Innan þriggja vikna fjölgar íbúum í Mosfellsbæ um 10 manns. Undir eðlilegum kringumstæðum væri það ekki í frásögur færandi. En fólkið er sérstakt. Það hefur upplifað hluti sem eru víðsfjarri reynsluheimi okkar Íslendinga. Á flótta undan ofsóknum i Afríkuríkinu Úganda leitar það hér skjóls. Til að gefa grófa mynd af því sem hrekur fólk á flótta frá þessari perlu Afríku hef ég gluggað í árlegar skýrslur Mannréttindavaktar Sameinuðu þjóðanna og heimasíður ýmissa samtaka þar í landi. En fyrst nokkur orð um landið sjálft.
Perla Afríku
Úganda er Mið-Afríkuríki sem liggur að Kongó, Suður Súdan, Kenýa, Tanzaníu og Rúanda. Allt eru þetta ríki þar sem ríkt hefur pólitískur óstöðugleiki lengi. Landið var áður bresk nýlenda og er enska opinbera tungumálið. Átökin eru sögð eiga upptök sín í misskiptingu auðs sem nýlenduþjóðirnar innleiddu í lok 19. aldar. Í Úganda er valdastéttin sterkefnuð og með stjórnkerfið að vopni á meðan hinn almenni borgari býr við lítil efni eða jafnvel sára fátækt. Þjóðin samanstendur af 30 ættbálkum.
Winston Churchill kallaði Úganda perlu Afríku. Það var náttúrufegurðin, gróðursældin og dýralífið sem heillaði forsætisráðherra Breta. Ýmsar þekktar náttúruperlur eru í Úganda s.s. Viktoríuvatn sem þeir deila með Tansaníubúum. Áin Níl á upptök sín í vatninu en hún er lengsta fljót veraldar. Einn virtasti þjóðgarður Úganda heitir eftir Elísabetu Englandsdrottingu og eru prinsarnir Harry og Vilhjálmur verndarar hans. Fuglalíf í Afríku er hvergi jafn fjölskrúðugt og þar en í garðinum hafa sést yfir 600 tegundir fugla. Ferðamenn heimsækja gjarnan þjóðgarðinn í Rwenzori-fjöllunum en hann er eins og Bwindi þjóðgarðurinn á heimsminjaskrá UNESCO. Bwindi er erfiður yfirferðar, engir vegir eða gönguleiðir en í honum búa yfir 400 fágætar fjalla-górillur, sumar sérstaklega þjálfaðar til að taka á móti ferðamönnum. Íslenskt áhugafólk um velferð Afríku býður upp á gönguferðir um Rwenzori þjóðgarðinn.
Dýralíf í Úganda er eins og víðar í Afríku mjög litskrúðugt. Þar má sjá fíla, antílópur, zebrahesta, gíraffa, ljón, hlébarða, flóðhesta, górilluapa, simpansa o.fl., o.fl.
Í Úganda búa um 40 milljónir og er landið fjalllent um 236,580 km² að stærð. Lífslíkur eru um 60 ár, læsi 78%, barnadauði er 56 fædd börn á 1000 íbúa, fólk sem lifir undir fátæktarmörkum 19,3% og fjöldi íbúa með alnæmissmit um 6,5%. Höfuðborgin er sunnarlega við Viktóríuvatn og heitir Kampala.
Stjórnarfar í Úganda - aldursmörk forseta afnumin
Einn illræmdasti einræðisherra Afríku, Idi Amin, var um tíma við völd í Úganda. Þar á nú að heita lýðræðisstjórn en því fer fjarri að svo sé eins og skýrslur Mannréttindavaktar Sameinuðu þjóðanna staðfesta.
Núverandi forseti Úganda, Yoweri Museveni, hefur verið við völd frá árinu 1986. Hann beitti sér nýlega fyrir því að afnema ákvæði í stjórnarskránni um 75 ára aldursmörk forseta sem gerir honum kleift að fara aftur í framboð árið 2021 en þá verður hann búinn að sitja við völd í 35 ár. Þaulsetan er skýrð sem tilraun spilltrar valdastéttar til að treysta völd sín.
Íbúar og samtök reyndu að koma í veg fyrir stjórnarskrárbreytinguna með mótmælum en því mættu valdhafar með því að siga vopnuðum hersveitum og lögreglu á mótmælendur sem máttu þola pyntingar, handtökur og fangelsun án dóms og laga.
Félaga- og fundafrelsi skert
Í kjölfarið var lögum um frjáls félagasamtök og fundafrelsi líka breytt. Aðferðin sem lögreglan beitti var að ráðast inn á fundi samtaka og saka þau um ólögleg viðskipti og undirróðursstarfsemi. Bankareikningar þeirra voru auk þess frystir. Árásunum var sérstaklega beint gegn samtökum sem mótmæltu afnámi á aldursmörkum forseta.
Fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa oftsinnis verið handteknir og jafnvel drepnir í kjölfar mótmæla að sama tilefni.
Tjáningarfrelsi og frjálsri fjölmiðlun ógnað
Tjáningarfrelsið og frjáls fjölmiðlun stendur höllum fæti í Úganda. Valdhafar leyfa ekki gagnrýna umfjöllun um valdhafa. Fjölmiðlanefnd Úganda bannaði t.d. opinbera umræðu í þinginu um aldursmörk forseta. Blaðamenn voru handteknir og ritstjórar kærðir fyrir fréttaflutning.
Aðför að hinsegin fólki
Hinsegin fólk hefur frá nýlendutímanum átt undir högg að sækja í Úganda. Núgildandi lög kveða á um refsingu allt að fjórtán árum sem er þó skárra en dauðrefsingin sem átti nýlega að lögfesta. Í 38 af 53 ríkjum Afríku er samkynhneigð talin glæpur og hún sögð bæði óafrísk og ókristileg. Skv. lögunum frá 2016 er saknæmt að tala fyrir réttindum hinsegin fólks í Úganda.
Samkynhneigðir eiga yfir höfði sér fyrirvaralausar handtökur og pyntingar. Lögreglan hefur gengið svo langt að framkvæma endaþarmsrannsóknir á samkynhneigðum körlum sem ekkert sönnunargildi hafa og nauðgað lespískum konum í þeim tilgangi að snúa þeim frá meintri villu síns vegar. Kristileg samtök hafa beitt sér af hörku gegn hinsegin fólki í Úganda og fengið til þess aðstoð bandarískra trúbræðra sinna. Á þeirra vegum hafa verið haldin námskeið til að afhjúpa samkynhneigða og birtir langir listar með nöfnum og heimilisföngum í dagblöðum. Birtingunum hafa fylgt atvinnumissir, brottrekstur úr skóla, heimilisleysi, vina- og fjölskyldumissir, barsmíðar, eignaspjöll, nauðganir og morð. Ofbeldið hafa valdhafar látið óátalið.
Flótti frá heimalandinu
Til að bjarga lífi sínu og ástvina sinna hafa margir flúið land. Þeir sem komust undan og lifðu af hafa þurft að þola mikið mótlæti. Verum þeim góð og sýnum mannúð kæru landar.
Höfundur er bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ.