Það þarf ekki að fjölyrða um áhrif #metoo. Samfélagið er slegið og virðist skyndilega reiðubúið að horfast í augu við að kynbundið ofbeldi er hversdagslegur hluti af lífi kvenna. Vandinn er kerfislægur, umfangsmikill og grafalvarlegur og samfélagið reynir að bregðast við eftir bestu getu, þó úrlausnarefnið sé vissulega flókið.
Í kjölfar #metoo hefur fjöldi karla hefur leitað ráða hjá mér og femínískum vinkonum mínum. Karlar sem ég þekki mismikið og karlar sem hafa misgóða samvisku. Sumir velta fyrir sér hvað þeir geti gert til að bæta fyrir brot sín, aðrir vilja vita hvað þeir geta lagt af mörkum til að stöðva kynbundið ofbeldi í samfélaginu. Hvort tveggja þykir mér vænt um. Ég viðurkenni svo sem að mér finnst við femínistar eiga alveg nóg með að berjast gegn kynjamisrétti og fást við afleiðingar þess án þess að við þurfum líka að vera að ráðleggja körlum í tilvistarkreppu, en hjá því verður ekki komist. Karlar, sama hversu velviljaðir þeir eru, hafa ekki forsendur til að breyta einir og óstuddir. Það er meira að segja raunveruleg hætta á að viðbrögð þeirra valdi enn meiri skaða er til staðar. Nú þegar er hægt að benda á dæmi um slíkt.
Gerandi sem augljóslega þekkti eigin verknað í einni af #metoo sögunum sendi þolanda sínum tölvupóst þar sem hann krafði hana um samtal og bað um símanúmer. Hann ítrekaði beiðnina þegar hún svaraði ekki og að lokum sendi hann henni skilaboð á Facebook til að spyrja hvort hann væri með rétt netfang. Jafnvel þó við gefum okkur að hann hafi viljað bæta fyrir brot sín, sýna iðrun eða biðjast afsökunar, þá er þessi framkoma, þessar þrjár frekjulegu tilraunir til að krefja hana um samtal sem hann veit ekkert hvort hún kæri sig um, til marks um að viðkomandi eigi margt ólært. Honum fannst sjálfsagt og eðlilegt að krefjast samtals og gekk til verks fumlaust og ákveðið án þess að setja fyrirvara um líðan hennar eða langanir. Hann átti heimtingu á einhverju og kærði sig kollótan um áhrifin sem það gæti haft á hana.
Allnokkrir gerendur hafa skrifað um gjörðir sínar á samfélagsmiðla. Sumir fjalla um að þeir hafi almennt farið yfir mörk eða hegðað sér ósæmilega, aðrir um afmarkaða verknaði sem þeir sjá eftir. Þessi skrif hafa stundum verið gerð eftir samtöl við þolendur en líka án nokkurs fyrirvara. Ég geng út frá því að tilgangur þessara skrifa sé í öllum tilfellum að bæta fyrir brotin, sýna iðrun og biðjast afsökunar. En lífið er bara ekki svo einfalt. Reynslan sýnir að jafnvel þótt gerendum kunni að líða betur í kjölfar skrifanna, geta þau vakið upp og ýkt áhrif verknaðarins meðal þolenda. Fyrir því eru margar ástæður.
- Þolandinn er ekki endilega í ástandi til að rifja upp það sem gerst hefur og langar ekkert að lesa um það á Facebook. Í bataferli eftir ofbeldi verða þolendur sjálfir að stjórna því hvenær og við hvern brotin eru rædd.
- Sagan er sögð frá sjónarhóli geranda. Jafnvel þótt gerandi greini eins samviskusamlega frá og honum er frekast unnt eru allar líkur á að þolandi hafi upplifað verknaðinn með öðrum hætti. Þolendur verða sjálfir að stjórna því frá hverju er sagt og hvernig það er orðað.
- Skrifin innihalda oft einhverskonar afsökun eða réttlætingu á verknaðinum, t.d. neyslu eða óvitaskap. Þolendur hafa sjaldan áhuga á skýringum og það getur ekkert réttlætt það sem gert hefur verið á þeirra hlut.
- Skrifin innihalda oft yfirlýsingar um breytta og bætta hegðun, s.s. lækningu, meðferð eða edrúmennsku. Þolendur hafa sjaldan áhuga fyrir slíkum yfirlýsingum, enda er hegðun forsenda þess að byggja upp traust, ekki yfirlýsingar.
- Gerendur eru oft ekki meðvitaðir um allt sem þeir hafa gert. Skrifin geta því haft alvarleg og neikvæð áhrif á aðra þolendur en þá sem ætlunin er að biðja afsökunar.
- Viðbrögðin við skrifunum lýsa oftar en ekki takmarkalaus aðdáun almennings á gerandanum. Læk, hjörtu og velgengnisóskir dynja á þeim, ásamt straumi yfirlýsinga um hugrekki, heiðarleika og andlegt atgervi gerandans. Það getur reynt á þolendur sem oft eiga langt í land með að vinna úr brotunum að fylgjast með slíku.
Sjálfsagt eru þessar leiðir farnar af góðum hug en þar eru það enn og aftur hagsmunir og sjónarhorn gerandans sem ræður förinni. Þessar leiðir eru nefnilega síst til þess fallnar að bæta líðan þolenda. Þær lýsa skorti á skilningi á kynbundnu ofbeldi, afleiðingum þess og úrvinnslu. Þær lýsa skorti á vilja til að setja hagsmuni þolenda sinna ofar sínum eigin. Ég vildi að ég gæti bent á aðrar, einfaldar og áhrifaríkar leiðir, en viðfangsefnið býður því miður ekki upp á það. Það eru engin einföld og algild svör eða lausnir.
En ég get þó sagt þetta. Kynbundið ofbeldi er afleiðing forréttindablindu. Það er stundað í samfélagi þar sem karlar hafa óskorað vald til að taka sér pláss án þess að þurfa að setja sig í spor annarra, velta fyrir sér líðan fólks eða afleiðingum gjörða sinna. Kynbundið ofbeldi er stundað í skjóli karllægra gilda; ákveðni, virkni og frumkvæðis. Viðbrögð við #metoo mega ekki einkennast af þessu sama. Þar þarf að koma til auðmýkt gagnvart umræðuefninu og aðstæðunum, hógværð og næmni, tilfinningalæsi og vilji til samvinnu.
Vilji karlar láta gott af sér leiða, sem gerendur eða ekki, þá er ráð mitt til þeirra að hugsa fyrst og fremst um líðan og þarfir þolenda. Karlar þurfa að reyna að skilja áhrif ofbeldisins, hvað það er sem kallar fram endurtekna vanlíðan í kjölfarið og hvernig það er að búa við nokkuð samfellda ógn um kynbundið ofbeldi allt lífið. Eina leiðin til þess er að hlusta. Og trúa. Bera virðingu fyir þessum reynsluheimi kvenna og reyna að skilja að konur hafa gengið í gegnum ólíka hluti og upplifa hlutina ólíkt. Það eina sem konum ber saman um er að þær vilja ekki meir. Allt hitt er flókið og viðkvæmt og verður að ræðast á forsendum hverrar konu fyrir sig, þegar henni sýnist og eftir þeim leikreglum sem hún setur.
Höfundur er uppeldis- og kynjafræðingur.