Ný ríkisstjórn hefur tekið við í landinu undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur. Hún tekur við þegar fordæmalaus efnahagsleg velsæld ríkir á Íslandi en langvarandi pólitískur óstöðugleiki. Frá árinu 2007 er enda búið að kjósa fimm sinnum á Íslandi, fyrst og síðast vegna stanslausra hneykslis- og spillingarmála sem hafa ofboðið þjóðinni.
Einungis ein þeirra ríkisstjórna sem setið hafa frá 2007 hefur setið heilt kjörtímabil, sú sem sat við nánast vonlaus efnahagsleg skilyrði árin 2009 til 2013.
Nýja stjórnin stendur því frammi fyrir stóru verkefni.
Íhald umfram frjálslyndi
Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar ber öll merki þess að hana mynda mjög ólíkir flokkar með mjög ólík markmið. Ríkisstjórnin er kynnt sem breið stjórn sem endurspegli allt hið pólitíska litróf. Það er í besta falli hálfsannleikur. Þótt hún raði sér þvert yfir hinn að mörgu leyti úr sér gengna vinstri-hægri kvarða þá ráðast allir flokkarnir á sama ásinn á íhaldssemis-frjálslyndis kvarðanum.
Stjórnarsáttmálinn er mjög loðinn á köflum og erfitt að átta sig á með hvaða hætti flokkarnir ætla að framkvæma hlutina. Svo virðist sem hluta þeirra áskorana eigi að leysa við gerð fjárlaga og nýrrar fjármálaáætlunar.
Helstu ágreinings- eða vandræðamál eru annað hvort fjarverandi eða þau leyst með því að setja í þverpólitískar nefndir sem starfa væntanlega út kjörtímabilið, þangað til að næstu þverpólitísku nefndir um niðurstöðu þeirra verða skipaðar.
Þar ber auðvitað hæst stjórnarskrármálefni, sem enginn stjórnarflokkanna hefur sérstakan áhuga á miklum breytingum á.
„Skatta-Kata“ og „Panama-prinsinn“
Í aðdraganda síðustu kosninga mátti ætla, af nafnlausum kosningaáróðri stuðningsmanna Sjálfstæðismanna og orðræðu forystumanna þess flokks, að Ísland myndi festast í einhvers konar efnahagslegu svartnætti nánast samstundis ef „Skatta-Kata“ kæmist til valda.
Sömuleiðis var það afstaða lykilmanna hjá Vinstri grænum að ekki væri hægt að snerta Sjálfstæðisflokkinn „með töngum“ þar sem hann væri „smitberi spillingar, sérhagsmuna, hagsmunagæslu, leyndarhyggju, frændhygli, græðgi og óstjórnar.“ „Panama-prinsar“ væru ekki stjórntækir.
Oddvitinn í Reykjavík skoraði á flokkinn að leiða Sjálfstæðisflokkinn ekki til valda og formaðurinn kallaði Sjálfstæðismenn „höfuðandstæðing“ Vinstri grænna. Þingmaður flokksins sagði Sjálfstæðisflokkinn hafa „skapað þá menningu samtryggingar og leyndarhyggju sem við getum nú gengið á hólm við.“ Allir ofangreindir hafa síðan skipt um skoðun.
Þótt stjórnarsáttmálinn sé rúmlega 6.200 orð og framsettur á 40 síðum (reyndar með myndum) þá er ekki minnst einu orði á spillingu, siðferði, afnám leyndarhyggju né hvernig eigi að útrýma frændhygli. Þessi atriði sem skiptu, að því er virtist, öllu máli fyrir rúmum mánuði eru nú óviðkomandi.
Þar er lítið talað um skattahækkanir utan þess sem táknræn aðgerð á hækkun fjármagnstekjuskatts og breyting á skattstofni hans er sett fram. Hún skilar einungis 2,5 milljörðum króna í viðbótartekjur fyrir ríkissjóð.
Raunar er mun meira um skattalækkunartillögur og -áform. T.d á að afnema skatt á bókum. Svo er stefnt að því að lækka tekjuskatt og tryggingargjald og hætt við að láta ferðaþjónustufyrirtæki borga hærri virðisaukaskatt, sem átti að skila yfir 20 milljörðum króna á ári í nýjar tekjur fyrir ríkissjóð. Þetta eru skattabreytingarnar í ríkisstjórn „Skatta-Kötu“.
Skattaeftirlitið sem Vinstri græn ætluðu að láta borga fyrir aukna velferð fyrir kosningar er afgreitt í stjórnarsáttmála með eftirfarandi hætti: „Skattrannsóknir verða efldar samhliða því að vinna með aðilum vinnumarkaðarins að ábyrgari vinnumarkaði.“
Gengið á pólitíska inneign Katrínar
Það er margt gott í sáttmálanum. Megináherslur hans eru réttar. Þær eru á því að styrkja innviði. Auka og efla nýsköpun og stækka hin svokallaða alþjóðageira til að mæta þeim fordæmalausu samfélagsbreytingum sem við stöndum frammi fyrir vegna fjórðu iðnbyltingarinnar. Og svo auðvitað á loftlagsmál, sem er langstærsta mál samtímans.
Vinstri græn virðast vera með leikáætlun. Hún snýst um að koma í gegn sínum áherslum úr þeim ráðherrastólum sem flokkurinn fær, þótt þær séu ekki skýrt fram settar í stjórnarsáttmála.
Sjálfstæðisflokkurinn verður þó að teljast, einu sinni sem oftar, sigurvegari þessara stjórnarmyndunarviðræðna þangað til annað kemur í ljós. Hann tapaði mest allra í síðustu kosningum, alls fimm þingmönnum, og fékk sína næst verstu útreið í sögu flokksins. Það er nú staðreynd að síðustu þrjár ríkisstjórnir sem hann hefur myndað hafa sprungið og slóð hneykslismála sem Sjálfstæðisflokkurinn er nú með á eftir sér er orðin ansi löng.
Þrátt fyrir að bera sig alltaf sem sigurvegara, þá var staða Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, mjög veik eftir kosningarnar í síðasta mánuði. Hann þurfti að komast í ríkisstjórn til að halda pólitísku lífi. Það tókst og Bjarni fær nú skjól frá Katrínu, vinsælasta stjórnmálamanni þjóðarinnar. En um leið er hann að ganga á hennar pólitísku inneign. Það mun hún nýta til að koma sínum áherslum að.
Stefnan er rétt, en svo er það framkvæmdin
Þótt tónninn í sáttmálanum sé réttur á enn eftir að koma í ljós hversu vel Katrínu og Vinstri grænum, og hinum framsýnu stjórnmálamönnunum í ríkisstjórninni á borð við Lilju Alfreðsdóttur og Þórdísi Kolbrúnu Reykjafjörð Gylfadóttur, sem bera ábyrgð á lykilmálaflokkum í þessari vegferð, mun ganga að hrinda þessum nauðsynlegu breytingum í gagnið.
Það er nefnilega þannig, og hefur alltaf verið, að stefna er eitt, en framkvæmd annað. Þegar reynt verður að ýta breytingum úr vör, og ná í aukið fjármagn til að koma þeim á, mun hin öfluga sérhagsmunagæsla íslensku eignastéttarinnar, sem á þorra fjármagns hérlendis og vill halda því þannig, birtast af alvöru.
Yfir til ykkar
Það er hægt að gera allt á Íslandi. Tækifærin hér eru óþrjótandi. Hér er hægt að byggja upp fjölbreytt og framsækið samfélag sem getur séð um alla sína þegna og veitt þjónustu á heimsmælikvarða. Það er hægt að vera leiðandi í breytingum vegna loftlagsmála. Það er hægt að vera í fremstu röð í nýsköpun og með því er hægt að skapa þau störf sem munu þykja eftirsóknarverðust í framtíð sem verður allt öðruvísi en sá veruleiki sem við þekkjum í dag. Það er hægt að auka jöfnuð, láta gagnsæi, heiðarleika og mannúð vera leiðarstef í okkar samfélagsgerð.
Í ljósi þeirrar tortryggni og úlfúðar sem ríkt hefur í þjóðfélaginu í tæpan áratug þá fær ný ríkisstjórn tækifæri til þess að sýna það í verki að hún vilji bæta það ástand. Að hún taki almannahagsmuni fram yfir sérhagsmuni. Að fúsk, valdníðsla, spilling og leyndarhyggja sé eitthvað sem heyri nú sögunni til og verði ekki liðið. Þau fá nýtt tækifæri til að sýna fyrir hvern þau raunverulega vinna. Og að þau vinni líka fyrir þann hluta þjóðarinnar sem kaus ekki flokkinn þeirra.
Það eina sem þarf er vilja. Yfir til ykkar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Gangi ykkur vel.