Íslenskir grunnskólanemendur koma langverst allra á Norðurlöndunum úr PISA-könnuninni svokölluðu. Brottfall úr skóla er miklu meira hér en í nágrannalöndunum og feikilegur munur er á getu nemenda af erlendum uppruna og þeirra sem fæðast hérlendis þegar kemur að árangri í skóla. Þetta er meðal þess sem kom fram í skýrslu sem Norræna ráðherranefndin gaf út nýverið.
Þessar tölur eru sláandi og staðan grafalvarleg. Sérstaklega þegar við bætist að yfirvofandi er alvarlegur kennaraskortur. Hann var til umfjöllunar í nýlegum þætti Kveiks, þar sem kom fram að kennaranemum hefur fækkað það mikið hérlendis frá því að kennaranám var lengt í fimm ár að spár gera ráð fyrir að eftir tólf ár verði ekki hægt að fá menntaða kennara í helming stöðugilda í grunnskólum Reykjavíkur. Þar var haft eftir forseta kennaradeilda Háskóla Íslands að skólakerfið gæti orðið óstarfhæft á næstu tíu til 20 árum.
Aukin stéttaskipting
Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hefur sagt að ofangreindur kennaraskortur sé ein stærsta áskorunin sem hún standi frammi fyrir í embætti og að von sé á aðgerðum strax í haust.
En það er augljóslega bara einn angi vandamálsins. Þrátt fyrir að Ísland reki dýrustu grunnskóla í heimi þá er frammistaða kerfisins afleit, og töluvert undir meðaltali OECD-ríkjanna. Það er því augljóst að staðan verður ekki einungis skýrð vegna þess að skortur sé á fjármagni til málaflokksins.
Davíð Þorláksson, forstöðumaður samkeppnissviðs Samtaka atvinnulífsins, benti á það í útvarpsþættinum Sprengisandi um liðna helgi að þessi staða geti leitt af sér aukna stéttaskiptingu sem geri það að verkum að lífsgæði stórra hópa verði lakari. Í ljósi þess að staðan er verri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu og allra verst hjá börnum af erlendum uppruna virðast það vera mjög réttmæta áhyggjur.
Til viðbótar blasir við að lægra menntunarstig leiðir til þess að samkeppnishæfni þjóðarinnar veður lakari. Það mun hafa bein áhrif á efnahagslega velsæld og framleiðni.
Mestu samfélagsbreytingar sögunnar
Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntastofnunar, lét hafa eftir sér í fréttum RÚV að skólarnir væru ekki einir ábyrgir fyrir þessari stöðu. Þjóðfélagið allt og heimilin í landinu beri líka ábyrgð.
Tvennt ber að horfa sérstaklega á því því samhengi. Í fyrsta lagi að nánast engin umræða er um það að erlendum ríkisborgurum sem setjast að á Íslandi hefur fjölgað meira á undanförnum árum en nokkru sinni fyrr. Á síðasta ári einu saman fluttu 7.910 fleiri slíkir til landsins en frá því. Það var fjölgun um 25 prósent. Frá lokum ársins 2011 hefur fjöldi útlendinga hérlendis nánast tvöfaldast, án þess að gripið hafi verið til stórfelldra aðgerða til að auka aðlögun barna þeirra að skólakerfinu. Spár gera ráð fyrir því að fjölgunin haldi áfram á sama hraða. Háspá Hagstofunnar gerir til að mynda ráð fyrir því að rúmlega 25 þúsund útlendingar bætist við til loka árs 2021. Augljóst er,miðað við niðurstöður sem fram eru settar í skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar, að sú aðlögun er gjörsamlega að mistakast. Geta nemenda af erlendum uppruna er miklu lakari en hjá sambærilegum hópum á hinum Norðurlöndunum.
Ábyrgð heimilanna
Hitt atriðið snýr að ábyrgð heimilanna. Þröstur Freyr Gylfason, sérfræðingur hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, benti á í stöðuuppfærslu á Facebook um síðustu helgi að mögulega væri ástæðuna fyrir lökum námsárangri íslenskra barna að finna í því að foreldrar á hinum Norðurlöndunum hafi betra svigrúm til að styðja við nám barna sinna. „Finnar vinna að meðaltali 230 færri vinnustundir á ári, Svíar 262, Norðmenn 459 og Danir 473 færri vinnustundir á ári að meðaltali heldur en Íslendingar,“ sagði Þröstur Freyr.
Í ljósi þess að stytting vinnuviku, eða minnkun yfirvinnu, virðist ætla verða á oddinum í komandi kjarasamningum stórra stétta væri rétt að horfa til þessa. Ef foreldrar hafa meiri tíma með börnunum sínum þá aukast möguleikar þeirra til að styðja við þau í námi.
Og samfélagið allt hagnast um leið.