Stefna Pírata hefur verið gagnrýnd frá upphafi, eða öllu heldur meint stefnuleysi þeirra. Það er enda stundum erfitt að skilgreina flokkinn hvort heldur sem er til hægri eða vinstri. Oft og tíðum virðast mál þingmanna þeirra jaðra við að vera hreinræktuð frjálshyggjumál en ekki sjaldnar má í málflutningi þeirra greina mjög sterk sósíalísk gildi.
Hún er líka ruglingsleg saga flokksins og ímyndin sem af Pírötum stafar. Upprunalega kemur hugmyndafræðin frá Svíþjóð þar sem Píratapartýið var sett á fót vegna aðkallandi þarfar á lagaramma utan um höfundarrétt á Internetinu. Án þess að gera lítið úr þeirri þörf þá vegur sú umræða létt í íslensku samfélagi og kemst hvergi á lista yfir það sem virðist skipta íslenska kjósendur máli þegar þeir ráðstafa atkvæðum sínum. Píratar á Íslandi voru stofnaðir árið 2012 og hefur hugmyndafræðin þróast yfir í að vera það sem þau kalla ákall um gegnsæi í stjórnsýslu og verndun og eflingu borgaralegra réttinda.
Erfitt að viðhalda gömlum gildum
Sú staða að einhverjum finnist stefna Pírata, eða stefnuleysi eftir því hvernig á það er litið, ruglingsleg virðist trufla sjálfa Píratana mun minna heldur en aðra.
Árið 2015 sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þá forsætisráðherra að það væri mikið áhyggjuefni kæmist flokkur eins og Píratar til valda. „Þá myndi taka við allt annars konar stefna í samfélaginu þar sem erfitt gæti verið að viðhalda þeim gildum sem við höfum þó verið að sækjast eftir og byggja upp um áratuga skeið,“ sagði Sigmundur í forsíðuviðtali við DV, sem var frídreift inn á heimili sumarið 2015. Á þessum tíma mældust Píratar í hæstu hæðum, um tíma voru þeir stærsti flokkur landsins.
Sigmundur var og er ekkert einn um þessa skoðun. Þeir eru fjölmargir sem sváfu illa, og gera jafnvel enn, yfir tilhugsuninni um að Píratar fengju eða fái einhvern tímann að halda um stjórnartaumana á Íslandi. Martröðin var þess efnis að það myndi riðla samfélaginu til með einhverjum óútreiknanlegum hætti með ófyrirséðum og óskaplegum afleiðingum.
Til þess kom þó ekki, enda fengu Píratar aðeins sex menn í kosningunum á síðasta ári og rúmlega 9 prósenta fylgi. Nú mælist flokkurinn með rétt tæplega 11 prósent. Og einhverjir sofa betur.
Gagnsæi og ábyrgð
Traust byggist oftast upp yfir lengri tíma og besta leiðin til að skilja fyrir hvað fólk stendur og hvort það sé traustsins vert er að fylgjast með því og greina hvað það gerir.
Eitt af því sem vegur þyngst í stefnu Pírata er krafan um gagnsæi og ábyrgð. Í grunnstefnu Pírata segir um þennan lið að í þeirra augum snúist gagnsæi um að opna hina valdameiri gagnvart eftirliti hinna valdaminni. Píratar telja þannig að gagnsæi eigi mikilvægan þátt í að almenningur sé upplýstur og þar af leiðandi hæfur til lýðræðislegrar ákvörðunartöku. Upplýsingar eigi að vera aðgengilegar almenningi.
Þetta eru auðvitað fögur orð. Þau má oft finna í yfirlýsingum og stefnuskrám stjórnmálaflokka.
En Píratarnir hafa á sinni stuttu tilvist gert ítrekaðar tilraunir til þess einmitt að opna aðgengi almennings að upplýsingum sem þeim kemur við. Og ekki bara kemur þeim upplýsingarnar við. Almenningur á rétt á þeim.
Nærtækasta dæmið er fyrirspurn Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Pírata, um greiðslur til þingmanna vegna aksturs. Upplýsingar sem riðlað hafa tilveru nokkurs fjölda þingmanna síðustu vikur. Upplýsingar um í versta falli sjálftöku á opinberu fé og í besta falli misnotkun á svigrúmi og lélegu eftirliti fyrirliggjandi reglna. Björn Leví hafði ítrekað lagt fram fyrirspurn með sama hætti og nú en aldrei fengið fullnægjandi svör. Og þau hafa ekki enn komið fram, þrátt fyrir að í þetta skiptið hafi þau vissulega verið ítarlegri en áður. Enn er uppi tregða á þinginu við að sýna almenningi fyrir hvað verið hefur borgað.
Og þetta er langt í frá eina dæmið um fyrirspurnir eða frumvörp sem komið hafa frá Pírötum sem eru til þess fallnar að auka á sjálfsagt gagnsæi á þingi eða í stjórnsýslunni.
Aukinn aðgangur að upplýsingum
Nú liggur fyrir frumvarp á Alþingi þar sem lagt er til að fundir fastanefnda Alþingis séu hafðir opnir almenningi, nema sérstaklega standi á. Í frumvarpinu eru þau rök færð fyrir þessari breytingu að fyrirkomulagið myndi veita betri innsýn í þær forsendur sem liggja að baki lagasetningu og tillögum Alþingis og gera fjölmiðlum og almenningi betur kleift að fylgjast með þingstörfum.
Fyrir Alþingi liggur einnig frumvarp Pírata um að ársreikningaskrár og hluthafaskrár verði aðgengilegri fyrir almenning með því að leggja ekki gjald á rafræna uppflettingu í skránum. „Þessar upplýsingar geta ekki talist aðgengilegar almenningi miðað við núverandi löggjöf þar sem greiða þarf fyrir þær,“ segir í frumvarpinu. Áður höfðu Píratar fengið samþykkt sambærilegt frumvarp um fyrirtækjaskrá. Þessu til viðbótar liggur fyrir frumvarp Pírata um rafrænan aðgang að Stjórnartíðindum og Lögbirtingablaði, notendum að kostnaðarlausu.
Það kann að vera hinum almenna borgara léttvægt að geta ekki flett ókeypis upp í hluthafaskrá eða Lögbirtingablaði. Það gera líklegast fáir heima hjá sér á síðkvöldum. En mikilvægi þessa fyrir fjölmiðla, og þannig aðgang almennings að upplýsingum sem erindi eiga í almenna umræðu er gríðarlegt. Óljóst og dulið eignarhald á fyrirtækjum er ein af ástæðum þess að efnahagur fyrirtækja bólgnaði út fyrir efnahagshrunið. Ákveðnum fyrirtækjum og eigendum þeirra hefur, í skjóli kostnaðarsams aðgengis að þessum upplýsingum og þannig myrkurs, tekist að nýta sér allar þær glufur sem fyrirfinnast í kerfinu til að fela hvers mikils virði þau eru, hverjir standa á bak við þau og hvaðan fjármunir þeirra koma.
Þegar lagafrumvarp Pírata um opnun á fyrirtækjaskrá var samþykkt sagði Björn Leví að breytingin væri lítil „en hún er gríðarlega mikilvægt fyrsta skref í áttina að ábyrgri þátttöku fyrirtækja og félaga í opnara og gagnsærra samfélagi.“ Fyrirspurnirnar eru fleiri og frumvörpin eru fleiri.
Þessi stefna er nauðsynleg
Það er auðvitað þannig með Pírata, rétt eins og alla stjórnmálaflokka, að stór hluti af þeirra verkum er rammpólitískur og sitt sýnist hverjum í þeim efnum. En þau láta verkin tala þegar kemur að grunnstefnu þeirra um aukið gagnsæi og ábyrgð. Í rauninni eru Píratar á Alþingi það sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins ætti að vera. En er ekki og hefur aldrei verið.
Það er ótrúlegt miðað við þá tækni sem nútímasamfélag býr yfir, sem og eftir „uppgjörið við efnahagshrunið“ þar sem ákallið um gagnsæi og skýrar leikreglur var hávært, að til þurfi sérstakan flokk, með það sem einhverjir vilja meina að sé óljós, óskýr og jafnvel engin stefna, til að berja fram með látum upplýsingar og gögn sem er nauðsynlegt að liggi frammi í lýðræðissamfélagi. Stefna Pírata um gagnsæi gerir flokkinn ekki síst að því sem hann er. Og verk þeirra til að fylgja þeirri stefnu eftir ekki síður. Haldi þeir áfram að ná þessum málum sínum fram munu þeir hafa náð fram meiri og betri árangri fyrir íslenskt samfélag en margir þeirra flokka sem starfa á grundvelli áratuga langrar stefnu.
Það er nefnilega til lítils að hafa fína stefnu, ef ekki er farið eftir henni. Og ef það sem fram fer gerir það í myrkri og leynd.