Það hefur verið mikil umræða um mataræði seinustu misseri. Umræðurnar snúast gjarnan um hvaða fæði er hollt og nauðsynlegt fyrir okkur að borða en einnig um siðferðileg atriði eins og hvort maturinn sem við borðum hafi óþarflega slæmar afleiðingar fyrir umhverfið eða fyrir dýrin sem gjalda með lífi sínu fyrir þennan greiða. Í dag virðist ekki vera hægt að sammælast um að við ættum eftir fremsta megni að sneiða hjá vörum sem eru framleiddar í hefðbundnum dýrabúskap og velja þess í stað vörur sem framleiddar eru með öðrum skaðminni aðferðum.
Það er samt ekki svo að fólk sem heldur áfram að velja vörur úr dýraríkinu geri það af illum ásetningi. Langflest fólk segist vilja að farið sé vel með dýr, myndu aldrei meiða dýr af litlu tilefni og myndu að öllum líkindum ekki setja sig upp á móti því að aðstæður þeirra dýra sem hafa það hvað allra verst væru bættar að einhverju marki.
Það er kannski erfitt að áætla nákvæmlega hversu slæmar aðstæður dýra eru og meta hvaða dýr hafa það sem verst en þó er ekki erfitt að ímynda sér að þau dýr sem eru lokuð inn í búri alla sína ævi, eða stóran hluta úr sinni ævi, lifi lífi sem enginn ætti að þurfa að þola. Sér í lagi saklaus dýr sem engan glæp hafa framið.
Ég nefni hér fjóra ólíka dýrahópa sem við nú höldum í búri og hægt er að ná, með skilvirkum aðferðum, verulegum árangri til að taka betra tillit til hagsmuna dýranna. Þetta eru varphænur, svín, minkar og fiskar í fiskeldi.
Varphænur
Varphænur á Íslandi eru um 200.000. Yfir 70% þeirra eru búrhænur sem lifa sitt stutta líf innan í þröngum búrum með nokkrum öðrum hænum. Á sinni stuttu ævi þá verpa þær 200-300 eggjum á ári, geta aldrei teygt almennilega úr vængjunum, geta ekki farið í rykbað, geta ekki goggað í jarðveginn og fá aldrei að fara út.
Á Íslandi er komið af stað ferli sem felur í sér að engar hænur verði í búrum árið 2023. Þessu ferli var komið af stað í lok árs 2014 þegar það kom í ljós að aðstæður hænsna í búrum uppfylltu ekki skilyrði laga um dýravelferð. Við ættum ekki að sætta okkur við, frekar en hænurnar sem þurfa að dvelja í þessum búrum, að svo langur frestur sé til þess að koma þessum búrum burt úr framleiðslunni. Nú þegar er ákveðið hlutfall, sennilega í kringum 30% hænsna búrlausar og því spyr maður sig hvers vegna þurfa hin 70% að vera í búrum í svona mörg ár í viðbót?
Egg eru í dag almennt fengin gegn frekar litlu fjárhagslegu gjaldi frá mönnum en þau eru greidd dýru gjaldi af hálfu líðan og heilsu hænsnanna sem eru lokaðar inn í búri alla ævi. Hænuegg eru mjög vinsæl matvara en þó ekki nauðsynleg og því má réttilega hækka verðið á þessum vörum með tilfallandi kostnaði í framleiðslunni. Slíkar breytingar þurfa ekki að valda fjárhagslegu tjóni hjá eggjabændum og geta jafnvel leitt til bættrar samkeppni á markaði. Jafnvel þó að það kæmu upp tilvik um fjárhagslegt tap þá er ekki óhugsandi að það tap væri smávægilegt í samanburði við þann ávinning sem fælist í betri aðbúnaði hænsna.
Nú eru kannski einhverjir sem efast um að velferð hænsnanna sé betur borgið við að losna við búrin. Því þess í stað þá ráfa þær um í stærra rými með þúsundum annarra hænsna þar sem eru einnig mikil þrengsli og ringulreið og hænurnar gogga illilega hvor í aðra. Það er erfitt að halda fram að þær hænur sem ekki eru í búrum hafi það almennt ásættanlegt. Aðstæður hænsna utan búrs geta einnig verið mjög slæmar eins og kom bersýnilega í ljós í brúneggjamálinu fræga.
En það er samt sem áður svo, að alla jafna, þá eru aðstæður búrlausra hænsna ívið betri en þeirra sem eru í búrum. Það eru færri hænur á hvern fermetra og þær hafa meira pláss til að ferðast um og geta breitt út vængina. Það er áhugavert að það hafa verið gerðar tilraunir þar sem hænur geta valið á milli þess að fara í búr eða á svæði sem eru búrlaus og þær eru tilbúnar að leggja töluvert á sig til þess að komast frekar á búrlaus svæði.
En svo má lengi gott batna og það má ímynda sér að einhver búrlaus svæði verði bætt með tímanum að því marki að þéttleiki hænsnanna minnki töluvert, þær geti goggað í jarðveginn, farið í rykbað og fengið að fara út.
Hænur eru fjölmennasti fugl jarðarinnar en á sama tíma þjáðasti fugl jarðarinnar. Hér er augljóst að svigrúm er til verulegra umbóta. Fyrsta skrefið er að fá búrin burt.
Svín
Stór hluti þeirra milljarða svína sem er slátrað ár hvert á jarðkringlunni þurfa að þrauka óbærilegt líf, launað skjótum dauðdaga í sláturhúsi. Flest þessara svína eru ungviði alin fyrir skinku, pylsur, pepperóní, hlaup og beikon. Og fleira. Miklu fleira.
Þessi svín lifa ekki stöðugt í eiginlegu búri en þurfa engu að síður að þrauka mikil þrengsl og mikla innilokun með tilheyrandi afleiðingum gegn góðri heilsu þeirra og hamingju. Færa má rök fyrir því að aðstæðunum megi réttilega lýsa sem búri.
Eiginleg búr eru engu að síður stór hluti af lífi þessara grísa því þeir eyða fyrri hluta stuttrar ævi sinnar utan við búr þaðan sem þeir drekka móðurmjólk í gegnum rimla. Mamman er njörvuð niður innan rimlanna með verulega hamlaða hreyfigetu og neyðist til að festa svefn á sama stað og hún losar úrgang. Svona sjá grísirnir mömmu sína. Það er lítið um knús hjá þessum fjölskyldum. Þetta líf launum við gyltunum, og afkvæmum þeirra, með skjótum dauðdaga. En eins og dæmin frá hinum fjölmörgu sláturhúsum sýna þá er skjótur dauðdagi ekki öruggur.
Engu að síður þá er skjótur dauðdagi nær alltaf eftirsóttari en langdreginn dauðdagi. Þannig að ef ekki, af einhverjum ástæðum, verður ekki komist hjá því að drepa dýr þá er að öllu jöfnu ákjósanlegt að sá dauðdagi taki skjótt af. Við berum mörg hver sambærilegt siðferði gagnvart okkar eigin tegund og þykir gjarna mikilvægt að fólk náið okkur þurfi ekki að líða óþarfa sársauka í átt að óumflýjanlegum dauðdaga. Sömu rökum beitum við fyrir gæludýr sem veikjast eða lenda í slysi með þeim afleiðingum að þeim er borin von.
Góður dauðdagi dýra virðist því vera gildi sem við almennt metum, bæði fyrir dýr af okkar eigin tegund sem og fyrir dýr annarra tegunda. Gott og vel og hvað sem líður góðum dauðdaga þá er það svo að þegar það kemur bæði að gæludýrum og dýrum af okkar eigin tegund þá leggjum við miklu… miklu miklu… miklu miklu miklu meiri áherslu á að lifa góðu lífi frekar en að eiga ásættanlegan dauðdaga. Það sama verður ekki sagt um svín sem alin eru til manneldis.
Hvers vegna viðhöldum við því viðhorfi að líf sumra dýra séu svo ómerkileg að það megi gera lítið úr þeim af litlu tilefni. Eru líf svína einskis virði fyrir sig sjálf? Það er ekki fjarstæðukennt að ætla að kvenkyns svín sem hefur nýlega fætt afkvæmi vilji alls ekki vera í búri. Eins má örugglega ætla að grísir myndu lifa betra lífi ef mamma þeirra væri ekki í búri. Dæmi fyrir slíku eru til þó þau séu sjaldséð.
Minkar
Minkur var fluttur inn til Íslands árið 1931 til ræktunar fyrir húð sína og hár. Og í dag er metið að um 40.000 minnkar séu í búrum á Íslandi; niðurlægðir og vonlausir. Eins og önnur spendýr þá hafa minkar eðlislægar þarfir, til að sinna sér og öðrum, sem þeir geta ekki fullnægt á meðan þeir eru lokaðir inni í búrum. Villtir minkar í náttúrunni tileinka sér stór svæði til að lifa á, með fáeinum samastöðum og helst læk eða vatni til að baða sig í. Já, hverjum hefði dottið í hug að þegar fylgst er með frjálsum minkum þá kemur í ljós að þeir hafa þörf og gaman af því að baða sig? Ætti í raun ekki að þurfa að koma á óvart, mörg okkar böðum oft og njótum og nær ekkert okkar myndi vilja vera án þess.
Innan árs eftir að hafa verið fluttir til Íslands í búrum sluppu nokkrir minkar úr ánauðinni og lögðu grunninn að villtum stofni minks á landinu. Í dag eru engar áreiðanlegar tölur um stærð villta minkastofnsins á Íslandi en hér eru veiddir á milli 6 til 7 þúsund minkar ár hvert.
Í tilfelli mannsins þá er það líffræðilega ferli að ganga í gegnum getnað, meðgöngu og fæðingu oft líkt við kraftaverk. Í mörgum atriðum, stórum og smáum, þá er þetta ferli nákvæmlega eins hjá öðrum dýrum, sér í lagi öðrum spendýrum. Því má á þessum nótum tala um kraftaverk í hvert skipti sem minkar fæðast en slík tilvik eru algeng á Íslandi.
Það sem skiptir mestu máli fyrir velferð minka sem fæðast á Íslandi er hvort þeir fæðast í náttúrunni eða á minkabúi. Fæðing minks í náttúrunni er vonandi fyrir hann og hans nánustu eitthvað sem við lýsum sem kraftaverki en fyrir mink að fæðast inn í minkabú verður miklu fremur lýst sem myrkraverki heldur en nokkru sem hægt er að tengja við kraftaverk. Það er kannski ekki hlaupið að því að gera sér í hugarlund nákvæmlega hvernig líf það er að vera minkur en það ætti ekki vefjast fyrir neinum að líf minks er betur borgið utan búrs en innan og munurinn þar á milli brúar stórt bil á vellíðunarskalanum frá pínu til alsælu.
Minkar eru þess eðlis að nær ógerlegt er að halda þá til ræktunar án þess að skerða hagsmuni þeirra að því marki að líf þeirra er vart þess virði að lifa. Eins og nánast allur dýraiðnaður þá er minkarækt með öllu ónauðsynleg og mætti réttilega leggja af með lögum á landinu öllu. Fordæmi fyrir slíku eru mörg og hafa lönd eins og Austurríki, Bretland, Búlgaría, Holland og Króatía bannað loðdýrarækt. Eins fer minkarækt hríðfallandi á Íslandi og því ljóst að þetta er deyjandi iðnaður. Líkt og hinn meinti miskunnsami og mannúðlegi dauðdagi sem við veitum dýrunum sem við borðum þá væri vel til fundið að dauðdagi loðdýraiðnaðarins á Íslandi tæki skjótt af.
Fiskar í fiskeldi
Það eru ýmis hagkvæm atriði sem andstæðingar fiskeldis nefna í sínum málflutningi. Má þar til að mynda nefna að laxeldi er gróðrarstía fyrir allskyns sýkingar og stórt hlutfall fiskanna deyr í kvíunum. Eins þá stafar villtum fiskistofnum hætta af fiskeldi þegar fiskar sleppa úr eldi og blandast við villta stofna og smita þá. Einnig þarf að veiða villta fiska til þess eins að framleiða fóður fyrir eldisfisk. Fiskeldi er því alls engin lausn við ofveiði sjávar. Þá er bent á að fiskeldi er engin lausn við fæðuvanda heimsins enda engin útsöluvara. Ýmis önnur atriði virðast vera til staðar gegn fiskeldi en það virðist ekki koma í veg fyrir að slíkri starfsemi sé hrint í framkvæmd. Ástæðan fyrir því er einungis ein og hún er að fyrir fáa útvalda er hægt að græða á þessari iðju mikinn pening. Það er ástæða sem við ættum ekki að taka sem góða og gilda samhliða öllum þeim varúðarmerkjum sem fiskeldi fylgir.
Andstæðingar fiskeldis, og hvað þá fylgjendur þess, virðast nær aldrei virða þann möguleika að fiskeldi sé í eðli sínu siðferðislega rangt og að með því séum við að gera dýrunum sem í þessum búrum dvelja eitthvað rangt. Reyndar er nánast aldrei talað um þessa fiska sem einstök dýr eða einstaklinga heldur er talað um þá í einingum eins og þúsundum tonna. Með því að tala um fiskana í þúsundum tonna þá hyljum við þá staðreynd að í þúsund tonnum eru í kringum 200 þúsund fiskar. Árið 2016 var slátrað 15.000 tonnum af fiski í fiskeldi á Íslandi eða um 3 milljónum dýra. Nú nýlega var gefið út nýtt leyfi til að rækta 17.500 tonn af fiski í fiskeldi og því ljóst að fiskeldi mun fljótlega, ef ekki nú þegar, hlaupa á tugum milljóna dýra. Þá eru ekki talin með þau milljónir dýra sem þarf að veiða af villtum stofnum til þess eins að útbúa fóður fyrir eldisfiskinn.
Þegar kemur að fiskum er eins og þeir séu ekki dýr og það jaðri við að þeir séu frá annarri plánetu. Það er engu að síður staðreynd að fiskar eru dýr sem búa á sömu plánetu og við. Einhvern tímann fyrir óralöngu, þegar engin dýr ráfuðu um yfirborð jarðar, voru dýr sem syntu um sjóinn sem voru forfeður bæði okkar og fisksins sem nú býr í sjónum. Fiskar eru með heila og miðtaugakerfi sem eru forsenda þess að þeir geta fundið fyrir sársauka og merki þess að þeir hafa hagsmuni sem við ættum að virða.
Jafnvel þó fiskar, jafnvel meir en önnur dýr, séu okkur fjarri í hugarlund þá ætti ekki að þurfa að vefjast fyrir okkur að það að kafna á mörgum mínútum er líklega ekkert æði fyrir fiska. Eins er líklega ekkert svaðalega kósí fyrir fiska að kremjast undir miklum þrýstingi. Eða vera dreginn í langan tíma með krók í kjaftinum áður en þessum kvalafulla dauðdaga er mætt, líkt og gerist þegar fiskar eru veiddir í tonnatali. Dauðdagi fiska af mannavöldum er aldrei skjótur og flokkast því ekki undir það sem við viljum kalla mannúðlegan dauðdaga sem við svo miskunnsamlega reynum að veita öðrum dýrum sem við slátrum.
Annað sem fiskar upplifa, sem við mannfólk erum kannski skynlaus á, er sú víðátta hafsins sem þeir búa við. Fyrir fisk að lifa við þær aðstæður sem boðið er upp á í fiskeldi manna er frelsissvipting af verstu sort. Munurinn á milli frelsis og búrs fyrir fisk er svo hrikalegur að sé hugsað út í það er hann mun meiri en fyrir þau dýr sem fjallað hefur verið um hér að ofan. Munurinn er svo mikill að jafnvel fyrir tvífætlinga eins og okkur, sem eyðum ævi okkar á þurru landi, er ekki erfitt að átta sig á að líf fiska í fiskeldi er mun verðlausara líf en líf fiska sem búa við víðfeðmt frelsi hafsins.
Hvað réttlætir það að við ölum fisk í fiskeldi þess í stað að við veiðum hann á villtum miðum? Leti? Græðgi? Kannski auðvelt, hagstætt eða sniðugt fyrir fáeina hárlausa prímata en erfitt og skaðsamt fyrir mörg hundruð milljarða af fiskum.
Siðlaust en löglegt?
Í fyrstu grein laga um velferð dýra stendur:
Markmið laga þessara er að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er það markmið laganna að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.
Eins og rætt hefur verið um hér að framan þá er ómögulegt að sjá hvernig dýr geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt þegar þau eru haldin í búri.
Ef dýrabúskapur á Íslandi væri án búra, eða því sem næst, þá myndum við koma okkur í hóp landa sem væri með bestu dýravelferð sem þekkist í dag. Þannig myndi ásýnd Íslands batna og íbúar landsins, mennskir sem ómennskir, myndu lifa við betri aðstæður. Með engin dýr í búrum sýnum við öðrum þjóðum skýrt fyrirmyndardæmi hvernig best verður hugað að velferð dýra í búskap og án búra verður heimurinn betri staður til að lifa á.