Föðuramma mín dó fyrir nokkrum dögum. Hún var orðin gömul en hugurinn skýr eins og hjá ungri manneskju. Hún las óvenju mikið og sagði mér að mamma sín, hjúkrunarkona á Akureyri, hefði notið þess svo mikið að lesa Hamsun og Dickens.
Það er ekki svo langt síðan ég heyrði að amma hefði lagt stund á bókmenntir í Bandaríkjunum þegar hún var ung þar ytra – þegar hún fylgdi manninum sínum í nám, eins og það var yfirleitt kallað. Kannski flokkaðist það undir dægrastyttingu hjá henni, fjögurra barna móðurinni.
Þegar hún dó vildi svo skringilega til að ég sat og drakk morgunkaffi með bandarískum rithöfundi og háskólakennara í skapandi skrifum, ættuðum frá Ísrael, sem átti leið um landið og hafði frétt af mér, en við höfum bæði skrifað á nokkuð sjálfsævisögulegum nótum.
Hann varð undrandi þegar ég sagði honum síðar að amma mín, sú bókelska manneskja sem hún var, hefði látist meðan við drukkum saman kaffi – og að hún hefði sennilega haft gaman af svoleiðis tilviljun, svo hrifin af sögunum í lífinu. Í skáldsögu hlyti það að vera merkingarbært. En er ekki allt okkar líf merkingarbært – allt þetta sem við gerum og segjum umhugsunarlaust á hverjum degi?
Ekki bara okkar sem skrifum á sjálfsævisögulegum nótum.
Lífskrafturinn í dauðanum
Amma mín valdi líknarmeðferð. Hún vildi fá að deyja frekar en að læknavísindin myndu hjálpa henni að tóra eilítið lengur. Nú er komið gott, sagði hún við mig þar sem ég sat við hlið hennar á spítalanum og síðan brosti hún blítt og innilega.
Hún var veikburða en samt svo óendanlega sterk. Hún birtist mér þannig að mér fannst ég aldrei hafa séð nokkurn eins hugrakkan og hana – á þessu augnabliki. Um leið helltist yfir mig vissa um að annað eins hugrekki væri í raun lífskraftur. Og það var skrýtið, að skynja tæran lífskraft á dánarbeði manneskju.
Lífið snýst um hugrekki, frá upphafi... til enda, hugsaði ég á leiðinni frá henni – í síðasta sinn. Að vera eða ekki vera – þar liggur efinn. Að þora að vera getur meira segja verið að deyja eins og hún amma mín.
Í flækingslegum hversdegi
Þegar hún var dáin varð mér hugsað til spjallsins við kollega minn í morgunkaffinu. Ég hafði sagt honum að ég væri nýskilin, nokkuð sem hann hafði sjálfur prófað í tvígang svo hann spurði hvernig ég upplifði það.
Mér finnst ég vera í frjálsu falli og ég nýt þess en stundum verð ég hrædd, svaraði ég.
Þessi nýi vinur minn tengdi við líðan mína. Hann sagði mér að halda áfram að njóta óvissunnar því hún væri það sem níutíu og fimm prósent mannkyns óttaðist helst en lífið snerist um.
Ég held reyndar að flest okkar njóti óvissu í og með en við leyfum okkur of sjaldan að gera það. Við ríghöldum í hugmyndina um að við höfum haldreipi. En við höfum ekkert nema tálsýnina. Stöðugt hrapandi, sama hvar í sveit við erum sett. Misjafnlega hrædd en öll í frjálsu falli.
Amma mín vissi það þegar hún dó, raunar virtist hún hafa meiri áhyggjur af mér en sér á þessum síðasta fundi okkar. Hún ljáði síðustu dögum sínum merkingu með vali sínu, æðruleysi og lífskjarki í því frjálsa falli sem dauðinn er.
Það sama getum við sem lifum ennþá. Á hverjum degi – svo lengi sem við tórum. Að ljá andránni merkingu. Við gerum það oft, óafvitandi, og skiljum stundum eftir okkur önnur spor en við hefðum viljað að því við höfum ekki tíma til að hugsa út í merkingarþungann í flækingslegum önnum hversdagsins. En í lífinu býr svo mikill sköpunarkraftur og við höfum hann í höndum okkar, hvort sem okkur líkar betur eða verr – svo ég leyfi mér að hljóma eins og tuttugu ára gömul sjálfshjálparbók. Stundum finnst manni að það vanti meiri tilvistarstefnu í hugarheim nútímafólks.
Að sjá sögurnar í lífinu
Í gegnum árin hef ég skrifað um raunverulegt fólk, lifandi og látið, og ég hef kennt fólki skapandi skrif og orðið þess áskynja hvernig það að búa til sögur úr kraðaki lífsins getur hjálpað fólki við að heila minningar sínar, sættast við þær og jafnvel – geta hlegið að þeim á endanum. Og mér finnst að þegar maður getur hlegið að mistökum og ruglinu í sjálfum sér séu launin meiri áræðni í lífinu.
Það sem gerist þegar maður púslar atburðum saman í sögu er að úr verður einhvers konar atburðarás með innri lögmálum og þannig öðlast atburðirnir merkingu. Hið sára öðlast dýpt og verður ljóðrænt, fyndið, notalega fáránlegt eða fagurt á öfugsnúinn hátt. Bara það að ljá atburðum merkingu forðar manni frá tómi og tilgangsleysi.
Tvö ævintýri
Stundum hef ég verið svo lánsöm að verða vitni að manneskjum sem lifa til fulls – kannski ekki óttalausar en samt staðráðnar í því að gefa engan afslátt af hugmyndum og hugsjónum sínum, sama hverjar þær eru eða í hvaða átt þær beinast.
Bara á einni viku, hér í Reykjavík City, sá ég í tvígang manneskjur lifa hugsjónir á eigin skinni. Í fyrra skiptið heimsóttum við Bára Huld Beck, blaðamaður hér á Kjarnanum, ritstjóra Stundarinnar vegna bókar um fjölmiðla sem við erum að gera.
Við hlustuðum á Ingibjörgu Dögg og Jón Trausta segja okkur frá lögbanninu alræmda og ýmsum öðrum málsóknum um leið og þau lýstu upplifun sinni af allri þessari reynslu. Bæði áberandi einlæg í trú sinni á það sem þau eru að gera – þó að það hafi reynt svo mikið á þau í gegnum tíðina að flestir í sporum þeirra væru búnir að skipta um vinnu.
Örfáum dögum síðar skrapp ég á fund Stjórnarskrárfélagsins þar sem ýmsum var mikið niðri fyrir af ást á lýðræðinu og framgangi þess. Eftir fundinn hafði vinkona mín orð á því að það væri áhugavert að fylgjast með fólkinu í eldra kantinum eins og Ómari Ragnarssyni, fyrrum fréttamanni, og lögmanninum Ragnari Aðalsteinssyni sem höfðu báðir talað af vafningslausri vissu – þó að Ómar hafi verið ólíkt leikrænni en Ragnar.
Þeir hafa engu að tapa – þeir vilja umfram allt sjá nýja stjórnarskrá verða að veruleika meðan þeir lifa, sagði vinkona mín.
Samgöngumál fatlaðra í Reykjavík
Nú veit ég ekki hvað henni ömmu minni fannst, hvorki um lögbannið né nýju stjórnarskrána. Það kæmi mér reyndar ekki á óvart þó að hún hafi stundum kosið Sjálfstæðisflokkinn – ég veit það ekki, veit þó að hún vildi ekki sjá vinstrið eftir klúður í samgöngumálum fatlaðra hjá Reykjavíkurborg en hún var sjálf lömuð. Og þar sem hún var ákveðin kona, óhrædd við að lifa hugmyndir sínar, býst ég við að hún hafi breytt eftir því. Kannski ekki aðalmálið hverju við trúum eða hversu rétt eða rangt það kann að vera á alheims mælikvarðann. Heldur að við lifum hugmyndir okkar og hugsjónir – hrapandi – og njótum þess, finnst mér eftir þessa viðburðaríku viku.
Því annars er engin merking, þá er bara ekkert. Og ekkert-ið er hræðilegast af öllu, hræðilegra en dauðinn nokkur tímann.
Helaumt en hamingjusamt nef
En allavega, á þessum dögum fór ég líka í jarðarför Þorsteins frá Hamri. Hann sem kunni manna best að segja mikið í fáum orðum, svo meðvitaður um þunga einstakra orða. Merkingu þess sem við hugsum, segjum, skrifum – oft án þess að taka eftir því. Jarðarförin var í Dómkirkjunni og þar sem ég sat í leiðslu hnippti einhver í öxlina á mér: Bragi bóksali var að bjóða mér tóbak í nefið í miðri jarðarför. Og ég hugsaði: Af hverju ekki! – og þáði tóbakið en hnerraði blessunarlega ekki því tónlistin var svo falleg heldur naut þess að finna nikótínið fylla mig lífskrafti.
Bragi varð svo glaður að á leiðinni út bauð hann mér aftur í nefið og einhvern veginn var það í anda mannsins sem við vorum að kveðja og líka hennar ömmu minnar. Að lifa lífinu eftir eigin nefi – og þá nefi í orðsins fyllstu merkingu því nefið á mér var helaumt þegar ég steig út úr kirkjunni.
Viva la Vida!