Á einum minnsta sjálfstæða atvinnumarkaði heimsins, Íslandi, með um 200 þúsund manns á vinnumarkaði, eru flestir vinnuveitendur litlir á alþjóðlega mælikvarða.
Í samantekt Samtaka atvinnulífsins, á vægi lítilla og meðalstórra fyrirtækja á markaðnum, er miðað við vinnustaði sem eru með 250 starfsmenn eða færri. Á Smáþingi í gær var fjallað um umhverfi lítilla fyrirtækja, kynntar niðurstöður könnunar og málin rædd. Þetta er til fyrirmyndar, og vonandi tekst Samtökum atvinnulífsins að tengja sig enn betur við þessa hlið hagkerfisins.
Þetta er ekki síst mikilvægt þegar horft er til kjaraviðræðna og þeirra sjónarmiða sem skipta miklu máli í þeim. Rödd litlu fyrirtækjanna er sú rödd sem ætti að skipta mestu máli, þegar kemur að atvinnurekendum.
Þó þetta teljist lítil og meðal stórfyrirtæki á Íslandi þá teljast þau örsmá fyrirtæki víðast hvar í heiminum. En alveg eins og á alþjóðamörkuðum þá er þessi tegund fyrirtækja hryggjarstykkið í hagkerfununum. Litlu fyrirtækin eru saman risinn á markaðnum.
Eins konar lífæð hagvaxtar, nýsköpunar og þess sem kalla má markaðsöfl. Það er algjör óþarfi að ræða um markaðsöfl undir neikvæðum formerkjum vegna þess að þau skipta heildarsamhengi hlutanna miklu máli. Eru stórt og mikið tannhjól í vél atvinnulífsins.
99,6
Það segir sína sögu að 99,6 prósent fyrirtækja á Íslandi falla undir þessa skilgreiningu, sé miðað við tölur frá 2016. Yfir 70 prósent af vinnuaflinu í landinu er að vinna hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum og tæplega 70 prósent launagreiðslna fer fram hjá þeim.
Einhverra hluta vegna eru það hins vegar stóru fyrirtækin sem oft eiga sviðið í opinberri umræðu. Við blaða- og fjölmiðlafólk eigum mikla sök á þessu, þar sem við veljum of oft að fjalla um málefni sem snerta stærri fyrirtæki. En það er líka þannig, að í valdaelítu viðskiptalífsins, þá er vægi þeirra líka meira. Það væri öllum hollt að leyfa fulltrúm litlu fyrirtækjanna að vera með í „veislunum“ líka.
Það er mikilvægt að það sé hugað vel að hagsmunum litlu og meðalstóru fyrirtækjanna, því þarna gerast hlutirnir, í orðsins fyllstu merkingu.
Ánægjulegt
Niðurstöður könnunar á meðal lítilla- og meðalstórra fyrirtækja sýna að töluverður sóknarhugur er í þeirra röðum. Gera má ráð fyrir að mikil eftirspurn í hagkerfinu spili þarna inn í þar sem mörg smærri fyrirtæki sinna mikilvægum innlendum þjónustu- og iðnaðarverkefnum, svo dæmi sé tekið.
Um helmingur sér fram á að halda í það minnsta sama starfsmannafjölda, helmingur ætlar að bæta í og um 10 prósent sjá fram á fækkun.
Ekki sjálfsögð staða
Það sem er helsta áhyggjuefnið, um þessar mundir, er að of mikil spenna verði í hagkerfinu sem síðan leiði til hefðbundinna vandamála. Verðbólguskots og niðursveiflu.
Lykilatriðið þegar kemur að hagsmunum lítilla og meðalstórra fyrirtækja er að ná góðri niðurstöðu í kjaraviðræðum, sem framundan eru. Sú niðurstaða þarf að taka mið af hagsmunum fólksins á gólfinu og atvinnurekenda. Hinn gullni meðalvegur gæti verndað árangurinn sem hefur náðst, og komið í veg fyrir að hagkerfið fari útaf sporinu.
Ef það er horft á stöðuna út frá hagsmunum lítilla og meðalstórra fyrirtækja, þá eru meiri líkur á að þessi gullni meðalvegur finnist. Innan þeirra eru sjaldnast ofurlaun hjá stjórnendum og stjórnum sem oft eru uppspretta deilna á vinnumarkaði. Hefðbundin rekstrarskilyrði, sem ýta undir góðan rekstur, er það sem skiptir máli, og þar á fólkið sameiginlega hagsmuni með atvinnurekendum.