Ég er búin að vera í þessum málaflokki svo lengi, ég hélt ég vissi þetta allt. Ég var búin að heyra sögu um konuna sem var sannfærð af hálfu mannsins síns að á Íslandi þurftu konur alltaf að vera naktar heima og þjóna bæði honum og vinum hans, ég var búin að heyra frá asískum vinkonum að þær gætu aldrei farið út að djamma án þess að vera spurðar hvað þær tæki nú á tímann, ég vissi – og veit – um konur sem afsöluðu sér forræði yfir börnunum sín, annaðhvort vegna þess að sýslumenn panta ekki túlk heldur leyfa eiginmönnum að útskýra fyrir konunum sínum hvað sé í gangi eða vegna þess að konurnar héldu þetta væri bara svona á Íslandi eða jafnvel að þetta væri börnunum fyrir bestu. En það var rangt hjá mér, ég var svo langt frá því að vita þetta allt og á meðan sögurnar hrúguðust inn á lokuðum facebook hópinn, þurfti ég oft að taka mér hvíld.
Ég byrjaði sem sagt í þessum málaflokki árið 2004, þegar ég tók sæti í stjórn Samtaka kvenna af erlendum uppruna. Á þeim tíma voru staðalmyndir erlendra kvenna allsráðandi þar sem erlendar konur voru í augum samfélagsins með stimpil fórnarlambsins frá byrjun, pantaðar á netinu af lágmenntuðum ofbeldismönnum. Við börðumst á þessum tíma fyrir konur utan EES svæðisins sem voru neyddar að fara aftur til ofbeldismanns því það var ekki möguleiki á að fá dvalarleyfi óháð hjónabandinu fyrr en eftir 3 ár. Og baráttan bar árangur, þessi löggjöf var breytt, og bæði Útlendingastofnun og velferðakerfið unnu með okkur þar. Því alltaf völdum við þá leið að þetta væru ekki við útlendingar á móti ykkur Íslendingum, heldur við öll fyrir betra samfélag. Þess vegna var alla tíð mikið samstarf við íslensku kvennahreyfinguna. En málið var oft, og ég vonast einmitt til að sjá breytingar á því núna, að það skorti stundum skilning á því hvernig konur af erlendum uppruna upplifa margþætta mismunun, því í okkar feðraveldi eru nefnilegar ekki bara karlmenn, það getur verið samfélagið, það er tungumál, menningarheimur, saumaklúbbamenningin, hræðsla við hið ókunnuga og svo margt annað.
Það er ekki til eitt svar við af hverju yfirleitt meira en helmingur dvalarkvenna í Kvennaathvarfinu eru konur af erlendum uppruna. Þær vantar tengslanet, fjölskyldu sem er tilbúin að skjóta skjólshúsi yfir þær. Leigumarkaðurinn er innflytjendum vægast sagt mjög fjandsamlegur, stundum koma konurnar frá menningarheimum þar sem viðhorf til ofbeldis gagnvart konum er einfaldlega á allt öðrum stað, ofbeldið getur einnig þrifist í álaginu sem flutningur milli landanna hefur í för með sér, og það er svo miklu einfaldara að einangra konu af erlendum uppruna sem hefur ekki tengslanet, upplýsingar, tungumálakunnáttu eða fjölskyldu, þannig að margir ofbeldismenn leita sérstaklega inn í þennan hóp.
Sögurnar sem birtar voru eru margar hrottafengnar. Sumar það slæmar að ég sé hætta á að samfélagið í heild sinni gæti skýlt sér á bak við hugsunina að þetta séu bara örfá skrímsli og kemur okkur ekki við. En rót vandamálsins liggur svo miklu dýpra. Ég heyrði bara núna um ungt par sem breytti ættarnafni nýfædda barnsins síns sem hljómaði útlenskt því þau vildu tryggja því betri framtíð, vildu vera viss um að barnið fengi a.m.k. símtal til baka frá leigusala eða atvinnurekanda. Það er þessi stóri misskilningur sem ég upplifi oft að við innflytjendur höfum öll fæðst á Keflavíkurflugvelli með lítið fram að færa. Reykjavíkurborg hefur tekið forrystu í ofbeldismálum áður, við höfum Bjarkarhlíð og Ofbeldisráðið, við höfum líka Fjölmenningarráðið og -þingið. Sviðstjóri Velferðasviðs er nú þegar búin að tala við fulltrúa hópsins og ég held að það sé enginn vafi hér hjá okkur kjörnum fulltrúum að Reykjavík þarf að stuðla að aukinni fagþekkingu á meðal starfsfólks velferðarsviðs um þjónustu við innflytjendur, hælisleitendur og flóttafólk með sérstakri fræðslu. Ég hef til dæmis oft upplifað að starfsfólk er einfaldlega óöruggt í þjónustu við innflytjendur, kennarar eða félagsráðgjar gefa eftir þegar foreldrar vilja frekar að barnið þeirra túlki fyrir þá.
Jú, það þarf að þýða verkferla vegna áreitni og ofbeldis á vinnustöðum á erlend tungumál, styrkja erlendra foreldra til dæmis með brúarsmíðum eins og við höfum byrjað á Skóla- og frístundasviði en það þarf að gera það rétt. Ég flutti hingað með 2 lítil börn og það var margt sem ég þurfti að læra í sambandi við réttindi og skyldur í kerfinu en einnig viðhorf samfélagsins, ef einhver félagsrágjafi hefði sent mér boð um að kenna mér hvernig ég ætti að ala upp börnin mín á Íslandi, þá stæði ég nú örugglega ekki hér í dag. Reykjavíkurborg er einnig stærsti vinnuveitandinn hér, þannig að við þurfum að endurskoða starfsmannastefnuna með tilliti til breytts veruleika, en ný innflytendastefna sem hefur verið hér til umræða leggur til margvíslegar aðgerðir þar.
Því aldrei munum við skilja og styðja þennan hóp sem sagði okkur sínar sögur ef við förum ekki að líta á innflytendur sem eðlilegan hlut af þessu samfélagi, sem mannauð, ekki vandamál. Þegar áskorun frá hópnum í skugga valdsins birtist, var það tæplega helmingur kvennana þar sem skrifaði undir með nafni. Í hópi MeToo kvenna af erlendum uppruna voru það 97 af 660. Það segir okkur að íslenskt samfélag á eftir að vinna sér inn traust þessara kvenna og þar er ekki síst verk að vinna fyrir okkur hér.