggi. Þá hefur veik staða Róhingja verði misnotuð af vinnuveitendum sem sjá sér leik á borði að ráða þá í svarta vinnu á verri kjörum. Róhingjar hafa því oft á tíðum neyðst til að vinna illa launaða skammtímavinnu. Þá hafa Róhingjar átt sífellt erfiðara með að fá aðgang að heilbrigðisþjónustu og húsnæði og börnum þeirra hefur endurtekið verið vikið frá skólum. Síðast en ekki síst hafa borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi þeirra verið fótum troðin, til dæmis með því að stjórnvöld hafa stundað að hneppa Róhingja í varðhald án dóms og laga.

Varnarleysi ríkisfangslauss fólks kom berlega fram í seinni heimsstyrjöldinni þegar ríkisstjórn nasista svipti alla gyðinga á sínu yfirráðasvæði ríkisborgararétti og gerði þar með ómögulegt fyrir nokkurt ríki að kanna aðstæður þeirra og afdrif eða koma þeim til hjálpar. Stuttu eftir heimsstyrjöldina eða árið 1950 var Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna stofnsett. Stofnunin er eina ígildi stjórnvalds sem tekur einhverja ábyrgð á ríkisfangslausu fólki.

Ríkisfang er forsenda virkra mannréttinda

Á átjándu öld þróaðist hugmyndin um mannréttindi. Réttindi einstaklinga voru þá merkt þeim sjálfum, sem fæðingarréttur hvers einstaklings. Í lok átjándu aldar fór þessi nýja hugsun að endurspeglast í lögum ríkja. Hugmyndin varð ein af forsendum þess að alþjóðasamfélagið gat farið að setja einhverjar hömlur á meðferð ríkja á eigin þegnum. Utan við þetta kerfi er hins vegar ríkisfangslaust fólk. Til dæmis reyndust mannréttindi ríkisfangslausra gyðinga þeim gagnslaus þar sem þeir sátu í þrælkunar- og fangabúðum, vegna þess að engri ríkisstjórn bar að veita þau né verja. Þetta vissu stjórnvöld í Þýskalandi nasismans og sviftu gyðinga því ríkisborgararétti áður en þeim var safnað saman í slíkar búðir. Það hefur takmarkað gildi að hafa réttindi ef enginn hefur skyldu til að veita þau.

Þrátt fyrir að 15. grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna (MSÞ) verji rétt allra til ríkisfangs gengur enginn samningur Sameinuðu þjóðanna svo langt að skylda ríki til að veita fólki ríkisborgararétt. Eftirlitsaðilar nota helst þá aðferð að fylgjast með og eftir atvikum hvetja aðildarríki til dáða við að að draga úr afleiðingum ríkisfangsleysis og koma í veg fyrir það. Alþjóðalög og fullveldi ríkja eru hér í mótsögn því ekkert yfirþjóðlegt vald getur tryggt framkvæmdina og neytt fullvalda ríki til að taka við einstaklingum sem sínum borgurum. Sumir fræðimenn líta svo á að ofangreint ákvæði MSÞ sé því meira í ætt við stefnuyfirlýsingu. Þó má benda á að sum ríki standa vel á bak við alþjóðlegar skuldbindingar sínar. Stjórnvöld í Sri Lanka og Indonesíu samþykktu til að mynda lög sem veittu stórum hópi fólks ríkisborgararéttindi á einu bretti. Í fyrra tilvikinu var um að ræða Tamil fólkið og hinu síðara fólk af kínversku þjóðerni. Hið sama getur gerst fyrir Róhingja í Mjanmar.

Neyðaraðstoð

Á meðan unnið er að pólitískri lausn og Róhingjar hafa ekki ríkisborgararéttindi þarf að tryggja tiltekin grunn réttindi og öryggi óbreyttra borgara með öðrum hætti. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur tekið ákveðna ábyrgð á ríkisfangslausu fólki. Það hafa frjáls félagasamtök einnig gert í einhverjum mæli. Þess vegna leita nú samtök á borð við Rauða krossinn til almennra borgara til að styrkja verkefni á vettvangi. Rauði krossinn hefur reynst afar skilvirkur í slíkum verkefnum um allan heim. Eitt af grundvallar gildum Rauða krossins er að taka ekki afstöðu til stjórnmála til að geta haldið opnu samtali við stjórnvöld og stríðandi fylkingar hvar sem er og til að fá aðgang að stríðshrjáðum svæðum, flóttamannabúðum og öðrum stöðum þar sem neyð fólks er mikil. Þannig hafa samtökin oft á tíðum náð að koma brýnustu nauðsynjum og læknisaðstoð til almennra borgara, á meðan vonast er til að hið pólitíska svið leiti langtíma lausna.

Mannvinir Rauða krossins hafa gert störf íslenskra sendiboða í flóttamannabúðunum í Bangladess möguleg undanfarna mánuði. Til að mynda starfa nokkrir íslenskri hjúkrunarfræðingar þar í tjaldsjúkrahúsi í samstarfi við norska og finnska Rauða krossinn, aðrir starfa við matarúthlutun og fleiri brýn verkefni. Annast þarf örmagna, veikt og vannært fólk og áætlað er að á milli þrjú og fjögur þúsund börn þurfi tafarlausa meðhöndlun vegna alvarlegrar vannæringar. Þá þurfa um þúsund börn sérstaka vernd eftir að hafa orðið viðskila við fjölskyldur sínar.

Tuttugasta og þriðja nóvember síðastliðinn bárust fréttir af því að samkomulag hefði náðst milli Aung San Suu Kyi, leiðtoga Mjanmar og Abul Hassan Mahmud Ali utanríkisráðherra Bangladess um að Róhingjar fengju að snúa aftur heim innan tveggja mánaða. Það gæti þó tekið mánuði eða ár að flytja allt fólkið til baka og byggja aftur upp þau þorp sem brennd hafa verið til grunna. Þangað til mun fólkið halda til í flóttamannabúðunum. Rauði krossinn mun því um óákveðinn tíma leitast við að fjármagna neyðaraðstoð á svæðinu.

Grunnur bágrar stöðu Róhingja er ríkisfangsleysi þeirra. Án ríkisfangs eru þeir í raun réttindalausir. Vinnuveitendur og aðrir hafa misnotað veika stöðu þeirra. Mikil spenna hefur því einkennt samskipti Róhingja og annarra íbúa Mjanmar. Upp úr sauð í ágúst síðastliðnum. Í kjölfarið flúðu hundruð þúsunda Róhingja til Bangladess. Á meðan vonast er eftir að tekið verði á rót vandans er nauðsynlegt að hið borgaralega samfélag sýni ábyrgð og styrki samtök sem eru með fólk á vettvangi. Fyrirséð er að það taki mánuði eða ár að vinda ofan af hinu tímabundna ástandi. Hægt er að leggja neyðarsöfnun Rauða krossins á Íslandi lið með því að senda sms-ið TAKK í númerið 1900 og styrkja þannig söfnunina um 1900 kr. Þá er einnig hægt að nota Kass appið með því að nota KassTag-ið takk@raudikrossinn eða leggja inn á reikning 0342-26-12, kt. 530269-2649.

Melkorka Mjöll Kristinsdóttir er meistaranemi í hnattrænum tengslum og sjálfboðaliði fyrir Rauða krossinn á Íslandi.Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Það er erfitt að ímynda sér að það snjói í Brasilíu en snjókoma er eflaust algengari þar en ætla mætti. Þessi mynd er tekin eftir snjókomu í Brasilíu í ágúst árið 2020
Snjór fellur í Brasilíu
Sumir íbúar í syðsta héraði Brasilíu hafa tekið snjónum fagnandi enda ekki á hverjum degi sem þar snjóar. Bændur gætu aftur á móti átt von á lakari uppskeru og verð á hrávörumörkuðum hefur hækkað í kjölfar kuldakastsins.
Kjarninn 30. júlí 2021
Landspítalinn er á hættustigi vegna kórónuveirufaraldursins.
Sjúklingur á krabbameinsdeild reyndist ekki með COVID
Sjúklingur og starfsmaður á blóð- og krabbameinslækningadeild Landspítalans, sem sagt var frá í gær að hefðu greinst með COVID-19 reyndust ekki smitaðir af kórónuveirunni.
Kjarninn 30. júlí 2021
Óli varð efstur í forvali VG í Norðausturkjördæmi en Bjarkey Olsen í öðru.
Óli Halldórsson hættur við að leiða lista VG í Norðausturkjördæmi
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir mun leiða lista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi. Óli Halldórsson færist niður í þriðja sætið en hann stígur til hliðar úr oddvitasætinu vegna veikinda í fjölskyldunni.
Kjarninn 30. júlí 2021
Um 85 prósent Íslendinga sextán ára og eldri eru bólusett
Fjórðungur smitaðra óbólusettur
Að minnsta kosti 255 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með kórónuveiruna hér á landi á þremur vikum. Tæplega 750 smit, um 72 prósent, eru hjá fullbólusettum.
Kjarninn 30. júlí 2021
Þessir frambjóðendur skipa sjö efstu sæti Sósíalistaflokksins í Suðvesturkjördæmi.
María Pétursdóttir og Þór Saari leiða sósíalista í Suðvesturkjördæmi
María hefur starfað innan Sósíalistaflokksins í fjögur ár sem formaður Málefnastjórnar. Raðað er á lista flokksins af hópi flokksfélaga sem hefur verið slembivalinn.
Kjarninn 30. júlí 2021
Ísland og Ísrael örva bólusetta
Á Íslandi og í Ísrael er bólusetningarhlutfall með því hæsta sem fyrirfinnst á jörðu. Bæði löndin sáu smit nær þurrkast út en rísa svo í hæstu hæðir á ný. Og nú hafa þau, sama daginn, ákveðið að gefa þegar bólusettum borgurum örvunarskammt.
Kjarninn 30. júlí 2021
Stóru bankarnir þrír fækkuðu allir í starfsliði sínu á fyrstu sex mánuðum ársins.
Starfsmönnum stóru bankanna fækkaði um rúmlega 80 á fyrri helmingi árs
Í lok júní störfuðu 2.167 manns hjá stóru viðskiptabönkunum þremur, Íslandsbanka, Landsbanka og Arion banka. Samanlagður hagnaður bankanna nam 37 milljörðum á fyrstu 6 mánuðum ársins.
Kjarninn 30. júlí 2021
Losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið á stóran þátt í því að þolmarkadagur jarðar er jafn snemma á árinu og raun ber vitni.
Þolmarkadagur jarðarinnar er runninn upp
Mannkynið hefur frá upphafi árs notað þær auðlindir sem jörðin er fær um að endurnýja á heilu ári. Til þess að viðhalda neyslunni þyrfti 1,7 jörð.
Kjarninn 29. júlí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar