Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hyggst koma á fót Þjóðarsjóði, þar sem safna á fjármunum sem koma frá auðlindum í almannaeigu.
Þetta er gömul hugmynd, sem komið hefur fram með ýmsum hætti í gegnum tíðina, en líklegt er að í þetta skiptið þá verði þessi hugmynd að veruleika. Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstri græn og Framsóknarflokkurinn eru með það breiða og sterka stöðu á hinu pólitíska sviði, að ef þau hafa vilja til að hrinda þessu í framkvæmd það mun það gerast hratt. Stjórnarandstaðan hefur líka verið opin fyrir þessum hugmyndum, í það minnsta að miklu leyti.
En hvernig gæti Þjóðarsjóðurinn verið útfærður?
Ríkisstjórnin einblínir á orkuauðlindir í stjórnarsáttmálanum og segir í stefnuyfirlýsingu sinni: „Þjóðarsjóður verður stofnaður utan um arð af auðlindum landsins og byrjað á orkuauðlindinni. Hlutverk sjóðsins verður að byggja upp viðnám til að mæta fjárhagslegum áföllum. Afmarkaður hluti ráðstöfunarfjár sjóðsins verður notaður til að efla nýsköpun og styðja við vöxt og þroska sprotafyrirtækja. Með því verður fræjum sáð til eflingar nýrra vel launaðra starfa í framtíðinni. Einnig verður hluti nýttur til átaks í uppbyggingu hjúkrunarrýma fyrir elstu kynslóðina.“
Auðlindir landsins
Það sem er athyglisvert hér er talið um að „byrja á orkuauðlindinni“. Mér finnst þetta einkennilegt, og virðist benda til þess að stjórnarflokkarnir séu ekki búnir að hugsa hlutverk og fjármögnun sjóðsins nægilega vel. Þetta er nefnilega ekki lítið mál, heldur stórt og mikið. Framtíð okkar litla samfélags á mikið undir í því að vel takist til.
Ef horft væri til orku- og sjávarauðlinda þá væri sjóðurinn með nokkuð augljósa tekjustofna.
Tekjurnar kæmu úr því sem almenningur fengi fyrir auðlindir sínar. Með því að stofna sjóðinn og koma honum á þá lifnar mikilvæg rökræða við, sem gæti haft mikil áhrif á hið pólítíska landslag til framtíðar litið.
Auðvelt er að nefna dæmi því máli til stuðnings erlendis frá. Norðmönnum bar mikil gæfa til þess að byggja upp skynsamlegt kerfi í kringum norska olíusjóðinn, sem í dag er stærsti fjárfestingasjóður heims, með eignir upp á rúmlega þúsund milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 104 þúsund milljörðum króna. Það er upphæð sem nemur tæplega 200 þúsund Bandaríkjadölum á hvern Norðmann, eða um 22 milljónum króna. Til samanburðar nema eignir íslenska lífeyrissjóðakerfisins um 10,8 milljónum á hvern Íslending.
Tvennt skipti sköpum við uppbyggingu sjóðsins.
1. Stjórnmálamenn geta ekki teygt sig í fjármagnið og fjármagnað gæluverkefni. Það er beinlínis ekki hægt, vegna þess hvernig stofnanaleg umgjörð sjóðsins er. Hún heyrir undir Seðlabanka Noregs og ríkissjóð, en hefur þannig umgjörð, að ákvarðanir um notkun fjármuna getur ekki verið tengd stjórnmálamönnum.
2. Hitt atriðið snéri að því að tryggja að fjármagnið sem kemur í sjóðinn fari beint úr norsku hagkerfi, að langmestu leyti, eða 96 prósent. Vegna þess hve miklar stærðir eru fyrir hendi, þegar kemur að tekjum af olíuauðlindum Noregs, þá er það mikilvægt hagstjórnarlegt atriði fyrir Noreg að ávaxta fjármunina á alþjóðlegum mörkuðum.
Norska ríkið á tæplega 70 prósent í Statoil og skattlegur hagnaðinn af olíuvinnslunni um tæplega 80 prósent. Þetta gerir það að verkum að langstærsti hluti hagnaðar af olíuvinnslunni í Noregi fer til almennings, í gegnum norska olíusjóðinn.
Hann er síðan með langtíma fjárfestingastefnu og miðar áætlanir sínar fyrir komandi kynslóðir, fyrst og fremst. En einstaka undantekningar má þó nefna. Til dæmis kemur sjóðurinn að fjármögnun innviðaverkefna í Noregi á næstu 15 árum. Umfang þeirra er með ólíkindum, eða um 15 þúsund milljarðar íslenskra króna. Sterkari innviðir, meðal annars á sviði fjarskipta og samgangna, eru taldir lykilatriði til að tryggja samkeppnishæfni Noregs í fjórðu iðnbyltingunni.
Ef horft er til orku- og sjávarauðlinda, þá gæti Þjóðarsjóðurinn haft þrjá tekjustofna.
1. Arðgreiðslur Landsvirkjunar
2. Veiðigjöld útgerða
3. Leyfisgjöld fiskeldis í sjó
Sé mið tekið af stöðunni eins og hún er núna þá ætti Þjóðarsjóðurinn að geta fengið á bilinu 15 til 25 milljarða á ári, næstu árin, vegna arðgreiðslna Landsvirkjunar og veiðigjalda.
Veiðigjöldin hafa verið á bilinu 5 til 13 milljarðar á síðustu árum, og sveiflast með afkomu af einhverju leyti. Fyrirsjáanlegt er að arðgreiðslur Landsvirkjunar muni hækka mikið á næstu árum, vegna sterkari fjárhagsstöðu fyrirtækisins, þar sem skuldir hafa verið greiddar niður. Fyrirsjáanlegt er að mikil verðmæti munu safnast upp hjá Landsvirkjun, eftir því sem skuldastaðan batnar, og virkjanir verða þannig hagkvæmari.
Leyfisgjöldin í fiskeldi eru hins vegar einskis metin á Íslandi, miðað við t.d. hvernig virði þeirra hefur verið metið í viðskiptum í Noregi. Þetta er mikið umhugsunarefni. Þau ættu að geta skilað Þjóðarsjóðnum t.d. 500 til þúsund milljónum á ári, en síðan meiru eftir því sem umfang fiskeldis í sjó verður meira.
Til einföldunar myndi með þessu móti safnast upphæð árlega í Þjóðarsjóðinn sem nemur um 0,8 til 1 prósent af árlegri landsframleiðslu, miðað við stöðu mála eins og hún er núna. Það er 20 til 25 milljarðar, miðað við að árleg landsframleiðsla sé um 2.500 milljarðar króna.
Það skal tekið fram að regluverk og umræða um umhverfisþætti fiskeldis í sjó er enn lifandi umræða. Uppbygging hefur verið hröð, og umræðan að einhverju leyti vanþroskuð þess vegna. Það gæti vel farið svo að lokum að þau alþjóðlegu fyrirtæki sem nú vinna að því að byggja upp starfsemi sína á Íslandi, í samstarfi við Íslendinga, muni að lokum greiða mun meira fyrir leyfin en þau gera nú, og muni auk þess búa við strangt eftirlit þar sem enginn afsláttur verður gefinn á neinu.
Allar forsendur eru til þess að skapa þjóðarsátt um Þjóðarsjóðinn, en það væri einfeldni að halda að það verði auðvelt að koma honum á og byrja að safna í hann fjármunum. Rökræðan um skiptingu arðs af auðlindum í almannaeigu hangir saman við tilvist hans. Þess vegna er mikilvægt að stjórnmálamenn átti sig strax á mikilvægi þess að vanda til verka og bera virðingu fyrir því að þeir eiga ekki að geta teygt sig í hann til að fjármagna gæluverkefni. Hann á að vera fyrir komandi kynslóðir og þannig velferð heildarinnar.