Með tilkomu upplýsingatækni og þannig bættum aðgangi að upplýsingum hefur líf okkar allra breyst. Við vitum meira og það sem við vitum ekki er aðeins í smellufjarlægð. Flæðið er endalaust og stöðugt, æðið algjört. Facebook, Twitter, Snapchat, Instagram og allt hitt sem kemur og fer svo hratt að það er engin leið að halda í við allar nýjungarnar og upplýsingarnar.
Framþróunin er gífurleg og í raun stefnir framtíðin á okkur á ógnarhraða, breytingar með nýrri tækni og framförum sem líkast til á sér engin fordæmi. Hugmyndir handritshöfunda Hollywood á síðustu öld um tæknibreytingar eru aðeins hársbreidd frá því að rætast og ekki ólíklegt að við náum öll að þeysast Aftur til framtíðar í lifanda lífi.
Þetta er þegar farið að hafa áhrif. Við höfum aðlagað okkur og breyst, hvort sem um er að ræða hegðun okkar, neyslumynstur eða skoðanir. Allir hafa rödd. Hvað liggur þér á hjarta? Hvað er að gerast? Komdu því frá þér í 280 stafabilum. Lestu örskýringu á flóknustu umfjöllunarefnum samtímans.
En upplýsingaflóðið gerir það erfiðara, flóknara og tímafrekara að beita gagnrýnni hugsun í þessum nýja veruleika. Og spurningarnar eru, eins og líklegast ávallt hefur verið, stórar. Viðfangsefnin knýjandi. Hver er tilgangur mannskepnunnar? Erum við að eyðileggja plánetuna? Misskipting auðs. Uppgangur popúlista víða um veröld.
Stjórnmálin fara ekki varhluta öllum þessum hröðu breytingum sem hafa, eru og munu eiga sér stað. Almenningur skilur nú betur en nokkru sinni fyrr að vandamálin sem þarf að tækla eru stór, ógnvekjandi og tæknileg. Fyrir einstaklinginn eru þau óviðráðanleg. Eina leiðin til að tækla þau er að gera það saman. Samfélagið og samfélögin. Og samfélag samfélaganna.
Auðveldast væri að álykta að þetta myndi leiða til þess að eftirspurn eftir gamla stjórnmálamanninum myndi deyja út. Freka kallinum. Þessum gamla, allsvitandi, óskeikula samfélagsstjórnanda sem axlar þá ábyrgð að gera hlutina fyrir mann, hugsa fyrir mann og vita fyrir mann. Í staðinn ykist eftirspurnin eftir nýja stjórnmálamanninum. Þessum mjúka. Þessum sem viðurkennir að hann er bara einn maður. Eða kona. Eða hvorugt. Og að ein manneskja getur bara vitað svo og svo mikið. Gert svo og svo mikið og kunnað svo og svo mikið. Umfram það þarf hún hjálp. Ráðleggingar. Og jafnvel innlegg og ákvarðanir fjöldans. Þessum sem veit að nútíminn kallar á leiðtoga sem hvetur fólk áfram í stað þess að skipa fyrir.
Ýmsar tölur benda til að þessi ályktun sér rétt. Ungt fólk, bæði á Íslandi og víða annars staðar, virðist sýna gamla kallinum minni áhuga en þeim nýja. Vera spenntari fyrir þeim sem lofa valddreifingu og gagnsæi. Leggja áherslu á einstaklinginn, sem og heildina. Sjá trén fyrir skóginum og skóginn fyrir trjánum. Nýjar kynslóðir, sem þekkja ekkert annað en nýja tíma, ný tækifæri og nýja tækni, vilja ný vinnubrögð.
Annað bendir til að þetta sé einmitt hreint ekki rétt. Í kraðaki hraðans, óttans og ógnandi úrlausnarefna er sú leiðin styst að fá einhvern til að stjórna fyrir sig. Segja sér hvernig hlutirnir eru og eru ekki. Hverjir eru góðir og hverjir vondir. Hugsa fyrir sig. Stjórna sér. Það er notalegri tilhugsun að geta setið heima yfir Netflix, skrolla annars hugar niður vegginn, like-a myndband af sundlaug fullri af Golden Retriever hundum og sofna síðan undir núvitundar hugleiðslu podcasti, heldur en að kynna sér, taka þátt, veita aðhaldið, hafa áhyggjurnar. Skilja. Gagnrýna. Láta einhvern annan um þetta, meðan maður hjólar á lífshjólinu áfram veginn. Við höfum öll okkar eigin áhyggjur, okkar eigið líf, okkar eigin efnahag og samfélag.
Það skiptir máli hverja við veljum til að stjórna. Það skiptir máli hverjir stjórna úti í heimi, landinu og sveitarfélaginu okkar. Það skiptir máli hverjir stjórna fyrirtækjunum okkar. Hverja við veljum til að leiða okkur skiptir máli.
Tímabær dauði gamla leiðtogans hefur gerst hægar en aðrar breytingar á samfélaginu. Nýi leiðtoginn á ekki eins auðvelt uppdráttar og ætla mætti. Þess vegna skiptir máli að lesa gögnin. Skýringarnar í heild sinni. Mæta á fundina. Nýta réttinn til að greiða atkvæði. Vera með. Jarðaförin er handan við hornið. Þeir hræddu vilja fresta henni. Hinir þurfa bara að taka þátt til að hún verði að veruleika.