Ég er enn að jafna mig á þeim frábæra og nánast ótrúlega áfanga að karlalandslið Íslands skuli vera á leiðinni á HM. Ég viðurkenni að þegar ég var yngri þá bjóst ég ekki við að það myndi gerast á minni ævi. En við erum á leiðinni og keppnin verður haldin í Rússlandi. Nú er búið að draga í riðla og ljóst er að Ísland mun keppa við þessi landslið í þessum borgum:
Ísland - Argentína í Moskvu 16. júní.
Ísland - Nígería í Volgograd 22. júní.
Ísland - Króatía í Rostov 26. júní.
Þetta eru allt sögufrægar borgir og ekki síst úr seinni heimsstyrjöldinni þar sem örlagaríkar orrustur voru háðar við hverja og eina eftir að Þjóðverjar réðust inn í Sovétríkin þann 22. júní 1941 í Barbarossa-aðgerðinn. Þar sem margir Íslendingar mun fara á HM þá er ekki úr vegi að skoða aðeins þessa sögu enda gerir það ferðalagið skemmtilegra að þekkja til þessara borga áður en þangað er farið.
Moskva
Var þá höfuðborg Sovétríkjanna rétt eins og hún er höfuðborg Rússlands í dag. Borgin á sér langa sögu og fyrsti vísir að borg var á tólftu öld eftir Krist. Í innrás Þjóverja þá var markmið þeirra að gjörsigra hersveitir Sovétríkjanna eða Rauða herinn eins og hann kallaðist. Þjóðverjar voru mjög sigurreifir eftir að hafa unnið Pólland, Danmörk, Noreg, Frakkland, Júgóslavíu og Grikkland. Þeir höfðu unnið hvern stórsigurinn á eftir öðrum og flestir í þeirra röðum töldu að Svovétríkin myndu falla fljótt. Hitler hafði meir að segja látið eftir sér að „Við þurfum aðeins að sparka niður hurðinni og hið rotna hús mun hrynja.“
Það kom þó á daginn að Rauði herinn var stærri en herforingjum Þjóðverja hafði órað fyrir og landið var líka margfalt stærra en þau lönd sem þeir höfðu þegar lagt undir sig. Þegar komið var fram í ágúst þá voru engin uppgjafarmerki hjá Rússum og enn voru stórir herir ósigraðir. Það var þá sem helstu foringjar og Hitler deildu um framhaldið. Sumir herforingjanna vildu taka stefnuna á Moskvu en Hitler taldi mikilvægara að sigra stærstu heri sem Sovétmenn áttu við Kíev. Ákvörðun Hitlers varð ofan á og við tóku orrustur um Kíev sem lauk með enn einum sigri Þjóðverja en nú var að nálgast október og haustregnin breyttu vegum í leðju og drullu og frekari sóknir voru ómögulegar. Rússar kalla þetta tímabil raputitsa sem þýðir vegleysutímabilið.
(Kort úr bókinni Föðurlandsstríðið mikla og María Mitrofanova sem sýnir vel sóknarhraða Þjóðverja. Í fyrstu komust þeir hratt yfir en stöðugt hægði á framgangi þeirra.)
Þann 7. nóvember hafði Stalín kallaði til mikillar hersýnignar í Moskvu á afmæli októberbyltingarinnar. Það var gert til að stappa stálinu í íbúanna og hersveitirnar fóru beint á vígstöðvarnar. Það var ekki fyrr en 15. nóvember að þýski herinn gat hafið stórsókn gegn Moskvu. Þrátt fyrir samfellda sigurgöngu þá var mjög gengið á þýska herinn, rétt um þriðjungur farartækja voru enn ökuhæf og það hafði verið talsvert mannfall í hersveitunum. Rússar höfðu notað tíman vel og byggt upp varnir og kallaði til nýjar hersveitir til að mæta þessari sókn.
Þegar fyrstu frostin komu þá gladdi það Þjóðverjanna því nú var jarðvegurinn aftur orðin nógu harður til að skriðdrekar kæmust áfram en sú gleði var skammvinn því við tók kaldasti vetur tuttugustu aldarinnar og Þjóðverjar voru engan veginn í stakk búnir að mæta honum. Við það bættist harðandi mótspyrna Rauða hersins og slæmt ástand þýska hersins. Þann 5. desember fyrirskipaði þýska herráðið að frekari sóknaraðgerðum skyldi slegið á frest en þá voru þýskar hersveitir komnar í aðeins 15 km fjarlægð frá Moskvu. Þjóðverjar gerðu ráð fyrir að Rússar væru í enn verri málum enda höfðu þeir fellt eða tekið til fanga allt að 6 milljónir hermanna Rauða hersins. En þar misreiknuðu þeir sig hrapalega.
Þrátt fyrir mikinn missi gegn sókn Þjóðverja þá hafði Rússum tekist að byggja upp nýja heri og kalla til hersveitir frá Asíu. Þær hersveitir voru vígvanar eftir bardaga við Japani og þar að auki vel útbúnar til vetrarhernaðar og kölluðust Síberíuhersveitirnar. Með þessar nýju sveitir þá sótti Rauði herinn nú fram og náði að hrekja þýska herinn 100 til 250 km frá Moskvu.
Það var ekki ljóst þá en þessi vetrarsókn Sovétmanna markaði þáttaskil í stríðinu. Í fyrsta sinn höfðu Þjóðverjar farið hallloka í átökum og voru nú komnir í langvinnt stríð við eitt af risaveldum jarðarinnar. Stríð sem þeir gátu ekki unnið.
Um tíma leit út fyrir að Moskva gætið fallið og margir hafa velt því fyrir sér hver örlögin hefðu verið hefði þýski herinn beitt sér fyrst að Moskvu í stað Kíev. En sagan sýnir að Rússum tókst að verja Moskvu og eftir vetrarsókn þeirra var borgin aldrei aftur í hættu. Eftir stríð þá var hún gerð að einni af hetjuborgum Sovétríkjanna vegna mikilvægis varnar hennar í stríðinu.
Í Moskvu eru margar sögufrægar byggingar og söfn sem vert er að skoða. Þið getið ímyndað ykkur hermennina sem gegnu framhjá Kreml á leið á vígstöðvarnar hinn örlagaríka vetur. Njótið vel.
(Rússneskir hermenn á hersýningu við Kreml á leið á vígstöðvarnar.)
Volgograd Stalíngrad
Volgograd hét Stalíngrad í seinni heimsstyrjöldinni. Hún var þá nefnd eftir Stalín sjálfum og var fyrirmyndarborg Sovétríkjanna. Þar átti ein frægasta orrusta allra tíma sér stað, Orrustan um Stalíngrad.
Um vorið 1942 þá virtist allt ganga möndulveldunum í hag. Þjóðverjar höfðu lagt undir sig megnið af fastalandi Evrópu, lagt undir sig Úkraínu, Hvíta-Rússland og stór svæði af vestur Rússalndi. Á sama tíma þá hafði Japönum tekist að leggja undir sig hálft Kyrrahafið. Í Norður Afríku þá hafði Rommel tekist að hrökkva Bretum á flótta. Ekkert virtist geta stöðvað þessar stríðsþjóðir. Eftir að hafa stöðvað vetrarsókn Sovétmanna þá undirbjuggu Þjóðverjar nýja sókn. Fyrsta árið hafði veikt heri þeirra en þeir voru enn í ráðandi stöðu. Þeir áttu þó enga möguleika á að sækja fram á öllu vígstöðvum eins og árið áður og ákváðu að leggja áherslu á að ná undir sig olíusvæðum Kákasus enda höfðu Þjóðverjar mjög takmarkað aðgengi að bensíni og olíu sem knýði þyrsta vígvél þeirra áfram. Það er athyglisvert að Stalíngrad var ekki á meðal helstu markmiða sumarsóknarinnar, heldur átti aðeins að sækja að bökkum Volgu til að verja sóknina að Kákasus.
Sóknin fór vel af stað en hinar miklu víðáttur Rússlands voru erfiðar yfirferðar og aðflutningar vista, skotfæra og eldsneytis reyndust mjög erfiðir og hægðu á sókninni. Þegar sjötti þýski herinn kom að Stalíngrad þá stefndu þeir á að ná borginni en Rauði herinn hafði haft tíma til að koma við vörnum. Borgin varð fljótt lögð í rúst en í aðgerðum stríðandi aðila varð borgin langt um mikilvægari en hernaðarlegt mikilvægi hennar sagði eitt og til um. Orrustan um borgina varð að táknrænum bardaga fyrir stríðið allt. Rússar og Þjóverjar sendu inn meiri og meiri herafla en hvorugur gat unnið. Þar sem Þjóðverjar áttu ekki næga hermenn þá urðu þeir að reiða sig meira og meira á bandamenn sína, Rúmena, Ítali og Ungverja og fengu herir þessara landa það hlutverk að halda uppi vörunum til hliðar við Stalíngrad á meðan þýsku hermennirnir fengu það hlutverk að ná borginni. Það leit líka útfyrir að Þjóðverjar hefðu betur því í hverri sókn tókst þeim að leggja nýja hluta borgarinnar undir sig og í nóvember þá réðu þeir yfir næstum níu tíundu þessarar borgar sem var orðin rústir einar.
(Kort úr bókinni Föðurlandsstríðið mikla og María Mitorfanova sem sýnir sókn Þjóðverja 1942. Takið eftir að herir bandamanna þeirra, Rúmena, Ungverja og Ítala eru um helmingur sóknarhersins en Þjóðverjar urðu að reiða sig á bandamenn sína til að bæta upp eigið mannfall. Þessir herir voru þó illa útbúnir og máttu sín lítils gegn skriðdrekum Rússa.)
Frá því í september þá höfðu yfirmenn Rauða hersins hinsvegar mun metnaðarfyllri ráðagerð í huga. Þeir myndu senda inn í Stalíngrad rétt nóg af hermönnum og hergögnum til að forða henni frá falli til að draga Þjóðverja í kostnaðarsamt þreytistríð. Á meðan þeir byggðu upp nýja sóknarheri til vesturs og suður við borgina. 19. nóvember réðust þeir fram í Úranus aðgerðinni og á þremur dögum tókst þeim að umkringja Stalíngrad og loka inni um 300.000 hermenn Þjóðverja í herkví. Tilraunir Þjóðverja til að opna leið til Stalíngrad brugðust og fljótt varð þeim stærri vandi á höndum þegar það elit útfyrir að allur her þeirra í Kákasus myndi líka lokast af. Þjóðverjar einbeittu sér að bjarga þeim sveitum og örlög Þjóðverja og bandamanna þeirra við Stalíngrad voru ráðin. Þegar þeir gáfust upp vrou aðeins um 90.000 hermenn enn á lífi og rétt um 5000 lifðu nógu lengi til að snú heim til Þýskalands.
Orrustan um Stalíngrad varð hinn tákræni vendipunktur austurvígstöðvanna og heimstyrjaldarinnar allrar. Eftir Stalíngrad myndu Þjóðverjar ekki vinna aðra stórsigra og fljótt tók við stöðugt undanhald sem endaði með því að Rauði herinn lagði undir sig Berlín. Tímaritið TIME valdi Stalín sem mann ársins 1942 og sagði að eftir þetta þá væri öruggt að bandamenn myndu fara með sigur. Það reyndist líka vera rétt.
Nafni borgarinnar var breytt í Volgograd árið 1961 þegar verið var að afmá ummerki Stalíns undir stjórn Nikita Krústjoff. Líkt og Moskva var Stalíngrad gerð að hetjuborg. Í dag má finna mörg minnismerki í borginni um þennan hildarleik en þar má helst nefna minnismerkið við Mamayev Kurgan. Þar stendur stærsta stytta Rússlands, Móðurjörðin kallar á hæð og allt í kring eru minnisvarðar um átökin.
(Junkers Ju 87 betur þekkt sem Stúka flugvélar á sveimi yfir Stalíngrad sem stendur við hlið Volgu.)
Rostov-á-Don
Rostov-á-Don er mikilvæg borg þar sem brýr liggja yfir stórfljótið Don og var borgin lykill að Kákasus svæðinu. Þjóðverjum tókst að ná henni tvisvar í seinni heimsstyrjöldinni. Fyrst í Barbarossa-innrásinni í nóvember 1941 en höfðu þá farið fram úr sér. Sovétmönnum tókst að skipleggja gagnsókn og von Rundstedt marskálkur fyrirskipaði undanhald. Hitler skipaði honum að hætta við en Rundstedt hlýddi því engu og var rekinn. Von Raichenau sem tók við af honum sá að þetta var það eina rétta í stöðunni og Sovétmenn náðu borginni aftur 2. desember.
Þjóðverjar náðu svo borginni aftur í lok júlí 1942 í sókn sinni til Kákasus og komust þannig yfir Don á nýjan leik og héldu henni fram í Febrúar 1943 þegar Sovétmenn náðu henni tilbaka eftir sókn sína við Stalíngrad. Eftir að Þjóðverjar náðu henni í júlí þá myrtu þeir 27.000 gyðinga sem bjuggu þar.
Rostov-á-Don var þá og er enn í dag mikilvæg samgöngumiðstöð og tengir saman Svartahafið, Kaspíahaf, Eystrasaltið, Azov-haf og Hvítahaf. Í borginni bú rúmlega milljón íbúar. Ekki er mikið um minnismerki um seinni heimsstyrjöldina í borginni og er hún lágstemmdari en hinar tvær.
(Brýrnar yfir Don fljót stórskemmdar eftir orrustunar um Rostov.)
Greinarhöfundur er höfundur bókarinnar Föðurlandsstríðið mikla og María Mitrofanova sem kemur út um jólin. Bókin segir sögu austurvígstöðvanna í seinni heimsstyrjöldinni. Þá segir hún einnig frá ævi Maríu Mitrofanovu sem fæddist 1925 í Smolensk og barðist í Rauða hernum í seinni heimsstyrjöldinni en Rússar kalla það stríð Föðurlandsstríðið mikla og það var hennar stríð. Í dag býr María í Breiðholtinu eftir að hafa lifa viðburðaríka ævi.