Nú eru konur af erlendum uppruna búnar að stíga fram og segja frá kynbundnu ofbeldi, kynferðislegu ofbeldi, ofbeldi á vinnumarkaðnum og svívirðilegri hegðun í þeirra garð. Ég sjálf er ein af þeim. En ætlunin er ekki tala um mig heldur heildstæðu myndina og hvað við öll getum gert sem samfélag.
Fyrir það fyrsta var ég sjálf hissa á því hversu gróft ofbeldið og birtingarmyndirnar af því eru. Það er gríðarlega óhugnanlegt hvað margar hverjar konur þurftu og þurfa enn að þola vegna uppruna síns. Því vil ég einblína á það að hugsa frekar í lausnum, svoleiðis mun umræðan haldast á lofti og endanlega skila sínu fyrir málstaðinn. Þá er mjög mikilvægur punktur að við hver og eitt viðurkennum að ofbeldi gagnvart konum af erlendum uppruna er rótgróinn i okkar samfélagi og það er hrottalegra en margur gerir sér grein fyrir.
Þessi barátta okkar snýst ekki bara um skammtímaathygli og einhverjar tilfallandi sögur, heldur kallar hún fram á að hér verði gerðar breytingar. Breytingar á hugarfari, viðbrögðum og ferlum, hvort sem það eru stofnarnir, þjóðin sjálf eða samtök. En fyrst og fremst erum við mennskar, með tilfinningar og sál. Við viljum að allir komi fram við okkur af virðingu, en ekki að við séum flokkaðar niður sem 3. klassa manneskjur vegna uppruna, húðlits eða kynferði. Virðing kostar ekki neitt.
Fordómar byrja hjá okkur sjálfum og einkennast af fáfræði. Í upplýstu samfélagi eins og Ísland er í dag þá eru fordómar algjörlega óþarfi að mínu mati, þar sem fjölmenning er mikil og ekkert því til fyrirstöðu að kynna sér aðra menningarheima. Við erlendu konurnar erum ekki vandamálið eins og allt of oft heyrist. Við erum tækifæri, tækifæri til að gera hlutina fjölbreyttari og skemmtilegri. Með útlendingum kemur alls konar þekking og fjölbreytileiki sem gerir samfélagið okkar betra en ekki verr og það eru kostir. Við sem þjóð þurfum að einbeita okkur að því góða.
Flestir sem koma hingað til landsins eru friðsælt og gott fólk. Auðvitað eru undantekningar en við getum ekki ætlast til þess að allir séu fullkomnir, ekkert frekar en að ætlast til þess að allir Íslendingar séu fullkomið fólk. Flest fólk af erlendu bergi brotið er í vinnu, borgar sína skatta, fara eftir lögum og reglum. Þau virða samfélagið og reyna að bestu getu að aðlagast.
Hins vegar benda sögur þessa 34 kvenna okkur á það hvað íslenska samfélagið, stofnanir og almúgur bregst ekki alltaf rétt við. Hlutverk ríkis er að vernda borgara sína og veita þeim öryggi. Þar á meðal stendur í stjórnarskrá Íslands að við eigum ekki mismuna fólki eftir kyni, fötlun og húðlit svo eitthvað sé nefnt. Þess vegna er ég svo innilega miður mín yfir því hvað fáar stofnanir, sveitarfélög, samtök, ríkisstjórn okkar og aðrir ábyrgir aðilar hafa brugðist okkar ákalli. Sú staðreynd segir mér hversu mikið umræðan er þörf í okkar samfélagi. Við gleymumst svo fljótt að það er umhugsunarvert efni.
Við sem samfélag þurfum að vera ábyrgari og meðvitaðri um ofbeldi. Konur sem lenda í ofbeldi eru oftast einangraðar, tæplega með einhver tengsl, jafnvel engan pening eða tala ekki tungumálið. Þær kannski geta ekki leitað sér hjálpar sjálfar og það er ábyrgð okkar allra að bregðast við. Þær þurfa stuðning í daglegu lífi og ekki síst opinberan stuðning.
Ég hvet öll sveitarfélög að bregðast við þessu með betri upplýsingagjöf til erlendra kvenna, betri verkferla í stjórnsýslunni og finna lausnir til þess að nálgast þennan tiltekna hóp. Ég hvet stofnarnir einnig að gera hið sama. Þetta á einnig við um félagslegu samtökin að bjóða upp á úrræði og aðstoð með viðburðum sem myndu hvetja konur af erlendum uppruna að koma og ræða málin. Fyrirtæki landsins þyrftu þar á meðal að bæta sig í upplýsingagjöf til dæmis á lögum hvað varðar réttindi fólks. Síðast en ekki síst þarf Alþingi Íslands og starfandi flokkar þar að taka þessa umræðu af alvarleika og finna varanlega lausn við þessari mismunun og viðurstyggilegu ofbeldi sem hefur verið haldið frá yfirborðinu. Það er svo margt sem hægt er að gera, reynum að vera meðvituð um þennan hóp og þau forréttindi sem það er að vera Íslendingur. Við getum komið í veg fyrir að þetta þrífist hérna í okkar samfélagi.
Það er klárt mál að vitundavakning þurfi að eiga sér stað í íslenska samfélaginu og við þurfum að hætta að þagga niður í fólki.
Höfundur er stjórnmálafræðinemi og innflytjandi.