Það hefur verið lyginni líkast að fylgjast með endurreisn og uppgangi íslensk efnahagslífs á undanförnum árum. Okkur hefur í sameiningu tekist að vinna okkur hratt upp úr djúpri lægð árin eftir hrun, eitthvað sem fáir sáu fyrir að myndi takast á jafnskömmum tíma. Að sama skapi hefur viðvarandi efnahagsuppgangur síðustu ára gert það að verkum að efnahagur landsmanna hefur aldrei verið traustari. Kaupmáttur launa hefur aldrei verið meiri, hrein eign erlendis er í fyrsta sinn jákvæð, atvinnuleysi hverfandi og þrátt fyrir sterka krónu og mikinn kaupmátt er enn afgangur af viðskiptum okkar við útlönd. Þessu ber að halda til haga í árslok.
Ríkissjóður hefur ekki farið varhluta af þessum uppgangi. Frá árinu 2009 hafa tekjur ríkissjóðs á hvern Íslending vaxið um 43% að raunvirði. Er það útgjaldavöxtur upp á meira en 2,5 milljónir króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Þessi tekjuauki ríkissjóðs hefur þó að mjög takmörkuðu leyti gengið upp í þær skuldir sem ríkissjóður safnaði árin á undan. Þess í stað hafa útgjöld ríkissjóðs vaxið svo hratt að hverfandi afgangur hefur verið af rekstri ríkissjóðs. Á næsta ári er gert ráð fyrir mestu frumtekjum sögunnar en einungis 25 ma.kr. afgangi. Skuldir ríkissjóðs verða áfram meiri en þær voru á haustmánuðum 2008.
Þrátt fyrir góða stöðu íslenska hagkerfisins er því full ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu ríkissjóðs. Það liggur í hlutarins eðli að útgjöld eru tregbreytanlegri en tekjur. Lítið má út því út af bregða á tekjuhliðinni til þess að skuldasöfnun hefjist á ný. Ekki er valmöguleiki að hækka skatta frekar en skattahækkanir eftirhrunsáranna standa flestar óhreyfðar og er skattheimta hins opinbera á Íslandi ein sú mesta meðal OECD ríkja. Það eru því vonbrigði að sjá að í fjárlagafrumvarpi fyrir 2018 er gert ráð fyrir áframhaldandi útgjaldaaukningu og frekari skattahækkunum. Hagsveifluleiðréttur afgangur dregst saman og munu ríkisfjármálin auka þenslu fjórða árið í röð.
Sveitastjórnarkosningar
Kosningar til sveitastjórna eru fyrir dyrum á komandi ári. Líkt og með ríkisfjármálin þá er mikilvægt efnahagslegum stöðugleika að sleginn verði ábyrgur tónn í aðdraganda kosninga. Sveitastjórnarstigið hefur um langa hríð átt í miklum fjárhagslegum erfiðleikum. Eru vonbrigði að sjá að mörg sveitarfélög hafa ekki náð að rétt almennilega úr kútnum í þessari lengstu uppsveiflu Íslandssögunnar. Það er sérstakt áhyggjuefni að stærsta sveitarfélagið, Reykjavík, hugi á stórtækar lántökur á komandi ári. Við erum nú líklega að toppa núverandi uppsveiflu og er því ekki boðlegt að stærsta sveitarfélagið geti ekki fjármagnað sig án þess að auka skuldir nú þegar tekjustofnar eru þandir. Auk þess að velta kostnaði á kynslóðir framtíðar þá er skuldsett útgjaldaaukning hins opinbera síst til þess fallin að halda aftur af þenslu og tryggja hér stöðugleika.
Áskoranir á vinnumarkaði
Kjarasamningar næstu missera munu hafa afgerandi áhrif á efnahagslega umgjörð atvinnulífs og heimila. Niðurstöður þeirra munu ákvarða hvort hér á landi verður stöðugleiki eða ekki. Það er ábyrgðarhluti sem atvinnurekendur, hið opinbera og viðsemjendur þeirra standa frammi fyrir.
Launahækkanir umfram getu efnahagslífsins valda verðbólgu. Frekari skerðing en þegar er orðin á samkeppnisstöðu atvinnulífsins, vegna mikillar hækkunar launakostnaðar undanfarin ár og styrkingar krónunnar, er ekki sjálfbær, stuðlar að viðskiptahalla og erlendri skuldasöfnun. Það gerðist síðast á uppgangsárunum 2004-2007 og hefur ítrekað gerst á árum áður. Ójafnvægið leiðréttist ávallt með gengisfalli krónunnar, verðbólgu og rýrnun lífskjara. Þessi leið er fullreynd og finna má mýmörg dæmi um hana í hagsögu Íslands.
Undirstaða lífskjara fólks er góð samkeppnisstaða útflutningsgreina og uppbygging kaupmáttar launa þar sem saman fer jafnvægi innanlands og í viðskiptum við útlönd. Þannig má forðast efnahagsskelli fortíðar.