Kjarnasjóðurinn

Framlag Kjarnans á árinu 2017

Kjarninn er fimm ára í vikunni. Af því tilefni verður rifjað upp það helsta sem hann hafði til málanna að leggja á hverju því starfsári sem hann hefur verið til, á hverjum degi í þessari viku. Í dag er farið yfir árið 2017.

Í janúar voru tvær skýrslur sem áttu erindi við almenning dregnar undan stóli í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Báðar fjölluðu þær um mál sem voru á meðal stærstu mála síðustu ára, aflandseignir Íslendinga og skiptingu Leiðréttingarinnar. Báðar voru tilbúnar fyrir kosningarnar 2016 en ekki birtar fyrr en að þeim loknum. Og báðar innihéldu upplýsingar sem hefðu gert það að verkum að umræður fyrir kosningarnar 2016 um þessi tvö risastóru mál hefðu getað byggt á vandaðri greiningu eða staðreyndum í stað þess að einkennast af upphrópunum. Kjarninn leiddi umfjöllun um málið.
Í janúar 2017 var líka mynduð ríkisstjórn Bjarna Benediktsson sem fáir vildu, en enn færri studdu. Hún rataði í hvert erfiðleikamálið á fætur öðru og á stundum virtist andstaða innan úr henni vera sterkari en sú sem minnihlutinn veitti. Stjórnin varð skammlífasta meirihlutastjórn lýðveldissögunnar. Komum betur að því síðar.

Einkavæðingin afhjúpuð

Einkavæðing ríkisbankanna markaði upphafið af því ástandi sem leiddi af sér bankahrunið 2008. Í mars 2017 var birt skýrsla um aðkomu þýsks einkabanka að kaupunum á Búnaðarbankanum þar sem sýnt var fram á að íslensk stjórnvöld, almenningur og fjölmiðlar hefðu verið blekkt. En fámennur hópur hagnast ævintýralega.

Leynilegir samningar voru gerðir til að blekkja Íslendinga til að halda að erlendur banki væri að kaupa í íslenskum banka, þegar kaupandinn var í reynd aflandsfélagsfélagið Welling & Partner, skráð á Bresku Jómfrúareyjunum. Kaupþing í Lúxemborg fjármagnaði það félag og allur nettóhagnaður sem varð að viðskiptunum, sem á endanum var rúmlega 100 milljónir dalir, um 11 milljarðar króna á núvirði, rann annars vegar til aflandsfélags í eigu Ólafs Ólafssonar og hins vegar til aflandsfélags sem rannsóknarnefndin telur að Kaupþing eða stjórnendur þess hafi stýrt. Sá hagnaður sem rann til Ólafs var endurfjárfestur í erlendum verðbréfum fyrir hans hönd. Ekkert er vitað um hvað var um þann hagnað sem rann til hins aflandsfélagsins, Dekhill Advisors Ltd.  sem skráð var á Tortóla. Fléttan gekk undir nafninu „Project Puffin“, eða lundafléttan.
Á lokametrum vorþings áttu sér stað átök um skipun 15 nýrra dómara við Landsrétt. Dómsmálaráðherra hafði þá vikið frá hæfnismati dómnefndar og tilnefnt fjóra dómara sem nefndin hafði ekki talið hæfasta, en fjarlægt aðra fjóra af listanum. Málið varð síðustu ríkisstjórn mjög erfitt og er þegar farið að þvælast fyrir þeirri nýju, sérstaklega eftir að Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að ráðherrann hefði brotið lög.

Landsréttarmálið

12. maí birti Kjarn­inn lista yfir þá 15 sem dóm­nefndin hafði metið hæf­asta til að sitja í Lands­rétti. Um er að ræða þann lista sem sendur hafði verið út til umsækj­enda um emb­ætt­in. Það vakti athygli að dóm­nefndin hefði talið nákvæm­lega 15 umsækj­endur hæfa til að gegn nákvæm­lega 15 emb­ætt­um. Á listanum voru tíu karla og fimm kon­ur. Þessi birting breytti málinu algjörlega.

Sígríður Á. Andersen var í aðalhlutverki í íslenskum stjórnmálum á árinu 2017, en ekki af þeirri ástæðu sem hún hefði kosið.
Mynd: Bára Huld Beck

19. desember komst Hæstiréttur síðan líka að því að Sigríður Á. Andersen hafi brotið gegn ákvæði stjórnsýslulaga. Dómstóllinn tók afdráttarlausa efnislega afstöðu til málsins. Ef dómsmálaráðherra ætlar að víkja frá áliti dómnefndar um veitingu dómaraembættis verður slík ákvörðun að vera reist á frekari rannsókn ráðherra, líkt og kveðið er á um í stjórnsýslulögum. Í dómi Hæstaréttar segir að það liggi ekki fyrir að Sigríður hafi ráðist í frekari rannsókn á þeim atriðum sem vörðuðu veitingu þeirra fjögurra dómaraembætta sem málið snérist um og rökstuðningur hennar til forseta Alþingis, sem settur var fram í bréfi dagsett 28. maí 2017, um að víkja frá niðurstöðu dómnefndar fullnægði ekki lágmarkskröfum.

Höft afnumin og húsnæðisvandi þrátt fyrir góðæri

Eftir að hafa þurft að fara með flugmiða í bankann til að kaupa gjaldeyri fyrir sólarlandafríið í rúm átta ár voru fjármagnshöft loks losuð að mestu á almenning, lífeyrissjóði og fyrirtæki. Verr gekk þó að losa um aflandskrónuvandann með þeim hætti sem lagt var upp með.

Á blaðamannafundi greindu Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Már Guðmundsson seðlabankastjóri frá því að öll höft á almenn­ing, fyr­ir­tæki og líf­eyr­is­sjóði yrðu afnumin, fjármagnsflæði að og frá landinu yrði gefið frjáls og hægt yrði að fjárfesta erlendis án takmarkana.

Sam­hliða þessu var gert sam­komu­lag við aflandskrónu­eig­end­ur, en þeir voru helsta ástæða þess að höft voru enn við lýði. Það samkomulag fór ekki alveg eins og að hafði verið stefnt, en samkvæmt því ætlaði Seðlabanki Íslands að kaupa meginþorra aflandskróna.

Hluti þeirra sjóða sem áttu aflandskrónur hérlendis neituðu nefnilega tilboðinu.

Þrátt fyrir fordæmalaust efnahagslegt góðæri glímdi stór hópur Íslendinga við þá stöðu að geta ekki komið viðunandi þaki yfir höfuð sér á árinu 2017. Fólk bjó á tjaldsvæðum, hjá vinum eða ættingjum eða var nauðugt þátttakendur á leigumarkaði. Á sama tíma settu Íslendingar Evrópumet í húsnæðisverðshækkunum og þeir sem voru á eignarmarkaði efnuðust hratt.

Í greiningum sem Kjarninn birti kom meðal annars fram að kannanir sýndu að meiri­hluti leigj­enda, alls 57 pró­sent, voru á leigu­mark­aðnum af nauð­syn og 80 pró­sent leigj­enda vildu kaupa sér íbúð, en gátu það ekki. Ein­ungis 14 pró­sent leigj­enda vildu vera á leigu­mark­aði. Þriðji hver leigj­andi borgaði meira en helm­ing af ráð­­stöf­un­­ar­­tekjum sínum í leigu og fáir tekju­lágir leigj­endur geta safnað sér spari­­­fé.

Íslenska karlalandsliðið tryggði sér líka þáttökurétt á lokamóti HM í Rússlandi eftir sigur á liði Kósóvó í Laugardalnum í október. Lið sem hafði þegar skráð sig á spjöld knattspyrnusögunnar bætti enn við þann kafla. Með gylltu letri.

Uppreist æru og #Höfumhátt fellir ríkisstjórn

Það hefði engum dottið í hug að barátta þolenda kynferðisbrotamanna og aðstandenda þeirra fyrir því að fá að vita af hverju það væri verið að veita kvölurum þeirra uppreist æru og starfsréttindi myndi sprengja ríkisstjórn á árinu 2017. Það er hins vegar nákvæmlega það sem gerðist.

Robert Downey, sem hét áður Róbert Árni Hreið­ars­son, var dæmdur í þriggja ára fang­elsi árið 2008 fyrir að brjóta gegn fjórum stúlk­um, einni fjórtán ára og  þremur fimmtán ára. Hann komst í sam­band við stúlk­urnar með blekk­ingum og þótt­ist Robert vera 17 ára gam­all ung­lings­piltur sem héti Rikki í sam­skiptum við eina þeirra í gegnum net­ið. Hann greiddi tveimur stúlkn­anna fyrir kyn­mök. For­seti Íslands veitti honum upp­reist æru í sept­em­ber 2016 og í júní fékk hann lög­manns­rétt­indi sín aft­ur.

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar varð skammlífasta samsteypustjórn lýðveldissögunnar. Og sú óvinsælasta frá því að mælingar hófust.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Fórnarlömb Roberts, aðstandendur þeirra, valdir stjórnmálamenn og fjölmiðlar fóru að kalla eftir upplýsingum um hvernig þetta gæti gerst. Úr varð samfélagsmiðlabylting undir myllumerkinu #Höfumhátt. Krafan var skýr: Hvernig var ferlið? Hverjir skrifuðu upp á meðmæli fyrir hann? Hvernig var ákvörðunin tekin og hver var gagnaslóðin?

Fremstur í flokki fór þekktur leikari og leikstjóri, Bergur Þór Ingólfsson og fjölskylda hans, en Nína Rún, dóttir hans, var eitt fórnarlamba Roberts Downey.

Í september komst úrskurðarnefnd um upplýsingamál að þeirri niðurstöðu að fjölmiðlar ættu að fá að sjá gögn í máli Róberts Downey, og þá lá strax fyrir að sú niðurstaða yrði fordæmisgefandi fyrir önnur mál sem snéru að uppreist æru. Gögnin voru birt þriðjudaginn 12. september og samhliða var sagt frá því að önnur gögn er vörðuðu uppreist æru aftur til ársins 1995 yrðu líka birt á næstunni.

Í þeim gögnum kom meðal annars fram að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktsonar, hafði skrifað undir meðmælabréf fyrir Hjalta Sigurjón Hauksson, mann sem var dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi fyrir að níðast kynferðislega á stjúpdóttur sinni árum saman. Það kom líka fram að Sigríður Á. Andersen hafði greint Bjarna Benediktssyni frá því á sama tíma og fórnarlömb, aðstandendur, fjölmiðlar og aðrir stjórnmálamenn fengu ekki þær upplýsingar.

Í kjölfarið sleit Björt framtíð stjórnarsamstarfinu vegna uppreist æru málsins og þeirrar leyndarhyggju sem umlék meðferð ráðherra Sjálfstæðisflokksins á málinu. Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar varð fyrir vikið skammlífasta samsteypustjórn lýðveldissögunnar.

Wintris greiddi ekki skatta í samræmi við lög og reglur

Stærsta fréttamál ársins 2016, aflandsfélagið Wintris, komst aftur í fréttirnar í september 2017  þegar birtist úrskurður yfirskattanefndar í máli hjónanna Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, eiganda Wintris. Í honum kom fram að 13. maí 2016 hefði umboðs­maður hjón­anna skrifað bréf til rík­is­skatt­stjóra. Þar óskaði hann eftir því að skatt­fram­töl hjón­anna fyrir árin 2011 til 2015 yrðu leið­rétt. Í bréf­inu sagði umboðs­mað­ur­inn orð­rétt að ekki væri „úti­lokað að rétt­ara hefði verið að haga skatt­skilum kærenda gjald­árið 2011 og síðar eftir efni 57. gr. a laga nr. 90/2003, sbr. 3. gr. laga nr. 46/2009, og reglu­gerðar nr. 1102/2013, um skatt­lagn­ingu vegna eign­ar­halds í lög­að­ilum á lág­skatta­svæðum (CFC-­regl­u­m). Væru skatt­stofnar kærenda gjald­árin 2011 til og með 2016 því leiddir fram í erind­inu í sam­ræmi við fram­an­greindar regl­ur.“

Þetta þýddi, til einföldunar, að endurskoðandi þeirra hjóna sendi bréf á skatt­yf­ir­valda þar sem hann til­kynnti þeim að hjónin hafi ekki gert upp í sam­ræmi við lög og regl­ur.

Þetta bréf í maí 2016 leiddi til þess að rík­is­skatt­stjóri ákvað að end­ur­á­kvarða auðlegðarskatt sem hjónin greiddu vegna áranna 2011 til 2014, að emb­ættið end­ur­mat hagnað vegna tekju­árs­ins 2010 og ákvað að hækka stofn til tekju­skatts og útsvars hjá eig­in­konu Sig­mundar Dav­íðs. Sam­hliða lækk­aði hann skatt­greiðslur á Sig­mund Davíð sjálf­an.

Hjónin undu þessari niðurstöðu og gengust þar með við því að hafa ekki talið rétt fram um ára­bil. Vegna þessa hækk­uðu skatt­greiðslur þeirra um upp­hæð sem ekki hefur komið fram.

Í aðdrag­anda þess að þau til­kynntu rík­is­skatt­stjóra um það að þau hefðu ekki talið rétt fram þá létu hjónin gera árs­reikn­inga fyrir Wintris nokkur ár aftur í tím­ann. Þau ákváðu að hafa þessa árs­reikn­inga í íslenskum krónum. Þetta gerði þeim kleift að telja fram geng­is­tap vegna sveiflna á gengi íslensku krón­unn­ar, sem átti að nýt­ast sem upp­safnað tap gegn fram­tíðar skatt­greiðsl­um. Rík­is­skatt­stjóri taldi þetta ekki stand­ast lög og hafn­aði þessum breytta útreikn­ingi á geng­is­hagn­aði síð­ustu ára. Hann end­ur­á­kvarð­aði síðan á hjónin og þau greiddu þær við­bótar skatt­greiðsl­ur. Við það vildu þau ekki sætta sig, kærðu þann lið til yfirskattanefndar og unnu. Því hefðu þau ofgreitt skatta vegna þessa eina álagn­ing­ar­lið­ar.

Opinberað var að aflandsfélag Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefði ekki greitt skatta og gjöld í samræmi við lög og reglur. Það hafði engin áhrif á að Miðflokkur hans vann mikinn kosningasigur.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Sigmundur Davíð skrifaði grein í Fréttablaðið nokkrum dögum eftir að úrskurðurinn lá fyrir, þann 2. október, þar sem hann reifaði mál Wintris hjá ríkisskattstjóra að hluta.

Í greininni sagði hann m.a.: „Í ljósi umræðunnar ákváðum við þó, að eigin frumkvæði, að senda ríkisskattstjóra erindi þar sem mun ítarlegri grein var gerð fyrir umræddum eignum og tekjum af þeim en skattframtalsform gera ráð fyrir og gefa kost á. Ríkisskattstjóra var boðið að endurmeta þá aðferð sem lögð var til grundvallar skattlagningu.“

Kjarninn birti sama morgun fréttaskýringu um málið sem byggði á úrskurðinum. Hana má lesa hér.

Þar var m.a. dregið saman að fyrir lægi að for­sæt­is­ráð­herra­hjónin fyrr­ver­andi höfðu ekki ofgreitt skatta áður en að fjöl­miðlar opin­ber­uðu Wintrismálið í fyrra­vor. Það lægi heldur ekk­ert fyrir um hversu mikla við­bót­ar­greiðslur þau greiddu vegna viðbótarauðlegðarskatts, end­ur­mati á hagn­aði tekju­árs­ins 2010 og hækk­unar á skatt­stofni til tekju­skatts og útsvars.

Eina sem lægi fyrir væri að hjónin ofgreiddu skatta af breyttum útreikn­ingi á geng­is­hagn­aði eftir nið­ur­stöðu rík­is­skatt­stjóra í des­em­ber síð­ast­liðn­um.

Daginn eftir fór Sigmundur Davíð í viðtal við Morgunblaðið og sagðist vera að íhuga málsókn gegn þrem­ur ís­lensk­um fjöl­miðlum vegna um­fjöll­un­ar um fjár­mál hans og eig­in­konu hans í svo­nefndu Wintris-máli. Hann hefði yrir nokkru falið lög­fræðing­um að kanna grund­völl slíkr­ar mál­sókn­ar. Sigmundur Davíð nefndi miðlanna ekki á nafn en augljóst var að hann átti við Kjarnann, Stundina og RÚV. Hann fór aldrei í mál. Þess í stað stofnaði hann Miðflokkinn og fór í framboð.

Nýjar kosningar, ný ríkisstjórn og #metoo

Kosið var til Alþingis í annað sinn á einu ári 28. október 2017. Ástæða kosninganna var, líkt og árið áður, hneykslismál tengd ráðherrum ríkisstjórnar.

Niðurstaða kosninganna var ekki til að gera stöðuna í stjórnmálunum skýrari. Átta flokkar náðu inn á þing og hafa þeir aldrei verið fleiri. Þáverandi stjórnarandstöðuflokkarnir fjórir, Vinstri græn, Samfylking, Framsóknarflokkur og Píratar náðu minnsta mögulega meirihluta þingmanna og gátu myndað ríkisstjórn ef þeir vildu. Flokkarnir voru samt sem áður ekki með meirihluta atkvæða á bak við sig, tæplega 49 prósent landsmanna kusu þá.

Inga Sæland grét í kosningasjónvarpinu daginn fyrir kosningar, og kom flokki sínum inn á þing.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Sigurvegarar kosninganna voru Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Flokkur fólksins. Þeir flokkar komu nýir inn á þing og náðu samtals ellefu þingmönnum. Frjálslyndisbylgjan sem reið yfir í kosningunum í fyrra, og tryggði Viðreisn, Bjartri framtíð og Pírötum samtals 21 þingmann, er gengin til baka. Þeir flokkar hafa nú samtals tíu þingmenn og Björt framtíð þurrkaðist út af þingi.

Afrakstur kosninganna varð sá að þrír íhaldssömustu flokkarnir á Alþingi, sem þó raða sér víðsvegar á hægri-vinstri kvarða stjórnmálanna, mynduðu saman ríkisstjórn í fyrsta sinn. Forsætisráðherra varð Katrín Jakobsdóttir. Hún varð þá önnur konan til að gegna því embætti á eftir Jóhönnu Sigurðardóttur og fyrsti formaður Vinstri grænna til að leiða ríkisstjórn. Það var líka merkilegt við þessa ríkisstjórn að á árinu 2017 sátu alls þrjár ríkisstjórnir: starfsstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar, ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar og loks stjórn Katrínar Jakobsdóttur. Allir forsætisráðherrarnir sem sátu á árinu 2017 sitja nú saman í ríkisstjórn.

Kjarninn var leiðandi í umfjöllun um kosningarnar, afrakstur þeirra og stjórnarmyndunarviðræðurnar sem fylgdu.

Mikil vakning varð á Íslandi og í heimsbyggðinni allri varðandi kerfisbundið áreiti, ofbeldi og mismunun sem konur verða fyrir í störfum sínum. Þúsundir kvenna hér á landi hafa skrifað undir áskorun þar sem þær krefjast þess að hlustað sé á þær.

Eftir að umræðan um #metoo komst í hámæli fóru konur að segja sögur sínar opinberlega, þó flestar nafnlausar. Konur í stjórnmálum riðu á vaðið og sendu frá sér áskorun þann 24. nóvember. Í kjölfarið sendi  fjöldi starfsstétta gefið út yfirlýsingar þar sem kynferðislegu áreiti, ofbeldi og mismunun er mótmælt. Krafan var skýr: Konur vilja breytingar. Þær vilja að samfélagið viðurkenni vandann og þær hafna núverandi ástandi. Þær krefjast þess að samverkamenn þeirra taki ábyrgð á gjörðum sínum og að verkferlum verði komið í gagnið og viðbragðsáætlanir gangsettar.

Í lok árs höfðu  rúmlega 4.700 konur úr ýmsum starfsstéttum skrifað undir áskorun þar sem þær settu fram kröfur sínar og deildu með þjóðinni 543 sögum. Hver og ein saga lýsti reynslu konu sem þurft hafði að takast á við áreiti, ofbeldi eða mismunun vegna kyns síns. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar