Þetta er árið þegar konur risu upp; höfðu hátt, felldu ríkisstjórn, hófu #metoo byltingu og skoruðu á hólm feðraveldismenninguna. Ómenningu sem við erum öll alin upp í og íþyngir okkur með allskonar þöggun, glæpum, áreitni og valdbeitingu sem byggir á kyni fólks og stöðu. Við sáum ungu konurnar sem sögðu stopp þegar þær áttuðu sig á að gerandi þeirra var með stuðningi stjórnsýslunar og valdakarla að fá uppreist æru og endurnýjuð lögmannsréttindi, af því að það væri svo ósanngjarnt fyrir hann að fá þau ekki aftur. Konur stigu fram og sögðu okkur frá viðmóti kerfisins þegar þær þó sögðu frá ofbeldi sem þær höfðu orðið fyrir, þær jafnvel útskúfaðar úr fjölskyldum eða heilu bæjarfélögunum meðan gerandinn situr áfram, í skjóli valds og kerfisins.
Ríkisstjórnin sprakk og það komu kosningar en þrátt fyrir allt þá kaus þjóðin eldra fólk, fleiri karla og færri konur til að sitja á alþingi. Líklega og vonandi bara tímabundið bakslag, enda getur verið óþægilegt að gera byltingu. Henni fylgir sársauki og þá getur verið gott að detta bara í gamla farið sem við kunnum svo vel. En eftir #metoo samtal kvenna um allt land í öllum stéttum verður ekki aftur snúið. Áskorunum þúsunda kvenna um aðgerðir gegn misbeitingu valds verður að svara. Það ættu ekki að fylgja því nein völd að fæðast sem karlamaður, enda eru afleiðingar þessa kynbundna valdakerfis gríðarlega umfangsmiklar og kostnaðarsamar og þær er erfitt að leiðrétta nema að við ráðumst að rót vandans. Kynjakerfinu sjálfu. Þar má nefna launamun kynjanna og að allt sem er kvenlægt er einhvernvegin aðeins minna virði en það sem er karllægt samanber laun hinna hefðbundnu kvennastétta.
Það er ekki tilviljun að karlar eru í miklum meirihluta viðmælendur fjölmiðla, að kvennaíþróttir fái minna vægi, að nær allar kvikmyndir fjalla um karla og heiminn út frá körlum, bækur eða list eftir karla seljist betur og svo framvegis. Það er ekki tilviljun að karlar stjórna peningum á íslandi að þeir veljast í áhrifastöður umfram konur, það er einkenni á kynbundnu valdi rétt eins og ofbeldið sem karlar beita konur. Birtingamyndirnar eru bara mismunandi og erfitt að segja endilega hvað er alvarlegast. Því miður hafa ekki verið gerðar rannsóknir á tengslum valds og ofbeldis á vinnustað en það er mikilvægt að í framtíðinni fáum við slíkar rannsóknir þannig að við vitum hvaða áhrif ofbeldi og áreitni á vinnustað hefur á laun, framgang og stöðu kvenna á vinnumarkaði.
Fáir karlar beita valdi sínu með meðvituðum og markvissum hætti gegn konum en margir karlar og konur taka ómeðvitað þátt. Þegja eða gera ekkert og horfa á konur niðurlægðar eða sniðgengnar á grundvelli kynferðis. En þeir eru þarna karlarnir sem vilja engar breytingar sem ógna þeirra stöðu hver sem hún er. Karlar sem sjá efnilegar konur sem ógn eða þurfa að sanna vald sitt með því að gera lítið úr öðrum til að festa sína stöðu í sessi. Kaup á vændi, þreifandi hendur, tilboð um framgang gegn kynlífi, kynferðislegar athugasemdir þegar þú þarft að vera upp á þitt besta, baktal um þá sem ekki spila með. Allt í þessa átt þarf að heyra sögunni til. Við þurfum sem þjóð að þakka öllum þeim konum sem hafa risið upp, svipt hulunni af því hvernig kynbundið vald birtist þeim og okkur öllum, alla daga, allstaðar, í stað þess að fara í vörn og dæma, útfrá hugmyndum fortíðar, hvort þetta eða hitt sé nú ofbeldi eða ekki. Við þurfum öll að meðtaka og hlusta og átta okkur á að við stöndum frami fyrir gríðarlegu tækifæri.
Smættum ekki áskornunina sem okkur er nú falin sem samfélag heldur tökum henni því við þurfum algjöra viðhorfsbreytingu til að áhrif #metoo byltingarinnar nái fram að ganga til fulls. Við viljum fllest að allir geti nýtt sína hæfileika, notið sín í starfi og náð árangri okkur öllum til hagsbóta óháð kyni. Rannsóknir hafa sýnt að fyrirtæki sem hafa bæði konur og karla við stórnvölin eru farsælli en þegar eingöngu karlar stjórna. Allir græða á jafnrétti og ef við náum að hrista of okkur þetta gamla kynjaða valdakerfi munum við án efa sjá mun meiri velgengni, minni vanlíðan og meiri hamingju í samfélaginu öllu. Meðvirkni samfélagsins hefur verið skoruð á hólm, krafan er að við öll hættum að taka þátt í þessu aldagamla kynjaða rugli og þó það sé óþægilegt, flókið og etv tímabundið sárt, þá treysti ég því að flestir komi með. Þá verður 2017 skilgreint sem jafnréttisárið mikla!
Höfundur er varaformaður Samfylkingarinnar.