Kjarnasjóðurinn

Framlag Kjarnans á árinu 2017

Kjarninn er fimm ára í vikunni. Af því tilefni verður rifjað upp það helsta sem hann hafði til málanna að leggja á hverju því starfsári sem hann hefur verið til, á hverjum degi í þessari viku. Í dag er farið yfir árið 2017.

Í jan­úar voru tvær skýrslur sem áttu erindi við almenn­ing dregnar undan stóli í fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyt­inu. Báðar fjöll­uðu þær um mál sem voru á meðal stærstu mála síð­ustu ára, aflandseignir Íslend­inga og skipt­ingu Leið­rétt­ing­ar­inn­ar. Báðar voru til­búnar fyrir kosn­ing­arnar 2016 en ekki birtar fyrr en að þeim lokn­um. Og báðar inni­héldu upp­lýs­ingar sem hefðu gert það að verkum að umræður fyrir kosn­ing­arnar 2016 um þessi tvö risa­stóru mál hefðu getað byggt á vand­aðri grein­ingu eða stað­reyndum í stað þess að ein­kenn­ast af upp­hróp­un­um. Kjarn­inn leiddi umfjöllun um mál­ið.

Í jan­úar 2017 var líka mynduð rík­is­stjórn Bjarna Bene­dikts­son sem fáir vildu, en enn færri studdu. Hún rataði í hvert erf­ið­leika­málið á fætur öðru og á stundum virt­ist and­staða innan úr henni vera sterk­ari en sú sem minni­hlut­inn veitti. Stjórnin varð skamm­lífasta meiri­hluta­stjórn lýð­veld­is­sög­unn­ar. Komum betur að því síð­ar.

Einka­væð­ingin afhjúpuð

Einka­væð­ing rík­is­bank­anna mark­aði upp­hafið af því ástandi sem leiddi af sér banka­hrunið 2008. Í mars 2017 var birt skýrsla um aðkomu þýsks einka­banka að kaup­unum á Bún­að­ar­bank­anum þar sem sýnt var fram á að íslensk stjórn­völd, almenn­ingur og fjöl­miðlar hefðu verið blekkt. En fámennur hópur hagn­ast ævin­týra­lega.

Leyni­legir samn­ingar voru gerðir til að blekkja Íslend­inga til að halda að erlendur banki væri að kaupa í íslenskum banka, þegar kaup­and­inn var í reynd aflands­fé­lags­fé­lagið Well­ing & Partner, skráð á Bresku Jóm­frú­areyj­un­um. Kaup­þing í Lúx­em­borg fjár­magn­aði það félag og allur nettó­hagn­aður sem varð að við­skipt­un­um, sem á end­anum var rúm­lega 100 millj­ónir dal­ir, um 11 millj­arðar króna á núvirði, rann ann­ars vegar til aflands­fé­lags í eigu Ólafs Ólafs­sonar og hins vegar til aflands­fé­lags sem rann­sókn­ar­nefndin telur að Kaup­þing eða stjórn­endur þess hafi stýrt. Sá hagn­aður sem rann til Ólafs var end­ur­fjár­festur í erlendum verð­bréfum fyrir hans hönd. Ekk­ert er vitað um hvað var um þann hagnað sem rann til hins aflands­fé­lags­ins, Dek­hill Advis­ors Ltd.  sem skráð var á Tortóla. Fléttan gekk undir nafn­inu „Project Puffin“, eða lunda­flétt­an.

Á loka­metrum vor­þings áttu sér stað átök um skipun 15 nýrra dóm­ara við Lands­rétt. Dóms­mála­ráð­herra hafði þá vikið frá hæfn­is­mati dóm­nefndar og til­nefnt fjóra dóm­ara sem nefndin hafði ekki talið hæf­asta, en fjar­lægt aðra fjóra af list­an­um. Málið varð síð­ustu rík­is­stjórn mjög erfitt og er þegar farið að þvæl­ast fyrir þeirri nýju, sér­stak­lega eftir að Hæsti­réttur komst að þeirri nið­ur­stöðu að ráð­herr­ann hefði brotið lög.

Lands­rétt­ar­málið

12. maí birti Kjarn­inn lista yfir þá 15 sem dóm­­nefndin hafði metið hæf­asta til að sitja í Lands­rétti. Um er að ræða þann lista sem sendur hafði verið út til umsækj­enda um emb­ætt­in. Það vakti athygli að dóm­­nefndin hefði talið nákvæm­­lega 15 umsækj­endur hæfa til að gegn nákvæm­­lega 15 emb­ætt­­um. Á list­anum voru tíu karla og fimm kon­­ur. Þessi birt­ing breytti mál­inu algjör­lega.

Sígríður Á. Andersen var í aðalhlutverki í íslenskum stjórnmálum á árinu 2017, en ekki af þeirri ástæðu sem hún hefði kosið.
Mynd: Bára Huld Beck

19. des­em­ber komst Hæsti­réttur síðan líka að því að Sig­ríður Á. And­er­sen hafi brotið gegn ákvæði stjórn­sýslu­laga. Dóm­stóll­inn tók afdrátt­ar­lausa efn­is­lega afstöðu til máls­ins. Ef dóms­mála­ráð­herra ætlar að víkja frá áliti dóm­nefndar um veit­ingu dóm­ara­emb­ættis verður slík ákvörðun að vera reist á frek­ari rann­sókn ráð­herra, líkt og kveðið er á um í stjórn­sýslu­lög­um. Í dómi Hæsta­réttar segir að það liggi ekki fyrir að Sig­ríður hafi ráð­ist í frek­ari rann­sókn á þeim atriðum sem vörð­uðu veit­ingu þeirra fjög­urra dóm­ara­emb­ætta sem málið snérist um og rök­stuðn­ingur hennar til for­seta Alþing­is, sem settur var fram í bréfi dag­sett 28. maí 2017, um að víkja frá nið­ur­stöðu dóm­nefndar full­nægði ekki lág­marks­kröf­um.

Höft afnumin og hús­næð­is­vandi þrátt fyrir góð­æri

Eftir að hafa þurft að fara með flug­miða í bank­ann til að kaupa gjald­eyri fyrir sól­ar­landa­fríið í rúm átta ár voru fjár­magns­höft loks losuð að mestu á almenn­ing, líf­eyr­is­sjóði og fyr­ir­tæki. Verr gekk þó að losa um aflandskrónu­vand­ann með þeim hætti sem lagt var upp með.

Á blaða­manna­fundi greindu Bene­dikt Jóhann­es­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, Bjarni Bene­dikts­son for­sæt­is­ráð­herra og Már Guð­munds­son seðla­banka­stjóri frá því að öll höft á almenn­ing, fyr­ir­tæki og líf­eyr­is­­sjóði yrðu afnum­in, fjár­magns­flæði að og frá land­inu yrði gefið frjáls og hægt yrði að fjár­festa erlendis án tak­mark­ana.

Sam­hliða þessu var gert sam­komu­lag við aflandskrón­u­eig­end­­ur, en þeir voru helsta ástæða þess að höft voru enn við lýði. Það sam­komu­lag fór ekki alveg eins og að hafði verið stefnt, en sam­kvæmt því ætl­aði Seðla­banki Íslands að kaupa meg­in­þorra aflandskróna.

Hluti þeirra sjóða sem áttu aflandskrónur hér­lendis neit­uðu nefni­lega til­boð­inu.

Þrátt fyrir for­dæma­laust efna­hags­legt góð­æri glímdi stór hópur Íslend­inga við þá stöðu að geta ekki komið við­un­andi þaki yfir höfuð sér á árinu 2017. Fólk bjó á tjald­svæð­um, hjá vinum eða ætt­ingjum eða var nauð­ugt þátt­tak­endur á leigu­mark­aði. Á sama tíma settu Íslend­ingar Evr­ópu­met í hús­næð­is­verðs­hækk­unum og þeir sem voru á eign­ar­mark­aði efn­uð­ust hratt.

Í grein­ingum sem Kjarn­inn birti kom meðal ann­ars fram að kann­anir sýndu að meiri­hluti leigj­enda, alls 57 pró­­sent, voru á leig­u­­mark­aðnum af nauð­­syn og 80 pró­­sent leigj­enda vildu kaupa sér íbúð, en gátu það ekki. Ein­ungis 14 pró­­sent leigj­enda vildu vera á leig­u­­mark­aði. Þriðji hver leigj­andi borg­aði meira en helm­ing af ráð­­­stöf­un­­­ar­­­tekjum sínum í leigu og fáir tekju­lágir leigj­endur geta safnað sér spari­­­­­fé.

Íslenska karla­lands­liðið tryggði sér líka þát­töku­rétt á loka­móti HM í Rúss­landi eftir sigur á liði Kósóvó í Laug­ar­dalnum í októ­ber. Lið sem hafði þegar skráð sig á spjöld knatt­spyrnu­sög­unnar bætti enn við þann kafla. Með gylltu letri.

Upp­reist æru og #Höf­um­hátt fellir rík­is­stjórn

Það hefði engum dottið í hug að bar­átta þolenda kyn­ferð­is­brota­manna og aðstand­enda þeirra fyrir því að fá að vita af hverju það væri verið að veita kvöl­urum þeirra upp­reist æru og starfs­rétt­indi myndi sprengja rík­is­stjórn á árinu 2017. Það er hins vegar nákvæm­lega það sem gerð­ist.

Robert Dow­ney, sem hét áður Róbert Árni Hreið­­ar­s­­son, var dæmdur í þriggja ára fang­elsi árið 2008 fyrir að brjóta gegn fjórum stúlk­um, einni fjórtán ára og  þremur fimmtán ára. Hann komst í sam­­band við stúlk­­urnar með blekk­ingum og þótt­ist Robert vera 17 ára gam­all ung­l­ings­­piltur sem héti Rikki í sam­­skiptum við eina þeirra í gegnum net­ið. Hann greiddi tveimur stúlkn­anna fyrir kyn­­mök. For­­seti Íslands veitti honum upp­­reist æru í sept­­em­ber 2016 og í júní fékk hann lög­­­manns­rétt­indi sín aft­­ur.

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar varð skammlífasta samsteypustjórn lýðveldissögunnar. Og sú óvinsælasta frá því að mælingar hófust.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Fórn­ar­lömb Roberts, aðstand­endur þeirra, valdir stjórn­mála­menn og fjöl­miðlar fóru að kalla eftir upp­lýs­ingum um hvernig þetta gæti gerst. Úr varð sam­fé­lags­miðla­bylt­ing undir myllu­merk­inu #Höf­um­hátt. Krafan var skýr: Hvernig var ferlið? Hverjir skrif­uðu upp á með­mæli fyrir hann? Hvernig var ákvörð­unin tekin og hver var gagna­slóð­in?

Fremstur í flokki fór þekktur leik­ari og leik­stjóri, Bergur Þór Ing­ólfs­son og fjöl­skylda hans, en Nína Rún, dóttir hans, var eitt fórn­ar­lamba Roberts Dow­n­ey.

Í sept­em­ber komst úrskurð­ar­nefnd um upp­lýs­inga­mál að þeirri nið­ur­stöðu að fjöl­miðlar ættu að fá að sjá gögn í máli Róberts Dow­ney, og þá lá strax fyrir að sú nið­ur­staða yrði for­dæm­is­gef­andi fyrir önnur mál sem snéru að upp­reist æru. Gögnin voru birt þriðju­dag­inn 12. sept­em­ber og sam­hliða var sagt frá því að önnur gögn er vörð­uðu upp­reist æru aftur til árs­ins 1995 yrðu líka birt á næst­unni.

Í þeim gögnum kom meðal ann­ars fram að Bene­dikt Sveins­son, faðir Bjarna Bene­dikt­son­ar, hafði skrifað undir með­mæla­bréf fyrir Hjalta Sig­ur­jón Hauks­son, mann sem var dæmdur í fimm og hálfs árs fang­elsi fyrir að níð­ast kyn­ferð­is­lega á stjúp­dóttur sinni árum sam­an. Það kom líka fram að Sig­ríður Á. And­er­sen hafði greint Bjarna Bene­dikts­syni frá því á sama tíma og fórn­ar­lömb, aðstand­end­ur, fjöl­miðlar og aðrir stjórn­mála­menn fengu ekki þær upp­lýs­ing­ar.

Í kjöl­farið sleit Björt fram­tíð stjórn­ar­sam­starf­inu vegna upp­reist æru máls­ins og þeirrar leynd­ar­hyggju sem umlék með­ferð ráð­herra Sjálf­stæð­is­flokks­ins á mál­inu. Rík­is­stjórn Bjarna Bene­dikts­sonar varð fyrir vikið skamm­lífasta sam­steypu­stjórn lýð­veld­is­sög­unn­ar.

Wintris greiddi ekki skatta í sam­ræmi við lög og reglur

Stærsta frétta­mál árs­ins 2016, aflands­fé­lagið Wintris, komst aftur í frétt­irnar í sept­em­ber 2017  þegar birt­ist úrskurður yfir­skatta­nefndar í máli hjón­anna Sig­mundar Dav­íðs Gunn­laugs­sonar og Önnu Sig­ur­laugar Páls­dótt­ur, eig­anda Wintr­is. Í honum kom fram að 13. maí 2016 hefði umboðs­­maður hjón­anna skrifað bréf til rík­­is­skatt­­stjóra. Þar óskaði hann eftir því að skatt­fram­­töl hjón­anna fyrir árin 2011 til 2015 yrðu leið­rétt. Í bréf­inu sagði umboðs­­mað­­ur­inn orð­rétt að ekki væri „úti­lokað að rétt­­ara hefði verið að haga skatt­skilum kærenda gjald­árið 2011 og síðar eftir efni 57. gr. a laga nr. 90/2003, sbr. 3. gr. laga nr. 46/2009, og reglu­­gerðar nr. 1102/2013, um skatt­lagn­ingu vegna eign­­ar­halds í lög­­að­ilum á lág­skatta­­svæðum (CFC-­regl­u­m). Væru skatt­­stofnar kærenda gjald­árin 2011 til og með 2016 því leiddir fram í erind­inu í sam­ræmi við fram­an­greindar regl­­ur.“

Þetta þýddi, til ein­föld­un­ar, að end­ur­skoð­andi þeirra hjóna sendi bréf á skatt­yf­­ir­­valda þar sem hann til­­kynnti þeim að hjónin hafi ekki gert upp í sam­ræmi við lög og regl­­ur.

Þetta bréf í maí 2016 leiddi til þess að rík­­is­skatt­­stjóri ákvað að end­­ur­á­kvarða auð­legð­ar­skatt sem hjónin greiddu vegna áranna 2011 til 2014, að emb­ættið end­­ur­­mat hagnað vegna tekju­ár­s­ins 2010 og ákvað að hækka stofn til tekju­skatts og útsvars hjá eig­in­­konu Sig­­mundar Dav­­íðs. Sam­hliða lækk­­aði hann skatt­greiðslur á Sig­­mund Davíð sjálf­­an.

Hjónin undu þess­ari nið­ur­stöðu og geng­ust þar með við því að hafa ekki talið rétt fram um ára­bil. Vegna þessa hækk­­uðu skatt­greiðslur þeirra um upp­­hæð sem ekki hefur komið fram.

Í aðdrag­anda þess að þau til­­kynntu rík­­is­skatt­­stjóra um það að þau hefðu ekki talið rétt fram þá létu hjónin gera árs­­reikn­inga fyrir Wintris nokkur ár aftur í tím­ann. Þau ákváðu að hafa þessa árs­­reikn­inga í íslenskum krón­um. Þetta gerði þeim kleift að telja fram geng­is­tap vegna sveiflna á gengi íslensku krón­unn­­ar, sem átti að nýt­­ast sem upp­­safnað tap gegn fram­­tíðar skatt­greiðsl­­um. Rík­­is­skatt­­stjóri taldi þetta ekki stand­­ast lög og hafn­aði þessum breytta útreikn­ingi á geng­is­hagn­aði síð­­­ustu ára. Hann end­­ur­á­kvarð­aði síðan á hjónin og þau greiddu þær við­­bótar skatt­greiðsl­­ur. Við það vildu þau ekki sætta sig, kærðu þann lið til yfir­skatta­nefndar og unnu. Því hefðu þau ofgreitt skatta vegna þessa eina álagn­ing­­ar­lið­­ar.

Opinberað var að aflandsfélag Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefði ekki greitt skatta og gjöld í samræmi við lög og reglur. Það hafði engin áhrif á að Miðflokkur hans vann mikinn kosningasigur.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Sig­mundur Davíð skrif­aði grein í Frétta­blaðið nokkrum dögum eftir að úrskurð­ur­inn lá fyr­ir, þann 2. októ­ber, þar sem hann reif­aði mál Wintris hjá rík­is­skatt­stjóra að hluta.

Í grein­inni sagði hann m.a.: „Í ljósi umræð­unnar ákváðum við þó, að eigin frum­kvæði, að senda rík­is­skatt­stjóra erindi þar sem mun ítar­legri grein var gerð fyrir umræddum eignum og tekjum af þeim en skatt­fram­tals­form gera ráð fyrir og gefa kost á. Rík­is­skatt­stjóra var boðið að end­ur­meta þá aðferð sem lögð var til grund­vallar skatt­lagn­ing­u.“

Kjarn­inn birti sama morgun frétta­skýr­ingu um málið sem byggði á úrskurð­in­um. Hana má lesa hér.

Þar var m.a. dregið saman að fyrir lægi að for­­sæt­is­ráð­herra­hjónin fyrr­ver­andi höfðu ekki ofgreitt skatta áður en að fjöl­miðlar opin­ber­uðu Wintris­málið í fyrra­vor. Það lægi heldur ekk­ert fyrir um hversu mikla við­­bót­­ar­greiðslur þau greiddu vegna við­bót­ar­auð­legð­ar­skatts, end­­ur­mati á hagn­aði tekju­ár­s­ins 2010 og hækk­­unar á skatt­­stofni til tekju­skatts og útsvars.

Eina sem lægi fyrir væri að hjónin ofgreiddu skatta af breyttum útreikn­ingi á geng­is­hagn­aði eftir nið­­ur­­stöðu rík­­is­skatt­­stjóra í des­em­ber síð­­ast­liðn­­­um.

Dag­inn eftir fór Sig­mundur Davíð í við­tal við Morg­un­blaðið og sagð­ist vera að íhuga mál­sókn gegn þrem­ur ís­­lensk­um fjöl­miðlum vegna um­­fjöll­un­ar um fjár­­­mál hans og eig­in­­konu hans í svo­­nefndu Wintris-­máli. Hann hefði yrir nokkru falið lög­­­fræð­ing­um að kanna grund­­völl slíkr­ar mál­­sókn­­ar. Sig­mundur Davíð nefndi miðl­anna ekki á nafn en aug­ljóst var að hann átti við Kjarn­ann, Stund­ina og RÚV. Hann fór aldrei í mál. Þess í stað stofn­aði hann Mið­flokk­inn og fór í fram­boð.

Nýjar kosn­ing­ar, ný rík­is­stjórn og #metoo

Kosið var til Alþingis í annað sinn á einu ári 28. októ­ber 2017. Ástæða kosn­ing­anna var, líkt og árið áður, hneyksl­is­mál tengd ráð­herrum rík­is­stjórn­ar.

Nið­ur­staða kosn­ing­anna var ekki til að gera stöð­una í stjórn­mál­unum skýr­ari. Átta flokkar náðu inn á þing og hafa þeir aldrei verið fleiri. Þáver­andi stjórn­ar­and­stöðu­flokk­arnir fjór­ir, Vinstri græn, Sam­fylk­ing, Fram­sókn­ar­flokkur og Píratar náðu minnsta mögu­lega meiri­hluta þing­manna og gátu myndað rík­is­stjórn ef þeir vildu. Flokk­arnir voru samt sem áður ekki með meiri­hluta atkvæða á bak við sig, tæp­lega 49 pró­sent lands­manna kusu þá.

Inga Sæland grét í kosningasjónvarpinu daginn fyrir kosningar, og kom flokki sínum inn á þing.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Sig­ur­veg­arar kosn­ing­anna voru Mið­flokkur Sig­mundar Dav­íðs Gunn­laugs­sonar og Flokkur fólks­ins. Þeir flokkar komu nýir inn á þing og náðu sam­tals ell­efu þing­mönn­um. Frjáls­lynd­is­bylgjan sem reið yfir í kosn­ing­unum í fyrra, og tryggði Við­reisn, Bjartri fram­tíð og Pírötum sam­tals 21 þing­mann, er gengin til baka. Þeir flokkar hafa nú sam­tals tíu þing­menn og Björt fram­tíð þurrk­að­ist út af þingi.

Afrakstur kosn­ing­anna varð sá að þrír íhalds­söm­ustu flokk­arnir á Alþingi, sem þó raða sér víðs­vegar á hægri-vinstri kvarða stjórn­mál­anna, mynd­uðu saman rík­is­stjórn í fyrsta sinn. For­sæt­is­ráð­herra varð Katrín Jak­obs­dótt­ir. Hún varð þá önnur konan til að gegna því emb­ætti á eftir Jóhönnu Sig­urð­ar­dóttur og fyrsti for­maður Vinstri grænna til að leiða rík­is­stjórn. Það var líka merki­legt við þessa rík­is­stjórn að á árinu 2017 sátu alls þrjár rík­is­stjórn­ir: starfs­stjórn Sig­urðar Inga Jóhanns­son­ar, rík­is­stjórn Bjarna Bene­dikts­sonar og loks stjórn Katrínar Jak­obs­dótt­ur. Allir for­sæt­is­ráð­herr­arnir sem sátu á árinu 2017 sitja nú saman í rík­is­stjórn.

Kjarn­inn var leið­andi í umfjöllun um kosn­ing­arn­ar, afrakstur þeirra og stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræð­urnar sem fylgdu.

Mikil vakn­ing varð á Íslandi og í heims­byggð­inni allri varð­andi kerf­is­bundið áreiti, ofbeldi og mis­munun sem konur verða fyrir í störfum sín­um. Þús­undir kvenna hér á landi hafa skrifað undir áskorun þar sem þær krefj­ast þess að hlustað sé á þær.

Eftir að umræðan um #metoo komst í hámæli fóru konur að segja sögur sínar opin­ber­lega, þó flestar nafn­laus­ar. Konur í stjórn­málum riðu á vaðið og sendu frá sér áskorun þann 24. nóv­em­ber. Í kjöl­farið sendi  fjöldi starfs­stétta gefið út yfir­lýs­ingar þar sem kyn­ferð­is­legu áreiti, ofbeldi og mis­munun er mót­mælt. Krafan var skýr: Konur vilja breyt­ing­ar. Þær vilja að sam­fé­lagið við­ur­kenni vand­ann og þær hafna núver­andi ástandi. Þær krefj­ast þess að sam­verka­menn þeirra taki ábyrgð á gjörðum sínum og að verk­ferlum verði komið í gagnið og við­bragðs­á­ætl­anir gang­sett­ar.

Í lok árs höfðu  rúm­lega 4.700 konur úr ýmsum starfs­stéttum skrifað undir áskorun þar sem þær settu fram kröfur sínar og deildu með þjóð­inni 543 sög­um. Hver og ein saga lýsti reynslu konu sem þurft hafði að takast á við áreiti, ofbeldi eða mis­munun vegna kyns síns. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar