Miklar breytingar hafa orðið á stöðu íslenska hagkerfisins á undanförnum árum og hefur vægi einstakra viðskiptalanda Íslands tekið miklum breytingum frá því sem áður var. Ísland er orðið mun háðara Bandaríkjunum en það var, og þá einkum vegna áhrifa ferðaþjónustunnar.
Bandarískir ferðamenn hafa komið með mörg hundruð milljarða inn í landið í formi gjaldeyristekna, á undanförnum árum, og er landið nú orðið stærsta einstaka viðskiptaland Íslands, þegar horft er til þjónustu- og vöruviðskipta.
Athyglisvert er þó, að vöruútflutningur Íslands til Bandaríkjanna mætti vera mun meiri miðað við stærð markaðssvæðsins. Til samanburðar má nefna að vöruútflutningur frá Íslandi er Spánar er um tvöfalt meiri en til Bandaríkjanna, sé miðað við tölur Hagstofu Íslands, sem teknar voru saman í skýrslu Samtaka atvinnulífsins í sumar.
Tekjur af þjónustu, þar sem ferðaþjónusta er langsamlega fyrirferðamest, námu hins vegar um 126 milljörðum króna árlega og heildarumfang viðskiptasambandsins (inn- og útflutningur) tæplega 300 milljörðum. Sambærilegt viðskiptasamband við Bretland, sem lengi hefur verið stærsta viðskiptaland Íslands (sé horft framhjá uppskipun áls í Hollandi í hagtölunum), er um 235 milljarðar króna.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er vikið sérstaklega að því að gæta þurfi vel að hagsmunum Íslands þegar kemur að útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, og er það vel skiljanlegt, enda miklir hagsmunir í húfi.
Þörf á betri og meiri greiningum
Minna hefur farið fyrir því að það fari fram hagsmunamat, ítarlega og greinargott, á sambandi Íslands og Bandaríkjanna, eins og mál standa nú. Efnahagslegt samband ríkjanna hefur aldrei verið meira og fjölmörg tækifæri fylgja auknum flugsamgöngum milli landanna sem nýta mætti mun betur, t.d. þegar kemur að auknum vöruviðskiptum milli landanna.
Þrátt fyrir hálfgert niðurlægingarskeið á sviði bandarískra stjórnmála, með Donald Trump Bandaríkjaforseta sem helsta boðbera dellu og yfirborðsrifrilda um hin ýmsu mál, þá eru mörg svæði innan Bandaríkjanna sem Ísland þarf að efla tengsl sín við. Tugmilljóna svæði með mikla vaxtarmöguleika fyrir hinar ýmsu vörur og fyrirtæki er að finna í þessu fjölbreytta stórveldi.
Má nefna Vesturströnd Bandaríkjanna sérstaklega í því samhengi, en þar búa um 50 milljónir manna (Kalifornía 39 milljónir, Oregon 4 milljónir og Washington 7 milljónir). Vöxtur er þar mikill og mikil tækifæri á sviði iðnaðar, tækni og vöruviðskipta, svo eitthvað sé nefnt. Bættar flugsamgöngur á svæðið hafa opnað dyr á svæðið sem mætti nýta betur.
Auk þess hefur efnahagur Bandaríkjanna verið að þróast með jákvæðum hætti að undanförnu, þrátt fyrir delluna sem veður uppi í stjórnmálunum, eins og Janet Yellen, fráfarandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, benti á ekki alls fyrir löngu.
Af sem áður var
Í yfirgripsmikilli skýrslu Seðlabanka Íslands um valkosti Íslands í gjaldmiðlamálum, frá árinu 2012, var fjallað um viðskiptasamband Íslands og Bandaríkjanna og þann valkost að taka upp Bandaríkjadal. Í skýrslunni segir: „Af öðrum valkostum hafa Bandaríkin þann kost að vera stórt myntsvæði og Bandaríkjadalur er forðagjaldmiðill. Því myndi töluverður ábati í formi nettenglaáhrifa fylgja upptöku Bandaríkjadals. Hins vegar eru viðskipti Íslands við Bandaríkin tiltölulega lítil og tengsl við hagsveiflu þeirra takmörkuð. Þótt breska myntsvæðið sé minna en hið bandaríska hefði Sterlingspundið þann kost að breska hagsveiflan virðist vera tengdari Íslandi og viðskipti við Ísland meiri.“
Algjör kúvending hefur orðið á þessari stöðu frá því skýrslan kom út fyrir rúmum fimm árum, og augljóst að fjallað yrði með allt öðrum hætti um forsendurnar fyrir upptöku Bandaríkjadals nú heldur en þá.
Óháð spurningunni um hvort taki eigi upp annan gjaldmiðil, eins og var til umfjöllunar í fyrrnefndri skýrslu, þá er þörf á því að greina þetta mikla og djúpa viðskiptasamband við Bandaríkin betur. Til dæmis hvað það er sem getur leitt til niðursveiflna og hvernig megi styrkja sambandið enn betur til framtíðar litið.