Ef ég skil það rétt eru upplýsingatæknimál ríkisins er á herðum tveggja ráðuneyta, innanríkis- og fjármálaráðuneytis og ég tel það nokkuð öruggt að ábyrgð hvors ráðuneytis um sig sé ekki alveg á hreinu.
Svokölluð tækniskuld er í gangi hjá hinu opinbera og að mínu mati erum við enn að díla við síðustu tæknibyltingu, mobile byltinguna, þegar kemur að opinberri þjónustu. Erum lítið búin að sjálfvirknivæða ef frá er talin skattskýrslugerð.
Starfræn og sjálfvirk þjónusta við þá sem búa hér á landi virðist ekki fá mikinn fókus og enginn er í raun með ábyrgðina á því að horfa á þetta heildrænt fyrir Ísland, svo vitað sé.
Það þarf að setja fjármuni í að sjálfvirknivæða þjónustu hins opinbera og ég er fullviss um að það muni skila sér margfalt til baka, því stytting ferla og tímasparnaður er mikill. Hér þarf að eiga sér stað einhvers konar umbylting á opinberri þjónustu svo það haldi áfram að vera gott að búa hér á landi.
Ef ég hef lært eitthvað á undanförnum árum þá er það þannig að stundum þarf bara að hætta og byrja upp á nýtt, brjóta upp, umbylta, fá inn nýtt fólk og fá nýtt fólk til samstarfs. Mín reynsla er sú að þegar maður brýtur upp og býr til nýja umgjörð fer fólk á tærnar og byrjar að elska vinnuna sína upp á nýtt, sér ný tækifæri, fer að hugsa skapandi og gerir allt til að leysa þau vandamál sem eru til staðar, saman.
Við þurfum hugsanlega að sleppa úr mobile-væðingunni hvað varðar opinbera þjónustu og fara beint í það sem fjórða iðnbyltingin býður upp á.
Við getum horft til annarra landa. NY borg að gera hrikalega flotta hluti — fær borgarana til samstarfs. Þeir átta sig á að tæknin getur aðstoðað við að búa til betra samfélag og til að undirstrika það réðu þeir sinn eiginn CTO (chief of technology officer). Eistland er líka að gera mjög flotta hluti með e-residency, svo eftir er tekið. Norðurlöndin eru líka að gera góða hluti, Canada o.fl. Er það nokkuð svo galið að Ísland fengi sinn eiginn tæknistjóra?
Að minnsta kosti er lykillinn að velgengni í stafrænni opinberri þjónustu að fá borgarana og fyrirtækin til samstarfs. Það er algjörlega kominn tími á að brjóta upp núverandi kerfi og byrja svolítið upp á nýtt. Hér eru nokkrar tillögur.
- Setjum alvöru fókus á tæknivæðingu/sjálfvirknivæðingu fyrir opinbera þjónustu.
- Höfum á hreinu hvar ábyrgðin og yfirsýnin er.
- Elsku þið sem sjáið um innkaup á hugbúnaði fyrir stofnanir: nýtið ykkur nýjar leiðir (sem þegar eru til), semjið þannig við birgjana ykkar að það sé pláss til að koma með nýjar hugmyndir, farið í nýsköpunarsamstarf fyrir nýjar lausnir sem þarf að þróa, frekar en útboð þar sem einblínt er á verðið. Að einblína bara á verðið drepur alla nýsköpun.
- Frelsum gögnin og gerum eins og Eistland — bjóðum upp á umgjörð og leikreglur fyrir starfræna opinbera þjónustu og bjóðum borgarana í dans.
- Ekki vera hrædd og ýtum á “just do it”-takkann.