„Jafnvel hinn róttækasti byltingarmaður verður íhaldsmaður daginn eftir byltinguna.” Þessi frægu orð Hönnu Arendt eiga vel við í pólitísku uppgjöri ársins 2017. En þótt ýmislegt hafi á dagana drifið í pólitík á Íslandi á árinu 2017 má telja víst að ársins verður ekki síst minnst fyrir #MeToo og #HöfumHátt byltingarnar.
Konur stigu fram og gáfu boltann. Aldalöng þöggun um kynferðislegt áreiti, valdbeitingu og ofbeldi var dregið fram í dagsljósið. Nú er það okkar allra að grípa og beita okkur fyrir bættri menningu og aukinni virðingu. Þannig verður samfélagið betra fyrir alla, konur og karla.
Íslenskt samfélag þarf að skipa sér í lið með þolendum, halda umræðunni á lofti og kalla hlutina réttu nafni, hversu óþægileg sem slík naflaskoðun kann að vera. Kynferðislegt áreiti og kynferðislegt ofbeldi er einfaldlega áreiti og ofbeldi sem á að vera óvelkomið í samfélagi okkar, alltaf og alls staðar. Og ef árið 2017 færir okkur slík tímamót, þá var það frábært ár.
Að slá nýjan tón
Byltingarnar snertu flest svið samfélagsins og stjórnmálin eru þar ekki undanskilin. #HöfumHátt felldi enda ríkisstjórn á árinu. Leyndarhyggja yrði ekki lengur liðin í stjórnmálunum. Tími nýrra stjórnmála, sem boðuð hafa verið frá hruni, virtist kominn. Kosið var einungis ári eftir síðustu kosningar. Beðið var með eftirvæntingu eftir breytingum. Það verður þó að segja eins og er að niðurstaða kosninganna var ekki mjög afgerandi.
Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknar, sem birtur var 1. desember sl., hefst á þessum orðum: „Í nýrri ríkisstjórn munu flokkar sem spanna hið pólitíska litróf allt frá vinstri til hægri freista þess að slá nýjan tón.“ Þessi orð vekja bæði athygli og væntingar.
Verður sleginn nýr tónn í afstöðu þessara þriggja íhaldsflokka um frekari greiðslur stórútgerða til íslensks almennings fyrir afnot af þjóðarauðlindinni? Eða rennur sá arður sem þar skapast að mestu leyti áfram í vasa örfárra?
Verður sleginn nýr tónn í afstöðu þessara þriggja íhaldsflokka til hagsmuna íslenskra neytenda þegar kemur að landbúnaðarmálum? Eða verður haldið í forneskjulegt kerfi, sem tekur ekkert mið af breyttum aðstæðum og gagnast fyrst og fremst fáeinum útvöldum?
Verður sleginn nýr tónn í afstöðu þessara þriggja íhaldsflokka til gjaldmiðilsmála? Eða verður þar áframhaldandi samstaða um að láta íslensk fyrirtæki og heimili bera kostnaðinn af hinum sveiflukennda örgjaldmiðli okkar?
Að lokum en þó umfram allt, verður sleginn nýr tónn í stjórnmálaumræðuna?
Aukin útgjöld og hvað svo?
Ríkisstjórnin nýja tekur við góðu búi. Flest hefur gengið okkur Íslendingum í haginn í efnahagsstjórn undanfarinna ára og fjárhagur hins opinbera hefur notið góðs af því. Tækifærin til breytinga hafa sjaldan verið augljósari. Það eru því ákveðin vonbrigði að sjá að ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar ætla að losa tökin á ríkisfjármálunum, með tilheyrandi áhættu fyrir almenning og atvinnulífið. Og ekki ætla flokkarnir þrír að fylgja aukningu ríkisútgjalda eftir með kröfum um bæði skýra stefnu og skynsamlega nýtingu þeirra útgjalda. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er að minnsta kosti ekki að finna vísbendingar um forgangsröðun og árangursmælikvarða. Það er því ástæða til að hafa áhyggjur af því að átaka- og ákvarðanafælin stjórnvöld freistist til að kaupa sér skammtímafrið en ráði ekki við að ná pólitískri samstöðu um hvernig best sé að nýta fjármagnið.
Ef svo fer sem horfir er hætt við að ríkisstjórnin sitji uppi með þá arfleifð að hafa hleypt efnahagslegum stöðugleika í uppnám fyrir skammtímahagsmuni sína. Ljósið í myrkrinu er að skilningur fagfólks, til dæmis í heilbrigðis- og menntamálum, virðist mikill á mikilvægi þess að fjármagni fylgi kröfur um skýra stefnu og skilvirka framkvæmd. Vonandi bera stjórnvöld gæfu til að hlusta á þær raddir.
Við í Viðreisn erum reiðubúin til þess að leggja okkur fram um bætt vinnubrögð og að koma öllum málum sem til framfara horfa áfram í þinginu. Við viljum nýja nálgun og aðferðir.
Við erum tilbúin. Við ætlum ekki að breytast í íhaldsmenn daginn eftir byltinguna.
Ég óska stjórnvöldum velfarnaðar og landsmönnum öllum gleði og gæfu á nýju ári. Megi byltingin lifa #MeToo