Það er ekki hægt að segja annað en að hagtölurnar bendi til þess að það sé góðæri á Íslandi. Eignaverð hefur hækkað mikið, launin líka og kaupmáttur aukist hratt.
Viðspyrnan eftir hrun fjármálakerfisins hefur verið kröftug, þökk sé erlendum ferðamönnum.
Þeir hafa komið með tæplega 2.500 milljarða inn í landið í formi gjaldeyristekna frá árinu 2011 og hlutur þeirra í gjaldeyrissköpun hagkerfisins fer sífellt vaxandi.
Ísland best í heimi
Ruðningsáhrifin eru þekkt: gengi krónunnar hefur styrkst hratt og Ísland er nú komið á toppinn á mörgum alþjóðlegum listum sem mæla verðlag, laun, þróun eignaverðs í erlendri mynt, og svo framvegis.
Ferðaþjónustan er orðin afar stór sneið af heildarkökunni, og vonandi tekst að gera hana stöðuga atvinnugrein. Fjárfestingar í innviðum samfélagsins virðast í fljótu bragði vera eitt það mikilvægasta sem ferðaþjónustan stendur frammi fyrir.
Endurnýjun á vegakerfinu, uppbygging þjóðgarða og frekari uppbygging flugvalla í landinu má nefna sem krefjandi áskoranir.
Þá hefur hin hraða uppbygging ferðaþjónustunnar einnig leitt fram nýjan veruleika með nýjum tækifærum. Bandaríkin er nú orðið stærsta viðskiptaland Íslands, þegar allt er skoðað, ekki síst vegna þeirra fjölmörgu ferðamanna sem þaðan koma til Íslands á hverju ári.
Erum orðin háð Kananum
Heildarumfang viðskipta við Bandaríkin, bæði inn- og útflutningur, nemur yfir 300 milljörðum króna á ári og því miklir hagsmunir í húfi. Mörg hundruð þúsund ferðamenn heimsækja Ísland frá Bandaríkjunum ár hvert og vegna þess hve samgöngur á milli fjölmargra staða í Bandaríkjunum við Ísland eru orðnar góðar, þökk sé ekki síst Icelandair og WOW Air, þá má gera ráð fyrir að þetta viðskiptasamband muni vaxa enn frekar.
Á meðan, í útflutningnum...
Á þessu „góðæri“ er þó önnur hlið, sem mikilvægt er að fylgjast grannt með. Mörg útflutningsfyrirtæki, ekki síst í þekkingariðnaði í alþjóðahluta hagkerfisins, eru nú að ganga í gegnum erfiðleika.
Staðan hefur versnað hratt og ytri aðstæður eru orðnar verulega erfiðar.
Taka má dæmi af fyrirtæki sem hafði einn milljarð í tekjur árið 2016, mælt í Bandaríkjadal eða evru. Í fyrra voru tekjurnar 850 milljónir, fyrir sömu upphæð í fyrrnefndum myntum. Á sama tíma hefur kostnaður hækkað með nær fordæmalausum hætti, ekki síst laun. Algengt er að laun hafi hækkað um 10 til 15 prósent á undanförnu ári hjá mörgum þeirra fyrirtækja.
Framlegðin er því minni en áður, og staðan erfiðari. Skilyrði til að vaxa verri og líkurnar á því að þekkingariðnaðurinn þrýstist úr landi eru meiri.
Þetta er ekkert nýtt í sjálfu sér og er hluti af því að vera með íslensku krónuna og sjálfstæða peningastefnu á einum minnsta vinnumarkaði í veröldinni, sem telur aðeins um 200 þúsund einstaklinga. Það sem lagði grunninn að góðærinu voru stórfelld og fordæmalaus ríkisinngrip neyðarlaga og fjármagnshafta.
Er gaman í veislunni?
Vonandi gleyma stjórnvöld sér ekki í veislunni í þetta skiptið. Góðærið er alls ekki í öllum hliðum hagkerfisins og full ástæða er til þess að fylgjast grannt með gangi mála hjá útflutningsfyrirtækjunum sérstaklega.
Skaðinn af glórulausum og innistæðulausum launahækkunum - ekki síst vegna leiðandi ákvarðana Kjararáðs - þvert yfir allan vinnumarkaðinn á undanförnum árum, kemur nefnilega ekki fram strax, heldur er reikningurinn sendur inn í framtíðina. Ábyrgð þeirra sem semja um kaup og kjör á vinnumarkaði er mikil. Framundan eru erfiðar samningaviðræður, og full ástæða er til þess að hugsa líka um þá sem þjást vegna gengisstyrkingar krónunnar.
Fyrsti sársaukinn kemur fram hjá útflutningsfyrirtækjunum en síðan smitast hann út í allt hagkerfið, enda er vöru- og þekkingarútflutningur það sem Ísland verður að byggja betur upp til að verða samkeppnishæft til framtíðar litið. Förum varlega og munum að veislan varir ekki að eilífu, og að framtíðarkynslóðunum er ekki boðið í hana.