Vikan byrjaði með látum síðastliðinn mánudag þegar Jóhanna Vigdís tilkynnti í fréttum RÚV að samkvæmt Veitum hefðu mælst jarðvegsgerlar í kalda vatninu og að fólk sem byggi á ákveðnum svæðum í Reykjavík þyrfti þar af leiðandi að sjóða vatn til neyslu.
Móðir mín, sem var í heimsókn þetta kvöld, var í þessum töluðu orðum að fá sér sopa af vatni og svipurinn var fljótur að breytast í angistarsvip enda ekki á hverjum degi sem Íslendingur þarf að hugsa sig tvisvar um áður en hann svolgrar í sig vatni úr krana. Enda áttu viðbrögðin ekki eftir að láta á sér standa.
Eins og skrattinn úr sauðarleggnum
Internetið flæddi yfir um og fúkyrðum var ausið fyrir Reykjavíkurborg og Veitur. Stjórnmálamenn voru sagðir vanhæfir til að reka borgina og enginn virtist vita hvar í Reykjavík væri í lagi að drekka vatnið og hvar ekki. Einstaka fjölmiðill ruglaðist á E.coli og jarðvegsgerlum og ekki bætti það umræðuna eða viðbrögð fólks við fréttunum.
Ég fór að sjálfsögðu og sauð vatn eins og hlýðnum borgara sæmir þegar Jóhanna Vigdís segir manni að gera eitthvað. Sonur minn skildi ekkert í því að fá ekki sitt venjulega vatnsglas um kvöldið og þegar ég sagði honum að kalda vatnið væri mengað þá gerði ég mér grein fyrir því að barnið hafði aldrei á sinni ævi gert ráð fyrir þeim möguleika. Skiljanlega.
Sama kvöld umbreyttist orðið „mengað“ í „myglað“ hjá syninum og var ég sæmilega metnaðarfull að leiðrétta þann rugling. Strax daginn eftir var orðið ljóst að ekki væri um slíkt hættuástand að ræða sem í fyrstu var talið. Það var í raun í lagi að drekka vatnið. Hvirfilbylurinn kom og fór á einum sólarhring og eftir stóðu vandræðalegir stjórnmálamenn með gjammviskubit og nokkrir góðir brandarar.
En þrátt fyrir að ég hafi vorkennt mér fyrir að geta ekki drukkið vatn úr krananum og að þurfa að sjóða vatn fyrir tvær manneskjur þá beindist samúðin þó meira að starfsfólki leikskóla og spítala þar sem tilkynningin gaf til kynna að mengunin færi verr í aldraða og ung börn eða fólk með undirliggjandi sjúkdóma.
Að búa við góð vatnsgæði eru forréttindi sem þeir sem við þau búa taka sem sjálfsögðum hlut. Það finnur maður á eigin skinni þegar allt í einu þarf að sjóða vatn til neyslu, svo ég tali nú ekki að kaupa það rándýrt úti í búð. Enginn veit hvað átt hefur fyrr enn misst hefur og allt það.
Örveruástand lakara hjá minni veitum
Grunnvatn er gríðarlega mikilvægt fyrir líf í náttúru Íslands og fyrir daglegt líf fólks. Drykkjarvatn Íslendinga er að langstærstum hluta grunnvatn en slíkt vatn er að mestu leyti úrkoma og leysingavatn sem sigið hefur niður í jörðina. Jarðlögin sem það rennur um á leið sinni sía úr því óhreinindin og er það því alla jafna ferskt og ómengað. Íslendingar eru afar vel settir þar sem 97 prósent af neysluvatni þeirra er grunnvatn.
Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna sjá um að mæla gæði neysluvatns á hverjum stað fyrir sig. Í svari við fyrirspurn blaðamanns til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á síðasta ári kom fram að í reglubundnu eftirliti séu tekin yfir 100 sýni úr vatnsbólum og dreifikerfinu sem síðan eru rannsökuð samkvæmt reglugerð um neysluvatn frá árinu 2001.
Matvælastofnun sér um að safna upplýsingum saman um gæði neysluvatns en síðustu eftirlitsniðurstöður komu út í mars 2015 fyrir árin 2002 til 2012. Þar kemur fram að samantekt niðurstaðna fyrir þetta tímabil sýni að örveruástand sé í flestum tilfellum mjög gott hjá stærri vatnsveitum en lakara hjá minni veitum sem þjóna færri en 500 íbúum. Þá sé efnafræðilegt ástand neysluvatns á landinu almennt mjög gott og sjaldgæft að eiturefni greinist í vatninu.
Heildarúttektir, sem bæði ná yfir örveruástand og efnainnihald, eru flestar frá vatnsveitum sem þjóna fleiri en 500 íbúum og uppfylla veiturnar í nær öllum tilvikum kröfur neysluvatnsreglugerðar samkvæmt niðurstöðum. Við reglubundið eftirlit á árunum 2010 til 2012 greindist E.coli í innan við 1 prósent sýna hjá vatnsveitum sem þjóna fleirum en 500 manns. Hins vegar greindist E.coli í 6,5 prósent sýna frá vatnsveitum sem þjóna 500 íbúum eða færri.
Lakast var ástandið á Austurlandi og Vestfjörðum, þar sem mun erfiðara er að nálgast grunnvatn en í öðrum landshlutum. Þá skýrist munurinn milli stærri og minni vatnsveitna meðal annars af miklum fjölda lítilla einkaveitna til sveita, þar sem frágangi vatnsbóla er enn ábótavant.
Frá litlum ákvörðunum til stórra
Það er gott fyrir Íslendinga að fá áminningu um forréttindin. Og áhyggjuefni tengd vatni eiga ekki einungis við um vatnið sjálft því það er sem æðakerfi í náttúrunni. Vistkerfi treysta á það, plöntur og dýr. Þess vegna er heildarhugsun svo mikilvæg og að gera sér grein fyrir því að allar gjörðir hafa afleiðingar.
Mér líður stundum eins og ég fljóti sofandi að feigðarósi með barnið mitt um borð og landa mína í kringum mig. Skólp- og loftmengun, plast úr dekkjum og örplast í andlitskremi. Allt hefur þetta áhrif á vatnið og þ.a.l. vistkerfið í kring. Allar gjörðir mannanna og ákvarðanir hafa áhrif, allt frá litlum ákvörðunum til löggjafa á hinu virta Alþingi.
Stormurinn í vatnsglasinu í síðastliðinni viku var því hugsanlega ekki að óþörfu. Hann var áminning þess hve dýrmætt vatnið er og hversu lánsöm við erum öll að ganga að þessari auðlind tærri og að því er stundum virðist endalausri. Hann er áminning um að allt getur gerst og ekkert er varanlegt. Hvað ætlum við að gera? Hlusta á hana eða kaupa okkur stóran hraðsuðuketil?