Hið nýja íslenska hagkerfi, þar sem ferðaþjónustan er langsamlega fyrirferðamesta atvinnugreinin, gefur tilefni til þess að velta fyrir sér á hvaða leið hagkerfið er.
Hagfræðingar hafa ýmsar skoðanir á hlutunum, eins og gengur, og það er aldrei hægt að treysta þeirra leiðsögn vegna þess hve mismunandi sýn þeir hafa á hlutina. Það er ekkert óeðlilegt við það, enda hagfræðin lifandi fag eins og öll önnur.
Eitt virðist blasa við þessi misserin. Áhættan af því að vera með næst minnsta sjálfstæða peningakerfi heimsins (á eftir Seychelles eyjum, þar sem fjármálaráðherra þekkir ágætlega til viðskiptahátta) hefur magnast upp að undanförnu.
Best að kasta krónunni
Best væri núna að vera einfaldlega með Bandaríkjadal eða evru, frekar en krónuna. Ferðaþjónustan er betur sett með erlenda mynt, enda hefur hún sínar tekjur að mestu í erlendri mynt. Það kæmist meiri vissa í áætlanir með erlenda mynt, eins og atvinnurekendur hafa marg bent á.
Og án krónunnar, þá væru stjórnamálamenn ekki að hafa eins miklar áhyggjur af því að hingað væru að koma of margir ferðamenn. Ofris krónunnar, sem að miklu leyti má rekja til innspýtingar frá erlendum ferðamönnum, er eitthvað sem getur ekki verið hluti af umhverfi alþjóðlegra fyrirtækja til lengdar.
Vonandi tapar fólk sér ekki í veislunni núna. Staðan er góð, að mörgu leyti, en það er ekki krónunni að þakka heldur ferðamönnum og neyðaraðgerðum í fjármálahruninu. Núna er besta tækifærið í Íslandssögunni til að losa okkur við krónuna fyrir fullt og allt. Réttast væri að gera það.
Mörg fyrirtæki í vanda
Hugsið ykkur stöðuna. Tökum dæmi.
Hugbúnaðarfyrirtæki seldi þjónustu fyrir milljarð, í erlendri mynt, árið 2016, og hagnaðist um 100 milljónir. Fyrir sömu tekjur í erlendri mynt komu 850 milljónir í kassann ári síðar, og laun höfðu að auki hækkað um 10 til 15 prósent, meðal annars útaf því hvernig stjórnmálastéttin hélt á hagstjórninni. Allur hagnaðurinn er farinn, og varnarbarátta tekin við.
Svona er þetta víða í hagkerfinu, en stjórnmálamenn á ofurlaunum sínum - sem þeir skömmtuðu sér með því að samþykkja alltof brattar hækkanir kjararáðs - virðast ekki nenna að hafa fyrir því að tengja sig inn í þennan hluta hagkerfisins.
Krónuáhætta í veiðigjöldunum
Sjávarútvegurinn er annað dæmi. Sjávarútvegsfyrirtæki glíma nú við vanda, meðal annars vegna þess að olía er að hækka, launaskriðið alltof mikið og hratt (blasir við) og krónan sterk. Það er vel hægt að deila um hvernig eigi að innheimta auðlindagjöld í sjávarútvegi, en staðreyndin er sú að hækkun veiðigjalda núna kæmi á versta tíma fyrir mörg fyrirtæki, sérstaklega þau minni. Þetta blasir við, í ljósi versnandi rekstrarskilyrða, og er ekki eingöngu einhver almenn skoðun talsmanna kvótakerfisins. Innheimta veiðigjaldanna verður alltaf snúin í krónusveiflunum, af þessum sökum. Umræða um sátt í sjávarútvegi held ég að hangi meira saman við hversu þröngt eignarhaldið er á sjávarútvegsfyrirtækjunum, heldur en að þau séu ekki að greiða nægilega mikið í veiðigjöld. Með dreifðara eignarhaldi væri meiri sátt, en það er önnur saga.
Innheimta auðlindagjaldanna væri auðveldari viðfangs með erlendar myntir og líka skynsamlegri fyrir fyrirtækin. Þau hefðu meiri vissu í sínum rekstri og gætu áttað sig á hlutunum og séð fyrir hornið í efnahagnum.
Þetta er öðruvísi núna
Af hverju nær þetta ekki augum og eyrum ráðamanna? Ástæðan er sú, meðal annars, að hagtölurnar eru taldar svo ljómandi góðar. This time it’s different.
Samt er það þannig að grunnrekstrar skilyrði þekkingarfyrirtækjanna í útflutningi hafa versnað stórkostlega á skömmum tíma.
Neyðarlögin og höftin lögðu grunni að viðspyrnunni, þetta blasir við núna, tæpum áratug síðar, en til lengdar litið hlýtur áskorunin að vera sú, hvernig Ísland á að geta verið samkeppnishæft í alþjóðavæddum heimi. Hvernig ætluðum við að vera þátttakendur í honum?
Í landamæralausum heimi tækninnar er þetta stórt atriði. Einangrun með sértækar peningamálalausnir gæti orðið slæm fyrir framtíðarkynslóðir.
Ójafn leikur
Það var fróðlegt að heyra Jón Björnsson, forstjóra Festi sem rekur meðal annars verslanir undir merkjum Krónunnar, ræða um samkeppnisstöðuna við útlönd í smásölunni, í spjalli hjá Íslandsbanka á dögunum. Þar blasir við staða sem gerir leikinn heldur ójafnan. Annars vegar eru það alþjóðleg fyrirtæki sem geta fjármagnað sig með alvöru gjaldmiðlum á lágum vöxtum, með sveigjanlegri fjármögnun, og síðan vaxtaokrið sem fylgir íslensku krónunni.
Þetta snýst ekki bara um Costco, heldur stöðuna almennt eins og hún blasir við núna. Íslenska krónan er að verða að stærri hindrun en áður í íslenska hagkerfinu, og er þegar farin að magna upp áhættuna í kerfinu, eins og þetta horfir við mér.
Ef Ísland væri núna með Bandaríkjadal eða evru, þá væri áhættan í ferðþjónustunni, þekkingariðnaði og svo til öllum öðrum rekstri, miklu minni en hún er núna. Til framtíðar hefði ung og vel menntuð þjóð samkeppnisforskot á margar aðrar þjóðir, ef ekki væri fyrir þetta einangraða peningakerfi, fyrir 200 þúsund manna vinnumarkað, sem landið býr við.
Áhuginn á breytingum er hins vegar lítill sem enginn, og eins og hefur sést á stjórnmálalandslaginu þá virðast flokkarnir sem nú eru við völd, Vinstri græn, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, ekki hafa mikinn áhuga á breytingum.
Klárum vinnuna
Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar, hefur árum saman haft skýra sýn á peningamál þjóðarinnar, og viljað kastað krónunni og tengja Ísland betur inn í alþjóðavæddan heim með upptöku evru og inngöngu í Evrópusambandið. Í ljósi stöðunnar núna, eftir uppgang ferðaþjónustunnar, ættum við líka að vera opin fyrir upptöku Bandaríkjadals, sem er mögulegt og fordæmi fyrir því.
Eins og áður hefur verið bent á, þá eru gjaldmiðilsmálin ekkert einkamál hagfræðinga, enda sýnir sagan að sjónarmið þeirra eru mörg og breytileg, eins og gengur. Vonandi verða stjórnvöld tilbúin til þess að halda áfram með vinnuna sem Benedikt og Viðreisn börðust fyrir, sem leiddi meðal annars til skipunar starfshóps, sem hefur nú peningamálin til skoðunar. Þetta er mikilvæg vinna sem verður að fá að halda áfram. Ekki verður unað við það, að krónuáhættan fái að verða hluti af veruleika Íslands til allrar framtíðar. Það er engin ástæða til þess, og breytt staða hagkerfisins býður upp á breytingar til batnaðar.