Á dögunum komst Póst- og fjarskiptastofnun að því, að tveir stjórnmálaflokkar, Miðflokkur og Flokkur fólksins, hefðu brotið gegn lögum þegar kosningaáróðri var komið á framfæri við fólk í aðdraganda kosninga í október.
„Nyttu rettinn!“
Flokkur fólksins sendi 80.763 sms-skilaboð 27. október, daginn fyrir kjördag, með hvatningu um að kjósa flokkinn. Í skilaboðunum stóð: „Ertu med kosningarett? – Nyttu rettinn! Afnemum fritekjumark og haekkum skattleysismork. Kaer kvedja! Flokkur folksins X-F.“
Miðflokkurinn sendi 57.682 skilaboð á kjördag, 28. október. Í skilaboðunum stóð annars vegar: „Skyr framtidararsyn fyrir Island og kraftur og thor til að koma henni í framkvaemd. X-M. Vid stondum við storu ordin. Midflokkurinn.“ Og hins vegar: „I dag er fagur dagur, Ja godur við finnum þad. Vertu Memm settu X við M“
Alvarlegur undirtónn
Þessar aðgerðir Miðflokksins og Flokks fólksins - sem komu nýir fram á hið pólitíska svið - hafa vafalítið átt þátt í því að virkja fólk til að kjósa, því árangur þessara flokka var með ólíkindum góður í kosningum. Samtals eru flokkarnir með 17,4 prósent þingmanna, Miðflokkurinn með sjö fulltrúa á þingi og Flokkur fólksins fjóra. Það er jafn mikið vægi og forsætisráðherra hefur á bak við sig í eigin þingflokki.
Það er alvarlegur undirtónn í þessari niðurstöðu Póst- og fjarskiptastofnunar, því lögbrotunum var beitt til að hafa áhrif á framgang kosninga.
Ég hef ekki áttað mig á því ennþá, hvers vegna Alþingi hefur ekki tekið þetta tafarlaust fyrir, og rætt þetta í þaula. Það er ekki lítið mál að brjóta gegn lögum þegar kosningar eru annars vegar. Umræður víða um heim, þar sem þjóðþing og alþjóðastofnanir hafa verið að ræða um misbeitingu á persónulegum gögnum, meðal annars í gegnum samfélagsmiðla, koma upp í hugann. Samt má segja að þetta séu enn beinskeyttari aðferðir heldur en í þeim tilvikum.
Kallað eftir rannsókn
Á Alþingi hafa komið til umræðu ýmsar aðferðir sem notaðar voru í aðdraganda kosninga, þar á meðal á netinu. Áróður nafnleysingja birtist víða, þar sem ráðist var persónulega að fólki með ósannindum, skrumskælingu og dellu. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fékk ekki síst að finna fyrir þessu, en nefna má einnig sem dæmi, hvernig áróður gegn Benedikt Jóhannessyni, fyrrverandi formanni Viðreisnar, birtist í aðdraganda kosninga 2016. Þá var farið í alls konar myndbandagerð og áróðursbrögð, þar sem della og rugl óð uppi, án þess að nokkur leið væri fyrir hinn almenna kjósanda að átta sig á því hvaðan þetta kæmi.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, er ein þeirra sem talað hefur fyrir því að kafað verði ofan í þessi mál.
Ef stjórnmálaflokkarnir eru að láta það vefjast fyrir sér, hvort tilefni sé til þess að hafa opnar yfirheyrslur í þinginu um þessi mál þar sem almenningur fær að fylgjast með, þá er það alveg ástæðulaust. Þörfin á slíku er alveg augljós.
Staðfestingin á lögbrotum stjórnmálaflokka í aðdraganda kosninga liggur fyrir. Bara á þeim grunni ættu allir flokkar að sameinast um að rannsaka þessi mál öll fyrir opnum tjöldum.
Það má ekki vera þannig, að þeir sem beita lögbrotum til að styrkja stöðu sína í þinginu, komist upp með það. Það gengur ekki.