Búrin burt

Benjamín Sigurgeirsson skrifar um dýravelferð og veltir fyrir sér möguleikum til að taka meira tillit til hagsmuna dýra.

Auglýsing

Það hefur verið mikil umræða um matar­æði sein­ustu miss­eri. Umræð­urnar snú­ast gjarnan um hvaða fæði er hollt og nauð­syn­legt fyrir okkur að borða en einnig um sið­ferði­leg atriði eins og hvort mat­ur­inn sem við borðum hafi óþarf­lega slæmar afleið­ingar fyrir umhverfið eða fyrir dýrin sem gjalda með lífi sínu fyrir þennan greiða. Í dag virð­ist ekki vera hægt að sam­mæl­ast um að við ættum eftir fremsta megni að sneiða hjá vörum sem eru fram­leiddar í hefð­bundnum dýra­bú­skap og velja þess í stað vörur sem fram­leiddar eru með öðrum skaðminni aðferð­um.

Það er samt ekki svo að fólk sem heldur áfram að velja vörur úr dýra­rík­inu geri það af illum ásetn­ingi. Lang­flest fólk seg­ist vilja að farið sé vel með dýr, myndu aldrei meiða dýr af litlu til­efni og myndu að öllum lík­indum ekki setja sig upp á móti því að aðstæður þeirra dýra sem hafa það hvað allra verst væru bættar að ein­hverju marki.

Það er kannski erfitt að áætla nákvæm­lega hversu slæmar aðstæður dýra eru og meta hvaða dýr hafa það sem verst en þó er ekki erfitt að ímynda sér að þau dýr sem eru lokuð inn í búri alla sína ævi, eða stóran hluta úr sinni ævi, lifi lífi sem eng­inn ætti að þurfa að þola. Sér í lagi sak­laus dýr sem engan glæp hafa framið.

Auglýsing

Ég nefni hér fjóra ólíka dýra­hópa sem við nú höldum í búri og hægt er að ná, með skil­virkum aðferð­um, veru­legum árangri til að taka betra til­lit til hags­muna dýr­anna. Þetta eru varp­hæn­ur, svín, minkar og fiskar í fisk­eldi.

Varp­hænur

Varp­hænur á Íslandi eru um 200.000. Yfir 70% þeirra eru búr­hænur sem lifa sitt stutta líf innan í þröngum búrum með nokkrum öðrum hæn­um. Á sinni stuttu ævi þá verpa þær 200-300 eggjum á ári, geta aldrei teygt almenni­lega úr vængj­un­um, geta ekki farið í ryk­bað, geta ekki goggað í jarð­veg­inn og fá aldrei að fara út.

Á Íslandi er komið af stað ferli sem felur í sér að engar hænur verði í búrum árið 2023. Þessu ferli var komið af stað í lok árs 2014 þegar það kom í ljós að aðstæður hænsna í búrum upp­fylltu ekki skil­yrði laga um dýra­vel­ferð. Við ættum ekki að sætta okkur við, frekar en hæn­urnar sem þurfa að dvelja í þessum búrum, að svo langur frestur sé til þess að koma þessum búrum burt úr fram­leiðsl­unni. Nú þegar er ákveðið hlut­fall, senni­lega í kringum 30% hænsna búr­lausar og því spyr maður sig hvers vegna þurfa hin 70% að vera í búrum í svona mörg ár í við­bót?

Egg eru í dag almennt fengin gegn frekar litlu fjár­hags­legu gjaldi frá mönnum en þau eru greidd dýru gjaldi af hálfu líðan og heilsu hænsnanna sem eru lok­aðar inn í búri alla ævi. Hænu­egg eru mjög vin­sæl mat­vara en þó ekki nauð­syn­leg og því má rétti­lega hækka verðið á þessum vörum með til­fallandi kostn­aði í fram­leiðsl­unni. Slíkar breyt­ingar þurfa ekki að valda fjár­hags­legu tjóni hjá eggja­bændum og geta jafn­vel leitt til bættrar sam­keppni á mark­aði. Jafn­vel þó að það kæmu upp til­vik um fjár­hags­legt tap þá er ekki óhugs­andi að það tap væri smá­vægi­legt í sam­an­burði við þann ávinn­ing sem fælist í betri aðbún­aði hænsna.

Nú eru kannski ein­hverjir sem efast um að vel­ferð hænsnanna sé betur borgið við að losna við búr­in. Því þess í stað þá ráfa þær um í stærra rými með þús­undum ann­arra hænsna þar sem eru einnig mikil þrengsli og ringul­reið og hæn­urnar gogga illi­lega hvor í aðra. Það er erfitt að halda fram að þær hænur sem ekki eru í búrum hafi það almennt ásætt­an­legt. Aðstæður hænsna utan búrs geta einnig verið mjög slæmar eins og kom ber­sýni­lega í ljós í brú­neggja­mál­inu fræga.

En það er samt sem áður svo, að alla jafna, þá eru aðstæður búr­lausra hænsna ívið betri en þeirra sem eru í búr­um. Það eru færri hænur á hvern fer­metra og þær hafa meira pláss til að ferð­ast um og geta breitt út væng­ina. Það er áhuga­vert að það hafa verið gerðar til­raunir þar sem hænur geta valið á milli þess að fara í búr eða á svæði sem eru búr­laus og þær eru til­búnar að leggja tölu­vert á sig til þess að kom­ast frekar á búr­laus svæði.

En svo má lengi gott batna og það má ímynda sér að ein­hver búr­laus svæði verði bætt með tím­anum að því marki að þétt­leiki hænsnanna minnki tölu­vert, þær geti goggað í jarð­veg­inn, farið í ryk­bað og fengið að fara út.

Hænur eru fjöl­menn­asti fugl jarð­ar­innar en á sama tíma þjáð­asti fugl jarð­ar­inn­ar. Hér er aug­ljóst að svig­rúm er til veru­legra umbóta. Fyrsta skrefið er að fá búrin burt.

Svín

Stór hluti þeirra millj­arða svína sem er slátrað ár hvert á jarð­kringl­unni þurfa að þrauka óbæri­legt líf, launað skjótum dauð­daga í slát­ur­húsi. Flest þess­ara svína eru ung­viði alin fyrir skinku, pyls­ur, pepp­eróní, hlaup og beikon. Og fleira. Miklu fleira.

Þessi svín lifa ekki stöðugt í eig­in­legu búri en þurfa engu að síður að þrauka mikil þrengsl og mikla inni­lokun með til­heyr­andi afleið­ingum gegn góðri heilsu þeirra og ham­ingju. Færa má rök fyrir því að aðstæð­unum megi rétti­lega lýsa sem búri.

Eig­in­leg búr eru engu að síður stór hluti af lífi þess­ara grísa því þeir eyða fyrri hluta stuttrar ævi sinnar utan við búr þaðan sem þeir drekka móð­ur­mjólk í gegnum rimla. Mamman er njörvuð niður innan riml­anna með veru­lega haml­aða hreyfi­getu og neyð­ist til að festa svefn á sama stað og hún losar úrgang. Svona sjá grís­irnir mömmu sína. Það er lítið um knús hjá þessum fjöl­skyld­um. Þetta líf launum við gylt­un­um, og afkvæmum þeirra, með skjótum dauð­daga. En eins og dæmin frá hinum fjöl­mörgu slát­ur­húsum sýna þá er skjótur dauð­dagi ekki örugg­ur.

Engu að síður þá er skjótur dauð­dagi nær alltaf eft­ir­sótt­ari en lang­dreg­inn dauð­dagi. Þannig að ef ekki, af ein­hverjum ástæð­um, verður ekki kom­ist hjá því að drepa dýr þá er að öllu jöfnu ákjós­an­legt að sá dauð­dagi taki skjótt af. Við berum mörg hver sam­bæri­legt sið­ferði gagn­vart okkar eigin teg­und og þykir gjarna mik­il­vægt að fólk náið okkur þurfi ekki að líða óþarfa sárs­auka í átt að óum­flýj­an­legum dauð­daga. Sömu rökum beitum við fyrir gælu­dýr sem veikj­ast eða lenda í slysi með þeim afleið­ingum að þeim er borin von.

Góður dauð­dagi dýra virð­ist því vera gildi sem við almennt met­um, bæði fyrir dýr af okkar eigin teg­und sem og fyrir dýr ann­arra teg­unda. Gott og vel og hvað sem líður góðum dauð­daga þá er það svo að þegar það kemur bæði að gælu­dýrum og dýrum af okkar eigin teg­und þá leggjum við miklu… miklu miklu… miklu miklu miklu meiri áherslu á að lifa góðu lífi frekar en að eiga ásætt­an­legan dauð­daga. Það sama verður ekki sagt um svín sem alin eru til mann­eld­is.

Hvers vegna við­höldum við því við­horfi að líf sumra dýra séu svo ómerki­leg að það megi gera lítið úr þeim af litlu til­efni. Eru líf svína einskis virði fyrir sig sjálf? Það er ekki fjar­stæðu­kennt að ætla að kven­kyns svín sem hefur nýlega fætt afkvæmi vilji alls ekki vera í búri. Eins má örugg­lega ætla að grísir myndu lifa betra lífi ef mamma þeirra væri ekki í búri. Dæmi fyrir slíku eru til þó þau séu sjald­séð.

Minkar

Minkur var fluttur inn til Íslands árið 1931 til rækt­unar fyrir húð sína og hár. Og í dag er metið að um 40.000 minnkar séu í búrum á Íslandi; nið­ur­lægðir og von­laus­ir. Eins og önnur spen­dýr þá hafa minkar eðl­is­lægar þarf­ir, til að sinna sér og öðrum, sem þeir geta ekki full­nægt á meðan þeir eru lok­aðir inni í búr­um. Villtir minkar í nátt­úr­unni til­einka sér stór svæði til að lifa á, með fáeinum sama­stöðum og helst læk eða vatni til að baða sig í. Já, hverjum hefði dottið í hug að þegar fylgst er með frjálsum minkum þá kemur í ljós að þeir hafa þörf og gaman af því að baða sig? Ætti í raun ekki að þurfa að koma á óvart, mörg okkar böðum oft og njótum og nær ekk­ert okkar myndi vilja vera án þess.

Innan árs eftir að hafa verið fluttir til Íslands í búrum sluppu nokkrir minkar úr ánauð­inni og lögðu grunn­inn að villtum stofni minks á land­inu. Í dag eru engar áreið­an­legar tölur um stærð villta minka­stofns­ins á Íslandi en hér eru veiddir á milli 6 til 7 þús­und minkar ár hvert.

Í til­felli manns­ins þá er það líf­fræði­lega ferli að ganga í gegnum getn­að, með­göngu og fæð­ingu oft líkt við krafta­verk. Í mörgum atrið­um, stórum og smá­um, þá er þetta ferli nákvæm­lega eins hjá öðrum dýrum, sér í lagi öðrum spen­dýr­um. Því má á þessum nótum tala um krafta­verk í hvert skipti sem minkar fæð­ast en slík til­vik eru algeng á Íslandi.

Það sem skiptir mestu máli fyrir vel­ferð minka sem fæð­ast á Íslandi er hvort þeir fæð­ast í nátt­úr­unni eða á minka­búi. Fæð­ing minks í nátt­úr­unni er von­andi fyrir hann og hans nán­ustu eitt­hvað sem við lýsum sem krafta­verki en fyrir mink að fæð­ast inn í minkabú verður miklu fremur lýst sem myrkra­verki heldur en nokkru sem hægt er að tengja við krafta­verk. Það er kannski ekki hlaupið að því að gera sér í hug­ar­lund nákvæm­lega hvernig líf það er að vera minkur en það ætti ekki vefj­ast fyrir neinum að líf minks er betur borgið utan búrs en innan og mun­ur­inn þar á milli brúar stórt bil á vellíð­un­ar­ska­l­anum frá pínu til alsælu.

Minkar eru þess eðlis að nær óger­legt er að halda þá til rækt­unar án þess að skerða hags­muni þeirra að því marki að líf þeirra er vart þess virði að lifa. Eins og nán­ast allur dýra­iðn­aður þá er minka­rækt með öllu ónauð­syn­leg og mætti rétti­lega leggja af með lögum á land­inu öllu. For­dæmi fyrir slíku eru mörg og hafa lönd eins og Aust­ur­ríki, Bret­land, Búlgar­ía, Hol­land og Króa­tía bannað loð­dýra­rækt. Eins fer minka­rækt hríð­fallandi á Íslandi og því ljóst að þetta er deyj­andi iðn­að­ur. Líkt og hinn meinti mis­kunn­sami og mann­úð­legi dauð­dagi sem við veitum dýr­unum sem við borðum þá væri vel til fundið að dauð­dagi loð­dýra­iðn­að­ar­ins á Íslandi tæki skjótt af.

Fiskar í fisk­eldi

Það eru ýmis hag­kvæm atriði sem and­stæð­ingar fisk­eldis nefna í sínum mál­flutn­ingi. Má þar til að mynda nefna að lax­eldi er gróðr­ar­stía fyrir allskyns sýk­ingar og stórt hlut­fall fiskanna deyr í kví­un­um. Eins þá stafar villtum fiski­stofnum hætta af fisk­eldi þegar fiskar sleppa úr eldi og bland­ast við villta stofna og smita þá. Einnig þarf að veiða villta fiska til þess eins að fram­leiða fóður fyrir eld­is­fisk. Fisk­eldi er því alls engin lausn við ofveiði sjáv­ar. Þá er bent á að fisk­eldi er engin lausn við fæðu­vanda heims­ins enda engin útsölu­vara. Ýmis önnur atriði virð­ast vera til staðar gegn fisk­eldi en það virð­ist ekki koma í veg fyrir að slíkri starf­semi sé hrint í fram­kvæmd. Ástæðan fyrir því er ein­ungis ein og hún er að fyrir fáa útvalda er hægt að græða á þess­ari iðju mik­inn pen­ing. Það er ástæða sem við ættum ekki að taka sem góða og gilda sam­hliða öllum þeim var­úð­ar­merkjum sem fisk­eldi fylg­ir.

And­stæð­ingar fisk­eld­is, og hvað þá fylgj­endur þess, virð­ast nær aldrei virða þann mögu­leika að fisk­eldi sé í eðli sínu sið­ferð­is­lega rangt og að með því séum við að gera dýr­unum sem í þessum búrum dvelja eitt­hvað rangt. Reyndar er nán­ast aldrei talað um þessa fiska sem ein­stök dýr eða ein­stak­linga heldur er talað um þá í ein­ingum eins og þús­undum tonna. Með því að tala um fisk­ana í þús­undum tonna þá hyljum við þá stað­reynd að í þús­und tonnum eru í kringum 200 þús­und fisk­ar. Árið 2016 var slátrað 15.000 tonnum af fiski í fisk­eldi á Íslandi eða um 3 millj­ónum dýra. Nú nýlega var gefið út nýtt leyfi til að rækta 17.500 tonn af fiski í fisk­eldi og því ljóst að fisk­eldi mun fljót­lega, ef ekki nú þeg­ar, hlaupa á tugum millj­óna dýra. Þá eru ekki talin með þau millj­ónir dýra sem þarf að veiða af villtum stofnum til þess eins að útbúa fóður fyrir eld­is­fisk­inn.

Þegar kemur að fiskum er eins og þeir séu ekki dýr og það jaðri við að þeir séu frá annarri plánetu. Það er engu að síður stað­reynd að fiskar eru dýr sem búa á sömu plánetu og við. Ein­hvern tím­ann fyrir óra­löngu, þegar engin dýr ráf­uðu um yfir­borð jarð­ar, voru dýr sem syntu um sjó­inn sem voru for­feður bæði okkar og fisks­ins sem nú býr í sjón­um. Fiskar eru með heila og mið­tauga­kerfi sem eru for­senda þess að þeir geta fundið fyrir sárs­auka og merki þess að þeir hafa hags­muni sem við ættum að virða.

Jafn­vel þó fiskar, jafn­vel meir en önnur dýr, séu okkur fjarri í hug­ar­lund þá ætti ekki að þurfa að vefj­ast fyrir okkur að það að kafna á mörgum mín­útum er lík­lega ekk­ert æði fyrir fiska. Eins er lík­lega ekk­ert svaða­lega kósí fyrir fiska að kremj­ast undir miklum þrýst­ingi. Eða vera dreg­inn í langan tíma með krók í kjaft­inum áður en þessum kvala­fulla dauð­daga er mætt, líkt og ger­ist þegar fiskar eru veiddir í tonna­tali. Dauð­dagi fiska af manna­völdum er aldrei skjótur og flokk­ast því ekki undir það sem við viljum kalla mann­úð­legan dauð­daga sem við svo mis­kunn­sam­lega reynum að veita öðrum dýrum sem við slátr­um.

Annað sem fiskar upp­lifa, sem við mann­fólk erum kannski skyn­laus á, er sú víð­átta hafs­ins sem þeir búa við. Fyrir fisk að lifa við þær aðstæður sem boðið er upp á í fisk­eldi manna er frels­is­svipt­ing af verstu sort. Mun­ur­inn á milli frelsis og búrs fyrir fisk er svo hrika­legur að sé hugsað út í það er hann mun meiri en fyrir þau dýr sem fjallað hefur verið um hér að ofan. Mun­ur­inn er svo mik­ill að jafn­vel fyrir tví­fæt­linga eins og okk­ur, sem eyðum ævi okkar á þurru landi, er ekki erfitt að átta sig á að líf fiska í fisk­eldi er mun verð­laus­ara líf en líf fiska sem búa við víð­feðmt frelsi hafs­ins.

Hvað rétt­lætir það að við ölum fisk í fisk­eldi þess í stað að við veiðum hann á villtum mið­um? Leti? Græðgi? Kannski auð­velt, hag­stætt eða snið­ugt fyrir fáeina hár­lausa prímata en erfitt og skað­samt fyrir mörg hund­ruð millj­arða af fisk­um.

Sið­laust en lög­legt?

Í fyrstu grein laga um vel­ferð dýra stend­ur:

Mark­mið laga þess­ara er að stuðla að vel­ferð dýra, þ.e. að þau séu laus við van­líð­an, hungur og þorsta, ótta og þján­ingu, sárs­auka, meiðsli og sjúk­dóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar ver­ur. Enn fremur er það mark­mið lag­anna að þau geti sýnt sitt eðli­lega atferli eins og frekast er unnt.

Eins og rætt hefur verið um hér að framan þá er ómögu­legt að sjá hvernig dýr geti sýnt sitt eðli­lega atferli eins og frekast er unnt þegar þau eru haldin í búri.

Ef dýra­bú­skapur á Íslandi væri án búra, eða því sem næst, þá myndum við koma okkur í hóp landa sem væri með bestu dýra­vel­ferð sem þekk­ist í dag. Þannig myndi ásýnd Íslands batna og íbúar lands­ins, mennskir sem ómennskir, myndu lifa við betri aðstæð­ur. Með engin dýr í búrum sýnum við öðrum þjóðum skýrt fyr­ir­mynd­ar­dæmi hvernig best verður hugað að vel­ferð dýra í búskap og án búra verður heim­ur­inn betri staður til að lifa á.

Meira úr sama flokkiAðsendar greinar