Merkustu tímamót sérhverrar fjölskyldu teljast alla jafnan vera: Nafngjöf, ferming, gifting og útför. Hver athöfn um sig hefur sín einkenni og þær þrjár fyrstnefndu tengjum við gleði og óskum um gæfu og gengi í framtíðinni á meðan útfarir eru oftar en ekki sorgarstundir.
Nafngjöf er um margt sérstök og hér á landi eru áherslurnar á að gefa nýfæddum einstaklingi nafn og bjóða hann velkominn í heiminn. Oftast er búið að tilkynna þyngd og lengd og að móður heilsast vel.
Á dögunum fór fram sérstök nafngjöf þegar Edda Magnúsdóttir bætti við millinafninu María og heitir því í dag Edda María Magnúsdóttir. Það sem er merkilegt við nafngjöfina er að Edda María er á níræðisaldri!
„Ég taldi mikilvægt að bæta við millinafninu áður en æfi minni líkur og gerði það með þessari fallegu athöfn sem Sigrún annaðist af mikilli alúð“ sagði Edda María að lokinni athöfn. „María hét föðuramma mín og hjá henni ólst ég að miklu leyti upp til sjö ára aldurs. Ég elskaði hana og dáði og enginn hefur haft eins mikil áhrif á mig í lífinu.“
Sigrún Valbergsdóttir, athafnarstjóri Siðmenntar annaðist nafngjöfina sem fór fram á Hrafnistu í Hafnarfirði þar sem Edda María dvelst. Hafði hún boðið fjölskyldu og vinum að vera viðstödd til að samgleðjast með sér. Á þessu ári hafa athafnarstjórar félagsins gefið 105 einstaklingum nafn en Edda María er algjör undantekning því enginn hvítvoðunganna hafði náð eins árs aldri!
Siðmennt óskar Eddu Maríu innilega til hamingju með nafnið.