Fátt er mikilvægara en að eiga heimili. Þrátt fyrir fordæmalaust efnahagslegt góðæri á undanförnum árum er staðan samt sem áður sú að fjölmargir Íslendingar glíma við þá stöðu að eiga annað hvort ekki í nein hús að venda, eða þurfa að lifa við mikið óöryggi á leigumarkaði. Tugir manna búa til að mynda á tjaldsvæðum. Þetta fólk á nær enga möguleika á að kaupa sér húsnæði. Verð á slíkt á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 94 prósent á sjö árum. Verðið síðustu tvö ár hefur hækkað langt umfram kaupmáttaraukningu.
Flest lágtekjufólk sem kemst þó í húsnæði leigir slíkt. Nær enginn er á leigumarkaði vegna þess að hann langar til þess. Á Húsnæðisþingi sem velferðarráðuneytið og Íbúðalánasjóður boðuðu til í október kom fram að 80 prósent leigjenda vilji kaupa sér íbúð. 57 prósent sögðust vera á leigumarkaði af nauðsyn. Þar kom líka fram að þriðji hver leigjandi borgar meira en helming af ráðstöfunartekjum sínum í leigu og að fáir tekjulágir leigjendur geti safnað sér nokkru sparifé.
Alls eru 17 prósent heimila á Íslandi á leigumarkaði. Leiguverð hefur samtals hækkað um 75-80 prósent frá því í byrjun árs 2011. Á sama tíma hefur hið opinbera varið lægra hlutfalli af landsframleiðslu í húsnæðisstuðning en það hefur gert að meðaltali síðastliðin 15 ár. Til að ná meðaltalinu vantar um fimm milljarða króna árlega upp á. Og ofan á það fóru 90 prósent þeirra vaxtabóta sem greiddar voru út í fyrra til efnameiri helmings þjóðarinnar.
Af hverju er þetta svona? Og hefur þetta alltaf verið svona? Svarið við því er nei. Áratugum saman var rekið á Íslandi félagslegt húsnæðiskerfi. Það óx mest á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. Innan þess gat tekjulágt fólk bæði keypt eða leigt húsnæði á verði sem það réði við.
Þeir sem keyptu gátu tekið félagsleg lán. Þau voru þannig að vextir á þeim voru lægri, lánstíminn lengri og veitt voru hærri lán sem hlutfall af kostnaði íbúðar. Þetta kerfi gerði það að verkum að lágtekjufólk átti mun auðveldara með að eignast þak yfir höfuðið. Árið 1998 voru félagslegar íbúðir á landinu alls 11.044 talsins.
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem mynduð var eftir alþingiskosningar vorið 1995, boðaði í málefnasamningi verulegar breytingar á húsnæðismálum. Í þeim fólst m.a. að leggja niður Húsnæðisstofnun ríkisins, fyrri lánveitingum í félagslegum tilgangi var hætt og öll lánastarfsemi Byggingasjóðs verkamanna var aflögð.
Það þýddi að þeir sem voru í félagslega kerfinu voru allir komnir inn í almenna kerfið. Þurftu að taka lán á sömu kjörum og aðrir sem þar voru en höfðu meira á milli handanna og keppa við þá um takmarkað magn leiguíbúða.
Þessi pólitíska ákvörðun gerði það að verkum að eftirspurn eftir íbúðum til kaups og leigu á almenna markaðnum jókst margfalt á einni nóttu. Þegar eftirspurnin varð síðan mun meiri en framboðið eftir hrunið, vegna samdráttar í byggingu íbúða árum saman og svo ferðamannasprengju, skapaðist síðan neyðarástand sem bitnar fyrst og síðast á fátækustu íbúum þessa lands.
Um síðustu áramót voru félagslegar íbúðir á Íslandi rúmlega helmingi færri en þær voru þegar kerfið var afnumið, eða 5.065 talsins. Til viðbótar reka Félagsbústaðir, Búseti, Félagsstofnun stúdenta, Byggingafélag Námsmanna og Öryrkjabandalag Íslands samtals nokkur þúsund íbúðir. Þessar íbúðir eru fjarri því nægjanlega margar og það er pólitísk ákvörðun að þeim hafi ekki fjölgað meira.
Því fer fjarri að þetta nægi til að takast á við þann vanda sem nú er til staðar. Þess vegna er unnið að því að standsetja neyðarhúsnæði í Víðinesi. Þess vegna býr fólk á tjaldsvæðum.
Og það er þjóðarskömm.