Kjararáð birti í dag ákvörðun sína um að hækka laun biskups um 21 prósent og færa honum milljóna eingreiðslu núna um áramótin vegna afturvirkni ákvörðunarinnar.
Ákvörðunin er í samræmi við höfrungahlaupsákvarðanir kjararáðs að undanförnu, en allt frá því á kjördag í fyrra, þegar ráðið hækkaði laun ráðamanna um tugi prósenta í einu stökki, þá hefur þróunin verið sú, að hækka einstaka stjórnendur hjá ríkinu um tugi prósenta.
Í lagatextanum um ráðið segir að við ákvörðun launakjara samkvæmt 4. gr. laganna skuli sérstaklega gæta samræmis milli þeirra og þeirra kjara hjá ríkinu sem greidd eru á grundvelli kjarasamninga annars vegar og ákvarðana kjararáðs samkvæmt 3. gr. hins vegar. Þá skuli kjararáð ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði.
Ákvarðanir ráðsins að undanförnu, þar sem laun hafa hækkað um tugi prósent hjá elítu landsins hjá ríkinu, hafa skiljanlega valdið miklum erfiðleikum í kjaraviðræðum.
Allir sem að þeim koma hafa mótmælt ákvörðunum kjararáðs harðlega, sem eðlilegt er. Það hefur ASÍ gert, Samtök atvinnulífsins og einnig einstaka stéttarfélög fólksins á gólfinu og hjá einstaka fagstéttum líka. Allan hringinn eru ákvarðanir ráðsins fordæmdar og þær sagðar grafa undan rökræðum og sátt á vinnumarkaði.
Launakostnaður er meginþunginn í rekstri, bæði hjá hinu opinbera og einkafyrirtækjum. Ákvarðanir um hækkun hjá þeim stéttum sem eru efst í laginu - ekki síst hjá ríkinu, þar sem sameiginlegir sjóðir standa undir rekstrinum - eru viðkvæmar að þessu leyti, þar sem augljóslega er litið til þeirra þegar kemur að hlutfallslegri launaþróun.
Eini aðilinn sem tilheyrir elítunni, sem sýnt hefur ábyrgð í verki, er Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Hann mat stöðuna rétt eftir kjördag í fyrra, og afsalaði sér innistæðulausri hækkun kjararáðs. Þingið og ráðamenn gerðu það ekki, og gáfu þannig tóninn fyrir það sem koma skal á vinnumarkaði.
Elítan vill fara sitt höfrungahlaup, en ætlast til þess að annað fólk, sem t.d. starfar ekki með neina ríkisábyrgð að baki sér, fái miklu minni hækkun. Samt er það fólkið sem ber uppi verðmætasköpun í landinu, ekki síst núna eftir að ferðaþjónustan hefur gjörbreytt hagkerfinu. Þetta eru vond skilaboð fyrir heildina, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Meginþorri fólks, held ég að sé óhætt að segja, sér hversu glórulausar ákvarðanir kjararáðs hafa verið, og áttar sig líka á því, að þetta snýst um það að fámennur sérhagsmunahópur stjórnenda hjá ríkinu - elítuhópur opinberra starfsmanna - fái meira en aðrir hópar.
Vonandi er þetta aðeins bundið við þá sem sitja í ráðinu núna - sem hætta vonandi sem allra fyrst, sérstaklega formaðurinn Jónas Þór Guðmundsson, Sjálfstæðismaður úr Hafnarfirði - en það er ástæða til að hafa áhyggjur af því að þessi hrokafulla afstaða kjararáðs - og elítunnar sem samþykkir þær - sé komin til að vera. Það þýðir að mikil skil verða á milli elítunnar og almennings, sem aldrei kann góðri lukku að stýra í samfélögum.